Fýll (Fulmarus glacialis)

Fýll er af ættbálki pípunasa eða stormfugla (Procellariiformes) og ætt fýlinga (Procellariidae). Einkenni pípunasaættbálksins er að nasirnar eru í pípum ofan á goggnum. Honum tilheyra m.a. albatrosar, skrofur, sæsvölur og drúðar. Auk fýls verpa skrofa, stormsvala og sjósvala hér á landi og gráskrofa og hettuskrofa eru sumargestir úr Suðurhöfum.

Útlit og atferli

Fýllinn er stór sjófugl sem minnir á máf, þéttvaxinn og hálsdigur með langa og mjóa vængi. Hann er hvítleitur á höfði, hálsi og að neðan. Grár að ofan og á yfirvængjum, með dökka vængbrodda. Síður, gumpur og stél eru grá, undirvængir gráir með dökkum jöðrum. Kynin eru eins og ungfugl er eins og fullorðinn. Fuglar af norræna litarafbrigðinu, sótarar, smiðir eða kolapiltar, eru allir dökkgráir en ýmis millistig þekkjast. Goggurinn er stuttur og gildur, gráleitur að ofan en gulleitur að neðan, krókboginn með nasirnar í pípum ofan á goggmæni. Þetta einkenni gefur ættbálki fýlsins nafn. Fætur eru grábleikir og augu áberandi dökk og stór.

Dökkur (norrænn) fýll í Heimaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýllinn flýgur á stífum vængjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Auðgreindur frá máfum á einkennandi fluglagi, tekur fáein vængjatök og lætur sig svo svífa á stífum vængjunum. Léttur á sundi en á oft erfitt með að hefja sig á loft, sérstaklega í logni. Nær ófær til gangs, bröltir um á ristunum.

Fýllinn er venjulega þögull, en hann gefur frá sér rámt gagg á varpstöðvum.

Lífshættir

Fæðan er smáfiskur, einkum loðna og sandsíli, einnig krabbadýr, smokkfiskur og önnur sjávardýr. Úrgangur frá fiskiskipum er mikilvæg fæða, etur einnig úrgang frá fiskvinnslu-stöðvum. Etur oftast á yfirborði, en á það til að taka grunnar dýfur.

Fýllinn er úthafsfugl, sem sést þó meira og oftar í byggðum sínum en flestir aðrir sjó-fuglar utan varptíma. Þó þeir hverfi að mestu frá landinu á haustin og haldi sig á hafi úti fjarri landi, heimsækja þeir oft vörpin í mildu veðri og eru sestir upp í janúar – febrúar. Fýll verpur í byggðum í klettum og björgum við sjó eða inn til landsins, stundum ofan á klettaeyjum eða dröngum. Hreiðrið er grunn dæld, oft fóðrað með steinvölum eða þurrum gróðri, og er því valinn staður á syllu, í skúta eða grasbrekku. Fuglinn verður seint kynþroska eða ekki fyrr en hann nálgast 10 ára aldurinn.

Fýllinn verpur einu eggi snemma í maí. Útungunar- og ungatíminn er langur, á fjórða mánuð og verða ungarnir ekki fleygir fyrr en í lok ágúst – byrjun september. Fýlar eru einkvænisfuglar og parast ævilangt. Þó er um 5% skilnaðartíðni á ári og skilja þeir fremur ef illa gengur, t.d. ef varp misferst. Þeir parast þá aftur og líka ef makinn fellur frá. Fýllinn er langlífur fugl og getur náð sextugsaldri. Þeir þurfa því ekki að koma nema örfáum ungum á legg til að viðhalda stofninum.

Fýll í Mánáreyjum messar yfir maka sínum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýll á hreiðri.

Fýlshreiður í Akurey. Fuglinn verpur á bera jörðina. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Dúnklæddur fýlsungi í Mánáreyjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Kvenkyns fýll var merktur á hreiðri á Orkneyjum 1951 og náði fuglinn sextugsaldri og var þá enn frjór. Fýllinn var myndaður með skoskum fuglafræðingi þegar hann var merktur og svo aftur 40 árum síðar. Fuglafræðingurinn hafði vissulega látið á sjá á þessum tíma, meðan fýllinn leit jafn vel út og fyrr. Elsti íslenski fýllinn var kominn vel á fimmtugsaldur, þegar hann lenti í netum og var allur.

Útbreiðsla og ferðir

Fýll hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og öldum og er talið að það stafi af mikilli fæðu sem fylgdi auknum hvalveiðum og síðar vaxandi fiskveiðum í Norður-Atlantshafi. Á fyrri hluta 17. aldar er aðeins vitað til að fýll hafi orpið í Kolbeinsey og Grímsey hér við land. Upp úr 1750 færir hann sig suður á bóginn og tekur að verpa í Vestmannaeyjum og Eldey. Í Vestmannaeyjum fjölgaði fuglinum ört og byrjuðu menn þar fljótt að nýta hann til matar. Á 19. öld tekur fýll heima í Mýrdal og síðan breiðist hann út um allt land. Stærstu vörpin eru í sjávarbjörgum, en upp úr 1950 fara fýlar að sækja meira inn til landsins. Um 50 km flug er í þau vörp sem eru fjærst sjó, í Markarfljóts-gljúfrum (fuglarnir fljúga með fljótinu, en ekki yfir jökulinn) og við Þingvallavatn. Varpið í Ásbyrgi er og vel þekkt. Hvergi í heiminum verpa fýlar jafn fjarri sjó. Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun á 20. öld, hefur honum þó fækkað undanfarið eða um 30% á síðasta aldarfjórðungi. Stofninn nú er rúmlega milljón pör og er stærstan hluta að finna í 35 vörpum, þar sem 10.000 til 100.000 pör verpa.

Það er því algerlega úr lausu lofti gripið að fýllinn þurfi að sjá sjó til að hefja sig til flugs. Þessi saga gæti verið til komin af því hversu erfitt þeir eiga með að ná sér á flug af sléttlendi, sérstaklega ungarnir síðsumars, þegar þeir hafa brotlent og eina lífsbjörg þeirra er að ná að vatnsfalli, til að fleyta sér til sjávar.

Fýlar verpa nú víða í gljúfrum og giljum inn til landsins. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýlar hverfa að mestu frá landinu síðsumars og á haustin og halda sig í norðanverðu Atlantshafi, en heimsækja þó oft vörpin í mildu veðri á veturna og eru sestir upp snemma. Fuglar sem fengu dægurrita í vörpum við Skjálfandaflóa, flökkuðu víða. Fyrst eftir að þeir yfirgáfu landið, fóru einhverjir í Barentshafið og alla leið austur til Novaja Zemlja, en aðrir voru austan við Svalbarða. Flestir voru á hafsvæðinu milli Grænlands og Nýfundalands eða við SV-Grænland. Frá nóvember til janúar fóru þeir að safnast saman við NA-vert landið, þó enn héldu þeir sig eitthvað á þekktum sjófuglaslóðum við sunnanvert Grænland, á svæði sem stundum er nefnt Heljargjá. Á tímabilinu febrúar til apríl voru þeir eingöngu á heimaslóðum. Vestmannaeyskur fýll flakkaði einnig mikið, hann fór m.a. upp með austurströnd Grænlands og var að þvælast austur undir Svalbarða, en var og á slóðum norðanfýla við sunnanvert Grænland.

Fýllinn er útbreiddur varpfugl við strendur N-Atlantshafs og nyrst við Kyrrahaf. Hér á landi verpur um sjötti hluti heimsstofnsins.

Fýll að lenda á Skjálfandaflóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýll hefur sig til flugs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýlamergð við Eiðið, Heimaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þjóðtrú og sagnir

Fýllinn ber nafn sitt af fúlu lýsinu, sem hann spýr
á óboðna gesti. Fræðiheiti hans, Fulmarus, og enska heitið Fulmar, er komið úr forníslensku og merkir fúli máfurinn (fúlmár). Sjómenn kalla fýlinn gjarnan múkka, það er tengt danska heitinu mallemuk.

Lítið er um fýl í íslenskri þjóðtrú, þó sjómenn tengi hegðun hans eitthvað við veðrabrigði. Stormfugl er heiti hans á ýmsum erlendum tungum.

Kveðskapur

Söknuður

Það er haustlegt.

Ég er ófleygur
múkki

horfi af blásnum
mel
yfir vaxandi ána,

horfi á eftir þér
til hafs.

Eftir Matthías Jóhannessen.

 

Þrammar, svá sem svimmi
sílafullr, til hvílu
fúrskerðandi fjarðar,
fúlmǫ́r á trǫð bǫ́ru,
áðr an orfa stríðir
ófríðr þorir skríða,
hann esa hlaðs við Gunni
hvílubráðr, und váðir.

Eftir Hallfreður vandræðaskáld.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.