Hvítmáfur (Larus hyperboreus)

Hvítmáfur á flugi.                                                               Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur). Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúningi uns kynþroska er náð, eru afar flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir.

Útlit og atferli

Hvítmáfur er einkennismáfur margra strandsvæða, sérstaklega á veturna. Hann er stór fugl, svipaður svartbaki á vöxt og stærð. Fullorðinn hvítmáfur er að mestu hvítur, ljósgrár á baki og ofan á vængjum með hvíta vængbrodda. Á veturna er hann brúnflikróttur á höfði. Ungfugl á fyrsta ári er allur jafnt ljósbrúnflikróttur, aðeins brúnni að ofan og án dökks jaðars á stéli. Hann lýsist smám saman, getur á öðru ári verið alhvítur og er að mestu kominn í fullan búning á þriðja ári, en er þó með eitthvað af brúnum flikrum á vængjum og stéli. Það einkennir fullorðinn hvítmáf að hvergi sést dökkur litur í búningi hans, en fullorðinn silfurmáfur hefur hvítt og svart mynstur á vængendum.

Hvítmáfur og silfurmáfar hafa kynblandast á síðari árum og eru ýmis millistig þekkt. Bjartmáfur er eitt millistigið og mjög líkur hvítmáfi. Hvítmáfur er mun stærri, með kraftmeiri gogg, flatara enni og vængir ná ekki eins langt aftur fyrir stél á sitjandi fugli og hjá bjartmáfi. Vængir eru einnig hlutfallslega breiðari á hvítmáfi, semn er um 62-68 cm að lengd, vænghafið er 150-165 cm og meðalþyngd 1,5 kg, karlfuglinn er stærri.

Fullorðinn hvítmáfur í vetrarbúningi og ungur bjartmáfur í Þorlákshöfn. Stærðarmunurinn er sláandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfar á varpstað í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á varpstað í Melrakkaey.

Hvítmáfur í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á varpstað í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á varpstað í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Goggur fullorðins hvítmáfs er fremur stór, gulur að lit og er rauður blettur á naddi framarlega á neðra skolti. Goggur ungfugls er bleikur með svartan brodd. Fætur eru ljósbleikir, dekkri á ungfugli, og augun gul.

Hvítmáfur er stór og þungur og honum svipar til annarra stórra máfa. Hann ristir dýpra á sundi en bjartmáfur. Hann er félagslyndur og er oft í félagsskap annarra máfa.
Gefur frá sér hvellt garg sem svipar til hljóða silfurmáfs.

Lífshættir

Sandsíli og loðna er aðalfæða hvítmáfs, en hann leitar sér einnig ætis í fjörum og tekur þá m.a. krækling, trjónukrabba og krossfisk. Hann flýgur oft í loft upp með skeljar og lætur þær falla á kletta og grjót til að brjóta þær. Hann rænir æti frá æðarfuglum og fer í úrgang frá fiskvinnslustöðvum og fiskiskipum. Einnig eru egg og ungar á matseðlinum. Ástaratlot karlfuglsins á vorin felast m.a. í að æla æti uppí kvenfuglinn og foreldrarnir æla ætinu í uppí ungana í uppvextinum.

Hvítmáfur verpur í stórum byggðum í bröttum hlíðum og klettum við sjó. Hreiðrið er gert úr mosa, sinu og fjöðrum. Urptin er oftast þrjú egg, álegan tekur um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 7 vikum. Á veturna er hann við strendur eða á hafi úti.

Hvítmáfshreiður í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á 1. vetri í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Ungur hvítmáfur (á 1. vetri) gleypir síld í Grundarfirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur við Svalbarða. Þar er hvítmáfurinn efst í fæðukeðjunni og helsti afræninginn meðal fugla. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útbreiðsla og stofnstærð

Hvítmáfur er staðfugl. Aðalvarpstöðvarnar hérlendis eru við Breiðafjörð og á Vestfjarðakjálkanum, lítilsháttar annars staðar. Stærsta byggðin er í Mýrarhyrnu við Grundarfjörð. Hvítmáfur og silfurmáfur skipta landinu á milli sín, silfurmáfurinn verpur á N-, A-, S og SV-landi. Hvítmáfur er hánorrænn fugl, varpstöðvar hans eru allt í kringum Norður-Íshafið. Sennilega kemur eitthvað af hvítmáfi hingað til vetursetu frá Svalbarða og Grænlandi en innlendir varpfuglar virðast vera staðfuglar hér. Varpstofninn er um 5000 pör og hefur honum fækkað að undanförnu. Hann er á válista sem fugl í nokkurri hættu (VU).

Þjóðtrú og sagnir

Þjóðtrúin geymir ekki margt um hvítmáfinn sérstaklega, en oft er talað um máfa almennt. Þeir eru oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna.

Kveðskapur

Fuglinn í fjörunni

Fuglinn í fjörunni
hann heitir már.
Silkibleik er húfan hans
og gult undir hár.
Er sá fuglinn ekki smár,
bæði digur og fótahár,
á brjóstum hvítur, á baki grár.
Bröltir hann oft í snörunni,
fuglinn í fjörunni.

Forn fuglaþula, sem bæði Theódóra Thoroddsen og Hulda endurortu.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.