Fjölmóður eða sendlingur (Calidris maritima)
Sendlingur, sem Jón lærði Guðmundsson kallar fjölmóð, er af snípuætt og ættkvíslinni Calidris, en henni tilheyra m.a. lóuþræll, rauðbrystingur og sanderla, auk þess títur sem flækjast hingað. Dæmi um títur sem sjást hér nokkuð reglulega eru spóatíta, veimiltíta, vaðlatíta og rákatíta.
Útlit og atferli
Sendlingur er lágfættur og kubbslegur, með stuttan háls og fremur stuttan gogg. Hann er dekkstur litlu vaðfuglanna og líka einn af þeim minnstu, litlu stærri en sandlóa og lóuþræll. Á sumrin er hann grá- og brúnflikróttur að ofan, á höfði og bringu, en hvítur á kviði. Á flugi sjást mjó, ljós vængbelti og svört miðrák í hvítum gumpi. Á vetrum er sendlingur allur grárri. Litur ungfugla á haustin er mitt á milli litar sumar- og vetrarfiðurs fullorðinna. Dökkur, lítið eitt niðursveigður goggur er gulur við rætur. Fætur eru gulleitir. Ljósir hringir eru um dökkbrún augun.
Sendlingur flýgur lágt og beint og syndir auðveldlega. Á varpstöðvunum er hann oftast lítið áberandi og laumulegur, nema kannski helst þegar tilhugalífið stendur sem hæst á vorin. Þá stunda karlarnir söngflug af mikilli elju, jafnframt sem þeir lyfta öðrum vængnum til að sýna sig fyrir dömunum. Karlarnir sjá um uppeldi unganna, á varptíma reyna þeir að afvegaleiða óvelkomna gesti með því að hlaupa um úfnir eða þykjast vera vængbrotnir. Taki maður sendlingsunga í lófa sér, eiga karlarnir það jafnvel til að setjast á ungana í lófanum.
Sendlingur er félagslyndur utan varpstöðvanna og oft í stórum hópum. Hópar á flugi sýna til skiptis dökkt bak og ljósan kvið. Sendlingurinn er dagfarsprúður fugl, með gott lundarfar og spakur og flýgur oft ekki upp fyrr en komið er alveg að honum. Oft má sjá hann sitja á bátum og bryggjum á veturna. Sendlingur gefur frá sér stutt og lágt tíst og á varpstöðvum dillandi vell.
Lífshættir
Fæðan á varptíma er skordýr, köngulær og aðrir hryggleysingjar. Þangdoppur, smágerðar samlokur, burstaormar, krabbadýr og þangflugulirfur eru aðalfæðan í fjörum.
Sendlingur verpur aðallega til fjalla en einnig á annesjum og hrjóstrum á láglendi. Kjörlendið er margs konar; berangur, mosabreiður, lyngmóar og melar, venjulega nærri vatni. Hreiðrið er grunn laut á berangri, oft upp við steina eða grasþúfu, lítilfjörlega fóðrað að innan. Eftir klak yfirgefur kerlan fjölskylduna, en karlinn sér um uppeldi unganna. Utan varptíma er sendlingurinn helst í grýttum fjörum og á leirum.
Urptin er fjögur egg, eins og hjá flestum vaðfuglum. Varptíminn er frá miðjum maí og síðustu ungar verða fleygir um miðjan ágúst. Álegan tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á svipuðum tíma.
Útbreiðsla og ferðir
Sendlingur er allalgengur en fremur strjáll varpfugl. Hann er algengasti vaðfuglinn hérlendis á veturna og sá eini sem sést reglulega á Norður- og Austurlandi. Sendlingar frá norðlægari slóðum, kanadísku heimskautaeyjunum og ef til vill Grænlandi, koma hér við vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva á Bretlandseyjum og V-Evrópu og einhverjir hafa hér vetrardvöl. Sendlingur er hánorrænn fugl, varpstöðvarnar eru við Atlantshafshluta N-Íshafsins, á Grænlandi og eyjum við Norður-Íshafið, svo og á Norðurlöndum.
Íslendingar bera mikla ábyrgð á þessari tegund vegna þess að áætlað hefur verið að hér séu 30-40% af sendlingum heimsins, en talið er að íslenski varpstofninn sé um 30.000 pör. Þar sem sendlingar eru norrænir fuglar þá má búast við að hlýnandi loftslag sé slæmt fyrir þá.
Þjóðtrú og sagnir
Íslensk þjóðtrú á ekki margt um sendlinginn. Jón Guðmundsson lærði segir þetta í riti sínu Íslands aðskiljanlegar náttúrur: „Fjölmóðurinn, eður selningurinn. Sumir halda sitthvorn, en eins stærð, lit og eðli hafa þeir; halda sig við ystu fjörur á veturna, en verpur við fremstu fjalla jökla á sumarið; hann er fugla meinlausastur, en óttast þó of margt. Einnig það, þegar fjörur eru, að sjórinn muni mega svo um síðir allur upp þorna… Eru því fullir og kátir um flæðurnar”.
Önnur skemmtileg nöfn, fyrir utan fjölmóð og selning, eru fjallafæla, fjörumús, heiðalæpa, heiðarotta og flóðsvala.
Kveðskapur
Tíðara Sörli en sendlingur á leiru
sinastælta bar í gljúfrum leggi,
glumruðu Skúla skeifurnar um eyrum,
skóf af klettunum í hófahreggi.
Úr Skúlaskeiði eftir Grím Thomsen.
Fimir krabbafætur
fyrstir vildu sparka
spor í sand,
en sendlingurinn saumaði
sólskinið, með flónni,
fast við land.
Úr Vordegi á Eyrarbakka eftir Friðrik Erlingsson.
Þúsund ár, hefur skarfurinn þurrkað sinn væng
Og þvaðrað við Sendling og Tjald sem í þaranum tifa
Selurinn blundað á sinni votu sæng
Í sólskini þegar öllum finnst gaman að lifa.
Úr Kolbeinshaus eftir Þórhall Gauta Bárðarson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.