Náttúrufræðingurinn – árgangar

Nýr Náttúrufræðingur, 3.–4. hefti 87. árgangs, er kominn út. Að venju er í tímaritinu fjölbreytt og spennandi efni um rannsóknir á náttúrufari á Íslandi.

Kúskelin Hafrún prýðir forsíðu Náttúrufræðingsins. Hún var 507 ára og á lífi þegar hún var veidd 2006.

Hafrún 1499–2006  

Í forsíðugrein er fjallað um Hafrúnu – elsta lifandi dýr jarðar, kúskel sem veiddist á um 80 m dýpi í júní 2006 vestur af Grímsey. Hafrún var fryst um borð í Bjarna Sæmundssyni og þegar hún var rannsökuð nánar kom í ljós að hún var 507 ára gömul þegar hún var veidd og hafði klakist árið 1499! Rannsóknir á efnasamsetningu Hafrúnar og 28 annarra kúskelja af Íslandsmiðum hafa leitt í ljós mikilsverðar upplýsingar um ástand sjávar undan norðurströnd Íslands þúsund ár aftur í tímann. Rannsóknirnar eru undirstaða skeljatímatals sem er gagnagrunnur sem skráir breytingar frá ári til árs allan þann tíma, m.a. um hafstrauma á Norðurhveli. Skeljatímatalið er mikilvægur grunnur til rannsókna á hlýnun jarðar. Kúskelin er kennd við Ísland og nefnist Arctica islandica á fræðimáli. Hún er algeng við strendur Íslands. Höfundar eru Jón Eiríksson, James D. Scourse, Paul G. Butler, David J. Reynolds og Leifur A. Símonarson.

Sullaveiki og fleiri bandormar

Skýringarmynd af lífsferli sullaveiki-bandormsins. Ormurinn lifði fullorðinn í hundum en sullurinn í sauðfé og þroskaðist einnig í mönnum.

Um miðja nítjándu öld er talið að 20% landsmanna hafi þjáðst ef sullaveiki sem olli miklum sársauka og oft dauða. Sullaveikibandormurinn Echinococcus granulosus lifði fullorðinn í hundum, en sullurinn lifði í sauðfé og nautgripum og þroskaðist auk þess í mönnum. Markvissar varnar- og útrýmingaraðgerðir urðu til þess að tegundinni og þremur öðrum bandormum sem lifðu í hundum var útrýmt á Íslandi uppúr miðri síðustu öld. Síðustu tilfellin í fólki komu í ljós 1984–1988 og hafði yngsti sjúklingurinn smitast á sjötta áratug aldarinnar. Karl Skírnisson rekur sögu þessa skæða sníkjudýrs og annarra bandorma sem fundist hafa í landspendýrum á Íslandi að fornu og nýju.

Lúpína á verndarsvæði Mývatns og Laxár

Lúpína breiðir úr sér við Sandavatn 2017.

Á undanförnum árum hefur alaskalúpína Lupinus nootkatensis breiðst hratt út um bakka Sandvatns ytra norðvestan við Mývatn og síaukin hætta er á að fræ hennar dreifist enn frekar með vatninu. Aagot Vigdís Óskarsdóttir leiðir líkur að því m.a. á grunni loftmynda að útbreiðslu lúpínunnar megi rekja til landgræðsluverkefnis á Hólasandi norðan við verndarsvæði Mývatns og Laxár. Þar hófst landgræðsla um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og settu stjórnvöld skilyrði fyrir verkefninu, m.a. í þeim tilgangi að hindra að lúpína bærist út fyrir landgræðslusvæðið. Rannsóknin er fyrst og fremst lögfræðileg og fellur undir svið umhverfisréttar og stjórnsýsluréttar. Fjallað er um löggjöf um verndarsvæði Mývatns og Laxár og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist vegna þessa einstaka landsvæðis. Er niðurstaða höfundar sú að Landgræðsla ríkisins hafi að verulegu leyti vanrækt þær skyldur sem á stofnunina voru lagðar í þeim tilgangi að verja verndarsvæði Mývatns og Laxár og að Umhverfisstofnun hafi ekki sinnt eftirliti sem skyldi. Brýnt sé að bregðast hratt við til að forða frekara umhverfistjóni.

Neysluvatn eða háspennulínur?

Loftmynd sem sýnir sínkmengun frá háspennu-mastri en línan liggur yfir mosavaxið hraun á vatnsverndarsvæðinu ofan Heiðmerkur.

Hreint og gott neysluvatn er auðlind sem þéttbýlið á höfuðborgarsvæðinu byggist á. Nú stendur til að reisa nýja háspennulínu yfir hluta vatnsverndar-svæða Reykjavíkur og fjallar Sigmundur Einarsson í leiðara um þau áform sem hann segir enga þörf fyrir. Hann gagnrýnir að hvorki sveitarfélög né ríki hafi gert athugasemdir við þessa fyrirhuguðu framkvæmd.

Af öðru efni í ritinu má nefna grein um Hettumáfa í Eyjafirði eftir Sverri Thorstensen og Ævar Petersen en rannsóknir benda til að áralöng fækkun tegundarinnar þar sé á enda,  Tómas Jóhannesson og Ragnar Heiðar Þrastarson kynna nýtt landlíkan af Íslandi, ArcticDEM og sýna dæmi um nýtingu þess við mælingar á hopi jökla. Þá ritar Helgi Hallgrímsson um vatnaþörunga, sem urðu utanveltu í Botany of Iceland. í ritinu er einnig að finna minningarorð um Guttorm Sigbjarnarson jarðfræðing og fyrrum framkvæmdastjóra Hins íslenska náttúrufræðifélags.

Þetta er 3.–4. hefti 87. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjórar þessa heftis eru Álfheiður Ingadóttir líffræðingur og Sigmundur Einarsson jarðfræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald – og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.

Eldri hefti:

87. árg. 1-2. hefti 2017

86. árg. 3–4. hefti 2016

86. árg. 1–2. hefti 2016

85. árg. 3–4. hefti 2015

85. árg. 1–2. hefti 2015 

84. árg. 3–4. hefti 2014