Náttúrufræðingurinn, 1.–2. hefti 87. árgangs er komið út. Að venju er í tímaritinu fjölbreytt og spennandi efni um rannsóknir á íslenskri náttúru.
Ferðamannastraumurinn hefur áhrif á efnisval í Náttúrufræðingnum eins og aðrar greinar mannlífsins á Íslandi um þessar mundir. Forsíðugreinin er um rannsókn sem gerð var á sjö stöðum á landinu þar sem virkjanir eru til skoðunar um Viðhorf ferðamanna til raflína í náttúru Íslands. Flestir ferðamenn koma til landsins vegna náttúrunnar og því þarf að vanda til verka þegar ásýnd hennar er breytt. Niðurstöður sýna að raflínur þykja meðal óæskilegustu mannvirkja og telja fæstir þær eiga heima á víðernum. Þá hefðu fyrirhugaðar raflínur neikvæð áhrif á áhuga meirihluta ferðamanna á að ferðast um svæðin í framtíðinni. Fram kom töluverður munur á viðhorfum eftir þjóðerni og var andstaðan við raflínur mest meðal íslenskra ferðamanna. Höfundar eru Þorkell Stefánsson og Anna Dóra Sæþórsdóttir.
Vaxandi ferðamannastraumi fylgja miklar áskoranir fyrir náttúruvernd á Íslandi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson sem ritar leiðarann Ferðaþjónusta og náttúruvernd telur að langtímahagsmunir náttúruverndar og ferðaþjónustu fari saman. Hann bendir á nokkur atriði sem hægt er að beita til að bregðast við álagi á helstu ferðamannastaði og viðkvæma náttúru. Meðal þess sem hann nefnir er vandaðri uppbygging göngustíga og annarra innviða, ítölu eða takmörkun á aðgangi að viðkvæmustu stöðunum, uppbyggingu utan verndarsvæða en inni inni á þeim miðjum og loks hvetur hann til þess að friðlýsing sé nýtt sem stjórntæki í ferðaþjónustu.
Ískóð er sennilegast algengasta fisktegundin í Norður-Íshafinu en þessi smávaxna þorskfiskategund gegnir mikilvægu hlutverki í fæðuvef Íshafsins, étur dýrasvif og er fæða annarra fiska sjávarspendýra og fugla. Ólafur S. Ástþórsson gerir grein fyrri rannsóknum á ískóði við Ísland og byggir á gögnum sem safnað hefur verið á vegum Hafrannsóknastofnunar allt frá árinu 1974. Greinin nefnist Lífshættir ískóðs við Ísland.
Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson rita grein um gliðnunina sem varð í eldstöðvakerfi Bárðarbungu 2014-2015 og eldgos sem henni tengdust. Slíkir atburðir eru sjaldgæfir en þekkjast frá Íslandi og austanverðri Afríku og en við þá myndast sprungusveimar eins og þeir sem sjást á Þingvöllum og í Gjástykki. Sprungusveimar eru ílöng svæði sem tengjast oft megineldstöð. Þeir eru taldir myndast þegar kvikugangar skjótast grunnt inn í jarðskorpuna, hún tognar í sundur, gamlar sprungur hreyfast og nýja myndast. Greinin nefnist: Sprungusveimar Norðurgosbeltisins og umbrotin í Bárðarbungu 2014-2015.
Af öðru efni má nefna grein um Lognið eftir Harald Ólafsson, Jón Einar Jónsson varpar fram spurningu um hvort tengsl séu milli æðarvarps og loðnugengdar, Jóhann Örlygsson og Sean Micael Scully skýra frá tilraunum með framleiðslu vetnis með hitakærum bakteríum, Helgi Hallgrímsson skrifar um heimsins minnsta tré – grasvíðinn og Bergþóra Sigurðardóttir segir frá forvitnilegum jarðmyndunum á Hvítanesi í Ísafjarðardjúpi þar sem ekki er allt sem sýnist.
Þá er í heftinu ritfregn um bók Harðar Kristinssonar Íslenskar fléttur, auk ársreikninga og skýrslu stjórnar HÍN fyrir árið 2016.
Þetta er 1.-2. hefti 87. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 88 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir. Að jafnaði eru gefin út 4 hefti á ári. Félagsgjald – og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.
Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.
Eldri hefti: