Náttúruminjasafnið í Perluna!

Náttúruminjasafnið í Perluna!

„Þetta er afar mikilvægt skref í sögu Náttúruminjasafnsins, eins okkar höfuðsafna, sem fær hér góða aðstöðu til sýningahalds. Ég hlakka til að sækja safnið heim þegar sýningin verður opnuð í vetur. Mér finnst einkar gott til þess að vita að hér mun unga kynslóðin fá frábært tækifæri til þess að kynnast náttúru landsins gegnum vandaðar sýningar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Með ráðherra eru á myndinni Hilmar J. Malmquist og Gunnar Gunnarsson. Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.

Í dag var undirritaður samningur milli Náttúruminjasafnsins og Perlu norðursins um að safnið fái til afnota um 350 fm nýja hæð í Perlunni. Sérsýning safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, verður opnuð þar 1. desember n.k. og verður opnunin liður í hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlu norðursins undirrituðu samninginn að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur.

„Þetta er afar mikilvægt skref í sögu Náttúruminjasafnsins, eins okkar höfuðsafna, sem fær hér góða aðstöðu til sýningahalds. Ég hlakka til að sækja safnið heim þegar sýningin verður opnuð í vetur. Mér finnst einkar gott til þess að vita að hér mun unga kynslóðin fá frábært tækifæri til þess að kynnast náttúru landsins gegnum vandaðar sýningar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Með ráðherra eru á myndinni Hilmar J. Malmquist og Gunnar Gunnarsson. Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.

„Þetta er mjög merkur og ánægjulegur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Þetta verður fyrsta sýningin frá stofnun safnsins 2007 sem safnið sjálft hannar frá grunni og setur upp,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.
„Það er löngu brýnt að þjóðin eignist góða aðstöðu til sýningahalds fyrir Náttúruminjasafnið, höfuðsafn landsins í náttúrufræðum. Nú hillir undir að slík uppbygging verði að veruleika með fyrirheiti í ríkisfjármálaáætlun 2019–2023 og það er ánægjulegt að geta opnað þessa sérsýningu 1. desember n.k. Það er rík ástæða til að þakka bæði Perlu norðursins og ráðherranum, Lilju Alfreðsdóttur, fyrir að leggja sitt af mörkum til að þess gamli draumur geti ræst.“

Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlunnar segir ánægjulegt að fá Náttúruminjasafn Íslands í Perluna sem viðbót við hina einstöku sýningu Undur íslenskrar náttúru. „Náttúruminjasafnið er eitt af höfuðsöfnum landsins og það er mikið fagnaðarefni að það fái loks sýningaraðstöðu sem því sæmir, á 100 ára afmæli fullveldis Íslands.“

Vatnið í náttúru Íslands

Ljósm. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

Vatn er undirstaða lífs á jörðinni. Ísland er óvenju vatnsríkt land og vatn mjög einkennandi í náttúrunni og m.a. þess vegna varð  Vatnið í náttúru Íslands fyrir valinu á þessa fyrstu sérsýningu safnsins. Á sýningunni verður fjallað um vatn í víðum skilningi, allt frá hinu smæsta til hins stærsta, frá dropanum til heilla vatnasviða og veðurkerfa, frá sameindum til stórra eininga og frá örverum og plöntum til stærstu vatnadýra.

Á sýningunni verða lifandi vatnadýr og jurtir. Við miðlun efnis verður áhersla lögð á virka þátttöku gesta og efnið sett fram á nýstárlegan hátt.

Sýningunni er ætlað að höfða til fróðleiksfúsra landsmanna og erlendra gesta, fólks á öllum aldri og ekki síst til barna. Markmið þessarar sýningar er að vekja aðdáun og virðingu fyrir vatni og fræða gesti um undur og furður náttúrunnar og mikilvægi vatns fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu.

Náttúruminjasafn Íslands stendur straum af stofnkostnaði sýningarinnar, en 290 milljón króna fjárveiting fékkst til sýningarhaldsins á fjárlögum þessa árs. Samkvæmt ákvæðum samningsins fær safnið nýja rýmið í Perlunni til afnota endurgjaldslaust í 15 ár, en Perla norðursins greiðir einnig rekstrarkostnað, svo sem rafmagn, hita, ræstingu og að auki tvö ársverk safnkennara.

Náttúrufræðingurinn í nýjum búningi

Náttúrufræðingurinn í nýjum búningi

Náttúrufræðingurinn, 1.–2. hefti 88. árgangs, er kominn út í nýjum búningi en síðast var útliti tímaritsins breytt 2002. Í heftinu er m.a. eftirfarandi efni um rannsóknir og náttúrufar á Íslandi:

Eldgos á fyrstu öldum Íslandsbyggðar
Á þremur fyrstu öldum Íslandsbyggðar urðu a.m.k. 20 eldgos á gosbeltinu á suðurhálendi Íslands. Guðrún Larsen fjallar um þetta tímabil og áhrif gosanna í Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslum.

Skollakoppur: Líffræði, veiðar og landrof
Ígulkerið skollakoppur kemur við sögu í tveimur greinum í nýja Náttúrufræðingnum. Guðrún G. Þórarinsdóttir og Karl Gunnarsson skrifa yfirlitsgrein um líffræði skollakopps og veiðar á honum sem hófust 1984. Þá fjallar Valdimar Össurarson um strandrof í Rauðasandshreppi sem hann rekur til offjölgunar skollakopps.

Eitrað gegn skógarkerfli
Brynhildur Bjarnadóttir, Bjarni Diðrik Sigurðssonog Bjarni E. Guðleifsson skýra frá tilraunum sem gerðar voru í Eyjafirði þegar reynt var að hefta útbreiðslu skógarkerfils með eitrinu glýfosfati. Niðurstaðan er sú að dýrt og erfitt sé að uppræta skógarkerfil og að forðast eigi að nota plöntueitur.

Gróður í beitarfriðuðum hólmum
Gróðurfar í beitarfriðuðum hólmum gefur vísbendingu um hvernig gróður landsins hefur þróast án víðtækra áhrifa mannsins. Sigurður H. Magnússon og Hörður Kristinsson hafa rannsakað gróður í slíkum hólmum og telja mikilvægt að vernda þá.

Af öðru efni í ritinu má nefna skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2017 og eftirmæli um Svein P. Jakobsson jarðfræðing, en hann lést 12. júlí 2016.

Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.

Og hér má finna ítarlegri upplýsingar um efnið og eldri hefti.

Grímseyjarlaxinn í sýningarfötin

Kristín Gísladóttir forvörður lagfærir laxinn og undirbýr hann fyrir sýningu síðar í mánuðinum. Ljósm. ÁI.

Náttúruminjasafninu áskotnaðist á dögunum góður gripur þegar Fiskistofa afhenti safninu  Grímseyjarlaxinn margfræga til varðveislu og eignar. Grímseyjarlaxinn er stærsti lax sem veiðst hefur við Ísland – 132 cm á lengd, 72 cm að ummáli og 49 pund eða 24,5 kíló. Hann veiddist í þorskanet 400 m vestan við Grímsey í apríl 1957.

Við greiningu á hreistrinu kom í ljós að þetta var tíu vetra gömul hrygna sem gekk fyrst til sjávar eftir fjóra vetur í ferskvatni. Hún hafði hrygnt tvisvar, sjö vetra og níu vetra gömul.

Í grein sem Þór Guðjónsson þáv. veiðimálastjóri skrifaði í Veiðimanninn 1959 leiddi hann að því líkum að laxinn gæti hafa verið úr Laxá í Þingeyjarsýslu, en í þá á ganga óvenju margir stórlaxar. Þegar laxinn gekk í sjó að lokinni seinni hrygningu, líklega fyrri hluta árs 1956, var hann af svipaðri stærð og stærstu laxar sem veiðast í Laxá.

Grímseyjarlaxinn var fljótlega stoppaður upp og var lengi á Veiðimálastofnun en þrátt fyrir vandað verk og góða varðveislu var hann farinn að láta á sjá eftir 60 ár. Hér að neðan má sjá árangur viðgerðarinnar sem fólst í styrkingu málningarlaga, hreinsun, sjá t.d. augað hér að neðan, fyllingu í sprungur og loks ímálun.

Hér er búið að gera við stóru sprunguna á kjálkanum. Ljósm. ÁI.

Fiskurinn var orðinn mjög sprunginn og málning farin að flagna, einnig var hann nokkuð rykugur.  Ljósm. ÁI.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig Kristín Gísladóttir forvörður hefur gert við gripinn og komið honum í stöðugt og gott sýningarhæft ástand. Grímseyjarlaxinn verður væntanlega til sýnis síðar í mánuðinum á vegum Náttúruminjasafnsins.

Hann er glæsilegur, Grímseyjarlaxinn! Ljósm. ÁI.

Viðar og Jón lærði á Vetrarhátíð

Vetrarhátíð er hafin og af því tilefni spjalla sérfræðingar frá söfnum sem eiga verk í Safnahúsi á sýningunni Sjónarhorn við gesti kl. 20-21 í kvöld föstudaginn 2. febrúar.

Viðar Hreinsson

Frá Náttúruminjasafni kemur Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur. Hann spjallar um listirnar, náttúruna og vísindin og samspilið þar á milli með áherslu á Jón lærða Guðmundsson, en Viðar er höfundur bókar um Jón sem nefnist Jón lærði og náttúrur náttúrunnar og kom út í nóvember 2016. Viðar mun ganga um sýninguna með gestum Safnahúss og stoppa við valda sýningarhluta.

Spekingar spjalla

Söfnin sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim eru sex talsins og  verða sérfræðingar frá öllum stofnununum á staðnum í kvöld.

Frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður Gísli Sigurðsson til viðræðu um þann kjörgrip sem nú er í öndvegi. Jóhanna Guðmundsdóttir, frá Þjóðskjalasafni, spjallar um efni sérsýningarinnar Spegill samfélagsins 1770. Frá Landsbókasafni mætir Gunnar Marel Hinriksson og ræðir einkum Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar og um galdra. Frá Þjóðminjasafni kemur Ágúst Ó. Georgsson og talar um myndablað sem sýnir helstu störf fólks til sveita á síðari hluta 19. aldar.

Sýningin Sjónarhorn var opnuð í apríl 2015. Á sýningunni er gestum boðið í leiðangur um sjónrænan menningararf þjóðarinnar þar sem saman eru komnar margvíslegar gersemar; forngripir, listaverk, skjöl, handrit og náttúrugripir. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, tekur þátt í frá stofnun safnsins vorið 2007.

 

Lúpína á hraðri leið til Mývatns

Landgræðsla ríkisins hefur að verulegu leyti vanrækt þær skyldur sínar að verja verndarsvæði Mývatns og Laxár fyrir innrás lúpínu og umhverfisráðuneytið virðist ekki hafa uppfyllt skyldur sínar varðandi eftirlit með landgræðsluverkefninu á Hólasandi.

Horft yfir Mývatn til Búrfells og Hverfjalls

Þetta er niðurstaða rannsóknar Aagot V. Óskarsdóttur lögfræðings sem fjallar um hraða útbreiðslu lúpínu á verndarsvæði Mývatns og Laxár í nýjasta hefti Náttúru-fræðingsins.

Aagot hefur fylgst með lúpínunni á þessu viðkvæma svæði og rekur hraða útbreiðslu hennar til landgræðsluverkefnis sem hófst um miðjan tíunda áratug síðustu aldar á Hólasandi.

Í grein sinni sem nefnist Útbreiðsla alaskalúpínu á norðurhluta verndarsvæðis Mývatns og Laxár, dregur Aagot saman gögn um undirbúning Hólasandsverkefnisins til að athuga hvernig áhættan af dreifingu lúpínu út fyrir landgræðslusvæðið var metin á sínum tíma. Ennfremur rekur hún hvaða skilyrði Landgræðslunni voru sett til að draga úr hættunni.

Rannsókn Aagot sem er fyrst og fremst á sviði umhverfisréttar og stjórnsýsluréttar tekur m.a. til laga um vernd Mývatns og Laxár og ábyrgðar Íslands vegna alþjóðlegra skuldbindinga um náttúruvernd en svæðið er Ramsar-svæði. Sem fyrr segir er niðurstaða hennar sú að skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og eftirliti verið áfátt.

Í nýjum Náttúrufræðingi, 87. árg. 3–4 hefti, má einnig fræðast um elstu lífveru sem þekkt er í heiminum, kúskelina Hafrúnu sem var 507 ára þegar hún var veidd 2006. Ennfremur um baráttuna gegn sullaveikinni, um nýtt landlíkan af Íslandi og um hettumáf í Eyjafirði en þar virðist áralöng fækkun á enda.

Nánar um nýja heftið hér.