Dýrmæt og rausnarleg bókagjöf

Dýrmæt og rausnarleg bókagjöf

Pétur ásamt Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands. Vigdís ritaði formála að bókum Péturs um Þingvallavatn sem út komu 1992, 2002 og 2011. Bókin Þingvallavatn, undraheimur í mótun, hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin á árinu 2002.

Pétur M. Jónasson, 98 ára, prófessor emeritus við Kaupmannahafnarháskóla og dætur hans Margrét og Kristín hafa fært Náttúruminjasafni Íslands einkar veglega bókagjöf. Gjöfin telur um 500 titla af fræðiritum um náttúru, einkum vatnalíffræði, eftir evrópska náttúrufræðinga, frá ofanverðri 17. öld og fram á 21. öldina. Mörg verkin eru mikil fágæti og afar dýrmæt, sem fá söfn geta státað af.

Pétur afhendir Hilmari J. Malmquist elstu bókina í bókakostinum, ANATOME ANIMALIUM, Terrestrium variorum, Volatilium, Aquatilium, Serpentum, Insectorum, Ovorumque, structuram naturalem. Bókinkom út í Amsterdam árið 1681 og er eftir hollenska lækninn og líffærafræðinginn Gerard Blasius (1627–1682). Bókin er hinn mestu dýrgripur og fágæti, um 500 blaðsíður, bundin í skinn og ríkulega myndskreytt.

Bókagjöfinni var veitt viðtaka í Veröld, húsi Vigdísar, sunnudaginn 2. desember s.l. að viðstöddum Pétri og fjölskyldum dætra hans, frú Vigdísi Finnbogadóttur og Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri gestum, þ.á m. mörgum fyrrum nemendum og samstarfsmönnum Péturs. Dætur Péturs, þær Kristín Jónasson og Margrét Jónasson, lýstu gjöfinni sem fyllir þrjú vörubretti og afhentu safninu bókaskrá ásamt kvittunum fyrir bókakaupum allt frá árinu 1949, sem Pétur hafði haldið til haga.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins færði Pétri M. Jónassyni hjartanlegar þakkir fyrir veglega bókagjöf. Á myndinni má sjá til vinstri Margréti og Kristínu, dætur Péturs og Pétur sjálfan sem varð 98 ára í sumar. Fyrir miðri mynd eru þær Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ásamt gestum sem margir hafa numið við fótskör Péturs í Hafnarháskóla.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, Viðar Hreinsson sagnfræðingur og Árni Hjartarson jarðfræðingur virða fyrir sér bókina ANATOME ANIMALIUM frá árinu 1681. Í baksýn eru Ólafur Andrésson prófessor við H.Í. og Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur.

„Framlag Péturs til menningararfs þjóðarinnar felst ekki aðeins í þessari veglegu bókagjöf, heldur, eins og margir þekkja, í ómetanlegu framlagi hans til náttúrurannsókna og náttúruverndar í landinu. Hér vísa ég til brautryðjandi rannsóknaverkefna undir forystu Péturs á vistfræði Mývatns og Þingvallavatns og baráttu Péturs í kjölfarið fyrir verndun þessara náttúruperla,“sagði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins þegar hann færði Pétri þakkir fyrir gjöfina.

Hilmar sagði þessa veglegu bókagjöf úr einkasafni Péturs styðja afskaplega vel við meginhlutverk í starfsemi Náttúruminjasafnsins, sem samkvæmt safnalögum er einmitt að tryggja bæði menningar- og náttúruarf Íslands, gera hann aðgengilegan almenningi, efla skilning á honum og stöðu hans í samfélaginu og auka með því móti lífsgæði manna.

Hann þakkaði Ingibjörgu Sverrisdóttur landsbókaverði fyrir að bregðast fljótt og vel við og skjóta skjólshúsi yfir bókakostinn og hýsa hann til bráðabirgða, eða þar til hann hefur verið skráður rafrænt og gerður aðgengilegur almenningi. „Þá geri ég mér vonir til þess að bókagjöfin verði hýst hér Loftskeytastöðinni gömlu, a.m.k. til að byrja með, eða þar til Náttúruminjasafnið hefur eignast eigið húsnæði undir starfsemi sína“ sagði Hilmar.


Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ásamt Pétri M. Jónassyni við afhendingu bókagjafarinnar.

Pétur lék á alls oddi við afhendingu bókanna – og tók m.a. upp gamla kennaratakta en á meðal gesta  voru margir fyrrum nemendur hans við Kaupmannahafnarháskóla.

Pétur Mikkel Jónasson, fæddist 18. júní 1920 í Reykjavík. Á unga aldri dvaldi hann hjá afa sínum og ömmu í Miðfelli á bökkum Þingvallavatns og þar drakk hann í sig stórbrotna náttúru Þingvallasveitar. Pétur fór utan 1939 og nam vatnalíffræði við Hafnarháskóla og lauk þaðan magistersprófi 1952 og doktorsprófi 1972. Viðfangsefni Péturs voru vistfræði straum- og stöðuvatna í Danmörku. Síðar beindi Pétur einnig sjónum að Íslandi og stóð hann fyrir umfangsmiklum rannsóknum á vistfræði Mývatns-Laxár og Þingvallavatns á árunum 1971–1982.

Fjölmenni við opnun sýningar safnsins í Perlunni á laugardag

Fjölmenni við opnun sýningar safnsins í Perlunni á laugardag

Áætlað er að um 500 manns hafi komið á sýninguna VATNIÐ í náttúru Íslands, sem opnuð var í Perlunni á laugardag, 1. desember s.l. Það var ekki klippt á borða heldur slepptu tvö skólabörn vatnadýrum í Vatnsborðið – stórt ker sem kemur til með að vera kennsluborð fyrir skólahópa eftir áramótin.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bauð gesti velkomna en í þeirra hópi var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reed, Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningar málaráðherra sem fagnaði opnun sýningarinnar í ávarpi sínu. Söngsveitin Fílharmónía flutti tvö tónverk undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.

Tvö skólabörn úr Reykjavík, Úlfhildur Arnardóttir, 13 ára og Matthías Jón Magnússon 8 ára opnuðu sýninguna formlega með því að sleppa hornsílum og fleiri vatnadýrum í Vatnsborðið, og nutu við það aðstoðar forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.

 

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Lökke Rasmussen sýndi vatnadýrunum mikinn áhuga. Hér er hann með Katrínu Jakobsdóttur og Lilju D. Alfreðsdóttur.

Hvernig þróast bleikjan? Margmiðlunarleikur fyrir börn og fullorðna lýsir myndun fjögurra afbrigða bleikjunnar í Þingvallavatni.

Í kíkjum má sjá einstakar ljósmyndir sem Wim van Egmond tók af lífríki í Þingvallavatni.

Einkennisdýr sýningarinnar er vatnskötturinn, sem er lirfa fjallaklukku, stærstu vatnabjöllu landsins. Þetta er líkan af klukkunni sjálfri.

Á gluggum og á tönkum eru orðaflaumar – m.a. 120 orð um ský og sami fjöldi orða um vatnsveður, enn fleiri orð um votlendi og 773 fossheiti.

Störf safnakennara

Störf safnakennara

Störf safnkennara við Náttúruminjasafn Íslands eru laus til umsóknar

Náttúruminjasafn Íslands vill ráða tvo safnkennara til að sjá um fræðslu og leiðsögn fyrir hópa á sýningu safnsins Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni í Öskjuhlíð og á fleiri sýningum.

Helstu verkefni:
• Skipulag og móttaka skólahópa, kennsla nemenda og fræðsla, einkum úr leik- og grunnskóla.
• Hópleiðsögn fyrir almenna safngesti eftir atvikum, innlenda sem erlenda.
• Þátttaka í gerð og þróun fræðsluefnis um sýningu safnsins og umsjón með fræðsluefni á vef safnsins.
• Þátttaka í undirbúningi og framkvæmd viðburða á vegum safnsins.
• Þátttaka í þjónustu við vatnabúr og vatnalífverur á sýningu safnsins.

Menntunar- og hæfniskröfur:
• Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
• Kennsluréttindi og/eða kennslureynsla.
• Góð kunnátta í íslensku og ensku, fleiri tungumál eru kostur.
• Góð ritfærni og tölvukunnátta.
• Hæfni í mannlegum samskiptum.
• Frumkvæði og sjálfstæði í starfi.
• Góð þekking á náttúru Íslands og reynsla af safnastarfi er æskileg.

Um er að ræða tvær heilar stöður og æskilegt að viðkomandi hefji störf 1. janúar 2019, eða samkvæmt nánara samkomulagi.

Umsóknarfrestur er til og með 15. nóvember n.k.

Umsókn skal fylgja kynningarbréf með mynd og ferilskrá þar sem fram koma upplýsingar um menntun og fyrri störf umsækjanda. Umsókn sendist á netfangið nmsi@nmsi.is merkt „Safnkennari“.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Nánari upplýsingar veitir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands (hjm@nmsi.is, 577 1800).

Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn og starfar samkvæmt lögum um Náttúruminjasafn nr. 35/2007 og Safnalögum nr. 141/2011. Hlutverk þess er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi.

Handagangur í Öskjuhlíð!

Handagangur í Öskjuhlíð!

Mælt fyrir fyrsta veggnum á sýningarsvæði safnsins í Perlunni.
Ljósm. AKG.

Viðgerðum í kjölfar bruna sem varð í Perlunni 26. apríl s.l. er að ljúka nú og uppsetning á sýningu Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, hófst í morgun á gólfrými Perlunnar.

Markmiðið er að opna sýninguna 1. desember n.k. þannig að ljóst er að mikið verk er framundan. Undirbúningur miðaðist í upphafi við að safnið fengi svæðið afhent í byrjun júní, en skemmdir vegna brunans voru mun umfangsmeiri en fyrst var talið og því var það núna fyrst undir lok september að rýmið, um 350 fm á 2. hæð, var afhent safninu.

Þannig var umhorfs eftir brunann 26. apríl s.l. í sýningarrými Náttúruminjasafnsins.

Búið er að klæða einn tank af þremur sem snúa inn í rými safnsins. Hér má sjá á tankinn sem kviknaði í.  Ljósm. AKG.

Margir leggja hönd á plóginn og koma við sögu við hönnun, framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar, ríflega 100 manns, þegar allt er talið. Það verður því handagangur í Öskjuhlíðinni á næstunni. Verkefnið er ærið en viðfangsefnið er líka afar heillandi og mikilvægt – dýrmæta vatnið í náttúrunni okkar og veröldin í vatninu, allt lífríkið smátt sem stórt með sínum undrum og furðum.

Náttúruminjasafnið í Perluna!

Náttúruminjasafnið í Perluna!

„Þetta er afar mikilvægt skref í sögu Náttúruminjasafnsins, eins okkar höfuðsafna, sem fær hér góða aðstöðu til sýningahalds. Ég hlakka til að sækja safnið heim þegar sýningin verður opnuð í vetur. Mér finnst einkar gott til þess að vita að hér mun unga kynslóðin fá frábært tækifæri til þess að kynnast náttúru landsins gegnum vandaðar sýningar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Með ráðherra eru á myndinni Hilmar J. Malmquist og Gunnar Gunnarsson. Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.

Í dag var undirritaður samningur milli Náttúruminjasafnsins og Perlu norðursins um að safnið fái til afnota um 350 fm nýja hæð í Perlunni. Sérsýning safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, verður opnuð þar 1. desember n.k. og verður opnunin liður í hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlu norðursins undirrituðu samninginn að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur.

„Þetta er afar mikilvægt skref í sögu Náttúruminjasafnsins, eins okkar höfuðsafna, sem fær hér góða aðstöðu til sýningahalds. Ég hlakka til að sækja safnið heim þegar sýningin verður opnuð í vetur. Mér finnst einkar gott til þess að vita að hér mun unga kynslóðin fá frábært tækifæri til þess að kynnast náttúru landsins gegnum vandaðar sýningar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Með ráðherra eru á myndinni Hilmar J. Malmquist og Gunnar Gunnarsson. Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.

„Þetta er mjög merkur og ánægjulegur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Þetta verður fyrsta sýningin frá stofnun safnsins 2007 sem safnið sjálft hannar frá grunni og setur upp,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.
„Það er löngu brýnt að þjóðin eignist góða aðstöðu til sýningahalds fyrir Náttúruminjasafnið, höfuðsafn landsins í náttúrufræðum. Nú hillir undir að slík uppbygging verði að veruleika með fyrirheiti í ríkisfjármálaáætlun 2019–2023 og það er ánægjulegt að geta opnað þessa sérsýningu 1. desember n.k. Það er rík ástæða til að þakka bæði Perlu norðursins og ráðherranum, Lilju Alfreðsdóttur, fyrir að leggja sitt af mörkum til að þess gamli draumur geti ræst.“

Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlunnar segir ánægjulegt að fá Náttúruminjasafn Íslands í Perluna sem viðbót við hina einstöku sýningu Undur íslenskrar náttúru. „Náttúruminjasafnið er eitt af höfuðsöfnum landsins og það er mikið fagnaðarefni að það fái loks sýningaraðstöðu sem því sæmir, á 100 ára afmæli fullveldis Íslands.“

Vatnið í náttúru Íslands

Ljósm. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

Vatn er undirstaða lífs á jörðinni. Ísland er óvenju vatnsríkt land og vatn mjög einkennandi í náttúrunni og m.a. þess vegna varð  Vatnið í náttúru Íslands fyrir valinu á þessa fyrstu sérsýningu safnsins. Á sýningunni verður fjallað um vatn í víðum skilningi, allt frá hinu smæsta til hins stærsta, frá dropanum til heilla vatnasviða og veðurkerfa, frá sameindum til stórra eininga og frá örverum og plöntum til stærstu vatnadýra.

Á sýningunni verða lifandi vatnadýr og jurtir. Við miðlun efnis verður áhersla lögð á virka þátttöku gesta og efnið sett fram á nýstárlegan hátt.

Sýningunni er ætlað að höfða til fróðleiksfúsra landsmanna og erlendra gesta, fólks á öllum aldri og ekki síst til barna. Markmið þessarar sýningar er að vekja aðdáun og virðingu fyrir vatni og fræða gesti um undur og furður náttúrunnar og mikilvægi vatns fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu.

Náttúruminjasafn Íslands stendur straum af stofnkostnaði sýningarinnar, en 290 milljón króna fjárveiting fékkst til sýningarhaldsins á fjárlögum þessa árs. Samkvæmt ákvæðum samningsins fær safnið nýja rýmið í Perlunni til afnota endurgjaldslaust í 15 ár, en Perla norðursins greiðir einnig rekstrarkostnað, svo sem rafmagn, hita, ræstingu og að auki tvö ársverk safnkennara.