Rauðviðarhnyðjan er talin 8–10 milljón ára gömul.

Rauðviðarhnyðjan er talin 8–10 milljón ára gömul.

Náttúruminjasafni Íslands hefur borist myndarleg gjöf – steingerður trjáhnullungur, um 200 kg þungur, 60 cm hár og nær tveir metrar að ummáli. Gefandinn er Bryndís Þorsteinsdóttir, öldungur á tíræðisaldri, búsett í Reykjavík.  Steingervingurinn er með stærri steingerðum trjáleifum sem fundist hafa á Íslandi og bendir flest til að hann sé úr Loðmundarfirði eða Borgarfirði eystra. Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé 8–10 milljón ára gamall.

Hnullungurinn var stofustáss á heimili Bryndísar Þorsteinsdóttur og manns hennar Þorsteins Helgasonar.

Hnullungurinn var um árabil stofustáss á heimili Bryndísar Þorsteinsdóttur og manns hennar Helga H. Árnasonar. Myndin er tekin rétt fyrir 1988 eða 1989.

Það voru börn Bryndísar, Guðrún Helgadóttir jarðfræðingur og Þorsteinn Helgason arkitekt, sem höfðu milligöngu um gjöfina. Steingervinginn eignuðust Bryndís og maður hennar heitinn, Helgi H. Árnason verkfræðingur, árið 1984, þegar systir Helga, Hólmfríður Árnadóttir tannsmiður, færði þeim hann að gjöf. Hólmfríður mun aftur hafa eignast steinninn úr hendi vinar sem talið er að hún hafi kynnst í strætó, leið nr. 5. Nafn vinarins og gefandans er ekki þekkt en sú saga fylgir að hnullungurinn hafi komið frá Austfjörðum, jafnvel að gefandinn hafi með einhverjum hætti tengst Náttúrugripasafninu á Neskaupsstað.

Þeir sem þekkja til uppruna steingervingsins eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Náttúruminjasafnið.

Leifur Á. Símonarson, steingervingafræðingur og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður NMSÍ skoða steininn góða. Ljósm. ÁI.

Leifur Á. Símonarson, steingervingafræðingur og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður NMSÍ skoða steininn góða.

Steingervingurinn er með þeim stærri af þessari gerð á Íslandi. Nokkuð víst er að um rótarhnyðju er að ræða. Ekki er vitað með vissu um fundarstað en að mati sérfróðra sem skoðað hafa steingervinginn, þeirra Leifs Á. Símonarsonar prófessors í steingervingafræðum og Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings, bendir flest til að hann sé frá svæðinu kringum Loðmundarfjörð/Borgarfjörð eystra, eins og fleiri steingervingar álíka að stærð, lit og annarri gerð.

Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé á bilinu 8–10 milljón ára gamall.

Rauðviðartré í Kaliforníu.

Rauðviðartré í Kaliforníu.

Mjög erfitt er að greina hið steingerða tré til tegundar, en sennilega er um að ræða tegund af ættkvísl rauðviðar (lat. Sequoia), stórvaxinna furutrjáa sem uxu hér á landi fyrir milljónum ára þegar loftslag var mun hlýrra.

Mikill fengur að þessari gjöf og er Bryndísi og aðstandendum hennar færðar bestu þakkir fyrir.

Steingervingurinn er varðveittur í skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafnsins, gömlu Loftskeytastöðinni á Brynjólfsgötu 5, en safnið og systurstofnunin, Náttúrufræðistofnun Íslands, hafa hvorki yfir að ráða sýningarrými né viðunandi geymslustað fyrir grip af þessu tagi.