Þúfutittlingur (Anthus pratensis)
Útlit og atferli
Þúfutittlingur er algengasti spörfugl landsins. Hann er stundum nefndur grátittlingur eða jafnvel götutittlingur. Hann er einn af okkar bestu söngfuglum og minnir söngflug hans á hinn rómaða lævirkja.
Þúfutittlingur er minni en snjótittlingur, hálsstuttur, með breiða, stutta vængi og fremur kubbslegur. Hann er einkennasnauður fugl, grágrænn, grábrúnn eða gulbrúnn að ofan. Hann er svartrákóttur að ofan, á bringu og síðum, ljósari á kverk og að neðan. Á höfði er hann með ljósa brúnarák og skeggrák og dauf vængbelti, hvítir stéljaðrar eru greinilegir á flugi. Á haustin eru ungfugl og fullorðinn fugl rákóttari að ofan og gulari á síðum.
Goggur er dökkur, grannur og stuttur. Fætur ljósir, bleikbrúnir og augu dökkbrún. Fótur spörfugla er svonefndur setfótur, en goggurinn er lagaður að fæðunni. Skordýraætur (t.d. maríuerla, þúfutittlingur, músarrindill og þrestir) hafa grannan gogg. Fræætur (t.d. snjótittlingur og auðnutittlingur) eru keilunefir, með stuttan og þykkan gogg.
Flug þúfutittlings er reikult og flöktandi. Hann flýgur stundum beint upp í loftið, lætur sig falla niður aftur á svifflugi og syngur um leið hraðan, dillandi söng. Gefur annars frá sér mjóróma tíst. Hann flögrar mikið um og tyllir sér á þúfur eða í tré þess á milli, er félagslyndur utan varptíma.
Lífshættir
Þúfutittlingur er dýraæta, etur margs kyns smádýr, bæði fullvaxin og á lirfu- og púpustigi. Etur stundum fræ og smávaxin skeldýr.
Varpkjörlendið er margvíslegt; mýrar, lyngheiðar, grasmóar, kjarr- og skóglendi, gróin hraun o.fl. á láglendi og sums staðar á hálendinu. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, vel falda utan í þúfu eða öðrum gróðri. Verpur oft tvisvar á sumri. Hann sækir í fjörur, mýrar og jafnvel húsagarða utan varptíma.
Útbreiðsla og ferðir
Þúfutittlingurinn er alger farfugl og útbreiddur um land allt, þar sem búsvæði hans er að finna, og er hann talinn algengasti landfuglinn okkar, með stofnstærð á milli 500.000 og 1.000.000 varppör. Stöku sinnum sjást fuglar hér að vetrarlagi. Hann hefur vetursetu frá SA-Englandi, suður um Vestur-Frakkland og Spán, suður til NV-Afríku. Þúfutittlingur er annars algengur varpfugl í Evrópu og austur til Síberíu.
Þjóðtrú og sagnir
Í íslenskri þjóðtrú þótti það vísa á gott ef smáfugl hljóp á veginum á undan lestarmanni, eins og siður er þúfutittlinga. Þó var ekki öll þjóðtrú jafn jákvæð í garð þúfutittlingsins. Hann hefur þótt valda undirflogum (júgurmeinum) af líkum orsökum og steindepill. Hann er sagður fljúga aftan í örninn og bíta sig þar fastan. Sumir sögðu hann flygi út um munninn og dræpi báða (Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI, Sigfús Sigfússon).
Grátittlingurinn
…
Kalinn drengur í kælu
á kalt svell, og ljúft fellur,
lagðist niður og lagði
lítinn munn á væng þunnan.
Þíddi allvel og eyddi
illum dróma með stilli
sem að frostnóttin fyrsta
festi með væng á gesti.
…
Lítill fugl skaust úr lautu,
lofaði guð mér ofar,
sjálfur sat eg í lautu
sárglaður og með tárum.
Felldur em eg við foldu
frosinn og má ei losast;
andi guðs á mig andi,
ugglaust mun eg þá huggast.
Jónas Hallgrímsson
Tittlingur í mýri
Tittlingar í mýri
tína strá og ber,
lifa og leika sér
og eignast ævintýri.
…
Bærinn hola í barði.
Búskapurinn vex,
eggin urðu sex,
líkust lambasparði.
…
Tittlingur í mýri
tínir berin blá,
kemur hann heim á kvöldin
og kúrir mér hjá.
Örn Arnarson
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.