Músarrindill

Músarrindill

Músarrindill (Troglodytes troglodytes)

Músarrindill syngur hástöfum í gróðurhúsi í útjaðri Reykjavíkur.

Músarrindill er af ættbálki spörfugla, langstærsta ættbálki fugla, en honum tilheyra um 60% af tæplega 10.000 fuglategundum jarðar. Hér á landi eru þó ekki nema 12-13 spörfuglategundir sem verpa að staðaldri af um 80 reglulegum varpfuglum. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Útlit og atferli

Músarrindill er einn af einkennisfuglum birkiskóganna. Hann er auðþekktur á smæð, hnöttóttu vaxtarlagi, uppsperrtu stéli og þróttmiklum söng sem heyrist allt árið. Hann er rauðbrúnn að ofan en mógrár að neðan með dökkar rákir á vængjum, síðum og undirgumpi og hvíta díla á aðfelldum væng. Hann hefur ljósa brúnarák. Goggur er brúnn, grannur og stuttur, fætur brúnbleikir, augu brún.

Músarrindill flýgur hratt og beint með höfuðið teygt fram og heyrist þytur þegar hann blakar vængjunum ótt og títt. Hann flýgur sjaldan og ekki langt í einu. Þegar hann situr, sveiflar hann uppsperrtu stélinu stöðugt til og frá. Hann er síkvikur en felugjarn og leitar sér ætis, mest skordýra, í þéttum gróðri og grónum urðum. Er venjulega einfari eða í litlum hópum.

Í söng endurtekur hann sífellt fáeina langa og háa tóna og endar í hvellu dillandi hljóði.

Lífshættir

Músarrindillinn lifir á skordýrum, mest bjöllum, lirfum, tvívængjum og fetum og köngulóm, sem hann tínir í lágu þykkni, undir runnum og kjarri, í skurðum og lækjum og á öðrum rökum, dimmum stöðum.  Á vetrum er hann oft í fjörum, þar sem þangflugur og marflær eru aðalfæðan.

Músarrindill verpur dreift í kjarrlendi, skóglendi, grónum hraunum og urðum á láglendi, jafnvel í manngerðum varpkössum í sumarbústaðalöndum. Hreiðrið er kúlulaga og karlfuglinn vefur það úr sinu og rofalýjum undir bökkum, í trjám eða hraunsprungum. Urptin er 6-8 egg og liggur kvenfuglinn á í 16 daga. Ungarnir eru 14-19 daga í hreiðrinu, áður en þeir verða fleygir. Verpur oft tvisvar á sumri. Karlfuglinn tekur ekki þátt í álegunni og getur því haft fleiri en einn kvenfugl í takinu í einu. Á veturna heldur músarrindill sig við opna læki, skurði og í fjörum og stundum í úti- eða gróðurhúsum. Dæmi eru um að fuglar hafi reynt varp um hávetur í upplýstum gróðurhúsum.

Músarrindill við hreiður á Hofi í Öræfum.

Músarrindill ber æti í unga í hreiðri í Grímsnesi.

Músarrindill syngur hástöfum á varpstað í Gunnólfsvík í Finnafirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Íslenski músarrindillinn er staðfugl. Hann er sérstök einlend undirtegund (Troglodytes troglodytes islandicus), stærri og dekkri en frændur hans í Evrópu. Fleiri íslenskar undirtegundir hafa verið skilgreindar, en sennilega kemst músarrindillinn næst því að verða fyrsta einlenda tegundin hér á landi. Varpheimkynni hans eru annars á breiðu belti á norðurhveli jarðar.

Þjóðtrú og sagnir

Músarrindillinn er mikill þjóðsagnafugl. Sagan um keppni fuglanna, hver gæti flogið hæst, hefur bæði verið heimfærð uppá glókoll og músarrindil. Þessi rúmlega 2000 ára gamla saga, um hver ætti að verða konungur fuglanna, snýst um það að sá átti að hreppa titilinn sem hæst gæti flogið. Örninn þótti líklegastur, en músarrindill faldi sig undir stélfjöðrum hans og þegar örninn var orðinn þreyttur og komst ekki hærra, þá skaust rindillinn uppfyrir örninn og gerði tilkall til titilsins. Fyrir þetta uppátæki fékk hann bágt fyrir og þurfti að fara leynt æ síðan.

Músarrindillinn er með stutta og breiða vængi, eins og þessi í Nesjum, A-Skaftafellssýslu.

Í hreiðri músarindils ku vera galdrasteinn í ýmsum litum. Beri menn hann á sér verða þeir ósýnilegir. Taki maður hjarta úr músarrindli, þurrkar það og bindur í klæði og ber í hendi sér, má vita hugsanir annarra. Þvoi maður sér úr volgu blóði músarrindils batnar nætursjónin til muna. Þegar músabróðir kemur til bæja og smýgur inn í hús, veit það á harðviðri.

Vegna laumulegs háttalags og tregðu til að fljúga hefur músarrindillinn verið talinn skyldur músum og fékk af því nafnið músabróðir. Líkt og mýs þá áttu músarrindlar að vera sólgnir í hangikjöt og óðu jafnvel reyk í skorsteinum til að komast í girnileg sauðalæri. Með krossmarki á skorsteinum mátti þó stöðva þá, enda töldu sumir hann óheillafugl.

Músarrindillinn skipaði lengi þann sess, að vera minnsti fugl landsins. Nú hefur glókollurinn velt honum úr sessi, hann er meira en helmingi minni en músarrindill, 6 g á móti 15 g.

Músarrindill í birkiskógi á Þingvöllum að haustlagi.

Kveðskapur

Músarrindill
Þegar aðrir fara og flýja,

finna veröld bjarta og hlýja,
kyrr í sínum heimahögum
harður músarrindill býr.
Hann er öllum öðrum smærri,
eltir þó ei hina stærri,
Undan myrkri og ísalögum
aldrei hann úr dalnum flýr.

Hinir fara og heiminn kanna,
hylla dýrðir stórveldanna,
fyrir páfa og soldán syngja
sólarljóð frá heimskautsbaug,
öðlast frægð af flugi og ljóðum,
frama sig með heldri þjóðum,
lifa vel og efla og yngja
anda sinn í tímans laug.

Víst er gott þar syðra að sitja,
sönglist háa kórar flytja,
þar má njóta náms hjá snjöllum
næturgölum suðurheims.
Is og fannir þar ei þreyta,
þar er sífelld hitaveita.
Ljóma þar i litum öllum
leikhústjöld hins viða geims.

Rindill situr heima hægur,
hirðir ekki að verða frægur.
Hræðum þeim, sem eflir eru,
yrkir hann sin kotungsljóð.
Sé þar litla list að heyra,
láta þau samt vel i eyra.
Ríkust er í raun og veru
röddin hans á bernskuslóð.

Aðrir bera fötin fegri,
frakkastélin merkilegri.
Hann er gráum kufli klæddur,
kvartar ekki um rýran skammt.
Þótt við hret og hörku byggi,
hann er alla stund sá tryggi.
Illa búinn, illa fæddur
unir hann i dalnum samt.

Suður flugu sumargestir,
svo sem lóur, erlur, þrestir.
Þeirra vegna að vetrarlagi
væri byggðin auð og tóm.
Músarrindill ver og varðar
vonir sinnar fósturjarðar,
leggur yfir lund og bæi
lífstrú sína og gleðihljóm.

Eftir Guðmund Inga Kristjánsson (1907-2002).

Músarrindill á fjörusteinum á Akranesi.

Músarrindill
Þú ert engum öðrum háður,
oft og lengi varstu smáður,
samt er enginn eins og þú.
Hríðarbyl og harðan vetur
hefur enginn staðist betur.
Undir steini áttu bú.

Litli fugl með stutta stélið,
stóðstu af þér vetrarélið
inn til dala, út við sjó.
Flúðir aldrei Íslands strendur
út á grænni vonarlendur,
andans kraftur aldrei dó.

Enda veiztu innst í hjarta,
aftur sérðu daga bjarta
skrýða grundir grænum lit.
Vorsins hlýju vindar kalla,
vekja músarrindla alla,
þeirra bíður starf og strit.

Sumir hljótt í holu smjúga,
hátt um loftin aðrir fljúga
enda meira á þeim ber.
Marglitar á mörgum fjaðrir,
mórauðir á litinn aðrir
og heldur lægra hreykja sér.

Mega flestir þrautir þola,
þýðir ekki neitt að vola,
aftur vorar, vinurinn.
Vorrar þjóðar vonarkyndill
vertu – litli músarrindill,
frjálsi, kviki fuglinn minn.

Eftir Guðbjart Össurarson (1954).

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Glókollur

Glókollur

Glókollur (Regulus regulus)

Glókollur í Grímsnesi.

Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla, en um 60% hinna rúmlega 9700 fuglategunda sem þekktar eru í heiminum tilheyra þessum ættbálki. Það eru þó aðeins níu tegundir spörfugla sem verpa hér á Íslandi í einhverjum mæli og fáeinar til viðbótar eru sjaldgæfir eða óreglulegir varpfuglar. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Með aukinni skógrækt hefur þeim fuglum fjölgað sem hafa orpið hér. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, svo sem meðal spörfugla og smávaxinna vaðfugla, enda eru stofnar gamalgróinna, smávaxinna íslenskra farfugla stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó.

Útlit og atferli

Glókollurinn er minnsti fugl Evrópu, ekki nema 6 g að þyngd. Hann líkist hinum smávöxnu söngvurum, en er áberandi hnöttóttur, hálsstuttur, ólífugrænn að ofan, grænleitur á síðum, með gula kollrák og svartar rendur hvora sínu megin við hana. Hann er án brúnarákar. Tvö ljós vængbelti og gulir fjaðrajaðrar á svartleitum vængfjöðrum eru einkennandi. Hluti kollrákar á karlfugli er appelsínugul. Ungfuglar eru án kollrákanna, en vængmynstur er áberandi. Vængir stuttir og breiðir.

Goggur og augu svört, fætur brúnleitir með gular tær.

Glókollur er kvikur og sístarfandi, leitar ætis í trjám, stundum á flugi eða hangandi á hvolfi. Kallið er hátt tíst, á hárri tíðni, sem fer gjarnan framhjá fólki sem komið er á miðjan aldur eða eldra. Söngurinn er hávært, endurtekið tveggja atkvæða hljóð, sem endar með dilli.

Glókollur í Hallskoti í Friðlandinu í Flóa.

Glókollskarl ýfir hnakkatoppinn á óðali í Grímsnesi.

Glókollur í Grímsnesi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Undirstöðufæða glókolls er grenilús (sitkalús) og stökkmor, en hann tekur einnig önnur smádýr á trjám, eins og köngulær, aðrar blaðlýs, feta, lirfur, púpur og skordýraegg af laufi og barri. Tekur einnig stökkmor af jörðu niðri. Veiðir aðallega á fæti, en andæfir stundum og grípur skordýr. Hann er því liðtækur meindýraeyðir.

Hreiðrið er kúlulaga með tveimur opum, gert úr mosa og gróðurleifum, hangandi neðan á grenigrein. Það er ekki ósvipað músarrindilshreiðri, en mun veigaminna og losaralegra. Urptin er 6-11 egg, álegan tekur 15-17 daga og eru ungarnir 17-22 daga í hreiðrinu. Verpur allavega tvisvar á sumri.

Glókollshreiður, foreldri með mat handa ungum. Hreiðrið er veigalítil kúla með tveimur opum. Gróðrarstöðin Þöll við Hafnarfjörð. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Glókollur færir ungum mat í hreiður. Gróðrarstöðin Þöll við Hafnarfjörð.

Nýfleygur glókollsungi í Kjarnaskógi við Akureyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Glókollur var lengi árviss haustflækingur, en er nýfarinn að verpa og hefur komið ár sinni vel fyrir borð í hinum nýju greniskógum hérlendis. Mikil ganga kom haustið 1995 og hefur hann sennilega hafið varp í kjölfar hennar, þó svo að varpið væri ekki staðfest fyrr en sumarið 1999. Breiddist hann fljótt út um mestallt land nema Vestfirði. Stofninn hefur tvisvar hrunið í kuldaköstum, 2004 og 2014, en náð sér á strik aftur og fljótt náð svipaðri útbreiðslu og fyrir hrun. Stofnstærðin skiptir þúsundum fugla í góðærum, en hrinur niður í fáein hundruð í hallærum. Hann er staðfugl hér, sem virðist lifa ágætlega af veturinn, ef fyrrnefnd hrun eru undanskilin. Er útbreiddur skógarfugl í Evrópu og á blettum í Asíu austur til Japans.

Glókollurinn virðist stundum vera hnöttóttur og hálslaus. Þorbjörn við Grindavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Karlfugl í Hellisskógi við Selfoss.

Þjóðtrú og sagnir

Músarrindillinn hafði lengi þann sess, að vera minnsti fugl landsins. Nú hefur glókollurinn velt honum úr sessi. Hann er meira en helmingi minni en músarrindill, 6 g á móti 15 g.

Engin þjóðtrú fylgir glókolli hér á landi, vegna þess hve nýr hann er í fánunni. Bæði Aristóteles hinn gríski og Pliníus eldri hinn rómverski, rituðu fyrir meira en 2000 árum um þjóðsöguna af keppni fuglanna, hver ætti að verða konungur þeirra og átti sá að hreppa titilinn, sem gæti flogið hæst. Örninn þótti líklegastur, en glókollur faldi sig undir stélfjöðrum hans og þegar örninn var orðinn þreyttur og komst ekki hærra, þá skaust glókollurinn upp fyrir örninn og gerði tilkall til titilsins. Hann heitir enda fuglakóngur á sumum tungumálum, því hann ber kórónu. Þessi saga hefur stundum verið sögð með músarrindilinn í aðalhlutverki.

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þúfutittlingur

Þúfutittlingur

Þúfutittlingur (Anthus pratensis)

Þúfutittlingur 13

Þúfutittlingur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

 

Útlit og atferli

Þúfutittlingur er algengasti spörfugl landsins. Hann er stundum nefndur grátittlingur eða jafnvel götutittlingur. Hann er einn af okkar bestu söngfuglum og minnir söngflug hans á hinn rómaða lævirkja.

Þúfutittlingur er minni en snjótittlingur, hálsstuttur, með breiða, stutta vængi og fremur kubbslegur. Hann er einkennasnauður fugl, grágrænn, grábrúnn eða gulbrúnn að ofan. Hann er svartrákóttur að ofan, á bringu og síðum, ljósari á kverk og að neðan. Á höfði er hann með ljósa brúnarák og skeggrák og dauf vængbelti, hvítir stéljaðrar eru greinilegir á flugi. Á haustin eru ungfugl og fullorðinn fugl rákóttari að ofan og gulari á síðum.

Goggur er dökkur, grannur og stuttur. Fætur ljósir, bleikbrúnir og augu dökkbrún. Fótur spörfugla er svonefndur setfótur, en goggurinn er lagaður að fæðunni. Skordýraætur (t.d. maríuerla, þúfutittlingur, músarrindill og þrestir) hafa grannan gogg. Fræætur (t.d. snjótittlingur og auðnutittlingur) eru keilunefir, með stuttan og þykkan gogg.

Thufutittl14a

Fljúgandi þúfutittlingur. Söngflug þúfutittlinga minnir á söngflug lævirkja. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Flug þúfutittlings er reikult og flöktandi. Hann flýgur stundum beint upp í loftið, lætur sig falla niður aftur á svifflugi og syngur um leið hraðan, dillandi söng. Gefur annars frá sér mjóróma tíst. Hann flögrar mikið um og tyllir sér á þúfur eða í tré þess á milli, er félagslyndur utan varptíma.

Lífshættir

Þúfutittlingur er dýraæta, etur margs kyns smádýr, bæði fullvaxin og á lirfu- og púpustigi. Etur stundum fræ og smávaxin skeldýr.

Þúfutittlingur í Hofi í Öræfum. Þúfutittlingar eru skordýraætur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varpkjörlendið er margvíslegt; mýrar, lyngheiðar, grasmóar, kjarr- og skóglendi, gróin hraun o.fl. á láglendi og sums staðar á hálendinu. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, vel falda utan í þúfu eða öðrum gróðri. Verpur oft tvisvar á sumri. Hann sækir í fjörur, mýrar og jafnvel húsagarða utan varptíma.

Eyrarbakki líkl.

Hreiður þúfutittlings. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og ferðir

Þúfutittlingurinn er alger farfugl og útbreiddur um land allt, þar sem búsvæði hans er að finna, og er hann talinn algengasti landfuglinn okkar, með stofnstærð á milli 500.000 og 1.000.000 varppör. Stöku sinnum sjást fuglar hér að vetrarlagi. Hann hefur vetursetu frá SA-Englandi, suður um Vestur-Frakkland og Spán, suður til NV-Afríku. Þúfutittlingur er annars algengur varpfugl í Evrópu og austur til Síberíu.

Þjóðtrú og sagnir

Í íslenskri þjóðtrú þótti það vísa á gott ef smáfugl hljóp á veginum á undan lestarmanni, eins og siður er þúfutittlinga. Þó var ekki öll þjóðtrú jafn jákvæð í garð þúfutittlingsins. Hann hefur þótt valda undirflogum (júgurmeinum) af líkum orsökum og steindepill. Hann er sagður fljúga aftan í örninn og bíta sig þar fastan. Sumir sögðu hann flygi út um munninn og dræpi báða (Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI, Sigfús Sigfússon).

Thufutittl09a

Þúfutittlingur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grátittlingurinn

Kalinn drengur í kælu
á kalt svell, og ljúft fellur,
lagðist niður og lagði
lítinn munn á væng þunnan.
 
Þíddi allvel og eyddi
illum dróma með stilli
sem að frostnóttin fyrsta
festi með væng á gesti.

Lítill fugl skaust úr lautu,
lofaði guð mér ofar,
sjálfur sat eg í lautu
sárglaður og með tárum.
 
Felldur em eg við foldu
frosinn og má ei losast;
andi guðs á mig andi,
ugglaust mun eg þá huggast.

Jónas Hallgrímsson

Tittlingur í mýri

Tittlingar í mýri
tína strá og ber,
lifa og leika sér
og eignast ævintýri.

Bærinn hola í barði.
Búskapurinn vex,
eggin urðu sex,
líkust lambasparði.

Tittlingur í mýri
tínir berin blá,
kemur hann heim á kvöldin
og kúrir mér hjá.

Örn Arnarson

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.