Skúli Skúlason prófessor hlýtur verðlaun Breska fiskifræðifélagsins

Skúli Skúlason prófessor hlýtur verðlaun Breska fiskifræðifélagsins

Skúli Skúlason prófessor hlýtur verðlaun Breska fiskifræðifélagsins, The Beverton Medal

Skúli tekur við heiðursverðlaununum á ráðstefnu Breska fiskifræðifélagsins í Bilbao í júlí.

Breska fiskifræðifélagið (Fisheries Society of the British Isles) er alþjóðlegt félag sem styður við fræðastörf er tengjast fiskum, fiskalíffræði og nýtingu fiska. Félagið gefur út tímaritið Journal of Fish Biology og veitir styrki til rannsókna. Til þess að vekja athygli á fiskrannsóknum og til að heiðra framúrskarandi vísindamenn veitir félagið heiðursverðlaun árlega.

Í ár hlýst Skúla Skúlasyni prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands sá heiður að vera sæmdur Beverton orðunni (Beverton medal). Hún er veitt einstaklingi fyrir framúrskarandi rannsóknir og langan feril er snýr að fiskum og nýtingu þeirra. Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu Breska fiskifræðifélagsins í Bilbao í júlí og þar flutti Skúli heiðursfyrirlestur. 

Rannsóknir Skúla hafa snúist um að skilja uppruna og eðli fjölbreytileika innan stofna ferskvatnsfiska. Hér á landi, eins og á öðrum norðlægum slóðum, eru fáar tegundir fiska í ferskvatni, en þeim mun meiri fjölbreytni innan tegundanna. Þannig hafa tegundirnar þróast til þess að nýta sér ólík búsvæði ferskvatnsins og endurtekið hafa aðskilin afbrigði og jafnvel nýjar tegundir myndast. Í rannsóknum sínum hefur Skúli, ásamt stórum hóp af samstarfsfólki og nemendum, reynt að skilja hvað það er í umhverfinu annars vegar og í fiskinum sjálfum hins vegar sem leitt getur til þessar þróunar. Auk þess hefur Skúli unnið að því að móta vísindakenningar sem geta lýst þróunarfræðilegum ferlum í síkvikri náttúru og þannig hefur hann haft mótandi áhrif á rannsóknir fjölmargra rannsóknahópa, innan og utan Íslands. Einnig hefur Skúli unnið að því að auka þekkingu almennings og þeirra sem taka ákvarðanir varðandi fjölbreytileika fiska, og líffræðilega fjölbreytni almennt, og stuðla þannig að betri verndun og upplýstri stýringu nýtingar.

Skúli sýnir verðlaunin.

Auk Skúla hlutu þrír aðrir viðurkenningu á ráðstefnunni, Dr Peter A Henderson, Dr. Erika J Eliason og Dr. Michael Grant.

Náttúruminjasafnið tekur þátt í þróunarverkefni sem er styrkt af Sprotasjóði næsta vetur

Náttúruminjasafnið tekur þátt í þróunarverkefni sem er styrkt af Sprotasjóði næsta vetur

Náttúruminjasafnið tekur þátt í þróunarverkefni sem er styrkt af Sprotasjóði næsta vetur

Styrkþegar Sprotasjóðs 2024

Grandaskóli, Menntaskólinn við Sund og Náttúruminjasafn Íslands hljóta styrk frá Sprotasjóði í ár til að vinna saman verkefnið Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi.

Í verkefninu verður á skapandi hátt unnið með félagakennslu til þess að tengja á milli skólastiga og efla náttúrulæsi með áherslu á lífríki hafsins og fjörunnar.

Fimmtudaginn 30. maí síðastliðinn fór fram úthlutun úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Bragi Þór Svavarsson, formaður stjórnar sjóðsins, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Sjóðurinn styrkir í ár rúmlega 30 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.

Teymið á bakvið verkefnið Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi: Judith Amalía Jóhannsdóttir, kennari í Grandaskóla, Ragnhildur Guðmundsdóttir settur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, Katrín Magnúsdóttir kennari í Menntaskólanum við Sund og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands ásamt Braga Þór Svavarssyni formanns stjórnar Sprotasjóðs og Ásmundi Einari Daðasyni Mennta- og barnamálaráðherra. 

Eldur, ís og mjúkur mosi á Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars

Eldur, ís og mjúkur mosi á Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars

Sýningin Eldur, ís og mjúkur mosi stendur til 6. maí 2024 í sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð Perlunnar

Eldur, ís og mjúkur mosi

Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður tóku þátt í Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars í ár með sýningunni Eldur, ís og mjúkur mosi. Sýningin er afrakstur samstarfs stofnananna við sex grunn- og leikskóla í nágrenni þjóðgarðsins auk eins á höfuðborgarsvæðinu, og breiðs hóps hönnuða og listafólks í heimabyggð skólanna. 

Sýningin sem stendur yfir 23. apríl 6. maí í sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð Perlunnar er samsýning nemenda í Egilsstaðaskóla, Grunnskóla Hornafjarðar, Grunn- og leikskólans í Hofgarði, Kirkjubæjarskóla á Síðu, Reykjahlíðarskóla, Urriðaholtsskóla og Öxarfjarðarskóla.  Hægt er að skoða verk allra þátttökuskólanna á Fróðleiksbrunninum, fræðslusíðu Náttúruminjasafnsins

Verkefnið hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands og síðastliðinn vetur hafa verið haldnar skapandi og fjölbreyttar smiðjur í grunn- og leikskólum í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs og á höfuðborgarsvæðinu. Nemendur skólanna þróuðu síðan  verkefnin sín í samvinnu við listafólk og kennara í allan vetur. Verkefnið miðaði að því að beisla sköpunarkraft barnanna, sem fengu vettvang til að túlka náttúru garðsins, verndargildi hans og sögu með aðstoð hönnuða og listafólks í fremstu röð. Í gegnum listræn ferli sköpuðust dýrmætar tengingar milli barnanna og Vatnajökulsþjóðgarðs, sem auka á meðvitund framtíðarkynslóðanna um þá sameign þjóðarinnar sem þjóðgarðurinn er. 

Listafólkið sem tók þátt í verkefninu með nemendum voru Brynhildur Kristinsdóttir, Eva Bjarnadóttir, Hanna Dís Whitehead, Íris Lind Sævarsdóttir, Jennifer Patricia Please, Sigríður Sunna Reynisdóttir í ÞYKJÓ, Sóley Stefánsdóttir, Una Margrét Árnadóttir og Örn Alexander Ámundason. Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og Náttúruminjasafnsins voru í virku samtali við skóla og listafólk meðan á verkefninu stóð, ýmist buðu stofnanirnar nemendum í heimsókn á gestastofur og sýningar eða komu í skólana og kynntu þjóðgarðinn. 

Á opnun sýningarinnar 23. apríl sögðu nokkrir nemendur Urriðaholtsskóla frá verkum sínum og lagið Eldur, ís og mjúkur mosi sem þau sömdu og fluttu var spilað í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 sama dag.

Gestir hlusta á kynningu á verkinu Tökum höndum saman hjá nemanda í 8. bekk í Urriðaholtsskóla.

Í tilefni sýningarinnar og hátíðanna beggja var blásið til fjölskylduviðburðar laugardaginn 27. apríl í sýningarrými Náttúruminjasafnsins. Hanna Dís Whitehead, hönnuður sem vann í vetur með Grunnskóla Hornafjarðar í verkefninu, stóð fyrir skapandi hönnunarsmiðju þar sem börn og fjölskyldur bjuggu til fugla sem tókust á loft. Leikið var með vikur, ís og vatn og mosi skoðaður í víðsjám. Fjöldi gesta litu við í Perlunni til að taka þátt í viðburðinum og skoða glæsilega listasýningu barnanna sem túlkuðu náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs á framúrskarandi hátt. 

Starfsfólk Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs vill nýta tækifærið og þakka nemendum, listafólki og kennurum kærlega fyrir samstarfið og við hvetjum ykkur öll til að gera ykkur ferð á sýninguna í Perlunni! 

Smiðjan var innblásin af verkinu Yfir eftir nemendur í Grunnskóla Hornafjarðar. Í verkinu skoðum við umhverfi okkar út frá sjónarhorni fugla.

Við skoðuðum líka mosa í víðsjá. 

Leikið var með vikur og ís í vatni. 

Hanna Dís Whitehead sem vann að verkefninu Eldur, ís og mjúkur mosi með Grunnskóla Hornafjarðar leiddi smiðjuna.

Viðburðurinn var hluti af Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars.

Líf í fersku vatni

Líf í fersku vatni

Geldingadalir gas

Í ferskvatni býr urmull skemmtilegra lífvera sem áhugavert er að fræðast um. Sumar eiga heima á botni stöðuvatna og straumvatna og aðrar eru svo litlar að við sjáum þær ekki með berum augum. Við fjöllum um lífsferla þeirra og atferli og hvernig þær tengjast umhverfi sínu og öðrum lífverum. Eldri nemendur fá fræðslu um líffræðilega fjölbreytni og sérstöðu náttúru Íslands.

Markmið heimsóknarinnar

Markmið heimsóknarinnar er að nemendur afli sér upplýsinga um ferskvatnið í náttúru Íslands og öðlist skilning á samspili lífvera í fersku vatni.

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2023

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2023

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2023

Sunnudaginn 21. maí var Dagur barnsins og hann var sannarlegur gleðidagur fyrir Náttúruminjasafnið og Vatnajökulsþjóðgarð þegar 5. úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fór fram.

Stofnanirnar fengu úthlutað 5 milljón króna styrk fyrir samstarfsverkefni sem ber heitið – Eldur, ís og mjúkur mosi og verður unnið í samstarfi við listafólk og skóla í nágreni þjóðgarðsins. Fjölbreyttar smiðjur munu fara fram í skólum í nágrenni þjóðgarðsins í haust sem verða uppspretta sýninga og ýmissa viðburða í gestastofum hans.  Einnig verður sett upp samsýning í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar auk þess sem þátttakendur verkefnisins skipuleggja málþing til að velta upp spurningum eins ,,Hvað er náttúruvernd og hvernig getum við komið betur fram við náttúruna?‘‘.

Við hlökkum til samstarfsins og erum spennt að hefjast handa!

Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Sjóðurinn styrkir að þessu sinni 41 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs tilkynnti um úthlutanir sjóðsins í ár. Á myndinni á má sjá auk þeirra, styrkþega Barnamenningarsjóðs Íslands í ár.

Fulltrúar Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs voru viðstödd styrkúthlutunina. Frá vinstri: Benedikt Traustason, Anna Katrín Guðmundsdóttir, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Ingibjörg Halldórsdóttir og Helga Aradóttir.