Sílamáfur (Larus fuscus)

Silamafur17a

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útliti og atferli

Sílamáfur líkist svartbaki en er allmiklu minni og nettari, enda var hann kallaður litli-svartbakur fyrr á árum. Fullorðinn sílamáfur er dökkgrár á baki og yfirvængjum, með áberandi dekkri vængbrodda, svarta með hvítum doppum. Er að öðru leyti hvítur á fiður. Ungfugl á fyrsta hausti er allur dökkflikróttur, dekkstur stóru máfanna, líkist silfurmáfi en handflugfjaðrir og stórþökur eru dekkri (enginn „spegill“ eins og á silfurmáfi), stélbandið er breiðara og gumpurinn hlutfallslega ljósari en á silfurmáfi. Búningaskipti á öðru og þriðja ári eru svipuð og hjá silfurmáfi og svartbaki, þeir lýsast að neðan og dökkna að ofan og fá fullan búning á fjórða ári. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri.

Sílamáfur á 2. sumri.

Sílamáfur á öðru sumri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fætur fullorðins sílamáfs eru gulir en ekki bleikir eins og á svartbaki. Goggur er gulur með rauðum bletti, augu ljósgul með rauðum augnhring. Ungfuglar á fyrsta ári eru með dökkbrúnan gogg og bleiklita fætur, á þriðja ári eru fætur ljósgulir.

Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúning og uns kynþroska er náð, eru afar flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Grámáfur er samheiti yfir unga, stóra máfa, en á ekki við neina eina tegund. Máfar skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin (ágúst−október) fella þeir allt fiður, en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vængir sílamáfs eru mjórri og odddregnari en svartbaks og ná lengra aftur fyrir stélið þegar hann fellir þá að búknum. Hann er léttur á sundi. Sílamáfur er félagslyndur og algengur í þéttbýli, hann er spakari en svartbakur. Hann sækir meira í skordýr en aðrir stórir máfar. Röddin er hærri en svartbaks, en dýpri en silfurmáfs.

Lífshættir

Sílamáfur er með fjölbreyttan matseðil, en sandsíli og annar smáfiskur er þar ofarlega á lista. Leitar meira ætis á landi en aðrir stórir máfar, tekur þá m.a. skordýr og orma og fer í berjamó á haustin. Önnur fæða er t.d. hræ, úrgangur, egg og fuglsungar.

Hann verpur í mólendi og graslendi, á áreyrum, holtum, söndum og uppi á fjöllum, oftast við ströndina, en einnig inn til landsins, stundum í félagsskap við svartbak og silfurmáf. Hreiðrið er gert úr mosa, sinu og öðrum gróðri, oft staðsett milli steina eða þúfna.

Varpland sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varpland sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfapar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfapar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hreiður sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hreiður sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur sílamáfsungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur sílamáfsungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varp sílamáfs hefst hérlendis í maí og verpur hann yfirleitt þremur eggjum. Ungarnir eru nokkuð sjálfbjarga þegar þeir klekjast og yfirgefa hreiðrið innan nokkurra daga en halda sig yfirleitt í grennd við það. Þeir verða fleygir á 30-40 dögum. Sílamáfar hefja varp að meðaltali fjögurra ára gamlir en geta orpið þriggja ára.

Heimkynni og ferðir

Sílamáfur er nýr landnemi á Íslandi Talið er að hann hafi fyrst orpið hér á landi á árunum upp úr 1920, en varp við sunnanverðan Faxaflóa hófst upp úr 1950. Nú finnst sílamáfur um allt land og fer honum fjölgandi, sums staðar á kostnað svartbaks að því er virðist. Stærsta varpið er á Miðnesheiði á Rosmhvalanesi, aðallega innan girðingar Keflavíkurflugvallar. Það náði 36.600 pörum árið 2004, en hefur væntanlega minnkað síðan vegna ætisskorts. Afkoma sílamáfs, eins og flestra annarra sjófugla á Suður- og Vesturlandi, hefur verið léleg undanfarinn áratug vegna skorts á sandsíli.

Sílamáfur er eini máfurinn sem er alger farfugl. Hann dvelur við strendur Pýreneaskaga og NV-Afríku á veturna. Heimkynni hans eru annars í V- og N-Evrópu, austur til Síberíu.

Sílamáfur í ætisleit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfur í ætisleit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorboðinn hrjúfi

Sílamáfurinn er venjulega fyrstur farfugla til að koma til landsins og er það oftast nær á góunni, meðalkomutími fyrstu fugla 1998-2013 var 25. febrúar. Hann er því fyrsti fleygi vorboðinn og hefur fengið viðurnefið vorboðinn hrjúfi. Þegar þessi orð voru sett á blað, 25. febrúar 2016, bárust fregnir af fyrsta sílamáfinum frá Helguvík á Suðurnesjum! Þetta sýnir hversu stundvísir og vanafastir fuglar geta verið.

Þjóðtrú og kveðskapur

Sílamáfurinn er svo nýr landnemi, að engin sérstök þjóðtrú hefur myndast um hann, ef undan er skilin sú óbeit sem margir hafa á þessum fallega fugli, vegna nálægðar hans við manninn. Sílamáfar eiga það til að ná í auðfengna fæðu, sem ekki er beint ætluð þeim: kjöt af grillum, brauð á Tjörninni, sorp á víðavangi, hangandi fisk … Hungrið gerir ekki „mannamun“.

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fuglinn í fjörunni

Fuglinn í fjörunni
hann heitir már.
Silkibleik er húfan hans
og gult undir hár.
Er sá fuglinn ekki smár,
bæði digur og fótahár,
á bakinu svartur, á bringunni grár.
Bröltir hann oft í snörunni,
fuglinn í fjörunni.

Theódóra Thoroddsen.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.