Umsóknarfrestur um þátttöku í námskeiði sumarsins í Svartárkoti hefur verið framlengdur til 15. apríl n.k. Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri verkefnisins Svartárkot, menning náttúra segir að námskeiðið sem nefnist „Human Ecology and Culture at Lake Mývatn 1700–2000: Dimensions of Environmental and Cultural Change” verði sem fyrr haldið á grunni íslenskra og alþjóðlegra rannsóknaverkefna sem tengst hafa Svartárkoti á undanförnum árum.
Verkefninu Svartárkot – menning náttúra – var hleypt af stokkunum árið 2006 af ábúendum í Svartárkoti í Bárðardal og félögum í Reykjavíkur Akademíunni undir forystu Viðars til þess að byggja upp alþjóðlegt kennslusetur um íslenska menningu og náttúru sem kennt væri við Svartárkot.
Verkefnið komst á laggirnar og lifði af hrunið 2008. Á alþjóðlegum námskeiðum sem fram fara á ensku er menningarsögu sem drýpur af hverju strái í Þingeyjarsýslum fléttað við hrikalega náttúru allt um kring. Setrið tengir afskekkta byggð við alþjóðlegt háskólasamfélag og vinnur markvisst að samræðu hins staðbundna og hnattræna. Sambúð manns og náttúru er sérstakt rannsóknasvið en meginmarkmið verkefnisins eru að efla umhverfishugvísindi á Íslandi, auka atvinnusköpun í heimabyggð og leiða saman fræðimenn og heimamenn. Með rannsóknarverkefnum vex þekking á menningu og náttúrufari svæðisins sem rennir traustum stoðum undir menningartengda ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi.
Notuð er aðstaða samkomuhússins og ferðaþjónustunnar á Kiðagili en stefnt að því að með tímanum verði byggð upp nýstárleg aðstaða til fyrirlestra í Svartárkoti.
Smám saman hafa mótast þrenns konar meginverkefni:
1. Hin eiginlegu akademísku Svartárkotsnámskeið, sem mótuð eru af félaginu sjálfu.
2. Þjónustunámskeið, þ.e. skipulagning og þjónusta við erlenda háskóla sem koma til landsins með stúdentahópa. Þá fer drjúgur hluti námskeiðanna fram í Bárðardal.
3. Unnið er að því að þróa menntaferðir, þ.e. 5–7 daga gönguferðir þar blandað er saman náttúruupplifunum, menningarsögu og þeirri þekkingu sem annars er miðlað á akademísku námskeiðunum.
Um námskeiðin og rannsóknaverkefnin má fræðast nánar á heimasíðu Svartárkots, menningar náttúru.