Ljósmyndin af blesgæsinni er eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Ljósmyndin af blesgæsinni er eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Útlit og atferli

Blesgæs (Anser albifrons) er umferðarfugl eða fargestur hér á landi. Hún er dekkst gráu gæsanna svokölluðu, hinar eru grágæs og heiðagæs. Blesgæsin er grábrún, með ljósum rákum að ofan og dökkum rákum á síðum. Dökkir framvængir eru einkennandi á flugi. Fullorðin blesgæs er meira eða minna með svartar þverrákir og díla á kviði og er hann stundum næstum alsvartur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Ungfugl er án dökku rákanna á kviði og blesunnar. Goggur er gulbleikur, daufari á ungfugli, fætur rauðgulir og augu dökk.

Blesgæs hegðar sér svipað og aðrar gráar gæsir, en er sneggri í uppflugi, sýnist grennri og er liprari á flugi, hópamyndun er losaralegri. Er lipur sundfugl eins og aðrar gæsir og ávallt félagslynd. Röddin er hærra stemmd, meira syngjandi og þvaðrandi en hjá öðrum gæsum og lætur blesgæsin meira í sér heyra á flugi.

Lífshættir

Blesgæs er grasbítur, á vorin sækir hún í ræktarland, en á haustin í votlendi og úthaga, ef jarðbönn hamla ekki. Etur m.a. forðarætur kornsúru, elftingar og starir. Á haustin etur hún mest votlendisgróður, en fer einnig í berjamó og tún.

Blesgaes33e

Heimkynni og ferðir

Sú undirtegund blesgæsar sem fer um Ísland vor og haust, heitir Anser albifrons flavirostris. Hún verpur á Vestur-Grænlandi, en hefur vetursetu á Írlandi og Skotlandi. Hún er stundum kölluð grænlandsblesa. Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og Hnappadal, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, austur undir Eyjafjöll, en sjást þó stundum austar.

Á vorin hefur hún viðkomu frá aprílbyrjun fram undir miðjan maí, en á haustin hefur hún viðkomu frá byrjun september fram í byrjun nóvember. Það fer nokkuð eftir árferði hversu lengi gæsirnar dvelja á landinu. Á vorin fljúga gæsirnar rakleitt yfir Grænlandsjökul og á varpstöðvarnar um miðbik Vestur-Grænlands, höfuðvígið er Diskóeyja og nágrenni, en þær verpa þó dreift frá Upernavik í norðri suður til Nuuk. Varpkjörlendið er ekki ósvipað og hjá heiðagæsinni hér á landi, flár og freðmýrar. Það er því afar mikilvægt að fuglarnir geti fitað sig upp hér, áður en þær leggja í hið erfiða farflug. Jafnframt þarf kvenfuglinn sérstaklega á aukaforða að halda til fyrir varpið, vegna þess hve seint vorar á varpstöðvunum.

Blesgæs 18

Stofnsveiflur og vernd

Stofninn náði hámarki á árunum 1999-2000, um 35.000 einstaklingar og var það reyndar sögulegt hámark stofnsins á 20 öld. Eftir það fækkaði fuglunum mjög ört, í rauninni svo ört að grænlandsblesan fór á válista, samanber viðmið Alþjóða náttúruverndarsamtakanna, IUCN.

Fuglavernd hefur um árabil tekið þátt í samvinnuverkefni um rannsóknir og vernd blesgæsarinnar, milli þeirra landa sem hún dvelur í, eða Grænlands, Íslands, Írlands og Skotlands. Að frumkvæði Fuglaverndar og í samvinnu við Skotveiðifélag Íslands og fleiri aðila, var blesgæsin friðuð hér sumarið 2006 vegna fækkunarinnar í stofninum. Það er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg, til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Orsök afkomubrestsins er óþekkt. Enn er stofninn á niðurleið, svo ekkert bendir til að þeirri friðun verði aflétt í bráð. Því miður er þó enn nokkuð skotið af blesgæs hér á landi, bæði viljandi og óviljandi. Sumir þekkja gæsirnar ekki nógu vel í sundur og aðrir láta friðunina sem vind um eyrun þjóta. Í fyrri hópnum eru byrjendur, sem er kannski vorkunn, en í seinni hópnum eru atvinnuskyttur og magnveiðimenn, sem hafa það eitt að markmiði, að drepa sem flesta fugla.

Blesgaes38a

Blesgæsin er alfriðuð í öllum löndunum þar sem hún hefur viðkomu og víða hefur verið komið á fót friðlöndum fyrir gæsina. Kunnust þeirra eru Wexford Slobs á Suðaustur-Írlandi og Islay, ein af Innri-Suðureyjum við Skotland og þekkt fyrir wiskýgerð. Hérlendis er friðland á Hvanneyri fyrir blesgæsina, sem jafnframt er eitt af fáum Ramsar-svæðum á Íslandi. Önnur friðlönd sem gagnast blesgæsinni eru Pollengi og Oddaflóð á Suðurlandsundirlendinu. Á tveimur síðastnefndu stöðunum er eftirliti þó mjög ábótavant.

Fullorðin blesgæs til hægri og ung til vinstri.

Fullorðin blesgæs til hægri og ung til vinstri.

Þjóðtrú og sagnir

Engin þjóðtrú tengist blesgæsinni beint, en það var mönnum ráðgáta hér áður fyrr hvað varð um farfuglana. Þá trúðu menn að helsingjar (Branta leucopsis) kæmu úr helsingjanefjum, en það eru krabbadýr af ættbálki skelskúfa (Cirripedia) sem eru náskyld hrúðurkörlum. Lögun og litur þessa krabbadýrs minnir um margt á nef helsingjagæsanna, sem koma hér við vor og haust eins og blesgæsir.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

This site is protected by wp-copyrightpro.com