by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 4.07.2019 | Fréttir
Fyrir skömmu kom út fræðigrein um kransþörunga á Íslandi í tímaritinu Nordic journal of botany. Greinin heitir New finds of charophytes in Iceland with an update on the distribution of the charophyte flora og má nálgast hér. Greint er frá fundi fjögurra nýrra tegunda kransþörunga á Íslandi, auk þess sem birt eru útbreiðslukort fyrir þær átta tegundir kransþörunga sem nú finnast hérlendis.
Kransþörungar (Charophyceae) eru í hópi grænþörunga (Chlorophyta) og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stærstir allra þörunga í ferskvatni og geta sumar tegundir orðið allt að metri að lengd. Kransþörungar draga nafn sitt af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stöngli. Þeir eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður á botninum.

Kransþörungurinn tjarnanál (Nitella opaca) myndar iðulega þykkt teppi langra þörungaþráða á botni stöðuvatna. Myndin er tekin í Stíflisdalsvatni í Kjós, sjá má langnykru (Potamogeton praelongus) í bakgrunni. Mynd: Erlendur Bogason, 2018.
Nýju tegundirnar fjórar fundust í viðamikilli rannsókn á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu, sem jafnframt var fyrsta skipulega rannsóknin af því tagi hér á landi. Rannsóknin var liður í lýsingu og kortlagningu vistgerða landsins á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, en veg og vanda af sýnatöku og úrvinnslu hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs. Gróður var kannaður á árunum 2012–2013 í 72 stöðuvötnum og 16 straumvötnum víðs vegar á landinu.

Kransþörungar hafa fundist á 126 stöðum á Íslandi (Þóra Hrafnsdóttir o.fl. 2019).
Höfundar greinarinnar eru Þóra Hrafnsdóttir og Hilmar J. Malmquist hjá Náttúruminjasafni Íslands, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs, Eva G. Þorvaldsdóttir grasafræðingur og Anders Langangen sem er einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í kransþörungum.
Myndskeiðið hér að neðan er tekið í Stíflisdalsvatni í Kjós og sýnir breiður af kransþörungnum tjarnanál. Myndataka og köfun: Erlendur Bogason, 2018.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 4.07.2019 | Fugl mánaðarins
Langvía telst til svartfugla, þeir tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og allir af sömu ættinni, svartfuglaættinni. Svartfuglar afla fæðu sinnar úr sjó, verpa við sjó og ala allan sinn aldur á sjó, nema þegar þeir koma á land til að verpa. Þetta eru langlífir fuglar sem verða seint kynþroska. Svartfuglar sýna maka tryggð, verpa í byggðum og þeir verpa allir einu eggi nema teista.
Langvía á flugi við Látrabjarg.
Útlit og atferli
Langvía er algengur og fremur stór svartfugl sem líkist mjög stuttnefju. Á sumrin er langvían brúnsvört að ofan en hvít að neðan. Dökkar kámur og flikrur á síðum eru einkennandi. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á litarafbrigðinu „hringvíu“ er hvítur hringur kringum augu og hvítur taumur aftur og niður úr honum. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp eftir kverk, hálshliðum og vöngum, en svört rák gengur aftur frá augum. Goggur er svartur, mjór og oddhvass. Grunnlitur fóta er svartur og augu eru svört.
Svipar í mörgu til álku og stuttnefju. Höfuðlag er þó annað, langvía er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá stuttnefju á kámugum síðum og því að engin hvít rák er á gogghliðum. Er afar félagslynd.
Gefur frá sér hávært, langdregið sarghljóð um varptímann.
Langvíur með unga í Skálasnagabjargi.
Stuttnefja til vinstri og langvía til hægri, saman á syllu.
Lífshættir
Langvían kafar af yfirborði eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan er síli og loðna, en það fer nokkuð eftir landshlutum hvaða fæða er helst í boði. Étur einnig síld og smákrabbadýr.
Langvía verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum eða ofan á stöpum og klettaeyjum. Er annars á sjó, bæði á grunn- og djúpsævi. Verpur á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Eggið er aðeins eitt og er álegutíminn 32–33 dagar. Er oft í stórum bælum og breiðum. Ungar yfirgefa byggðina snemma eins og hjá álku og stuttnefju. Þeir verða fleygir á 7–10 vikum. Björgin tæmast síðla júlímánaðar.
Útbreiðsla og stofnstærð
Stór hluti íslenska stofnsins verpur í þremur stærstu fuglabjörgunum, Látrabjargi, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi. Merkingar með gagna-(dægur-) ritum undanfarin ár sýna, að fuglar merktir í Látrabjargi hafa vetursetu vestur og suðvestur af landinu, m.a. við Grænlandsstrendur og suður af Grænlandi. Fuglar merktir á Langanesi og við Skjálfanda hafa vetursetu norður og austur af landinu. Heimkynni langvíu eru við norðanvert Atlantshaf og Kyrrahaf, í Atlantshafi verpur hún allt norður til Svalbarða og suður til Portúgals.
Veiðar og vernd
Langvía hefur löngum verið nýtt í íslenskum björgum, bæði fuglar og egg. Langvíum fækkaði um 30% milli talninga 1983–1986 og 2006–2008 eða sem samsvarar um 1,6% á ári. Endurteknar talningar á fjórum stöðum árið 2009 sýndu áframhaldandi fækkun. Athuganir á sniðum í völdum björgum 2009–2017 sýndu enn áframhaldandi fækkun. Langvía er því flokkuð sem tegund í nokkurri hættu á nýlegum válista Náttúrufræðistofnunar (2018). Eggjataka er þó enn stunduð á nokkrum stöðum.
Svonefndur Gullblettur í Skrúðnum. Þetta er óvenjulegur varpstaður, fuglarnir verpa ofaná eynni, í urð.
Langvía í vetrarbúningi í Þorlákshöfn.
Þjóðtrú og sagnir
Íslensk þjóðtrú segir fátt um langvíuna, en trúin tekur oft svartfuglana og hegðun þeirra saman. Það er helst að hún og þeir tengist veðurútliti, viti fyrir óveður, sérstaklega slæmar norðanáttir. Hún boðar einnig góðan afla, en sjómenn notuðu og nota enn fugla, sem og hvali, til að finna fiskitorfur.
Lítið hefur verið ort um langvíuna gegnum tíðina, en þeim mun meira um bjargsig og bjargnytjar, eins og þessi húsgangur úr Eyjum sýnir, en mynd fylgir með af Háubælum:
Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg.
Hábrandinn ei hræðist ég,
en Hellisey er ógurleg
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 3.07.2019 | Fréttir
Alla þriðjudaga í júlí mun Náttúruminjasafnið standa fyrir viðburðum á sýningu safnsins, Vatnið í Náttúru Íslands í Perlunni. Viðburðirnir standa frá kl. 14 – 16 og er aðgangur ókeypis.
Engir tveir viðburðir verða eins og eru viðfangsefnin bæði úti og inni.
Tilvalið fyrir fjölskyldur til að fræðast og tengjast náttúrunni á óvenjulegan og skemmtilegan hátt.
Dagskráin í júlí er eftirfarandi:
2. júlí – Hvað býr í vatninu?
9. júlí – Ratleikur
16. júlí – Vaxa steinar úr vatni?
23. júlí – Hvað býr í vatninu?
30. júlí – Nærðu áttum?
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 3.06.2019 | Fréttir
Þriðjudaginn 4. júní nk. mun Kurt Fausch prófessor emeritus við Department of Fish, Wildlife, and Conservation Biology, Colorado State University halda fyrirlestur með titlinum:
What is essential about rivers for fish, and humans? Lessons on connectivity and connections from four decades.
Kurt er heimsþekktur vísindamaður sem hefur helgað líf sitt rannsóknum og miðlun þekkingar um vistfræði vatnakerfa, með sérstakri áherslu á ár og fiskana í þeim, þ.m.t. laxfiska. Hann er baráttumaður fyrir skynsamlegri umgengni og nýtingu straumvatna og bendir á að árnar eru lífæð mannkyns sem ber að varðveita og umgangast af virðingu. Hann er m.a. höfundur bókarinnar For the Love of Rivers: A Scientist’s Journey, sem kom út 2015.
Hérlendis er mikil umræða um umgengni og verndun vatna og áa og fiskistofna, sem m.a. tengist loftslagsbreytingum, virkjanamálum og fiskeldi. Fyrirlestur Kurts er kærkomið innlegg í þessa umræðu og til þess fallið að auka skilning okkar á mikilvægi rennandi vatns í lífkeðju landsins.
Fyrirlesturinn verður í sal 130 í Öskju Háskóla Íslands, og hefst kl. 12.30
Sjá nánar/ENGLISH
Heimsókn Kurt til Íslands er á vegum Háskólans á Hólum, Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands
Allir velkomnir!
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 12.04.2019 | Fréttir
Höfuðsöfnin þrjú – Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands – boða til árlegs vorfundar mánudaginn 29. apríl n.k. Fundurinn verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu undir yfirskriftinni: Að mennta börn í söfnum – barnamenning.
Vorfundurinn hefst kl. 9 með ávarpi f.h. mennta- og menningarmálaráðherra og erindi dr. Christian Gether, safnstjóra Arken í Danmörku, sem nefnist: ARKEN, a Part of Society´s Enlighetenment Project towards its Citizens. Ideas and Practices.
Síðan verður fjallað um verkefni á sviði barnamenningar hjá höfuðsöfnunum og rannsóknir og þekkingarsköpun í safnastarfi. Eftir hádegið verða sýningar og höfuðsöfn heimsótt. Við lok dagskrár kl. 16:30 heldur Safnaráð úthlutunarboð í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg.
Vissirðu að vatn getur líka flogið?

Vatnskötturinn er vinsælt myndefni. Ljósm. IRI.
Sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er sniðin að börnum. Vatnskötturinn tekur á móti börnunum og leiðir þau um sýninguna, en vatnsköttur er þeirri náttúru gæddur að geta flogið á einu lífsstigi sínu, þegar hann er orðinn að fjallaklukku!
Sigrún Þórarinsdóttir, safnakennari við Náttúruminjasafnið segir frá sýningu Náttúruminjasafnsins á vorfundinum kl. 10:55. Erindi hennar nefnist: Vissirðu að vatn getur líka flogið? Börnin og vatnið í náttúru Íslands. Heimsókn með leiðsögn og kynningu á sýningunni verður svo kl. 14:30. Óskað er eftir að fólk skrái sig í heimsóknina.
Dagskrá vorfundar 2019
Skráning fer fram hér og stendur til og með 23. apríl.