Svartþröstur (Turdus merula)

Sperrtur svartþrastarkarl í gróðrarstöðinni Þöll, Hafnarfirði.

 

Svartþröstur er spörfugl af þrastaætt. Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla. Um 60% af nær tíu þúsund fuglategundum sem þekktar eru á jörðu tilheyra þessum ættbálki. Þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir, flestir eru þó smávaxnir. Með aukinni skógrækt hefur þeim spörfuglum fjölgað sem hafa orpið hér á landi.

Útlit og atferli

Svartþröstur er svipaður gráþresti að stærð, og að lit ekki ósvipaður stara. Þekkist best frá stara á jöfnum, svörtum lit án díla (karlfugl) og lengra stéli, auk hátternis, sem svipar til hegðunar annarra þrasta. Fullorðinn karlfugl er alsvartur, goggur og augnhringir skærgulir. Ungur karlfugl (á fyrsta vetri) er með dökkan gogg sem lýsist þegar líður á veturinn. Kvenfugl er dökkmóbrúnn að ofan, aðeins ljósrákóttari að neðan og með gráa kverk. Goggurinn er dökkur, stundum með gulu ívafi. Fætur og augu eru dökk.

Svartþrastarfrú í gróðrarstöðinni Þöll, Hafnarfirði.

Svartþrastarfrú með gulan gogg í Seljahverfi í Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fullorðinn svartþrastarkarl á Stokkseyri.

Er venjulega fremur felugjarn, nema syngjandi karlfuglar á vorin, sem hreykja sér í trjátoppum, á ljósastaurum og húsmænum. Fuglar í makaleit syngja meira en þeir sem eiga maka og eru eingöngu að auglýsa óðal sitt. Svartþrestir sjást stakir eða í smáhópum.

Frá svartþresti má heyra hvellan, hljómfagran og þunglyndislegan söng, sem og hart og hvellt kallhljóð.

Svartþrastarkarl þenur raddböndin í trjátoppi í Fossvogskirkjugarði.

Lífshættir

Svartþrösturinn etur bæði úr dýra- og jurtaríkinu. Hann leitar að skordýrum, köngulóm og ormum á jörðu niðri, tekur einnig ber í runnum og á trjám. Á veturna sækir hann í garða þar sem epli, aðrir ávextir og feitmeti eru gefin.

Svartþröstur verpur í trjám í görðum og trjálundum, stundum á húsum. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, svipaða eða efnismeiri en skógarþrösturinn. Ungarnir eru ósjálfbjarga, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir eða að verða fleygir. Urptin er 3-5 egg, álegan tekur um tvær vikur og uppvöxtur unga svipaðan tíma.

Varptími svartþrasta er langur og verpa þeir nokkrum sinnum yfir sumarið. Fuglarnir fara að syngja í lok febrúar, oft löngu fyrir birtingu og sérstaklega í dumbungsveðri og hlýindum. Þeir fyrstu verpa í lok mars, þeir verpa oft yfir sumarið og ófleygir ungar hafa fundist alveg fram í september. Íslenskt veðurfar með umhleypingum á útmánuðum, á eftir að síast inní gen fuglanna, þeir telja sig enn vera á suðlægari slóðum eða í mildara loftslagi. Utan varpstöðva sést hann í görðum, við bæi og í fjörum.

Svartþrastarhreiður í Fossvogi, Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartþrastarfrú með unga í hreiðri við Elliðavatn.

Nýfleygur svartþrastarungi í Fossvogskirkjugarði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Svartþröstur var haust- og vetrargestur eins og gráþröstur, fyrsta staðfesta varpið var í Reykjavík árið 1969. Frá árinu 1991 til aldamóta urpu svartþrestir reglulega í Reykjavík, án þess að stofninn næði að vaxa að marki. Vorið 2000 kom mikil ganga, sem var gott ílag í stofninn og eftir það hefur hann vaxið hröðum skrefum. Svartþröstur náði fyrst fótfestu sem varpfugl í grónum hlutum Innnesja og Suðurnesja og þaðan hefur hann breiðst nokkuð hratt út í báðar áttir. Hann verpur nú reglulega í öllum landshlutum, en er rétt að byrja að þreifa fyrir sér á Austur- og Suðausturlandi. Landnám hans minnir nokkuð á varpsögu starans, sem hóf varp á Innnesjum árið 1960 og hefur breiðst út þaðan, mynstrið er svipað. Svarþrösturinn hefur þó verið mun fljótari að nema land heldur en starinn. Stofnstærðin nú er nokkur þúsund pör. Hann er að öllum líkindum staðfugl, þó einhverjir kunni að halda af landi brott á haustin.

Varpheimkynni svartþrasta eru annars í Evrópu, Norður-Afríku og á belti í Asíu austur til Afganistan og Kína. Evrópubúar fluttu hann til Ástralíu, Tasmaníu og Nýja-Sjálands, þar eru nú villtir stofnar.

Svartþrastahjón í alapareyni í Árbæjarhverfi í Ölfusi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartþrastarkarl etur alpareyniber í Árbæjarhverfi í Ölfusi.

Þjóðtrú og sagnir

Þar sem svartþrösturinn er svo nýr landnemi virðist engin þjóðtrú hafa skapast um hann … enn. Þeir sem lásu danska höfundinn Leif Panduro, t.d. Rend mig i traditionerne í menntaskóla, muna kannski hvernig svartþrösturinn eða söngur hans var leiðarstef í sögunni. Jafnframt sungu Bítlarnir um hann. Svartþröstur er þjóðarfugl Svía og þar er hann veðurviti. Fræðiheitið merula vísar til hins einræna háttalags fulgsins.

Kveðskapur

….

Bælir sig að jörð og hlerar niður
í hlykkjótt moldargöngin undir frosnum þekjum
þar sem skriðljós ánamaðksins
iða sem hrævareldar í myrkri
hugans. Dýpra
dylst hið fagurbleika sumaragn

Felur sólgult nefið undir væng
og veit að þessi fölu strá má nota
til að flétta ný hreiður
í nýjabrumi vorsins – ef það sprettur
þá einhverntíma undan bláum nöglum
þessara nístandi frosta

Svartþröstur eftir Hannes Sigfússon.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.