Skemmtileg fjöruferð í Gróttu!

Skemmtileg fjöruferð í Gróttu!

Skemmtileg fjöruferð í Gróttu!

Starfsfólk Náttúruminjasafnsins aðstoðaði gesti við að greina lífverur í fjörunni. 

Laugardaginn 12. apríl buðu Náttúruminjasafn Íslands og Náttúruverndarstofnun uppá fjöruferð í friðlandinu við Gróttu. Fjöruferðin var hluti af dagskrá Barnamenningarhátíðar og starfsfólk stofnananna tók vel á móti gestum ásamt Jóhanni Óla, fuglaljósmyndara. Í fjörunni fengu þátttakendur tækifæri til að skoða fjölbreytt lífríki fjörunnar og spreyta sig á að greina lífverur, eins og lindýr, krabbadýr, þang og þara, auk þess að fræðast um mikilvægi náttúruverndar.

Rétt er að minna á að frá og með 1. maí er fjaran við Gróttu lokuð almenningi vegna fuglaverndar yfir varptímann. Gestir eru því hvattir til að sýna svæðinu tillitssemi og virða lokanir í þágu fuglalífsins.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglaljósmyndari og Ásta Davíðsdóttir landvörður hjá Náttúruverndarstofnun hjá fuglastöðinni, þar var hægt að fylgjast með og skoða fugla.

Beltisþari getur orðið mjög stór.

Fjaran við Gróttu er frábær til að kynnast lífríki fjörunnar.

Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi

Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi

Finndu mig í fjöru - Skapandi náttúrulæsi

Grandaskóli, Menntaskólinn við Sund og Náttúruminjasafn Íslands hafa í vetur unnið að þróunarverkefninu Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi.

Verkefnið sem styrkt er af Sprotasjóði hófst haustið 2024 og er hugsað til eins árs en þátttakendur eru nemendum í umhverfisfræði við Menntaskólann við Sund og nemendum í 4. bekk í textíl í Grandaskóla. Markmið verkefnisins er að vinna með félagakennslu til að tengja á milli skólastiga og efla náttúrulæsi með áherslu á lífríki hafsins og fjörunnar. Í hverjum hópi eru nokkrir nemendur úr MS og nokkrir úr Grandaskóla en hver nemandi fær hlutverk s.s. umsjón með handritsgerð, kvikmyndagerð, vísindaupplýsingum og textílverki.

Hóparnir skoðuðu fjöruna saman og tóku upp efni fyrir heimildamyndbandið.

Þau skemmtu sér í fjörunni og hópavinnan gekk vel.

Í upphafi heimsóttu safnkennarar Náttúruminjasafnsins nemendur í skólunum og stóðu fyrir fræðslu um fjöruna og tengdu hana við safnkost safnsins. Nemendur skoðuðu skeljar, kuðunga og fleira úr fjörunni, æfðu sig að greina tegundir og teikna lífverur og skoðuðu fiska í krukkum úr fiskasafni Náttúruminjasafnsins. Heimsóknirnar voru liður í undirbúningi fyrir sameiginlega fjöruferð hópanna í Gróttu 15. október síðastliðinn. Í fjörunni sameinuðust nemendur í vinnuhópa, skoðuðu fjöruna, fundu lífverur og tóku upp það sem þeim fannst spennandi.

Í verkefninu vinnum við með fjölbreyttar útfærslur fjörunnar og lífríkis hennar í textíl, unnið hefur verið með útsaum, vélsaum og jurtaprent. Næstu hópar taka þátt í verkefninu í mars og afrakstur verkefnisins verður sýndur í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar á Barnamenningarhátíð í apríl og boðið verður uppá fjölskyldufjöruferð í fjörunni við Gróttu 12. apríl í samstarfi við Náttúruverndarstofnun.

Alþjóðaár jökla hafið

Alþjóðaár jökla hafið

Alþjóðaár jökla hafið

Alþjóðaár jökla hafið

Sameinuðu þjóðirnar beina kastljósinu að jöklum á hverfandi hveli og í tilefni af því er efnt til skapandi jökla samkeppni meðal barna og ungmenna

  • 21. mars er alþjóðadagur jökla og er ætlað að vekja athygli á jöklum og þýðingu þeirra.
  • Jöklar á Íslandi hafa rýrnað um 900 km² frá aldamótum 2000, og um 70 litlir jöklar hafa horfið.
  • Í tilefni af degi jökla er efnt til samkeppni á meðal barna og ungmenna. Leitað er eftir framlögum um mikilvægi, eðli, fegurð og hverfulleika jökla
  • Ýmsir viðburðir verða haldnir á árinu í tengslum við alþjóðaár jökla og sérstakur viðburður verður haldinn í Veröld – húsi Vigdísar og Loftskeytastöðinni, 21. mars 2025, á fyrsta Alþjóðadegi jökla.
  • Sunnudaginn 6. apríl verður sérstakur jöklaviðburður á vegum Náttúruminjasafns Íslands í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og Náttúruverndarstofnun á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands á 2. hæð Perlunnar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2025 jöklum á hverfanda hveli, og ákveðið að 21. mars ár hvert verði sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Að þessu sinni mun dagur vatns (22. mars) einnig verða tileinkaður jöklum.

Samanlagt flatarmál jökla landsins árið 2023 var 10.200 km² og hefur það minnkað um 900 km² frá aldamótunum 2000. Munar þar mestu um hörfun stærri skriðjökla Vatnajökuls, Langjökuls, Hofsjökuls og Mýrdalsjökuls. En einnig hafa um 70 litlir jöklar á Íslandi horfið á þessu tímabili, flatarmál þeirra flestra var á bilinu 0,1–3 km² í upphafi þessarar aldar. Það er fyrirséð að fleiri jöklar muni hverfa á næstu áratugum og hefur Hofsjökull eystri á Suðausturlandi verið tilnefndur á alþjóðlegan lista yfir jökla sem eru horfnir eða eiga stutt eftir. Vefsíðunni er ætlað að vekja athygli á þessari þróun. Alþjóðlega Jöklarannsóknafélagið mun gefa út sérhefti á árinu sem tileinkað verður horfnum jöklum.

Jöklaárinu var formlega hleypt af stokkunum í dag, 21. janúar á aðalskrifstofu Alþjóða Veðurfræðistofnuninni í Genf í Sviss í samstarfi við Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO) og fleirum.

 

Efnt til samkeppni meðal barna- og ungmenna

Í tilefni af degi jökla er efnt til samkeppni á meðal barna- og ungmenna á aldrinum 10–20 ára. Óskað er eftir framlögum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hversu hverfulir þeir eru. Meðal vinninga eru ferðir á Sólheimajökul, Langjökul og Mýrdalsjökul. Sjá nánari upplýsingar á vef samkeppninnar.

Að samkeppninni standa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Jöklarannsóknafélag Íslands, Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúruverndarstofnun, Náttúrufræðistofnun, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands og Náttúruminjasafn Íslands.

Skúli Skúlason prófessor hlýtur verðlaun Breska fiskifræðifélagsins

Skúli Skúlason prófessor hlýtur verðlaun Breska fiskifræðifélagsins

Skúli Skúlason prófessor hlýtur verðlaun Breska fiskifræðifélagsins, The Beverton Medal

Skúli tekur við heiðursverðlaununum á ráðstefnu Breska fiskifræðifélagsins í Bilbao í júlí.

Breska fiskifræðifélagið (Fisheries Society of the British Isles) er alþjóðlegt félag sem styður við fræðastörf er tengjast fiskum, fiskalíffræði og nýtingu fiska. Félagið gefur út tímaritið Journal of Fish Biology og veitir styrki til rannsókna. Til þess að vekja athygli á fiskrannsóknum og til að heiðra framúrskarandi vísindamenn veitir félagið heiðursverðlaun árlega.

Í ár hlýst Skúla Skúlasyni prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands sá heiður að vera sæmdur Beverton orðunni (Beverton medal). Hún er veitt einstaklingi fyrir framúrskarandi rannsóknir og langan feril er snýr að fiskum og nýtingu þeirra. Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu Breska fiskifræðifélagsins í Bilbao í júlí og þar flutti Skúli heiðursfyrirlestur. 

Rannsóknir Skúla hafa snúist um að skilja uppruna og eðli fjölbreytileika innan stofna ferskvatnsfiska. Hér á landi, eins og á öðrum norðlægum slóðum, eru fáar tegundir fiska í ferskvatni, en þeim mun meiri fjölbreytni innan tegundanna. Þannig hafa tegundirnar þróast til þess að nýta sér ólík búsvæði ferskvatnsins og endurtekið hafa aðskilin afbrigði og jafnvel nýjar tegundir myndast. Í rannsóknum sínum hefur Skúli, ásamt stórum hóp af samstarfsfólki og nemendum, reynt að skilja hvað það er í umhverfinu annars vegar og í fiskinum sjálfum hins vegar sem leitt getur til þessar þróunar. Auk þess hefur Skúli unnið að því að móta vísindakenningar sem geta lýst þróunarfræðilegum ferlum í síkvikri náttúru og þannig hefur hann haft mótandi áhrif á rannsóknir fjölmargra rannsóknahópa, innan og utan Íslands. Einnig hefur Skúli unnið að því að auka þekkingu almennings og þeirra sem taka ákvarðanir varðandi fjölbreytileika fiska, og líffræðilega fjölbreytni almennt, og stuðla þannig að betri verndun og upplýstri stýringu nýtingar.

Skúli sýnir verðlaunin.

Auk Skúla hlutu þrír aðrir viðurkenningu á ráðstefnunni, Dr Peter A Henderson, Dr. Erika J Eliason og Dr. Michael Grant.

Náttúruminjasafnið tekur þátt í þróunarverkefni sem er styrkt af Sprotasjóði næsta vetur

Náttúruminjasafnið tekur þátt í þróunarverkefni sem er styrkt af Sprotasjóði næsta vetur

Náttúruminjasafnið tekur þátt í þróunarverkefni sem er styrkt af Sprotasjóði næsta vetur

Styrkþegar Sprotasjóðs 2024

Grandaskóli, Menntaskólinn við Sund og Náttúruminjasafn Íslands hljóta styrk frá Sprotasjóði í ár til að vinna saman verkefnið Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi.

Í verkefninu verður á skapandi hátt unnið með félagakennslu til þess að tengja á milli skólastiga og efla náttúrulæsi með áherslu á lífríki hafsins og fjörunnar.

Fimmtudaginn 30. maí síðastliðinn fór fram úthlutun úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Bragi Þór Svavarsson, formaður stjórnar sjóðsins, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Sjóðurinn styrkir í ár rúmlega 30 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.

Teymið á bakvið verkefnið Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi: Judith Amalía Jóhannsdóttir, kennari í Grandaskóla, Ragnhildur Guðmundsdóttir settur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, Katrín Magnúsdóttir kennari í Menntaskólanum við Sund og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands ásamt Braga Þór Svavarssyni formanns stjórnar Sprotasjóðs og Ásmundi Einari Daðasyni Mennta- og barnamálaráðherra.