Húsönd (Bucephala islandica)
Húsönd telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og gæsum, og allir tilheyra þeir sömu ættinni, andaætt. Húsönd telst til kafanda. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi, eftir að þeir verða fleygir að nýju.
Útlit og atferli
Húsöndin er meðalstór önd með sérkennilegt höfuðlag. Hún er einkennisfugl hinnar fuglaauðugu Mývatnssveitar. Í fjarlægð virðist steggurinn, karlfuglinn, dökkur að ofan en ljós að neðan. Hann er með blágljáandi svart höfuð með úfinn hnakka og bratt enni, hvítur hálfmánalagaður blettur er milli goggs og augna. Hann hefur hvítan háls, bringu, kvið og síður, svart bak og afturenda og röð af hvítum doppum á axlafjöðrum. Vængir eru svartir með hvítum speglum og hvítum miðþökum. Í felubúningi líkist hann kollunni, kvenfuglinum, en er með dekkra höfuð og gogg. Ungfugl er brúnn, blettur við goggrót er ógreinilegur. Kolla er með súkkulaðibrúnt höfuð, hvítan hálshring, dökkgráan búk og hvíta bringu, höfuðlag og vængmynstur svipað og á steggi. Stærðarmunur kynja er meiri en hjá flestum öðrum öndum.
Goggur steggs er stuttur, brattur og blásvartur að lit; svartur á kollu með meira eða minna gult við brodd. Bæði kyn eru með gulrauða fætur með dökkum fitjum og heiðgul augu. Augu ungfugla eru gulbrún. Hljóð húsandar er rámt garg.
Hvinur heyrist frá vængjum húsanda á flugi. Steggurinn er ákaflega aðsópsmikill og fjörugur í biðilsleikjum sínum, sem hann iðkar mestallan fyrri helming ársins. Hann helgar sér svæði á vatni og á oft í erjum við kynbræður sína. Er lipur sundfugl og heldur sig oft í talsverðum straumi. Húsöndin er félagslynd utan varptíma.
Lífshættir
Húsönd er dýraæta, kafar eftir botndýrum, fullorðnar húsendur lifa á margs konar krabbadýrum og mýlirfum, en ungar virðast þrífast best á bitmýslirfum.
Kjörlendi húsandar er lífrík stöðuvötn og lindár. Hún verpur í holum og gjótum í klettum og hrauni, stundum í þéttum gróðri, veggjum útihúsa og varpkössum. Hreiðrið er fóðrað með dúni. Felli- og vetrarstöðvar eru í sama kjörlendi, jafnframt á ferskvatni. Venjulega hefst varpið síðari hluta maí. Í köldum vorum seinkar varptímanum. Kollan verpur einu eggi á dag, en byrjar ekki að liggja á fyrr en hún er fullorpin. Urptin er 8-12 egg. Útungunartíminn er um það bil mánuður og sinnir kollan álegunni ein. Ungarnir verða fleygir á um 10 vikum.
Útbreiðsla og stofnstærð
Einu varpstöðvar húsandar í Evrópu eru á Norðausturlandi, aðallega við Mývatn og Laxá, en örfá pör verpa annars staðar, m.a. í Veiðivötnum og stundum við Þingvallavatn og Sog. Hún hefur vetursetu á varpstöðvunum og á íslausum vötnum og ám á Suðurlandi. Stofninn er talinn vera um 2000 fuglar. Kynjahlutfall er mjög skekkt, steggjum í vil og hlutfallslega fáar kollur verpa hverju sinni. Húsöndin er á válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands sem tegund í nokkurri hættu (VU). Hún er alfriðuð, en eggjataka er leyfð í Mývatnssveit. Meginvarpstöðvarnar húsandar eru í Klettafjöllum og í norðvesturhluta N-Ameríku, en hún finnst líka í NA-Kanada og varp til skamms tíma í SV-Grænlandi.
Hvinönd
Hvinönd (Buchephala clangula) er náskyld húsönd og fær hún nafn sitt af hvininum, sem heyrist í vængjum hennar og þeirra frænkna, þegar þær fljúga hjá. Á dönsku heitir húsöndin „islandsk hvinand“. Hvinöndin er árviss vetrargestur og er talið að fuglarnir komi frá Skandinavíu. Hún sést oft á ferskvatni með húsöndum og stundum á sjó. Oftast sjást fáeinar allt sumarið á Mývatni. Hvinöndum hefur fækkað hér á síðustu árum. Steggurinn er með kringlóttan blett við goggrót, ekki hálfmánalaga eins og húsönd, og höfuð er grængljáandi og hann er hvítari á hliðum. Kollan er mjög svipuð húsandarkollu, en höfuðlag er annað.
Þjóðtrú og sagnir
Nafn sitt dregur húsönd af því að verpa í húsum. Áður fyrr varp hún í hlöðnum veggjum torfbæja, en eftir að farið var að nota steinsteypu sem aðalbyggingarefni í Mývatnssveit, útbjuggu bændur hreiðurstæði fyrir hana með því að hafa göt á göflum útihúsa og setja upp varpkassa þar fyrir innan. Húsandaregg hafa verið nýtt frá landnámi og virðist sú nýting ekki hafa áhrif á stofnstærð húsandar, heldur skiptir fæða og veðurfar sköpum fyrir afkomuna.
Íslensk þjóðtrú er fátæk af sögnum um húsöndina, eins og um aðrar endur. Oft eru allar endur settar undir sama hatt. Þær hafa verið kallaðar spáfuglar vindanna og eru víða um lönd taldir áreiðanlegir veðurvitar. Það var haft á orði í Kröflueldunum 1975-84, að endur hafi orðið órólegar og fundið á sér þegar ný jarðskjálftahrina eða goshrina var að bresta á.
Kveðskapur
…
Eyjar og hólmar allir
anga af lífi frjóu,
vaxin hvönnum og viði
vernda sundþolna gesti.
Undir gulstör og grasi
geymir skúföndin hreiður,
hefur við klettinn hrjúfa
húsöndin fundið skúta.
Stendur við strangar flúðir
straumöndin fagurlita,
grávíðir humlagullinn
gætir duggandareggja.
…
Úr Laxá í Aðaldal eftir Kristbjörgu Freydísi Steingrímsdóttur.
Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.