Greint var frá því í fjölmiðlum í gær, bæði á netmiðli RÚV og Vísis, að fyrir lægi niðurstaða af hálfu Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra um að beinagrind steypireyðarinnar sem rak á land við Skaga sumarið 2010 verði flutt norður á Húsavík og höfð til sýnis í Hvalasafninu þar.

Ákvörðunin um að flytja beinagrind steypireyðarinnar norður, sem og að umsjón með beinagrindinni og lán gripsins skuli alfarið vera á hendi Náttúrufræðistofnunar Íslands en ekki Náttúruminjasafns Íslands, veldur vonbrigðum og stríðir gegn hagsmunum Náttúruminjasafnsins.

Í umsögn Náttúruminjasafnsins er lagst gegn áformum um flutning, varðveislu og sýningu beinagrindarinnar í Hvalasafninu. Afstaðan er studd faglegum rökum sem lúta að heildarhagsmunum í samfélagslegu samhengi, m.a. er varðar upplýsinga- og kennslugildi þessa merka og fágæta náttúrugrips sem steypireyðurin er, kostnaði við verkefnið og meðferð opinbers fjár og ástand beinagrindarinnar, en brýn þörf er á forvörslu hennar hið fyrsta. Þá er ráðherra hvattur til að bíða hið minnsta með ákvörðun um flutning í ljósi þess að Perlan í Öskjuhlíð, sem hentar vel til sýningar á steypireyðinni, stendur Náttúruminjasafninu til boða af hálfu Reykjavíkurborgar sem framtíðarhúsnæði undir sýningastarfsemi.

Meginrök Náttúruminjasafns Íslands gegn áformum um flutning, varðveislu og sýningu beinagrindar steypireyðarinnar fyrir norðan eru eftirfarandi:

 • Það hillir undir framtíðarhúsnæði Náttúruminjasafnsins hvað varðar sýningahald. Perlan í Öskjuhlíð stendur Náttúruminjasafninu til boða. Reykjavíkurborg er mjög áfram um verkefnið og fjárfestingasjóðurinn Landsbréf ITF I sýnir verkefninu áhuga. Í minnisblaði ríkisstjórnar Íslands (málsnr.: UMH11100114, dags. 25.10.2011) er tekið fram að hugsanleg uppsetning og varðveisla beinagrindar steypireyðarinnar í Hvalasafninu á Húsavík sé þeim skilyrðum bundin að gripurinn verði afhentur Náttúruminjasafni Íslands þegar safnið verði komið í framtíðarhúsnæði. Þetta skilyrði var áréttað af mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, í svörum hans við fyrirspurn á Alþingi 3. nóvember 2014 (144. löggjafarþing – 26. fundur. 223. mál. – Þskj. 252.).
 • Nauðsyn á forvörslu og styrkingu beina.
  Í áætlunum um flutning beinagrindarinnar er ekki gert ráð fyrir vinnu við forvörslu og styrkingu beina, en hér er um verulega kostnaðarsaman þátt að ræða. Að mati Náttúrminjasafnsins er brýnt að ráðast sem allra fyrst í að forverja beinin og styrkja þau í því skyni að varðveita sem best og koma í veg fyrir skemmdir á þeim. Óháð sýningarhaldi og flutningum er ekki forsvaranlegt að bíða lengur með þennan verkþátt.
 • Afsteypa af beinagrindinni.
  Ekki er fjallað um þann verkþátt sem snýr að afsteypu beinagrindarinnar, en ákvörðun um flutning norður er því skilyrði háð að frumeintak beinagrindarinnar fer til Náttúruminjasafnsins þegar leyst hefur verið úr húsnæðisvanda þess m.t.t. sýningahalds. Afsteypa af beinagrindinni yrði þá eftir hjá Hvalasafninu. Afsteypan er mjög kostnaðarsöm og að mati Náttúruminjasafnsins er ekki forsvaranlegt annað en að gera strax grein fyrir þessum þætti. Með hliðsjón af varðveislu og verndun beinanna er skynsamlegast að taka afsteypu af beinagrindinni áður en og ef hún verður flutt norður í land.
 • Ófullnægjandi kostnaðaráætlun.
  Í kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á 7,0 m.kr., þar af 1,5 m.kr. vegna aksturs með beinagrindina, er ekki gerð grein fyrir vinnu við uppröðun beina og frágang á sýningarstað. Að mati Náttúruminjasafnsins má ætla að viðbótarkostnaður vegna þessa sé 4-6 m.kr. (um 4 mannmánuðir). Sem fyrr segir er heldur ekki reiknað með kostnaði við forvörslu og styrkingu beina, en hann er mjög mikill. Þá er ekki gerð grein fyrir kostnaði við flutning á beinagrindinni til baka til Náttúruminjasafnsins.
 • Metnaður, virðing og orðstír.
  Að mati Náttúruminjasafnsins endurspegla hugmyndir um að raða ósamsettum beinum steypireyðarinnar á gólf í litlu rými í Hvalasafninu fyrst og fremst að hönnun sýningarinnar er gerð af vanefnum og að húsnæðið er óhentugt undir náttúrugrip af þessu tagi. Uppsetningin er að mati Náttúruminjasafnsins hvorki metnaðarfull né samboðin þeirri virðingu sem ber að auðsýna stærsta dýri jarðar. Í þessu sambandi má minna á metnaðarfull verkefni sem eru á döfinni hjá Náttúrufræðisafninu í London og Náttúrufræðisafni Danmerkur í Kaupmannahöfn um upphengingu steypireyðarbeinagrinda í háreistum salarkynnum, líkt og að hefur verið stefnt með steypireyðina í Perlunni á vegum Náttúruminjasafns Íslands
 • Samvinna við Náttúruminjasafn Íslands.
  Í umsögn Náttúruminjasafnsins er minnt á nauðsyn samvinnu milli Náttúruminjasafnsins og Hvalasafnsins varðandi steypireyðina og sýningarmál almennt, enda heyra málefni Hvalasafnsins undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands skv. Náttúruminjasafnslögum og safnalögum. Varðandi samvinnu bendir Náttúruminjasafnið á að ef til flutnings kemur á beinagrind steypireyðarinnar til Hvalasafnsins á Húsavík, þá er það verkefni Náttúruminjasafns Íslands að gera þar að lútandi varðveislusamning um gripinn við Hvalasafnið (sbr. svar mennta og menningarmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi 3. nóvember 2014, 144. löggjafarþing – 26. fundur. 223. mál. – Þskj. 252.).

Umsögn Náttúruminjasafnsins í heild má lesa í þessu skjali hér: Umsögn NMSÍ_09.07.2015_MMR15010812.