Rektor Háskóla Íslands, dr. Jón Atli Benediktsson, heimsótti skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands í Loftskeytastöðinni á dögunum og heilsaði upp á mannskapinn. Húsaleigusamningur milli Náttúruminjasafnsins og Háskólans var undirritaður í júlí s.l. en Háskólinn tók við rekstri og ábyrgð hússins úr hendi Þjóðminjasafns Íslands í mars sem leið. Náttúruminjasafnið hefur haft afnot af Loftskeytstöðinni síðan í mars 2010.
Í heimsókn rektors var m.a. rætt um samstarf milli stofnananna, en á milli þeirra liggur gamalgróinn og sterkur þráður. Hugmyndir um formlegt samstarf og tengsl Háskóla Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og forvera safnsins hafa lengi verið til umræðu, allt frá öndverðri 20. öld. Auk Háskólans og Náttúruminjasafnsins hefur Reykjavíkurborg verið aðili að málinu í ófá skipti. Um sögu þessara samskipta má lesa í eilítilli samantekt hér: Saga HI og NMSI_HJM_29.05.2015.
Margvísleg rök hníga að nánu samstarfi milli Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands:
- Í Háskólanum eru stundaðar grunnrannsóknir á náttúru Íslands og í safnafræðum á breiðum grundvelli sem aðrar rannsóknastofnanir sinna ekki. Þessar rannsóknir eru nauðsynlegar fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins. Þá býr Náttúruminjasafnið yfir mannauði og safnkosti sem gagnlegur er fyrir rannsóknir og kennslu í Háskólanum.
- Náið samstarf við Háskólann er æskilegt fyrir Náttúruminjasafnið vegna mikilvægis akademískrar nálgunar í efnistökum sýningarhalds og við miðlun á fróðleik og þekkingu um náttúruna.
- Bæði Háskólinn og Náttúruminjasafnið hafa ríkum skyldum að gegna við miðlun á fróðleik um náttúru, en með ólíkum hætti þó. Upplýsingamiðlun Náttúruminja-safnsins byggist í meira mæli á sýningahaldi og almenningsmiðari upplýsingaveitu en Háskólinn beinir kröftum sínum á þessu sviði meira að hinu akademíska fræðasamfélagi.
Þegar hefur verið efnt til samstarfs milli Háskólans og Náttúruminjasafnsins og er mikilvægt að halda þeim tengslum og auka við þau. Gerður hefur verið samstarfssamningur við Líffræðistofu um rannsóknir á forndýrafræði rostunga (Samkomulag um rannsóknir á rostungum. 23.01.2015) og nýlega var undiritaður samstarfssamningur við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands um samstarf á sviði safnfræða í Félags- og mannvísindadeild (Samkomulag NMSI $ Felagsvisindasvids_08.06.2015).