Fréttatilkynning frá Náttúruminjasafni Íslands 25. maí 2016.

Náttúruminjasafn Íslands hefur brugðist hart við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára en áætlunin er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis. Í umsögn safnsins kemur fram að það valdi verulegum vonbrigðum og veki undrun að hvergi í fjármálaáætluninni er vikið að málefnum Náttúruminjasafnsins, hvorki um fjármögnun á sýningaraðstöðu né til almenns rekstrar. Er ríkisstjórnin hvött til þess að grípa tækifærið – nú þegar efnahagslegur uppgangur gerir kleift að ráðast í fjármögnun aðkallandi verkefna – og koma Náttúruminjasafninu á legg, en safnið er skv. lögum eitt þriggja höfuðsafna landsmanna auk Þjóðminjasafns og Listasafns Íslands.

Í umsögninni segir að svo líti út sem ríkisvaldið ætli enn að heykjast á þeirri skyldu sinni að koma fótunum undir þá stofnun sína sem lögum samkvæmt er ætlað miðlægt lykilhlutverk við upplýsingu og menntun um aðskiljanlegar náttúrur Íslands – náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Þar er einnig bent á að fjárveitingar til reksturs safnsins hafa frá árinu 2008 numið um 25 milljónum króna á verðlagi hvers árs á sama tíma og allar vísitölur hafa hækkað um 55–70%.

Í umsögninni segir m.a.:

„Það er ekki einasta að beðið hafi verið í tíu ár, frá formlegri stofnun safnsins, eftir því að Náttúruminjasafnið njóti þess stuðnings frá Alþingi sem höfuðsafnið á skilið og þarf nauðsynlega á að halda til standa undir nafni, heldur er biðin orðin hartnær 130 ár, eða síðan 1889 þegar forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag, var stofnað. Eitt helsta markmið félagsins frá upphafi hefur verið „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík“ eins og segir samþykkt frá 16. júní 1889. Þetta markmið er enn í fullu gildi því ennþá hefur þjóðin ekki eignast viðunandi aðstöðu til sýningahalds um náttúru Íslands sem sæmir höfuðsafni á sviði náttúrufræða. Samkvæmt fjármálaáætluninni virðist stefnt að því að halda því ástandi óbreyttu í a.m.k. fimm ár til viðbótar.“

Umsögnina í heild má lesa hér.

HÍN krefst þess að ríkið standi við samninginn frá 1947

Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur sent fjárlaganefnd umsögn um ríkisfjármálaáætlun 2017-2021. Þar segir að Náttúruminjasafnið búi við óviðunandi aðstæður og í árafjöld hafi ríkt algjör óvissa um aðstöðu safnsins til sýningarhalds. Málið sé félaginu skylt: Safnið sé afsprengi félagsins og hafi verið í eigu þess um langt skeið. Það valdi undrun og vonbrigðum að hvergi skuli vikið að safninu né fjárþörf þess í fjármálaáætluninni.

Félagið minnir á að á árinu 1947 voru ríkinu afhentar eignir HÍN, þ.á m. safneignin og álitlegur byggingasjóður í trausti þess að byggt yrði yfir safnið. Ríkið og menntamálaráðuneytið geti ekki skorast undan því að standa við þann samning nema með því að segja honum upp og skila til baka því eða jafnvirði þess sem það fékk í hendur þegar hann var undirritaður. Væntir félagið þess að ríkið standi við skuldbindingar sínar og skorar á fjárlaganefnd að leggja fram tillögur um fjárveitingar sem geri safninu kleift að sinna lögbundnum hlutverkum sínum.

Hér má lesa umsögn HÍN.