Í júní síðastliðnum var undirritað samkomulag um samstarf milli Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Náttúruminjasafnsins. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi stofnananna og efla rannsóknir og fræðslu á sviði náttúrufræða og safnamála.

Daði Már Kristófersson forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrita samstarfssamkomulag 8. júní 2015.

Daði Már Kristófersson forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands (t.v.) og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrita samstarfssamkomulag 8. júní 2015.

Félagsvísindasvið er stærsta fræðasvið Háskólans og býður upp á fjölda námsleiða í sex deildum. Í Félags- og mannvísindadeild, sem er ein stærsta deild Háskólans, er m.a. boðið upp á nám í safnafræðum.

Samstarf samkvæmt samkomulaginu er þegar hafið. Um er að ræða verkefni til MA-gráðu í safnafræðum og snýst um úttekt á stöðu náttúruminjavörslu í landinu og fýsileika þess að koma á fót samræmdu skráningakerfi á landsvísu fyrir náttúrumuni. Ekkert slíkt miðlægt, rafrænt skráningakerfi er til staðar á sviði náttúruminja í landinu, ólíkt því sem gildir um þjóð- og aðrar menningarsögulegar minjar sem Sarpur sinnir. Það er námsmaðurinn Finney Rakel Árnadóttir sem fæst við verkefnið, búsett á Ísafirði, en nýtir m.a. aðstöðu í Loftskeytastöðinni í borgarferðum. Umsjónarmaður verkefnisins af hálfu Háskólans er prófessor Sigurjón Baldur Hafsteinsson.

Hér má lesa um samstarfssamkomulag Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands: Samkomulag NMSI & Felagsvisindasvids_08.06.15.