Stormsvala (Hydrobates pelagicus) og sjósvala (Oceanodroma leucorrhoa).

Stormsvala í Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Sjósvala í Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Að þessu sinni verður vikið frá þeirri venju að fjalla um eina fuglategund og teknar fyrir tvær. Þær frænkur, stormsvalan og sjósvalan, eru svo líkar um margt og báðar jafn dularfullar og illa þekktar af almenningi, að viðeigandi er að fjalla um þær saman. Þær ganga sameiginlega undir heitinu sæsvölur, en eru alls óskildar svölum eins og landsvölu og bæjasvölu.

Sæsvölur tilheyra ættbálki pípunasa eða stormfugla (Procellariiformes). Innan hans eru fjórar ættir: trosaætt (albatrosar), fýlingaætt (fýll, skrofa o.fl.), sæsvöluætt og kvökuætt (á ensku diving-petrels).

Útlit og atferli

Fuglar hafs og nætur“ eru dökkir, litlir sjófuglar. Varla er hægt að villast á þeim og öðrum sjófuglum, en þær líkjast hvor annarri. Stormsvala er minnsti sjófugl Evrópu, lítið eitt minni en sjósvala. Hún er brúnsvört, á stærð við snjótittling, en vænglengri. Stélið er þverstýft, gumpur er snjóhvítur, vængir dökkir að ofan en ljós rák á undirvæng. Ennið er mjög bratt og er eins og fuglinn sé með kýli framan á höfðinu. Sjósvalan er svipuð stormsvölunni að lit, en þó ögn ljósari. Hún er á stærð við skógarþröst, en með langa vængi, sýlt stél, hvítan gump með gráleitri, misáberandi rák í miðju og gráleitt belti á yfirvæng, en ekki undirvæng eins og stormsvala. Fullorðinn og ungfugl beggja eru eins. Goggur, fætur og augu beggja eru svört.

Stormsvala í Elliðaey.

Sjósvala í Elliðaey.

Á færi eru sæsvölurnar oftast best greindar sundur á fluglaginu. Flug sjósvölu er reikult, hún flögrar líkt og fiðrildi og breytir sífellt um hraða og stefnu. Flug stormsvölu er beinna og jafnara. Báðar eru einstaklega fimar og léttar á flugi. Stormsvala eltir oft skip úti á rúmsjó, en sjósvala sjaldan. Þær eru félagslyndar og verpa oft í stórum og þéttum byggðum. Sæsvölurnar eru einungis á ferli að næturlagi á varpstöðvum, þær sjást helst síðsumars utan þeirra, en þá eru ungfuglar á flakki milli varpstöðvanna við Atlantshaf. Sjósvölu hrekur stundum inn í land í sunnanstórviðrum á haustin, stormsvölu sjaldnar.

Hljóð þeirra frænkna er gjörólíkt. Stormsvalan er þögul utan varpanna. Gefur frá sér malandi kurr í holu, meðan hljóð sjósvölu eru margvísleg á varpstöðvum. Á flugi gefa fuglarnir frá sér hljóð sem minna á sérkennilegan hlátur. Þeir kurra í holum og er kurrið rofið af hærri hljóðum ásamt fyrrgreindum hlátri.

Stormsvala á flugi við Vestmannaeyjar.

Sjósvala á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Sæsvala í fæðuleit flýgur mjög lágt yfir haffleti með lafandi fætur, líkt og hún hlaupi á sjónum. Hún tínir upp átu (smávaxin krabbadýr í svifi sjávar), lýsisagnir, smáan fisk og úrgang frá fiskiskipum. Sjósvalan er meira í ætisleit á næturnar en stormsvalan. Ólíkt flestum fuglum virðast þær hafa óvenju næmt lyktarskyn, eins og aðrir pípunasar, og nota svölurnar það bæði til að finna fæðu og rata í hreiðurholuna að næturlagi.

Báðar eru úthafsfuglar og eyða ævinni á rúmsjó og koma aðeins í land til að verpa. Varpið tekur langan tíma og unginn er lengi í hreiðri. Hér á landi verpur stormsvala í holur og sprungur í klettum og lagskiptum hraunum, svo og undir steinum í urðum. Sjósvala gerir sér hreiður í botni djúprar holu, sem hún grefur í jarðveg. Hún grefur sig oft inn úr lundaholum eða meðfram steinum og klettum, þar sem grassvörðurinn er ekki eins þéttur. Báðar verpa einu eggi og er útungunartíminn um 7 vikur. Ungarnir verða fleygir á 9-10 vikum. Sjósvala byrjar að verpa í maílok, en stormsvala um miðjan júní. Það getur teygst úr varptímanum beggja, sjósvöluungar verða stundum fleygir seint í október og stormsvöluungar alveg fram eftir nóvember, stöku sinnum í desember. Þær verpa seinna utan Eyja, sennilega til að forðast afrán. Sæsvölur eru einkvænisfuglar og geta orðið gamlar, þær elstu hér á landi hafa náð fertugsaldri.

Stormsvala á varpstað í hrauni í Elliðaey.

Stormsvöluungi í Elliðaey.

Ungfuglar beggja flakka á milli varpa í Norður-Atlantshafi og er yfirferðin oft mikil. Stormsvala merkt hér fannst viku síðar í Lofoten í Noregi. Auk þess er samgangur stormsvala við vörp í Færeyjum og Bretlandseyjum og geldfuglar merktir í Portúgal hafa fundist hér. Sjósvala frá Maine í Bandríkjunum hefur fundist í sjósvöluvarpi í Eyjum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Höfuðvígi beggja sæsvalnanna er í Vestmannaeyjum. Stærsta stormsvöluvarpið er í Elliðaey, en hún hefur auk þess fundist í Bjarnarey og Brandi. Hún verpur einnig í Skrúð og Papey og hefur orpið í Ingólfshöfða. Erfitt er að meta varpstofn stormsvölu, en hann er talinn vera 75.000-100.000 pör. Stormsvalan er evrópsk, verpur í Færeyjum og á Bretlandseyjum og með ströndum V-Evrópu suður til Miðjarðarhafs.

Stærstu sjósvölubyggðir heims eru við Nýfundnaland og í Kyrrahafi. Sjósvala er sjaldgæf austanhafs og stærstu byggðir hennar í Evrópu eru í Elliðaey og Álsey í Vestmannaeyjum. Þar verpur hún í flestum eyjum þar sem lundavarp er, en þó varla á Heimaey. Hefur orpið í Ingólfshöfða og grunur er um varp í Skrúð og e.t.v. víðar. Stofninn er talinn vera hátt í 200.000 pör.

Vetrarstöðvar beggja eru í Suður-Atlantshafi.

Sjósvala í Elliðaey.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú er fámál um sæsvölurnar, enda sáust þær varla nema að næturlagi í Vestmannaeyjum og helst af lundaveiðimönnum. Það er ekki nema tæp öld síðan stormsvalan var staðfest verpandi hér. En dularfullir hættir þeirra og draugaleg hljóðin ættu að gefa þjóðtrú byr undir báða vængi, eins og raunin er sums staðar erlendis.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.