Eldar í Öskjukerfi

mynd_33.-4. hefti 86. árgangs Náttúrufræðingsins er komið út. Í forsíðugreininni, Eldar í Öskjukerfi fyrir um 11 þúsund árum, segir frá rannsókn Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, á lengstu gígaröð landsins, Sveina- og Randarhólagígaröðinni í norðanverðu Öskjukerfinu, en hún er um 75 km löng. Óvissa hefur ríkt um aldur gígaraðarinnar og Sveinahrauns sem frá henni rann, en nýverið tókst með hjálp gjóskulaga að tímasetja hraunið og fá fram áreiðanlega tímasetningu gossins. Jafnframt leiddu rannsóknirnar í ljós að gosið var liður í mikilli umbrotahrinu í Öskjukerfinu í upphafi nútíma – og að þeir atburðir líkjast um margt umbrotunum í Öskjukerfinu á 19. öld.

fnjoskadalurNý úttekt á útbreiðslu birkis og ástandi þess fór fram 2010–2014, sú þriðja í röðinni, og leiðir í ljós að náttúrulegt birki á Íslandi hefur verið í töluverðri sókn á síðustu áratugum eftir margra alda hnignunarskeið. Höfundar greinarinnar eru: Arnór Snorrason skógfræðingur, Björn Traustason, Bjarki Þór Kjartansson, Lárus Heiðarsson, Rúnar Ísleifsson og Ólafur Eggertsson.

PISA könnunin frá 2015 bendir til þess að læsi 15 ára nemenda í náttúruvísindum hafi hrakað. Doktor Auður Pálsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands ritar leiðarann að þessu sinni og nefnir: Viðbrögð við PISA 2015 – Reynsla skiptir máli.

jorundurHraunhellar hafa mikið aðdráttarafl en vaxandi ágangur, sem m.a. má rekja til nákvæmra upplýsinga um hvar spennandi hella er að finna, hefur orðið til þess að sumir þekktustu hellar landsins eru nú rúnir öllu skrauti sínu og fegurð. Árni B. Stefánsson og Gunnhildur Stefánsdóttir hafa stundað hellamennsku hér heima og erlendis um árabil. Í grein þeirra, Surtshellir í Hallmundarhrauni, er sagt frá könnun Surtshellis fyrr á öldum, en einnig frá rannsókn sem þau gerðu á brotstöðum dropsteina í Stefánshelli og Víðgelmi. Dropsteinar og dropstrá voru friðlýst 1958 og 1974. Engu að síður heldur eyðilegging hella á Íslandi áfram.

Af öðru efni má nefna grein um samlífi sæfífils og rækju sem neðansjávarljósmyndir varpa ljósi á. Höfundar eru Ingibjörg G. Jónsdóttir og Steinunn H. Ólafsdóttir, líffræðingar; Sveinbjörn Björnsson fyrrverandi háskólarektor ritar um radon í hveragasi og bergi, en rannsóknir á radoni hófust á Íslandi 1904 aðeins fjórum árum eftir að þetta geislavirka eðalgas fannst fyrst; Snævarr Guðmundsson landfræðingur og stjörnuáhugamaður hefur mælt fjarlægð fastastjörnunnar 61 Cygni frá Íslandi, Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur segir frá sérkennilegum fyrirbærum í íslenskri náttúru sem nefnast stallabrekkur eða paldrar. Loka má nefna ritrýni Hrefnu Sigurjónsdóttur um stórvirkið Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar eftir Snorra Baldursson sem kom út hjá Forlaginu 2014.

Austurveggur Jökulsárgljúfurs, skammt norðan við Hafragilsfoss prýðir forsíðu heftisins.

Þetta er 3.–4. hefti 86. árgangs Náttúru-fræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 88 bls. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.
Að jafnaði eru gefin út 4 hefti á ári.
Félagsgjald – og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón. Tekið er við nýjum félögum á netfanginu hin@hin.is og við greinum um náttúrufræðilegt efni á netfanginu ritstjori@hin.is

Hér má nálgast efnisyfirlit nýja heftisins

Eldri hefti:

86. árg. 1–2. hefti 2016

85. árg. 1–2. hefti 2015 

85. árg. 3–4. hefti 2015

84. árg. 3–4. hefti 2014