Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis)
Snjótittlingur tilheyrir lítilli ætt norrænna spörfugla (Calcariidae), sem er náskyld tittlingaættinni (Emberizidae), hópi smávaxinna spörfugla sem finnast víða um heim og eiga það sameiginlegt að vera fræætur. Eini náni ættingi snjótittlings sem sést hér á landi reglulega er sportittlingur (Calcarius lapponicus), en hann er varpfugl í Grænlandi og kemur hér við á ferðum sínum milli vetrarstöðva í Evrópu og varpstöðvanna. Hann hefur orpið hér stöku sinnum.
Útlit og atferli
Snjótittlingur er einkennisspörfugl á auðnum og í fjalllendi. Hann er fremur lítill, á stærð við steindepil (Oenanthe oenanthe). Karlfugl í sumarbúningi, sólskríkjan, er snjóhvítur, nema svartur á baki, axlafjöðrum og vængbroddum. Á veturna líkist hann kvenfugli. Á sumrin er kerlingin ljósbrún, ljósari að neðan, með dökkt bak, og yfirvængi með ljósum vængbeltum. Á veturna er hún svipuð en dauflitari. Hún er með rauðbrúnar kámur á höfði og bringuhliðum. Nýfleygir ungar eru allir gráleitir og án vængbelta. Annars eru hvítir vængreitir áberandi árið um kring á fljúgandi fuglum. Goggurinn er keilulaga, svartur á sumrin en gulur á veturna. Fætur eru svartir og augu dökk.
Flug snjótittlings er hratt og bylgjótt. Á veturna tyllir hann sér á steina, þök og línur, þó sjaldan í tré. Er afar félagslyndur á veturna en á sumrin eru pör eða fjölskyldur saman.
Söngurinn er hávær, hraður og hljómþýður, karlfuglinn syngur bæði sitjandi og á flugi. Á veturna gefa snjótittlingar frá sér ómþýtt tíst.
Lífshættir
Snjótittlingur er frææta, tekur melfræ og annað grasfræ, einnig ber. Á sumrin eru skordýr og áttfætlur mikilvæg og aðalfæða unganna. Þeir sækja í kornmeti, svo sem hveitikorn, kurlaðan maís og brauðmola, sem lagðir eru út fyrir þá á vetrum. Kornakrar, sérstaklega óslegnir, eru gnægtabúr á veturna.
Snjótittlingur er algengur til fjalla og á hálendinu en strjáll á láglendi, þar sem hann finnst helst við sjávarsíðuna. Verpur í grýttu landi og klettum, við ströndina og í eyjum og þar varpið óvíða þéttara. Hreiðrið er vandlega ofin karfa í glufu eða sprungu í bergi, eða í hlöðnum vegg. Verpur oft tvisvar á sumri. Urptin er 4–6 egg og varptíminn er frá miðjum maí. Ungarnir klekjast á 12–13 dögum og verða fleygir á svipuðum tíma. Síðustu ungarnir verða fleygir í byrjun ágúst.
Á veturna er snjótittlingurinn bæði við ströndina og inn til landsins, oft í stórhópum við mannabústaði eða á kornökrum. Snjótittlingur er ein af 3–4 fuglategundum, sem sést hér á hálendinu á veturna.
Útbreiðsla og ferðir
Hluti stofnsins hefur vetursetu í Skotlandi og grænlenskir fuglar eru far- og vetrargestir hér. Verpur annars á Norðurlöndum og víðar í löndunum umhverfis N-Íshafið, jafnt í Evrópu-, Asíu og Ameríku. Snjótittlingur er norðlægasti spörfugl í heimi.
Það er tilfinning margra sem fylgjast með fuglum, að snjótittlingi hafi fækkað á síðustu árum, bæði varpfuglum og vetrargestum. Því miður skortir rannsóknir til að staðfesta þetta, en leiða má líkur að því að svo norrænn fugl eigi undir högg að sækja á tímum loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar. Íslendingar bera ábyrgð á um 5% af Evrópustofni, þar sem Grænland er tekið með, en þar er talið að verpi meira en 10% af heimsstofninum. Íslenski varpstofninn er talinn 50.000–100.000 pör.
Þjóðtrú og sagnir
Þjóðtrúin geymir ekki margt um snjótittlinginn. Þó mun hann hafa spáð fyrir um veður. Það vissi á hríðarveður að snjótittlingar söfnuðust heim á bæi og tóku hraustlega til matar síns. Að sama skapi bar minna á þeim á undan hláku og hlýindum. Syngi sólskríkja á baðstofustrompinum, vissi það á sólskin og fallegt veður.
Kveðskapur
Sólskríkjan
Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein –
ó ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.
…
En sætust af öllum og sigrandi blíð
hún söng mér þar ljóðin um dalbúans næði,
um lundinn sinn kæra og lynggróna hlíð,
þó lítil og fátækleg væru þau bæði;
en svipurinn hýrnar, þér sýnast þau fríð
í syngjandi snjótittlings vornæturkvæði.
…
En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðinn.
Hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn, –
sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.
Eftir Þorsteinn Erlingsson.
Sólskríkjan mín syngur
Hún situr hérna stundum á grænni grein um kvöld,
og glaðlega hún syngur annað slagið,
og þegar nóttin kemur og friður fær sín völd,
ég flýg með henni inn í sólarlagið.
Ég veit að þegar haustar, hinn sæli söngur fer,
og sólskríkjan um myrkrið þarf að rata,
og svo í þrautum vetrar að nóttu mæta mér,
þær minningar sem ég mun aldrei glata.
Er vetrarskugginn hverfur, fær lífið nýjan lit,
með ljósi vaknar náttúrunnar kraftur,
og sólskríkjan mín kemur með vor og vængjaþyt,
þá vil ég fá að heyra sönginn aftur.
Eftir Kristján Hreinsson.
Sólskríkjan
Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini,
honum Páli Ólafssyni.
Eftir Pál Ólafsson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.