Hávella (Clangula hyemalis)
Til andfugla (Anseriformes) teljast svanir, gæsir og endur, sem tilheyra öll sömu ættinni, andaætt (Anatidae). Andfuglar eru sérhæfðir að lífi á vatni. Þeir hafa sundfit og goggur margra er flatur með hyrnistönnum, sem auðveldar þeim að sía fæðu úr vatni. Hluti af fæðu buslanda, einnig kafanda og fiskianda, er úr dýraríkinu. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Kollan sér ein um útungun og ungauppeldi, en steggirnir safnast í hópa síðsumars til að fella flugfjaðrir og eru þá ófleygir og í felubúningi. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.
Útlit og atferli
Hávella er einn af einkennisfuglum hálendisvatna og tjarna. Hún er fremur lítil kafönd, eina öndin sem hefur ljósan búk á veturna og aldökka vængi. Skiptir oftar um fjaðurham en aðrar endur. Steggurinn er með áberandi langar miðfjaðrir stéls, nema í fjaðrafelli síðsumars. Á sumrin er hann dökkbrúnn um höfuð, háls, bringu og bak, með hvíta bletti á höfuðhliðum og hvítur á síðum. Hann er mun ljósari á veturna og er þá ljós um höfuð, bak og ofanverða bringu, með dökka vangabletti. Ýmis millistig þekkjast en þeim verður ekki lýst hér. Á veturna er kollan með dökkt og ljóst höfuðmynstur, breiðan dökkan hálshring en annars grábrún að ofan og hvít að neðan. Á sumrin er hún dekkri á höfði og bringu og dökkbrún að ofan. Bæði kyn eru með aldökka vængi án spegla.
Goggur steggsins er dökkur við rót og í broddinn, bleikur þar í milli, blágrár á kollu. Fætur beggja kynja eru blágráir með dekkri fitjum og augu brún.
Steggurinn gefur frá sér hávært jóðl, há-á-vella, en kollan lægri hljóð.
Lífshættir
Hávella er hraðfleyg og vængjatökin sérkennileg. Hún flýgur lágt í óreglulegum hópum, vaggandi til hliðanna, og sýnir til skiptis dökkan og ljósan lit. Hún er afar fimur sundfugl og kafari og lætur brimrót ekki hindra sig. Á pörunartímanum lyftir steggurinn löngu stélfjöðrunum upp úr vatninu og syndir vellandi í hringi kringum kolluna. Þetta atferli stundar hann bæði á vetrarstöðvum á útmánuðum, sem og á varpstöðvunum, en þar eru oft mikil læti og slagsmál milli steggja með tilheyrandi söng. Söngurinn er einkennandi fyrir íslensk fjallavötn á vorin og heyrist jafnframt mikið í Mývatnssveit. Hávellan er félagslynd og fremur spök, en óróleg og sífellt að fljúga upp eða kafa.
Hávella verpur aðallega á hálendinu, en einnig við sjávartjarnir og vötn á láglendi. Hreiðrið er venjulega nærri vatni, vel falið í gróðri og er fóðrað með miklum dúni. Urptin er 6‒9 egg, kollan liggur á í 26 daga og ungarnir verða fleygir á 5‒6 vikum. Þeir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið um leið og þeir eru orðnir þurrir. Steggir fella fjaðrir aðallega á sjó. Hávella dvelur á sjó á veturna, bæði við ströndina og á dýpra vatni þar sem hún lifir á svifi. Hún er eina öndin sem stundar slíkt.
Útbreiðsla og stofnstærð
Hávellan kýst helst kalt loftslag. Hún verpur við strendur heimskautalandanna á norðurhveli. Hér er hún að nokkru farfugl. Hún er mun algengari á láglendi norðanlands en sunnan. Á veturna sjást hér bæði íslenskir fuglar og vetrargestir frá norðlægari löndum. Hluti íslenskra fugla hefur vetursetu við Suðvestur-Grænland. Á fartíma og á veturna má sjá stóra hópa á sjó. Stofnstærð hávellu er talin vera 2000‒3000 varppör, um 110.000 á veturna. Hópar fugla sjást hér á vorin og eru þeir taldir vera fargestir á leið austur á bóginn. Hávella er nú bæði á heims- og Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU).
Þjóðtrú og sagnir
Hávellan er einn þeirra fugla sem segir nafnið sitt ‒ há-á-vella. Lítið er um hana í íslenskri þjóðtrú, helst að sjómenn telji það fyrir slæmu veðri, ef hún vellir mikið á sjó. Örnefnið Fóelluvötn á Sandskeiði er dregið af gömlu heiti hávellunnar. Á spænsku heitir hún Pato havelda, sem vekur athygli. Þó söngur hávellunnar sé fagur, hafa íslensk skáld ekki ort mikið um hana, en aftur á móti er hún kunn úr grænlenskum kveðskap.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.