Óðinshani (Phalaropus lobatus)
Útlit og atferli
Óðinshani er með allra síðustu farfuglunum sem birtist hér á norðurhjara. Hann er smávaxinn og fínlegur fugl á stærð við lóuþræl. Óðinshaninn er gráleitur að ofan, fremur dökkur á sumrin en ljósari á vetrum og ljós að neðan. Í sumarbúningi hefur hann breiðan, rauðgulan kraga um hálsinn og hvítan blett í kverkinni. Höfuð, afturháls og bringa eru annars grá. Bakið er dökkt með gulleitum langrákum. Litur kvenfuglsins er skærari en karlfuglsins. Hann er hvítur að neðan og með ljós vængbelti, gumpurinn er hvítur með svartri miðrönd sem nær út á grátt stélið. Síðsumars og á veturna er fuglinn ljósblágrár að ofan en hvítur að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka og afturhálsi; á baki svipaður og fullorðinn fugl í sumarbúningi. Svartur goggurinn er grannur og fíngerður og augun dökk. Fætur eru dökkgráir með sundblöðkum.
Óðinshaninn flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi. Hann liggur hátt í vatninu og skoppar á vatnsborðinu. Óðinshani er spakur fugl og félagslyndur utan varptíma.
Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi, en kerlan lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karl (fjölveri). Dömurnar safnast saman í hópa og frílista sig meðan karlarnir streða við uppeldið. Þessi femínismi er líka við lýði hjá hinum sundhönunum: þórshana og freyshana.
Lífshættir
Óðinshani hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi. Úti á sjó etur hann svif.
Algengur um land allt, einkum á láglendi, en finnst einnig víða á hálendinu. Uppáhaldsbúsvæði hans eru lífrík votlendi, t.d. gulstararflóð með tjörnum og kílum, og er þéttbýli mikið, t.d. í Mývatnssveit. Hreiðrið er dæld í þúfu, mosa eða sinu, ávallt vel falið. Er utan varptíma einkum við ströndina á sjávarlónum og tjörnum, en stórir hópar sjást einnig á sjó við landið. Hann hefur hér skamma viðdvöl. Úthafsfugl á veturna.
Vetrarstöðvar óðinshana voru hjúpaðar leynd þar til í fyrra, en þá endurheimtist fugl norður í Aðaldal, sem bar agnarlítinn gagnarita eða ljósrita. Hann gat sagt okkur að vetrarstöðvarnar væru útaf ströndum Perú og suðaustur af Galapagos eyjum. Ótrúlegt hvernig þessi litli fugl getur lagt slíkar vegalengdir að baki. Varpheimkynni hans eru víða um norðanvert norðurhvelið.
Þjóðtrú og sagnir
Lítil þjóðtrú virðist fylgja óðinshananum. Tvö önnur nöfn vekja athygli, hann er sums staðar kallaður skrifari vegna þess hvernig hann hringsnýst á pollum og tjörnum og virðist skrifa á vatnsborðið með goggnum. Nafnið torfgrafarálft er ögn langsóttara, þó hann hafi verið algengur á torfgröfum (mógröfum).
Óðinshaninn
Mín vegferð er vanrímað kvæði!
En í vatnsins spegilró
týnast óðar öll mín fræði,
svo ótt sem ég skrifa þó –
og þó – og þó?
Eftir Þorstein Valdimarsson
…
Og litlu neðar, einnig út við Sog,
býr Óðinshani, lítill heimsspekingur,
sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.
II
Hvað er að frétta, heillavinur minn?
—Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,
og öll mín fyrstu óðinshanakynni
áttu sér stað við græna bakkann þinn.
Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,
háttvís og prúð, og það er lítill vafi,
að hjónin voru amma þín og afi.
En hvað þið getið verið lík í sjón.
Já, gott er ungum fugli að festa tryggð
við feðra sinna vík og mega hlýða
bernskunnar söng, sem foss í fjarlægð þrumar.
Og megi gæfan blessa þína byggð
og börnum þínum helga vatnið fríða,
fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.
…
Hluti af Þremur ljóðum um lítinn fugl eftir Tómas Guðmundsson.