Glókollur (Regulus regulus)

Glókollur í Grímsnesi.

Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla, en um 60% hinna rúmlega 9700 fuglategunda sem þekktar eru í heiminum tilheyra þessum ættbálki. Það eru þó aðeins níu tegundir spörfugla sem verpa hér á Íslandi í einhverjum mæli og fáeinar til viðbótar eru sjaldgæfir eða óreglulegir varpfuglar. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Með aukinni skógrækt hefur þeim fuglum fjölgað sem hafa orpið hér. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, svo sem meðal spörfugla og smávaxinna vaðfugla, enda eru stofnar gamalgróinna, smávaxinna íslenskra farfugla stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó.

Útlit og atferli

Glókollurinn er minnsti fugl Evrópu, ekki nema 6 g að þyngd. Hann líkist hinum smávöxnu söngvurum, en er áberandi hnöttóttur, hálsstuttur, ólífugrænn að ofan, grænleitur á síðum, með gula kollrák og svartar rendur hvora sínu megin við hana. Hann er án brúnarákar. Tvö ljós vængbelti og gulir fjaðrajaðrar á svartleitum vængfjöðrum eru einkennandi. Hluti kollrákar á karlfugli er appelsínugul. Ungfuglar eru án kollrákanna, en vængmynstur er áberandi. Vængir stuttir og breiðir.

Goggur og augu svört, fætur brúnleitir með gular tær.

Glókollur er kvikur og sístarfandi, leitar ætis í trjám, stundum á flugi eða hangandi á hvolfi. Kallið er hátt tíst, á hárri tíðni, sem fer gjarnan framhjá fólki sem komið er á miðjan aldur eða eldra. Söngurinn er hávært, endurtekið tveggja atkvæða hljóð, sem endar með dilli.

Glókollur í Hallskoti í Friðlandinu í Flóa.

Glókollskarl ýfir hnakkatoppinn á óðali í Grímsnesi.

Glókollur í Grímsnesi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Undirstöðufæða glókolls er grenilús (sitkalús) og stökkmor, en hann tekur einnig önnur smádýr á trjám, eins og köngulær, aðrar blaðlýs, feta, lirfur, púpur og skordýraegg af laufi og barri. Tekur einnig stökkmor af jörðu niðri. Veiðir aðallega á fæti, en andæfir stundum og grípur skordýr. Hann er því liðtækur meindýraeyðir.

Hreiðrið er kúlulaga með tveimur opum, gert úr mosa og gróðurleifum, hangandi neðan á grenigrein. Það er ekki ósvipað músarrindilshreiðri, en mun veigaminna og losaralegra. Urptin er 6-11 egg, álegan tekur 15-17 daga og eru ungarnir 17-22 daga í hreiðrinu. Verpur allavega tvisvar á sumri.

Glókollshreiður, foreldri með mat handa ungum. Hreiðrið er veigalítil kúla með tveimur opum. Gróðrarstöðin Þöll við Hafnarfjörð. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Glókollur færir ungum mat í hreiður. Gróðrarstöðin Þöll við Hafnarfjörð.

Nýfleygur glókollsungi í Kjarnaskógi við Akureyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Glókollur var lengi árviss haustflækingur, en er nýfarinn að verpa og hefur komið ár sinni vel fyrir borð í hinum nýju greniskógum hérlendis. Mikil ganga kom haustið 1995 og hefur hann sennilega hafið varp í kjölfar hennar, þó svo að varpið væri ekki staðfest fyrr en sumarið 1999. Breiddist hann fljótt út um mestallt land nema Vestfirði. Stofninn hefur tvisvar hrunið í kuldaköstum, 2004 og 2014, en náð sér á strik aftur og fljótt náð svipaðri útbreiðslu og fyrir hrun. Stofnstærðin skiptir þúsundum fugla í góðærum, en hrinur niður í fáein hundruð í hallærum. Hann er staðfugl hér, sem virðist lifa ágætlega af veturinn, ef fyrrnefnd hrun eru undanskilin. Er útbreiddur skógarfugl í Evrópu og á blettum í Asíu austur til Japans.

Glókollurinn virðist stundum vera hnöttóttur og hálslaus. Þorbjörn við Grindavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Karlfugl í Hellisskógi við Selfoss.

Þjóðtrú og sagnir

Músarrindillinn hafði lengi þann sess, að vera minnsti fugl landsins. Nú hefur glókollurinn velt honum úr sessi. Hann er meira en helmingi minni en músarrindill, 6 g á móti 15 g.

Engin þjóðtrú fylgir glókolli hér á landi, vegna þess hve nýr hann er í fánunni. Bæði Aristóteles hinn gríski og Pliníus eldri hinn rómverski, rituðu fyrir meira en 2000 árum um þjóðsöguna af keppni fuglanna, hver ætti að verða konungur þeirra og átti sá að hreppa titilinn, sem gæti flogið hæst. Örninn þótti líklegastur, en glókollur faldi sig undir stélfjöðrum hans og þegar örninn var orðinn þreyttur og komst ekki hærra, þá skaust glókollurinn upp fyrir örninn og gerði tilkall til titilsins. Hann heitir enda fuglakóngur á sumum tungumálum, því hann ber kórónu. Þessi saga hefur stundum verið sögð með músarrindilinn í aðalhlutverki.

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson.