Í júní síðastliðnum var undirritað samkomulag um samstarf milli Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Náttúruminjasafnsins. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi stofnananna og efla rannsóknir og fræðslu á sviði náttúrufræða og safnamála.
Félagsvísindasvið er stærsta fræðasvið Háskólans og býður upp á fjölda námsleiða í sex deildum. Í Félags- og mannvísindadeild, sem er ein stærsta deild Háskólans, er m.a. boðið upp á nám í safnafræðum.
Samstarf samkvæmt samkomulaginu er þegar hafið. Um er að ræða verkefni til MA-gráðu í safnafræðum og snýst um úttekt á stöðu náttúruminjavörslu í landinu og fýsileika þess að koma á fót samræmdu skráningakerfi á landsvísu fyrir náttúrumuni. Ekkert slíkt miðlægt, rafrænt skráningakerfi er til staðar á sviði náttúruminja í landinu, ólíkt því sem gildir um þjóð- og aðrar menningarsögulegar minjar sem Sarpur sinnir. Það er námsmaðurinn Finney Rakel Árnadóttir sem fæst við verkefnið, búsett á Ísafirði, en nýtir m.a. aðstöðu í Loftskeytastöðinni í borgarferðum. Umsjónarmaður verkefnisins af hálfu Háskólans er prófessor Sigurjón Baldur Hafsteinsson.
Hér má lesa um samstarfssamkomulag Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands: Samkomulag NMSI & Felagsvisindasvids_08.06.15.