Flóra Íslands á Degi íslenskrar náttúru

Margir kannast efalaust við Flóru Íslands, vatnslitamyndina sem Eggert Pétursson listmálari málaði að beiðni Hins íslenska náttúrufræðifélags og gefin var út á veggspjaldi 1985. Nú að  30 árum liðnum hefur Náttúruminjasafn Íslands haft forgöngu um að gefa veggspjaldið út í fjórða sinn, en frummyndin sem er í eigu HÍN, er í vörslu safnsins.

Flóra Íslands 70x50 cm, útgefandi CRYMOGEA / FOLDA.

Nýja veggspjaldið, Flóra Íslands er 70×50 cm að stærð, útgefandi er CRYMOGEA/FOLDA.

Veggspjaldið prýða 63 tegundir íslenskra háplantna sem lætur nærri að vera um 15% af öllum tegundum villtra háplantna sem vaxa á Íslandi. Tegundunum á myndfleti Flóru Íslands er skipt í fjóra hópa með hliðsjón af því við hvaða skilyrði þær lifa: 1) Holta- og melagróður (14 tegundir), 2) móa- og graslendisgróður (27 tegundir), 3) votlendisgróður (9 tegundir) og 4) blómlendisgróður (12 tegundir). Til hliðar við myndina eru íslensk, ensk og latnesk tegundarheiti.

Frumgerð Eggerts er nú sýnd opinberlega í fyrsta sinn á sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu og er gerð skil í sýningarskrá á bls. 67. Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, miðvikudaginn 16. september verður kynning á spjaldinu í Lestrarsal Safnahússins kl. 12 á hádegi. Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í sjötta sinn og er að vinna sér fastan sess í haustdagskrá landans, eins og sjá má af því að margir viðburðir eru í boði að þessu sinni.

Veggspjaldið er til sölu í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr. Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is

 

 

– Vona að skýrslan marki nýtt upphaf fyrir Náttúruminjasafnið

“Þessi niðurstaða kemur í sjálfu sér ekki á óvart og ég vona að skýrslan verði til þess að stjórnvöld taki nú af skarið og marki framtíðarstefnu fyrir safnið. Þannig gæti hún markað nýtt upphaf fyrir Náttúruminjasafn Íslands,” segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins um skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í gær. “Það er margt sem er jákvætt í starfseminni – í fyrsta sinn tekur safnið nú þátt í samsýningu sex safna þar sem m.a. geirfuglinn er til sýnis í Safnahúsinu og gerður hefur verið samstarfssamningur milli Náttúrufræðistofnunar og safnsins um útlán og eftirlit með safnmunum. Ég hef enn von um að samstarf megi takast um myndarlega náttúrufræðisýningu í Perlunni, en klukkan tifar og það má ekki dragast mikið lengur að taka ákvörðun um það. Eins er skrifstofuaðstaða safnsins í óvissu hér í Loftskeytastöðinni, húsaleigusamningnun hefur verið sagt upp og aðeins 2 mánuðir til stefnu,“ segir Hilmar.

Ríkisendurskoðun2

Eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar um Náttúruminjasafn Íslands var birt í gær, en þrjú ár eru liðin frá því stofnunin gerði úttekt á stöðu safnsins. Þá var niðurstaðan sú að svo illa væri að safninu búið að það næði ekki að uppfylla skyldur sínar sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Í eftirfylgniskýrslunni segir að staðan hafi lítið breyst: Starfsemin hafi glæðst, en eftir sem áður sé safnið rekið af vanefnum og án formlegrar stefnu af hálfu stjórnvalda. Þá séu húsnæðismálin í mikilli óvissu; engin aðstaða til sýningarhalds og skrifstofuhúsnæði safnsins í Loftskeytastöðinni hefur verið sagt upp.

Niðurstaða eftirfylgniskýrslunnar er þessi: ”Ríkisendurskoðun hvetur til þess að safninu verði sett skýr framtíðarstefna sem bæði mennta- og menningarmálaráðuneyti og Alþingi styðji í verki. Að öðrum kosti hljóti að koma til álita að leggja safnið niður sem sérstaka stofnun og koma starfseminni fyrir með öðrum hætti.”

Þá telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að lög kveði skýrar á um hlutverk og skyldur Náttúruminjasafns og Náttúrufræðistofnunar Íslands en í skýrslunni kemur fram að “enn séu hnökrar” á samstarfi stofnananna.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

“Í fyrri skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2012 vour tíundaðir þrír megin vankantar í starfsemi höfuðsafnsins”, segir Hilmar. “Aðallega var fundið að því að hve fjárveitingar ríkisvaldsins til Náttúruminjasafnsins væru takmarkaðar, að safnið starfaði ekki samkvæmt formlegri stefnu og að miklir samskiptaerfiðleikar væru milli safnsins og Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem lögum samkvæmt á að vera vísinda- og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins.

Úr síðastnefnda atriðinu hefur verið bætt að miklu leyti og m.a. undirritaðir þrír samstarfssamningar milli stofnananna. Varðandi stefnuna var tekin sú ákvörðun haustið 2013 að bíða með að fullvinna hana þar til fyrir lægi niðurstaða um hugsanlegt sýningahald Náttúruminjasafnsins, Reykjavíkurborgar og fjárfestisins Landsbréf ITF I í Perlunni. Niðurstaða varðandi Perluna liggur ekki endanlega fyrir. Eftir stendur að aðalvandi Náttúruminjasafnsins, takmarkaðar fjárveitingar, er óleystur. Árlegar fjárheimildir safnsins undanfarin þrjú ár hafa verið aðeins um 24 m.kr. sem dugar engan veginn til að safnið geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum með viðunandi hætti.

Staða Náttúruminjasafnsins er vissulega ekki glæsileg en það er voanandi að eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar verði til þess að brýna menn til dáða. Þjóðin og gestir landsins eiga ekki annað skilið en að eignast safn þar sem staðið er að sýningahaldi og miðlun upplýsinga og fróðleiks um einstaka náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Við reiðum okkur í svo miklum mæli á auðlindir náttúrunnar að fræðsla um hana er grundavallaratriði ef við ætlum að tryggja komandi kynslóðum heilnæma, gefandi og fagra framtíð.”

 

Safnadagurinn 2014 – sunnudaginn 13. júlí

Íslenski safnadagurinn í ár verður haldinn hátíðlegur víða um land sunnudaginn 13. júlí 2014. Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) heldur utan um dagskrá safna þennan dag og hér má lesa dagskrána eins og hún lítur út í dag (7. júlí 2014).

Náttúruminjasafn Íslands stendur ekki að sýningahaldi enn sem komið er, en í undirbúningi er grunnsýning á náttúru Íslands á vegum safnsins og samstarfsaðila í Perlunni. Vonir standa til að sýningahald i Perlunni verði hafið innan tveggja ára. Þá er í burðarliðnum samsýning með fimm öðrum menningarstofnunum í Safnahúsinu þar sem fjallað verður um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf. Sú sýning gengur undir heitinu Sjónarhorn og verður að vonum opnuð nú síðsumars.

Íslenski safnadagurinn var fyrst haldinn árið 1997 að frumkvæði safnmanna sjálfra. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum.

Geirfuglsegg gefið Náttúruminjasafninu

Íslenski geirfuglinn og egg hans. Ljósm. Erling Ólafsson.

Íslenski geirfuglinn og egg hans. Ljósm. Erling Ólafsson.

Veiðifélag Bjarnareyjar í Vestmannaeyjum hefur fært Náttúruminjasafni Íslands að gjöf forláta eftirlíkingu af geirfuglseggi sem félagið kostaði og breskir sérfræðingar hafa útbúið af miklu listfengi. Af þessu titlefni var efnt til móttköku í Loftskeytastöðinni þar sem viðstaddir voru stjórnarmenn úr veiðifélaginu ásamt Bretanum Stewart Smith, fuglaáhugamanni og eggjakarli í Eyjum sem átti drjúgan þátt í gerð eggsins.

Gjöfin er þegin með þökkum og kemur sér mjög vel fyrir Náttúruminjasanið. Til stendur að nota eggið í sýningahaldi Náttúruminjasafnsins, m.a. á sýningu sem opnuð verður í Safnahúsinu í lok ágúst næstkomandi og í Perlunni þar sem stefnt er að sýningahaldi innan tíðar.

Frá afhendingu geirfuglseggsins fimmtudaginn 22. maí 2014 í Loftskeytastöðinni. Ljósm. NMSÍ

Frá afhendingu geirfuglseggsins fimmtudaginn 22. maí 2014 í Loftskeytastöðinni. Ljósm. NMSÍ

Gísli I. Þorsteinsson Bjarnareyingur afhendir Hilmari J. Malmquist forstöðumanni Náttúruminjasafnsins geirfuglseggið.

Gísli I. Þorsteinsson Bjarnareyingur afhendir Hilmari J. Malmquist forstöðumanni Náttúruminjasafnsins geirfuglseggið.

 

Gjöf Veiðifélags Bjarnareyjar, forláta eftirlíking af eina raunverulega geirfuglsegginu sem til er hér á landi. Mesta lengd 11,79 cm, mesta breidd 7,60 cm. Ljósm. NMSÍ

Gjöf Veiðifélags Bjarnareyjar, forláta eftirlíking af eina raunverulega geirfuglsegginu sem til er hér á landi. Mesta lengd 11,79 cm, mesta breidd 7,60 cm. Ljósm. NMSÍ

Eggið sem veiðifélagið gefur er nákvæm eftirlíking af eina raunverulega geirfuglsegginu sem til er hér á landi og varðveitt er á Náttúrufræðistofnunun Íslands, eins og sjálfur geirfuglinn. Rætur gjafarinnar liggja til Bretans Stewart Smith, fuglaáhugamanns, eggjakarls í Eyjum og „Íslandsvinar“. Stewart hefur komið á hverju vori til Eyja í rúm 15 ár og farið með veiðifélaginu út í Bjarnarey. Hann er mikill áhugamaður um allt sem viðkemur geirfugli og sú hugmynd kviknaði að búa til nákvæma eftirlíkingu af íslenska geirfuglsegginu. Haft var samband við Tony Ladd, breskan listamann sem hefur sérhæft sig í nákvæmri endurgerð fuglseggja. Þorvaldur Björnsson, hamskeri og starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, var veiðifélaginu einnig innan handar með verkið sem og Erling Ólafsson líffræðingur á Náttúrufræðistofnun.

Lítið eitt um geirfugl (Pinguinus impennis)

Geirfuglinn íslenski sem er í vörslu Náttúrufræðistofnunar Íslands var drepinn árið 1821 við Hólmsberg á Miðnesi. Danski greifinn Raben sló fuglinn niður með bátsár og fuglinn var í eigu Rabenfjölskyldunnar þar til hann var sleginn Finni Guðmundssyni 1971 á uppboði Sothesby´s í London fyrir 9300 GBP (andvirði 3ja herb. íbúðar þá). Fénu var safnað meðal þjóðarinnar í fyrstu almenningssöfnuninni hér á landi sem ekki var til líknar-, góðgerðar- eða íþróttamála. Náttúrufræðistofnunin á auk geirfuglsins beinagrind samsetta úr mörgum geirfuglum, eitt raunverulegt geirfuglsegg og eina eftirlíkingu eggs sem ekki er af íslenska egginu. Raunverulega eggið seldi Harvardháskóli Finni Guðmundssyni fuglafræðingi og starfsmanni Náttúrufræðistofnunar árið 1954 á aðeins 500 USD. Ekki er vitað með vissu um uppruna eggsins, en það mælist 117,9 mm á lengd og 76,0 mm á breidd.

Geirfuglinn (e. Great Auk) tilheyrði hópi svartfugla í norðanverðu Atlantshafi sem í dag telja álku (Alca torda), haftyrðil (Alle alle), langvíu (Uria aalge) og stuttnefju (U. lomvia). Erfðafræðirannsókn staðfestir að geirfuglinn var helst skyldur álku en síst hringvíu og stuttnefju.

Ekki eru til nema um 80 uppsettir geirfuglshamir á jörðunni og um 75 egg. Geirfuglarnir voru eftirsótt bráð vegna þess hve stórir þeir voru og matarmiklir (um 70 cm á hæð og nær 5 kg), ófleygir og hægfara á landi. Þeir voru tiltölulega algengir beggja vegna Atlantshafs allt fram á 16. öld en hratt gekk á stofnana vegna ofveiði og var tegundinni að endingu útrýmt um miðja 19. öld. Síðasta geirfuglaparið á Jörðu er talið hafa verið drepið við Eldey 3. júní 1844. Hamir fuglanna voru seldir til Kaupmannahafnar fyrir fjögur kýrverð og eru fuglarnir varðveittir á Náttúruminjasafni Danmerkur (d. Statens Naturhistoriske Museum).

Ítarefni:

Ævar Petersen 1995. Brot úr sögu geirfuglsins. Náttúrufræðingurinn65: 53–66.

T. Moum, Ú. Árnason & E. Árnason 2002. Mitocondrial DNA sequence evolution and phylogeny of the Atlantic Alcidae, including the extinct Great Auk (Penguinus impennis). – Mol. Biol. Evol. 19(9): 1434-1439.

Heimasíða Veiðifélags Bjarneyjar er www.Bjarnarey.is.

Húsnæðishrakir

Allt frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags í Reykjavík árið 1889 hefur sýningaraðstaða á náttúrgripum félagsins lengst af verið á hrakhólum.

Fyrsta árið í sögu félagsins voru gripir þeir sem safnið fékk í upphafi geymdir heima hjá fyrsta formanni félagsins, Benedikti Gröndal, að Vesturgötu 16. Það hús stóð á sínum stað fram til 14. janúar 2009 er húsið var flutt af grunni út í Örfirisey til viðgerðar á vegum Reykjavíkurborgar. Endurgert Gröndalshús var opnað í júní 2017 í Grjótaþorpinu, á mótum Fischersunds og Mjóstrætis. Þar er nú safn til húsa um Beneditk Gröndal og aðstaða fyrir skáld og fræðimenn að dvelja í.

Gröndalshús

 

Vorið 1890 var leigt herbergi fyrir safnið í einu af Thomsenshúsum (núna Vesturgata 38). Vorið 1892 var safnið flutt í tvö herbergi í húsi sem nú er Kirkjustræti 10, en í þeim húsakynnum var safnið til sumarsins 1895. Á þessum fyrstu árum safnsins var það ekki formlega opið almenningi.

Í ágúst 1895 var safnið flutt í húsið Glasgow við Vesturgötu 5a. Þar fékk safnið til umráða stóran sal og var opnað almenningi á hverjum sunnudegi eftir messu. Húsnæði Náttúrugripasafnsins í Glasgow þótti ekki nógu gott og fóru þá að heyrast kröfur um að safnið yrði viðurkennt sem opinber eign landsins, þjóðareign, sem þyrfti fullnægjandi húsnæði. Glasgow brann til kaldra kola árið 1903 en áður, árið 1899, hafði Náttúrugripasafnið verið flutt í Doktorshúsið þar sem Stýrimannaskólinn gamli var, við Ránargötu 13 (nú horfið). Árið 1903 var safnið enn flutt, að þessu sinni í nýtt hús á Vesturgötu 10 í Reykjavík.

Þegar Safnahúsið við Hverfisgötu var teiknað árið 1906 var Náttúrugripasafninu markaður þar staður. Árið 1908 var safnið flutt í hið nýreista Safnahús og var þar til ársins 1960. Þar fékk safnið til afnota 130 fm sýningarsal ásamt 50 fm geymslu. Með árunum varð húsnæðið ófullnægjandi og þar að auki hafði landsbókavörður óskað eftir því til afnota.

Með lögum nr. 125/1943 fékk Háskóli Íslands framlengt einkaleyfi til að reka happadrætti til ársins 1960 með því skilyrði að hann byggði yfir Náttúrugripasafnið. Árið 1946 náðist samkomulag um að Háskóli Íslands léti byggja hús fyrir Náttúrugripasafnið fyrir ágóða af happdrætti sínu. Af þessum byggingum hefur ekki orðið, en háskólaráð mun hafa samþykkt 13. mars 1942 að safnið yrði reist á háskólalóðinni.

Náttúrugripasafnið var í Safnahúsinu fram til ársins 1960 en þá var sýningahaldi á náttúrugripunum hætt og öllum mununum komið fyrir í geymslum. Náttúrugripasafn Íslands flutti sama ár í húsnæði við Hlemm en þar fór ekkert sýningahald fram fyrr en árið 1967 þegar grunnsýning á náttúru Íslands var opnuð á vegum Náttúrufræðistofununar Íslands, sem tók til starfa árið 1965 með breytingum á lögum nr. 17/1951 um Náttúrugripasafn Íslands. Sýningarýmið við Hlemmtorg var um 100 fm að flatarmáli og húsnæðið eigu Háskóla Íslands. Á 100 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags árið 1989 var sýningarhúsnæðið við Hlemm stækkað í 200 fm að meðtöldum stigagangi og var um tvo sali að ræða á tveimur hæðum.

Sýningarsölum við Hlemm var lokað 31. mars 2008 og sýningarmunum komið fyrir í geymslum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá höfðu tekið gildi lög um Náttúruminjasafn Íslands og stefnt að opnun sýningar, en allt kom fyrir ekki.

Um tíma var stefnt að opnun grunnsýningar á náttúru landsins í Perlunni á vegum Náttúruminjasafnsins, en af því varð því miður ekki.

Vorið 2015 var opnuð sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu sem Náttúruminjasafnið tekur þát tí ásamt fimm öðrum ríkissöfnum.