Straumönd

Straumönd

Straumönd (Histrionicus histrionicus)

Heimkynni straumandar eru straumharðar lindár og brimasamar strendur. Hún er smávaxin, hálsstutt og dökk kafönd með hátt enni og fleyglaga stél. Steggurinn er afar skrautlegur. Grunnliturinn er dökkblár og er hann alsettur hvítum, svartjöðruðum rákum. Síður og kollhliðar eru rauðbrúnar, vængir dökkir með lítt áberandi, stuttum, hvítum vængreitum, axlafjaðrir með hvítum langrákum. Steggur í felubúningi og ungfugl eru móskulegri en þó vottar fyrir litamynstri í þeim. Kolla er öll svarbrún, með hvíta bletti á hlustarþökum og milli augna og goggs, ljós á kviði. Goggur er stuttur, blýgrár, fætur grábláir (steggur) eða grænleitir (kolla). Augu eru brún.

Straumandarpar í iðukasti á Laxá í Mývatnssveit.
Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.
Straumönd flýgur hratt með hröðum vængjatökum og veltum lágt yfir vatnsfleti. Hún flýgur sjaldan yfir land en fylgir ám og þræðir þá hverja bugðu árinnar og fer jafnvel undir brýr. Straumöndin er mjög fimur sundfugl og getur synt bæði í hörðum straumi og brimi og kafað eftir æti í hvítfyssandi iðuna. Skrautbúningur steggjanna fellur oft ágætlega inn í umhverfið, svo að erfitt getur verið að koma auga á endurnar. Straumöndin sperrir oft stélið á sundi og rykkir til höfðinu. Hún er spök og félagslynd, er utan varptíma oftast í litlum þéttum hópum. Kollan sér um útungun og uppeldi unga, meðan steggurinn fer til sjávar til að fella flugfjaðrir, oftast upp úr miðjum júní.

Steggur gefur frá sér lágt blístur en kolla hrjúft garg, er þó yfirleitt þögul.

Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.
Straumönd stingur sér á kaf í iðukasti.
Straumandarpar á góðri stundu á Laxá í Mývatnssveit.

Lífshættir

Straumöndin er dýraæta. Sumarfæða hennar er fyrst og fremst bitmýslirfur og púpur, sem hún kafar eftir í straumvatni, einnig rykmýs- og vorflugulirfur. Á sjó er fæðan ýmis smádýr: þanglýs, marflær, kuðungar og skerar.

Straumönd heldur sig á sumrin við straumharðar lindár og útföll úr stöðuvötnum þar sem nóg er af bitmýi. Hreiðrið er á árbökkum eða í hólmum, vel falið milli steina eða í gróðri. Hún verpur 4–8 eggjum í dúnklætt hreiður, útungun tekur um 4 vikur og ungarnir eru lengi á ánni, þeir verða fleygir á 9–10 vikum. Utan varptímans dvelur straumöndin við brimasamar klettastrendur (brimdúfa).

Straumendur við Tunguós á Snæfellsnesi.

Straumandarkolla með hálfstálpaða unga á Laxá í Mývatnssveit.
Ungi fær salibunu með mútter á Laxá í Mývatnssveit.
Straumandarpar við Laxá í Laxárdal.

Útbreiðsla og stofnstærð

Straumöndin er staðfugl. Einu varpstöðvar hennar í Evrópu eru hér á landi en hún finnst annars austast í Síberíu, á Grænlandi og við norðanverða vestur- og austurströnd N-Ameríku. Hér finnst hún um allt land þar sem búsvæði hennar er að finna, lífríkar lindár. Oft gerir hún sér að góðu væna læki ef þar þrífst bitmý. Stöku sinnum sjást straumendur á lífríkum ám á veturna, eins og á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og Sogi. Varpstofninn er talinn vera 3000–5000 pör og vetrarstofninn um 14.000 fuglar.

„Brimdúfur“ við Hafnir á Suðurnesjum.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og á við um aðrar endur “Líkt og á við um aðrar endur kemur straumöndin ekki oft fyrir í íslenskri þjóðtrú þrátt fyrir skrautlegt yfirbragð og sérkennilega lífsháttu. Ef þú hefur þurrkað höfuð af straumandarstegg í fórum þínum á það að verja þig „öllu illu eðli og ónáttúru“. Þekkt er sagan af spurningu á prófi í barnaskóla nokkrum um miðja síðustu öld, þar sem spurt var hver væri fallegasti fuglinn. „Rétta“ svarið var straumönd og rangt var gefið fyrir önnur svör. Árið 1817 fórst áttæringur sem hét Straumönd með 12 manns innanborðs á leið frá Grímsey til lands. Nokkuð hefur verið skrifað og ort um þann atburð.

Straumönd þrautfleyg áir á,
uppheims brautum norðar.
Setin laut og sundfær á,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.söngla í skauti storðar.

Úr Hörpu eftir Stephan G. Stehansson

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson