Grímseyjarlaxinn í sýningarfötin

Kristín Gísladóttir forvörður lagfærir laxinn og undirbýr hann fyrir sýningu síðar í mánuðinum. Ljósm. ÁI.

Náttúruminjasafninu áskotnaðist á dögunum góður gripur þegar Fiskistofa afhenti safninu  Grímseyjarlaxinn margfræga til varðveislu og eignar. Grímseyjarlaxinn er stærsti lax sem veiðst hefur við Ísland – 132 cm á lengd, 72 cm að ummáli og 49 pund eða 24,5 kíló. Hann veiddist í þorskanet 400 m vestan við Grímsey í apríl 1957.

Við greiningu á hreistrinu kom í ljós að þetta var tíu vetra gömul hrygna sem gekk fyrst til sjávar eftir fjóra vetur í ferskvatni. Hún hafði hrygnt tvisvar, sjö vetra og níu vetra gömul.

Í grein sem Þór Guðjónsson þáv. veiðimálastjóri skrifaði í Veiðimanninn 1959 leiddi hann að því líkum að laxinn gæti hafa verið úr Laxá í Þingeyjarsýslu, en í þá á ganga óvenju margir stórlaxar. Þegar laxinn gekk í sjó að lokinni seinni hrygningu, líklega fyrri hluta árs 1956, var hann af svipaðri stærð og stærstu laxar sem veiðast í Laxá.

Grímseyjarlaxinn var fljótlega stoppaður upp og var lengi á Veiðimálastofnun en þrátt fyrir vandað verk og góða varðveislu var hann farinn að láta á sjá eftir 60 ár. Hér að neðan má sjá árangur viðgerðarinnar sem fólst í styrkingu málningarlaga, hreinsun, sjá t.d. augað hér að neðan, fyllingu í sprungur og loks ímálun.

Hér er búið að gera við stóru sprunguna á kjálkanum. Ljósm. ÁI.

Fiskurinn var orðinn mjög sprunginn og málning farin að flagna, einnig var hann nokkuð rykugur.  Ljósm. ÁI.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig Kristín Gísladóttir forvörður hefur gert við gripinn og komið honum í stöðugt og gott sýningarhæft ástand. Grímseyjarlaxinn verður væntanlega til sýnis síðar í mánuðinum á vegum Náttúruminjasafnsins.

Hann er glæsilegur, Grímseyjarlaxinn! Ljósm. ÁI.

Viðar og Jón lærði á Vetrarhátíð

Vetrarhátíð er hafin og af því tilefni spjalla sérfræðingar frá söfnum sem eiga verk í Safnahúsi á sýningunni Sjónarhorn við gesti kl. 20-21 í kvöld föstudaginn 2. febrúar.

Viðar Hreinsson

Frá Náttúruminjasafni kemur Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur. Hann spjallar um listirnar, náttúruna og vísindin og samspilið þar á milli með áherslu á Jón lærða Guðmundsson, en Viðar er höfundur bókar um Jón sem nefnist Jón lærði og náttúrur náttúrunnar og kom út í nóvember 2016. Viðar mun ganga um sýninguna með gestum Safnahúss og stoppa við valda sýningarhluta.

Spekingar spjalla

Söfnin sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim eru sex talsins og  verða sérfræðingar frá öllum stofnununum á staðnum í kvöld.

Frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður Gísli Sigurðsson til viðræðu um þann kjörgrip sem nú er í öndvegi. Jóhanna Guðmundsdóttir, frá Þjóðskjalasafni, spjallar um efni sérsýningarinnar Spegill samfélagsins 1770. Frá Landsbókasafni mætir Gunnar Marel Hinriksson og ræðir einkum Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar og um galdra. Frá Þjóðminjasafni kemur Ágúst Ó. Georgsson og talar um myndablað sem sýnir helstu störf fólks til sveita á síðari hluta 19. aldar.

Sýningin Sjónarhorn var opnuð í apríl 2015. Á sýningunni er gestum boðið í leiðangur um sjónrænan menningararf þjóðarinnar þar sem saman eru komnar margvíslegar gersemar; forngripir, listaverk, skjöl, handrit og náttúrugripir. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, tekur þátt í frá stofnun safnsins vorið 2007.

 

Lúpína á hraðri leið til Mývatns

Landgræðsla ríkisins hefur að verulegu leyti vanrækt þær skyldur sínar að verja verndarsvæði Mývatns og Laxár fyrir innrás lúpínu og umhverfisráðuneytið virðist ekki hafa uppfyllt skyldur sínar varðandi eftirlit með landgræðsluverkefninu á Hólasandi.

Horft yfir Mývatn til Búrfells og Hverfjalls

Þetta er niðurstaða rannsóknar Aagot V. Óskarsdóttur lögfræðings sem fjallar um hraða útbreiðslu lúpínu á verndarsvæði Mývatns og Laxár í nýjasta hefti Náttúru-fræðingsins.

Aagot hefur fylgst með lúpínunni á þessu viðkvæma svæði og rekur hraða útbreiðslu hennar til landgræðsluverkefnis sem hófst um miðjan tíunda áratug síðustu aldar á Hólasandi.

Í grein sinni sem nefnist Útbreiðsla alaskalúpínu á norðurhluta verndarsvæðis Mývatns og Laxár, dregur Aagot saman gögn um undirbúning Hólasandsverkefnisins til að athuga hvernig áhættan af dreifingu lúpínu út fyrir landgræðslusvæðið var metin á sínum tíma. Ennfremur rekur hún hvaða skilyrði Landgræðslunni voru sett til að draga úr hættunni.

Rannsókn Aagot sem er fyrst og fremst á sviði umhverfisréttar og stjórnsýsluréttar tekur m.a. til laga um vernd Mývatns og Laxár og ábyrgðar Íslands vegna alþjóðlegra skuldbindinga um náttúruvernd en svæðið er Ramsar-svæði. Sem fyrr segir er niðurstaða hennar sú að skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og eftirliti verið áfátt.

Í nýjum Náttúrufræðingi, 87. árg. 3–4 hefti, má einnig fræðast um elstu lífveru sem þekkt er í heiminum, kúskelina Hafrúnu sem var 507 ára þegar hún var veidd 2006. Ennfremur um baráttuna gegn sullaveikinni, um nýtt landlíkan af Íslandi og um hettumáf í Eyjafirði en þar virðist áralöng fækkun á enda.

Nánar um nýja heftið hér.

Þingvallavatn er að hlýna

Spegilslétt Þingvallavatn á fallegum degi.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands flytur n.k. mánudag,  29. janúar, fræðsluerindi í fundaröð HÍN.

Erindið nefnist Hlýnun Þingvalla-vatns og hitaferlar í vatninu. Það hefst kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju.

Allir eru velkomnir.

Hitamælingar frá 1962

Í erindinu mun Hilmar fjalla um langtímamælingar á vatnshita í útfalli Þingvallavatns frá upphafi reglulegra mælinga á vegum Landsvirkjunar árið 1962 og fram til 2017 og athuga þær mæliniðurstöður í tengslum við veðurfarsbreytur á vatnasviðinu. Hann spáir einnig í langtímaþróun ísalagna í vatninu og gerir grein fyrir vatnshitamælingum úti í vatnsbol Þingvallavatns sem hófust árið 2007 og varpa ljósi á lóðrétta hitaferla í vatninu.

Umtalsverð hlýnun á 30 árum

Ís og skæni á Þingvallavatni.

Rannsóknirnar staðfesta að Þingvallavatn hefur hlýnað umtalsvert á síðastliðnum 30 árum eða svo, frá lokum kuldaskeiðs sem varði milli 1965 og 1985‒86, og fellur hlýnun vatnsins vel að þróun hækkandi lofthita á vatnasviðinu. Ársmeðalhiti í vatninu hefur hækkað að jafnaði um 0,15°C á áratug sem sem er á svipuðu róli og í öðrum stórum, djúpum vötnum á norðlægum slóðum. Mest er hlýnunin að sumri til (júní‒ágúst) með 1,3–1,6°C hækkun á meðalhita mánaðar á árabilinu 1962–2016. Fast á hælana fylgja haust- og vetrarmánuðirnir (september‒janúar) með hækkun á meðalhita mánaðar á bilinu 0,7–1,1°C. Vegna hlýnunarinnar leggur Þingvallavatn bæði sjaldnar og seinna en áður og ís brotnar fyrr upp. Hlýnun vatnsins virðist einnig hafa eflt hitaskil og lagskiptingu úti í vatnsbolnum.

Hverju breytir þetta?

Spáð er í afleiðingar hlýnunarinnar fyrir lífríki vatnsins sem sumar hverjar virðast þegar vera mælanlegar, t.a.m. aukin frumframleiðsla, og sverja þær sig í ætt við breytingar í vistkerfum í vötnum annars staðar á norðurslóð. Þá hafa fordæmalausar breytingar átt sér stað nýlega í svifþörungaflóru vatnsins m.t.t. tegundasamsetningar og vaxtarferils á ársgrunni og kunna þær breytingar að stafa af samverkandi áhrifum hlýnunar og aukinnar ákomu næringarefna í vatnið.

Dr. Hilmar J. Malmquist er líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Hilmar hefur um áratugaskeið sinnt margvíslegum vatnalíffræðirannsóknum, þ. á m. vöktunarrannsóknum í Þingvallavatni. Hilmar lauk sveinsprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1983, meistaraprófi í vatnavistfræði frá Hafnarháskóla 1985 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla 1992.

Náttúran í listinni – Listin í náttúrunni

Goddur með leiðsögn í Safnahúsinu

Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við LHÍ

Sunnudaginn 26. nóvember klukkan 14 mun Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) prófessor við Listaháskóla Íslands ganga með gestum um sýninguna  Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Leiðsögn Godds er á vegum Náttúruminjasafns Íslands og hann mun spá jafnt í hinn sjónræna þátt náttúrunnar í menningunni og huga að framlagi listageirans til náttúrufræðinnar.

Sýningin Sjónarhorn er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015.

Safnahúsið við Hverfisgötu 15.

Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Grunnsýningin stendur yfir í fimm ár – til ársins 2020. 

Leiðsögnin á sunnudaginn er ókeypis. Verið öll velkomin!

Hér má sjá umfjöllun um sýninguna á vef Náttúruminjasafnsins.