Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í málstofunni og mun Aleksandr Jakovlev framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Rigsters í Kaupmannahöfn greina frá verkefni sem lauk nýverið og Rigsters vann fyrir Náttúruminjasafnið – hágæða þrívíddarskönnun á beinagrind Íslandssléttbaks (Eubalaena glacialis). Dagskrá málstofunnar má lesa hér.
Ekki er til eintak á Íslandi af tegundinni og aðeins örfá söfn erlendis eiga heila beinagrind tegundarinnar. Meginmarkmiðið með skönnunarverkefninu á Íslandssléttbakinum, sem er skilgreindur sem hluti af íslenskum náttúruarfi, er stafræn varðveisla á beinagrind af afar fágætri hvalategund sem áður var algeng við Ísland en er nú í útrýmingarhættu. Öðrum þræði er skönnunin hugsuð til margs konar miðlunar á upplýsingum og fróðleik um tegundina, og jafnvel til að búa til eftirgerð af beinagrindinna með því að fræsa hana út eða prenta í þrívídd að hluta eða öllu leyti.
Skönnun beinagreindarinnar hjá Rigsters var all umfangsmikið verk og til þess beitt vél- og hugbúnaði sem starfsmenn þróuðu sjálfir að verulegu leyti. Hér má fylgjast með framvindu verkefnsins í kjallara Zoologisk Museum og hérna má velta fyrir sér einfaldri útgáfu af samsettri beinagrindinni.
Íslandssléttbakurinn sem Náttúruminjasafnið lét skanna á sér mjög áhugaverða sögu. Hann var veiddur hér við land árið 1891 út af Vestfjörðum og unninn í hvalstöð Victorsfélagsins norska á Höfðaodda við Dýrafjörð. Um haustið var siglt með beinagrindina til Kaupmannahafnar, til umsjónar og vörslu Dýrafræðisafns Danmerkur, Zoologisk Museum. Þar hefur beinagrindin verið í geymslu, fyrst í kjallara í miðborginni þar sem Hafnarháskóli hafði aðsetur, en síðar í kjallara við Universitetsparken í Nørrebro þar sem Zoologisk Museum er nú til staðar. Í aðfangabók Zoologisk Museum dags. 13. september 1891 er fært að beinagrindin sé komin og að hún hafi mælst 13,7 m á lengd, þar af haus 4,2 m og hryggur 9,5 m. Dýrið var með öðrum orðum fullvaxið þegar það var veitt.
Og þeir eru fleiri Íslandssléttbakarnir sem leynast í kjallara Zoologisk Museum. Þar eru tvær beinagrindur til viðbótar af þessari tegund, þar af önnur, sú stærri (11,5 m) af hval sem einnig var veiddur við Ísland, árið 1904 af norskum hvalföngurum. Hin beinagrindin er af ungviði sem drapst við strendur Spánar árið 1854.
Með sanni má segja að Íslandssléttbakarnir tveir sem voru veiddir hér við land séu hluti af náttúruarfi Íslands. Hvalirnir héldu til við Ísland og voru veiddir þar. Margt bendir til að þessi tvö dýr séu meðal þeirra allra síðustu af þessari tegund sem yfir höfuð voru veiddir í Atlantshafi. Tegundin var all algeng í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður, bæði við austurströnd Ameríku og vesturströnd Evrópu. Baskar veiddu að líkindum Íslandssléttbaka hér við land undir lok miðalda. Þeim fór hratt fækkandi vegna ofveiði og strax um miðja 19. öld höfðu menn áhyggjur af stórfelldri fækkun tegundarinnar.
Tegundin er afar fáliðuð og er heildarstofninn álitinn vera aðeins 400‒500 dýr, þar af líklega einungis um 100 dýr við vestanverða strönd Evrópu og N-Afríku. Tegundin hefur verið alfriðuð síðan 1930 samkvæmt ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og samkvæmt hættuflokkun Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN) telst tegundin vera „Í hættu“ (e. Endangered – EN) og mjög miklar líkur á að hún verði útdauð í náttúrunni í fyrirsjáanlegri framtíð. Vandinn sem steðjar að tegundinni í dag eru einkum ásiglingar, ánetjun og hlýnun sjávar með tilheyrandi breytingum í sjávarlífríkinu, þ.m.t. í fæðu hvalanna.
Málstofan um stafrænu lausnirnar verður í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands miðvikudaginn 20. mars og hefst kl. 9:00 og stendur til kl. 17:00 og fer fram á ensku. Sætaframboð er takmarkað og skráning bindandi og fer fram á heimasíðu FÍSOS hér. Að málstofunni standa Borgarsögusafn Reykjavíkur, Þjóðminjasafn Íslands og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) í samstarfi við danska fyrirtækið MMEx. Safnaráð styrkir málstofuna.