Útlit og atferli
Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) og toppskarfur ( P.aristotelis). Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð. Dílaskarfurinn er stóri bróðir toppskarfsins. Fullorðinn dílaskarfur í varpbúningi, frá janúar til júní, er með hvíta kverk og vanga. Hann er oft með hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, þannig að höfuðið virðist kantað að aftan. Dílaskarfur fær nafnið af stórum, hvítum díl, sem hann ber á lærunum í varpskrúðanum. Aðrir hlutar fuglsins eru blásvartir og glansandi. Í vetrarbúningi, frá júlí fram í desember, er hann allur litdaufari og tapar hvíta litnum, nema á kverk. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Goggurinn er dökkur, en gulur við ræturnar, krókboginn í oddinn, gulur fiðurlaus blettur er við goggrót. Fætur eru svartir, augu blágræn.
Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt getur reynst að greina skarfana að á færi. Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp. Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Dílaskarfur styggur og var um sig á varpstöðvum og er hann alger andstæða „litla bróður“, toppskarfsins.
Hópar fljúga venjulega oddaflug. Oft má sjá skarfa á leið til eða frá náttstað í eyjunum í Kollafirði og fæðuslóða í Hafnarfirði og á Álftanesi fljúga yfir Seltjarnarnes eða Vesturbæ Reykjavíkur kvölds og morgna á veturna.
Skarfar tilheyra ættbálki árfætla eða pelíkanfugla og eru skyldir súlum, pelíkönum, spírum, skutlum og freigátufuglum.
Lífshættir
Dílaskarfur lifir á fiski og er slyngur kafari, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.
Dílaskarfur verpur í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Dvelur á veturna með ströndum fram en leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn og skarfar sjást jafnvel á vötnum á hálendinu. Nokkrir tugir halda oft til á Þingvallavatni. Toppskarfurinn er aftur á megin eindreginn sjófugl.
Heimkynni
Aðalvarpstöðvar dílaskarfs er norðanverður Faxaflói og Breiðafjörður. Áður varp hann allvíða á Norðurlandi og jafnvel víðar. Varpútbreiðslan dróst saman snemma á síðustu öld, hann hvarf þá frá Norðurlandi og öðrum landshlutum nema Vesturlandi. Lágmark var í stofninum 1993, en eftir það hefur honum fjölgað jafnt og þétt. Hann er nú farinn að verpa á Ströndum og fyrir skömmu fannst varp í eyju í Djúpavogshreppi. Eftir varptímann dreifast skarfarnir um land allt.
Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Erlendis verpur hann gjarnan í trjám og jafnvel gömlum háspennumöstrum, nærri fiskiríkum vötnum inntil landsins.
Þjóðtrú og sagnir
Lítil þjóðtrú fylgir dílaskarfinum, þó þótti fuglinn gefa mönnum vísbendingu um fisk í sjó. Hann var líka veðurviti og réðu menn í veður af flugi hans eða hátterni.
Á flæðiskeri (lokaerindi)
Yfir skerið skella bárur, skrokkur titrar.
Hátt mót vindi kría kallar:
“Krí nú skolast bjargir allar”
Dílaskarfur skeri framhjá skríður öldu.
Kallar: “vinur komdu fljótur
köfum saman – gamli þrjótur”.
Nú syndir hjá hin sæmilega síldartorfa
Sælt er líf og fengsæll flóinn.
Ég flaksa vængjum – stekk í sjóinn.
Höskuldur Búi Jónsson.