Vistgerðir á Íslandi

Náttúrufræðistofnun Íslands og samstarfsaðilar hennar hafa kortlagt og gert aðgengilega í kortasjá flokkun þurrlendis, ferskvatns og fjöru í 105 vistgerðir sem ná til 64 vistgerða á landi, 17 í ám og vötnum og 24 í fjörum. Í verkefninu, Natura Ísland, eru vistgerðirnar skilgreindar, þeim lýst og þær flokkaðar auk þess sem útbreiðsla þeirra á landinu og stærð er birt á vistgerðakorti.

33 nýjar íslenskar vistgerðir

Gulstararfitjavist við Kirkjuból í Korpudal fyrir botni Önundarfjarðar. Hávaxin gulstör er ríkjandi en með henni vaxa m.a. hrafnaklukka, skriðlíngresi og skriðstör. Ljósmynd: Sigmar Metúsalemsson.

Flokkun í vistgerðir byggir að mestu á evrópska EUNIS-flokkunarkerfinu, en þar sem náttúra Íslands er um margt ólík náttúrufari annars staðar í Evrópu þurfti að skilgreina 33 nýjar vistgerðir sem eru einstakar fyrir Ísland, þar af 10 í ferskvatni, t.d. jökulvötn, tegundarík kransþörungsvötn og súr vötn, sem eru gígvötn með hveravirkni í botni. Aðeins eru þekkt tvö súr vötn á Íslandi, Grænavatn og Víti. Sérstæðasta vistgerðin á þurrlendi er gulstararfitjavist sem finnst á sléttum flæðilöndum við sjó. Hún er mjög fágæt.

Blávatn í gíg Oksins, jökulvatn sem fannst árið 2007. Horft er í suður af norðanverðum gígbarminum efst á Okinu. Ljósmynd: Hilmar J. Malmquist.

Sandmaðksleira í Hvalfirði. Hraukar sandmaðksins sjást yfirleitt vel á yfirborði. Ljósmynd: Sigríður Kristinsdóttir.

Kortasjá með vistgerðum

Þetta er í fyrsta skipti sem heildarflokkun vistgerða byggð á samræmdri og viðurkenndri flokkun vistgerða í Evrópu fer fram á Íslandi og birtast niðurstöðurnar í sérstakri vefsjá á vef NÍ en einnig í ritinu Vistgerðir á Íslandi. Á vefnum og í ritinu er að finna lýsingu á hverri vistgerð, ljósmyndir og útbreiðslukort á staðreyndasíðum.

Nýr grunnur fyrir umhverfismat og landnýtingu

Mikil vettvangsvinna og stórir gagnagrunnar liggja að baki niðurstöðunum og ljóst að verkefnið er ekki aðeins grunnur að frekari kortlagningu á náttúru Íslands og vöktun heldur felst einnig í afurðinni mikilvægur og nýr grundvöllur að ákvarðanatöku um skipulag, mati á umhverfisáhrifum verklegra framkvæmda, svo sem orkuvinnslu og vegagerð sem og landnýtingu almennt; náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu.

Grunnur að lýsingu og kortlagningu vistgerða á Íslandi á vegum Náttúrufræðistofnunar var lagður um aldamótin með rannsóknunum á miðhálendinu og síðan hafa bæst við önnur svæði á hálendi, láglendi, ferskvatni og fjöru. Verkefnið er unnið í samstarfi við fjölda einstaklinga og stofnanir á sviði náttúrufræða en samstarfsstofnanir voru Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrustofur, Skógrækt ríkisins og Landmælingar Íslands.

Útbreiðslukort og verndargildi vistgerða

Alaskalúpína eru allútbreidd en hún er skráð í 30% landsreita. Heildarflatarmál lúpínusvæða reiknast um 300 km2, óvissa nokkur.

Kort sýna útbreiðslu vistgerðar á landsvísu. Ferningar á kortinu tákna 10×10 ferkm reiti og er samanlögð þekja vistgerðarinnar innan rammans reiknuð.

Hér til hægri má sjá útbreiðslu alaskalúpínu sem finnst á landgræðslu- og skógræktarsvæðum og beitarfriðuðu landi á láglendi í öllum landshlutum. Hún finnst í þriðjungi allra landsreita og er algengust á Suður- og Suðvesturlandi og á Norðausturlandi.

Grashólavist er mjög fágæt en hún finnst í 1% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 50 km2, óvissa nokkur, óglögg skil við líkar vistgerðir.

Hér er stigið fyrsta skref í á meta verndargildi einstakra vistgerða á landsvísu. Verndarviðmiðin eru m.a. fágæti, tegundaauðgi, gróska og kolefnisforði og er mat á verndargildi vistgerðar er flokkað í fjóra flokka: lágt, miðlungs, hátt eða mjög hátt.  Hér er aðeins um frummat að ræða en síðar á þessu ári verður lokið við að velja svæði skv. framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og ákvæðum náttúruverndarlaga um sérstaka verndun tiltekinna jarðminja og vistkerfa.

Hér að ofan má sjá útbreiðslu grashólavistar sem finnst á strandsvæðum þar sem sandhólar hafa gróið upp. Hún er algengust á sunnanverðu snæfellsnesi. Verndargildi er hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Hvað er vistgerð?
„Vistgerð er landeining sem býr yfir ákveðnum eiginleikum
hvað varðar gróður, dýralíf, jarðveg og loftslag. Innan sömu
vistgerðar eru aðstæður með þeim hætti að þar þrífast
svipuð samfélög plantna og dýra“     
(Náttúrufræðistofnun Íslands).

„Svæði sem einkennist af ákveðnum samfélögum plantna og dýra
þar sem umhverfisþættir, svo sem loftslag,
jarðvegur og raki, eru svipaðir“      (European Environment Agensy).

„Staðir eða svæði með ákveðnum einkennum,t.d. hvað varðar gróður
og dýralíf, jarðveg og loftslag“     (Lög nr. 60/2013 um náttúruvernd 5.gr.).

Meira um vistgerðir
Á vef Náttúrufræðistofnunar segir um staðreyndasíðurnar: „Þær eru eru lykill fyrir leika og lærða að vistgerðunum, einkennum þeirra, útbreiðslu og verndargildi. Jafnframt eru staðreyndasíðurnar mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að greiningu vistgerða og kortlagningu á vettvangi. Vistgerðakortin veita hagnýtar upplýsingar um náttúru landsins sem nýtast stjórnvöldum, sveitarfélögum, atvinnulífi og almenningi. Þau leggja mikilvægan grunn fyrir upplýstar ákvarðanir um alla landnotkun og áætlanagerð, s.s. vegna náttúruverndar, skipulagsmála, mats á umhverfisáhrifum framkvæmda og náttúruvöktunar. Þau gera Íslandi jafnframt kleift að sinna betur alþjóðlegum skyldum sínum á sviði náttúruverndarmála.“

14:2

Um Jón lærða – athugasemdir og svör höfundar

Viðar Hreinsson

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur og höfundur bókarinnar Jón lærði og náttúrur náttúrunnar vísar harkalegri gagnrýni Einars G. Péturssonar, sem titlar sig rannsóknarprófessor á Árnastofnun, á bók sína á bug í grein í Morgunblaðinu í dag, 23. febrúar. Viðar nefnir grein sína 14:2 – Um athugsemdir við bók um Jón lærða og vísar þar til þess að af 16 athugasemdum Einars eigi aðeins tvær við og þá aðeins að hluta.

Svargrein Viðars rúmaðist ekki öll innan ramma Morgunblaðsins fyrir aðsendar greinar og eru því birtar hér á vefnum bæði styttri greinin í Morgunblaðinu og sú lengri frá hendi Viðars. Málið er skylt Náttúruminjasafninu sem m.a. kemur að útgáfu verksins ásamt Lesstofunni.

Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Viðurkenningar Hagþenkis

Fræðimenn sem tilnefndir eru til viðurkenningar Hagþenkis. Afhending fer fram í ráðstefnusal Þjóðarbókhlöðunnar á annrri hæð, miðvikudaginn 1. mars og hefst kl. 17.

Hið mikla bókmenntaverk Viðars Hreinssonar, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar hefur hlotið einkar góðar viðtökur og lofsamlega umfjöllun meðal gagnrýnenda á samfélagsmiðlum og í Kiljunni, enda vandað til verksins í hvívetna eins og tilnefningar á bókinni til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2016 og til Viðurkenningar Hagþenkis 2016 eru til vitnis um.

Harkaleg gagnrýni á fræðimannsheiður Viðars

Í gagnrýni sinni vegur Einar að fræðimannsheiðri Viðars og dregur í efa að verkið standist kröfur til að hafa verið tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita. Í svari sínu fer Viðar lið fyrir lið yfir gagnrýni Einars. Í Morgunblaðinu var heldur þröngur stakkur skorinn sem fyrr segir og hefur Viðar því einnig birt svar sitt í heild, bæði hér á heimasíðu Náttúruminjasafnsins og fésbókarsíðu sinni.

Grein Einars G. Péturssonar í Mbl. 17.02.2017:
Athugasemdir um bók Viðars Hreinssonar, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.

Grein Viðars Hreinssonar í Mbl. 23.02.2017:
14:2 – Um athugasemdir við bók um Jón lærða

Svargrein Viðars Hreinssonar í heild  14:2. Um athugasemdir við bók um Jón lærða.

Nánari umfjöllun um bókverkið Jón lærða og náttúrur náttúrunnar er á heimasíðu Náttúruminjasafnsins – og um samvinnu Viðars og NMSÍ hér.

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Út er komið 3.-4, hefti Náttúrufræðingsins, 86. árgangs með fjölda áhugaverðra greina eftir leika og lærða um náttúru Íslands.

Austurveggur Jökulsárgljúfurs, skammt norðan við Hafragilsfoss prýðir forsíðu heftisins.

Í forsíðugreininni, Eldar í Öskjukerfi fyrir um 11 þúsund árum, segir frá rannsókn Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, á lengstu gígaröð landsins, Sveina- og Randarhólagígaröðinni í norðanverðu Öskjukerfinu, en nýverið tókst með hjálp gjóskulaga að tímasetja hraunið og fá fram áreiðanlega tímasetningu gossins.

Ný úttekt á útbreiðslu birkis og ástandi þess fór fram 2010–2014, sú þriðja í röðinni, og leiðir í ljós að náttúrulegt birki á Íslandi hefur verið í töluverðri sókn á síðustu áratugum eftir margra alda hnignunarskeið.

Hraunhellar hafa mikið aðdráttarafl en vaxandi ágangur, sem m.a. má rekja til nákvæmra upplýsinga um hvar spennandi hella er að finna, hefur orðið til þess að sumir þekktustu hellar landsins eru nú rúnir öllu skrauti sínu og fegurð. Í greininni, Surtshellir í Hallmundarhrauni, er sagt frá könnun Surtshellis fyrr á öldum, en einnig frá rannsókn á brotstöðum dropsteina í Stefánshelli og Víðgelmi en dropsteinar og dropstrá voru friðlýst 1958 og 1974.

Af öðru efni má nefna grein um samlífi sæfífils og rækju sem neðansjávarljósmyndir varpa ljósi á og aðra um rannsóknir á radoni í hveragasi og bergi. Sagt er frá mælingu á fjarlægð fastastjörnunnar 61 Cygni frá Íslandi, sérkennilegum fyrirbærum í íslenskri náttúru sem nefnast stallabrekkur eða paldrar.

Loks má nefna ritrýni um stórvirkið Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar eftir Snorra Baldursson og leiðarann sem fjallar um viðbrögð við PISA könnuninni 2015.

Hér má nálgast efnisyfirlit nýja heftisins

Meira um efnið hér!

Nýir og bjartir tímar framundan 

–  hugleiðing forstöðumanns á jólaföstu 2016

jolakvedja-2016Þá hefur árið 2016 senn runnið sitt skeið á enda með kostum sínum og göllum, sigrum og ósigrum, gleði, harmi og hamingju – eins og gengur. Ekki verður annað sagt en að rofað hafi til í málefnum safnsins nú á allra síðustu vikum og að nokkuð bjart sé framundan, a.m.k. í ljósi hartnær 130 sögu safnsins og forvera þess. 

Hér er annars vegar átt við þingsályktunina vegna 100 ára fullveldisafmælis íslenska ríkisins árið 2018, sem Alþingi samþykkti skömmu fyrir þingkosningarnar í október, og hins vegar fjárlagafrumvarp ársins 2017 sem lagt var fram í byrjun desember. Í báðum tilvikum felast býsna merk tíðindi fyrir Náttúruminjasafnið.

Í fyrra tilvikinu, þingsályktuninni sem samþykkt var í október, er að finna málsgrein um Náttúruminjasafnið þar sem segir að Alþingi skuli „fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“ Þetta er í fyrsta skipti síðan safnið var sett á laggirnar sem fyrir liggur staðfestur, þverpólitískur vilji Alþingis til að gera vel við höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum. Að ályktuninni stóðu forsvarsmenn allra fimm flokkanna sem sæti áttu á síðasta Alþingi og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust en sjö þingmenn voru fjarverandi. Afar ánægjuleg niðurstaða og þótt fyrr hefði verið! Gangi allt eðlilega eftir á Alþingi næsta vor verður Náttúruminjasafni Íslands loksins gert kleift að byggja starfsemi sína upp til frambúðar og rækja mikilvægt fræðslu- og menntunarhlutverk sitt með sóma og virðingu í samræmi við lög. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Hin ánægjulegu tíðindin eru að samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi hækkar fjárheimild safnsins árið 2017 um nær 50% miðað við fyrri ár, fer úr um 25 m.kr. á ári eins og verið hefur að jafnaði sl. tíu ár og verður tæpar 39 m.kr. Þetta er að vísu ekki há upphæð miðað við fjárveitingar til hinna höfuðsafnanna tveggja, Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands, sem fá á næsta ári 10-20 sinnum meira fé en Náttúruminjasafnið. En mjór er mikils vísir og með tilvísun í áðurnefnda þingsályktun er viðbúið að í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni fyrir árabilið 2018-2022 verði staða Náttúruminjasafnsins allt önnur.

Við Eldborg á Mýrum í júníbyrjun 2016: Sigrún Helgadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Hilmar J. Malmquist, Þorleifur Eiríksson, Stefán Óli Steingrímsson, Skúli Skúlason og Viðar Hreinsson. Þessi hópur ásamt Sigmundi Einarssyni hefur vinnuaðstöðu í Loftskeytastöðinni.

Við Eldborg á Mýrum í júníbyrjun 2016: Sigrún Helgadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Hilmar J. Malmquist, Þorleifur Eiríksson, Stefán Óli Steingrímsson, Skúli Skúlason og Viðar Hreinsson. Þessi hópur ásamt Sigmundi Einarssyni hefur vinnuaðstöðu í Loftskeytastöðinni.

Það er ekki einasta að bjart sé framundan hjá Náttúruminjasafninu heldur gekk starfsemi safnsins og samstarfsmanna þess á líðandi ári mjög vel. Margs er að minnast en hæst stendur útgáfan með Lesstofunni á stórvirki Viðars Hreinssonar um Jón lærða og náttúrur náttúrunnar sem kom út í nóvember og tilnefnd hefur verið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Viðar gekk til liðs við Náttúruminjasafnið fyrir tæpum tveimur árum síðan og veitir safnið honum starfsaðstöðu og eilítinn fjárstuðning. Mikill fengur er af samstarfinu við Viðar og ljóst nú þegar að framhald verður á því. Það verkefni mun byggjast m.a. á afar áhugaverðum niðurstöðum í rannsókn Viðars á Jóni lærða og varða uppgötvun hans á áður óþekktum myndverkum hans.

Af öðrum merkisviðburðum í starfsemi safnsins árið 2016 skal getið samstarfsins við Ólöfu Nordal myndlistarkonu og sérsýningarinnar með henni, Geirfugl (Pinguinus impennis) – aldauði tegundar – síðustu sýnin, sem opnuð var við hátíðlegt tækifæri 16. júní á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sérsýningin þykir einkar sterk og vönduð og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Sýningin stendur í ár og er hluti af grunnsýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, sem Náttúruminjasafnið stendur að ásamt Árnastofnun, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Listasafni Íslands, Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðskjalasafninu. Sjónarhornssýningin var opnuð 18. apríl 2015 og stendur yfir í fimm ár.

Til merkisviðburða í starfsemi á árinu ber einnig að nefna útgáfu á fyrstu tveimur skýrslum í ritröð Náttúruminjasafnsins. Annars vegar er það skýrslan Samþætt mat á fjölbreytni náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 001, 20 bls.) og hins vegar Um áhrif virkjana á náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 002, 42 bls.). Hér eru á ferð niðurstöður í verkefni samstarfsaðila Náttúruminjasafnsins, RORUM ehf., sem unnin voru fyrir faghóp 1 í þriðja áfanga Rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Höfundar að skýrslunum eru Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorleifur Eiríksson líffræðingur. Náttúruminjasafnið veitir Rorum starfsaðstöðu í Loftskeytastöðinni gegn afnotum af niðurstöðum í sameiginlegum rannsóknum á sviði safn- og náttúrufræða.

Ýmislegt fleira mætti telja upp, jafnt orðna hluti sem fyrirheit, sem gefur tilefni til að fagna og líta framtíð Náttúruminjasafns Íslands björtum augum, en hér skal látið staðar numið.

Það er vonandi að þau teikn sem nú eru á lofti um bættan hag Náttúruminjasafnsins rætist hið fyrsta, þannig að safnið fái að upplýsa og fræða þjóðina og gesti landsins um undur og eðli náttúrunnar sem allt mannlíf er háð og ganga verður um af virðingu með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Ég óska samstarfsfólki Náttúruminjasafns Íslands og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs. Með þökk fyrir árið sem er að líða.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður 

Náttúruminjasafn Íslands
á kortið 2018–2022

„Stórtíðindi,“ segir forstöðumaður safnsins

Síðasta verk Alþingis fyrir kosningar var að samþykkja ályktun nr. 70/145 um aðgerðir í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018.  Þar er m.a. gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands og í greinargerð segir að mikilvægt sé að „koma á byggingu sem hýsi merkar náttúruminjar og tryggja Náttúruminjasafni með því aðstöðu til frambúðar.“

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

„Þetta eru stórtíðindi fyrir alla sem unna náttúru landsins, náttúrufræðikennslu og vilja hag náttúrunnar og mannfólksins sem mestan og bestan. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrir liggur staðfestur vilji Alþingis og tilmæli til ríkisstjórnar um að gera skuli vel við þessa mikilvægu stofnun síðan hún var sett á laggirnar, en eins og kunnugt er hefur safnið barist í bökkum frá upphafi. Ég bind miklar vonir við þessa merku þingsályktun,“ segir dr. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins.

Það vakti athygli þegar fyrsta fimm ára ríkisfjármálaáætlunin var kynnt s.l. vor að þar var ekki vikið orði að Náttúruminjasafni Íslands, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, en í hartnær 130 ár, síðan forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélags var stofnað hefur verið beðið eftir viðunandi aðstöðu til sýningarhalds og fræðslu sem sæmir landi og þjóð. Um þetta var m.a. fjallað hér á vefsíðu NMSÍ. En nú er öldin önnur: Í næstu fjármálaáætlun til fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi 2017 skal ríkisstjórnin skv. ákvörðun Alþingis tryggja að gert verði ráð fyrir uppbyggingu fyrir safnið, þ.e. á árunum 2018–2022.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 56 þingmenn samþykktu.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 57 þingmenn samþykktu.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra mælti fyrir tillögunni sem hann flutti ásamt öllum formönnum flokka sem sæti eiga á Alþingi, Birgittu Jónsdóttur, Bjarna Benediktssyni, Katrínu Jakobsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur og Óttari Proppé, og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum en sjö voru fjarstaddir.

Sem fyrr segir er það aldarafmæli fullveldisins 2018 sem er tilefni ályktunarinnar og mun Alþingi kjósa skuli nefnd til að afmælið, m.a. hátíðafund á Þingvöllum 18. júlí og önnur hátíðahöld 1. desember. Þá verður efnt til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna og inntak fullveldisréttarins, efnt til sýningar á helstu handritum Árnastofnunar, stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagnanna og skólar hvattir til að beina sjónum að þeim tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum 1918.

Auk framangreinds skal ríkisstjórnin eins og fyrr segir sjá til þess að gert verði ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns í næstu fjármálaáætlun, undirbúa uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni og loks felur Alþingi Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.