Hópur vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi hefur í fyrsta skipti staðfest með erfðarannsóknum og aldursgreiningum á beinaleifum rostunga að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn sem varð útdauður um landnám fyrir um 1100 árum.
Vísindagrein með þessum niðurstöðum birtist í dag í Molecular Biology and Evolution.
Fjórir íslenskir vísindamenn eru meðal höfunda greinarinnar: Snæbjörn Pálsson stofnlíffræðingur, Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur, Ævar Petersen, dýrafræðingur og Hilmar J. Malmquist. Greinin nefnist: Disappearance of Icelandic walruses coincided with Norse settlement.

Var ásókn í rostunga kveikjan að landnámi Íslands?
„Staðfest er að hér var sérstakur íslenskur stofn og að hann leið undir lok skömmu um eða upp úr landnáminu, líklega fyrst og fremst af völdum ofveiða,“ segir Hilmar J. Malmquist líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, einn höfunda greinarinnar. „Þessar niðurstöður renna stoðum undir kenningar Bergsveins Birgissonar, Bjarna F. Einarssonar og fleiri, um að ásókn í rostunga og fleiri sjávardýr kunni að hafa verið aðaldrifkrafturinn að baki landnámi Íslands og að landnám hafi hafist fyrr en almennt hefur verið talið.“

Beinaleifar rostunga finnast aðallega á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á Snæfellsnesi þar sem þessi mynd er tekin. Rostungshausinn á myndinni reyndist vera um 1300 ára gamall og nær 12 kg. Ljósmynd: H.J. Malmquist.

Niðurstaðan er fengin með DNA-rannsókn á hvatberum úr 34 tönnum, beinum og hauskúpum rostunga, fundnum á Íslandi, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Þeir reyndust óskyldir stofnum núlifandi rostunga í N-Atlantshafi. Ekki er að efa að þessi niðurstaða kyndir undir kenningar um að upphaflega hafi landnám Íslands tengst veiðum á rostungum – að landið hafi verið e.k. útstöð eða verstöð til veiðanna jafnvel í langan tíma áður en menn settust hér endanlega að. Útdauði íslenska rostungsstofnsins gæti þannig verið elsta dæmið um útdauða af völdum ofveiði, en tennur, húðir og lýsi rostunga voru verðmæt verslunarvara á Víkingaöld.

 230  fundarstaðir 

Rostungshaus úr fjöru á Ytri-Görðum, Snæfellsnesi. Sýni nr. W-27. Fundinn í ágúst 2015. Aldur (ár): 1313 ± 27 (C-14 leiðrétt, BP=1950). Heildarþyngd ca. 12 kg, þar af lengri skögultönn 1,7 kg og 57 cm og sú syttri 1,5 kg og 53 cm. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Beinin úr 34 einstaklingum koma frá 230 fundarstöðum á landinu og reyndust 800–9000 ára gömul. Staðfest er að íslenski rostungurinn hafi verið hér við land frá því um 7000 f.kr. og fram til um 1200, þegar landið var fullsetið. „Safnkostur sem hefur að geyma merkar náttúruminjar felur jafnan í sér áhugaverð tækifæri til rannsókna og með nútímatækni má varpa nýju ljósi á náttúruna og samspil manns og náttúru,“ segir Hilmar.
„Í þessu tilfelli er um að ræða 800 til
9000 ára gamlar beinaleifar rostunga sem fundist hafa hér á landi, sýni úr alls 34 rostungum, auk upplýsinga um 230 fundarstaði beinaleifa, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Í rannsókninni er einnig stuðst við upplýsingar um rostunga í fornritum, í Konungsskuggsjá, Landnámu og Íslendingasögum.“

Hér má nálgast fréttatilkynningu um rannsóknina á íslensku og ensku.

 

Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson 2015. Hún sýnir rostungskýr í látri á Svalbarða.