Líf í fersku vatni

Líf í fersku vatni

Geldingadalir gas

Í ferskvatni býr urmull skemmtilegra lífvera sem áhugavert er að fræðast um. Sumar eiga heima á botni stöðuvatna og straumvatna og aðrar eru svo litlar að við sjáum þær ekki með berum augum. Við fjöllum um lífsferla þeirra og atferli og hvernig þær tengjast umhverfi sínu og öðrum lífverum. Eldri nemendur fá fræðslu um líffræðilega fjölbreytni og sérstöðu náttúru Íslands.

Markmið heimsóknarinnar

Markmið heimsóknarinnar er að nemendur afli sér upplýsinga um ferskvatnið í náttúru Íslands og öðlist skilning á samspili lífvera í fersku vatni.

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2023

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2023

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2023

Sunnudaginn 21. maí var Dagur barnsins og hann var sannarlegur gleðidagur fyrir Náttúruminjasafnið og Vatnajökulsþjóðgarð þegar 5. úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fór fram.

Stofnanirnar fengu úthlutað 5 milljón króna styrk fyrir samstarfsverkefni sem ber heitið – Eldur, ís og mjúkur mosi og verður unnið í samstarfi við listafólk og skóla í nágreni þjóðgarðsins. Fjölbreyttar smiðjur munu fara fram í skólum í nágrenni þjóðgarðsins í haust sem verða uppspretta sýninga og ýmissa viðburða í gestastofum hans.  Einnig verður sett upp samsýning í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar auk þess sem þátttakendur verkefnisins skipuleggja málþing til að velta upp spurningum eins ,,Hvað er náttúruvernd og hvernig getum við komið betur fram við náttúruna?‘‘.

Við hlökkum til samstarfsins og erum spennt að hefjast handa!

Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Sjóðurinn styrkir að þessu sinni 41 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs tilkynnti um úthlutanir sjóðsins í ár. Á myndinni á má sjá auk þeirra, styrkþega Barnamenningarsjóðs Íslands í ár.

Fulltrúar Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs voru viðstödd styrkúthlutunina. Frá vinstri: Benedikt Traustason, Anna Katrín Guðmundsdóttir, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Ingibjörg Halldórsdóttir og Helga Aradóttir.

List og lífbreytileiki á Barnamenningarhátíð í Reykjavík

List og lífbreytileiki á Barnamenningarhátíð í Reykjavík

Sýningin List og lífbreytileiki stendur til og með 7. maí 2023 í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar.

List og lífbreytileiki

Náttúruminjasafn Íslands tók þátt í Barnamenningarhátíð 2023 með verkefninu List og lífbreytileiki en safnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefninu á síðasta ári. Síðastliðinn vetur hafa verið haldnar fjölbreyttar og skapandi smiðjur listafólks í sjö grunnskólum og einu frístundaheimili víða um land, þar sem markmiðið var að veita nemendum tækifæri til að læra um líffræðilega fjölbreytni og náttúruna á nýstárlegan hátt undir handleiðslu listafólks. Listafólkið fékk fræðslu hjá sérfræðingum Náttúruminjasafnsins og BIODICE um sérstöðu náttúru Íslands og af hverju mikilvægt er að miðla líffræðilegri fjölbreytni í gegnum sköpun. Sérfræðingar safnsins voru til taks meðan á verkefninu stóð sem listafólkið nýtti sér, auk þess sem sum þeirra settu sig í samband við náttúrufræðistofur í nágrenni skólanna.

Nemendur í 3. bekk í Fellaskóli í Reykjavík unnu með fléttur á skemmtilegan hátt.

Listafólkið sem tók þátt voru Björk Þorgrímsdóttir, Heimir Freyr Hlöðversson, Elín Elísabet Einarsdóttir, Rán Flygenring, Sverrir Norland og Friðgeir Jóhann Kristjánsson. Skólarnir sem tóku þátt voru Fellaskóli í Reykjavík, Reykjahlíðarskóli í Mývatnssveit, Eskifjarðarskóli, Grunnskóli Snæfellsbæjar, bæði norðan heiða sem og Lýsudeild, Stapaskóli og Flúðaskóli auk frístundaheimilisins Húnaklúbbsins á Hvammstanga. Nemendur nýttu svo innblásturinn og hugmyndirnar sem komu fram í smiðjunum til að þróa og skapa listaverk fyrir sýninguna. Skemmtilegt var að sjá hversu fjölbreytt verkefnin voru og endurspegluðu þau gjarnan nánasta umhverfi skólanna.

 

Nemendur í Fellaskóla í Reykjavík teiknuðu fléttur, mótuðu þær í leir og skrifuðu um þær ljóð.

Nemendur í Stapaskóla í Reykjanesbæ unnu m.a. líkan af Geldingadölum og lærðu að vinna með hæðalínur.

Nemendur í Flúðaskóla unnu með víðsjár og tóku ljósmyndir af sýnum sem þau söfnuðu í náttúrunni.

Verkefninu lauk svo formlega með málþingi og sýningu á lokaafurð nemendanna. Málþingið var haldið á Teams og komu bæði kennarar og nemendur að því. Yfirskriftin var Hvernig getum við komið betur fram við vistkerfin okkar? Spurningunni var varpað til nemendanna sem lögðu fram ályktun fyrir hönd hvers skóla. Ákveðinn samhljómur var hjá nemendunum öllum en til að mynda kom fram að mikilvægt sé að henda ekki rusli út í náttúruna, heldur flokka og endurvinna. Þá var þeim ofarlega í huga að hugsa vel um dýrin og drepa þau alls ekki að óþörfu auk þess sem við þurfum að passa að rækta plöntur og vernda vistkerfin okkar. Ákveðinn samhljóm mátti greina með ályktun Sameinuðu þjóðanna um verndun líffræðilegrar fjölbreytni með því að friða svæði og menga ekki.

Nemendur í Grunnskóla Snæfellsbæjar, norðan heiða unnu með vistkerfi og fæðuvefi. Veltu fyrir sér lífverunum og samspili þeirra.

Sýningin á verkum nemendanna er opin öllum, og er hún staðsett í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð í Perlunni. Einnig er hægt að kynna sér verkefni skólanna á Fróðleiksbrunninum. Sýningin í Perlunni er opin fram til 7. maí en hún er einnig hluti af Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni sem BIODICE stendur að og er ætlað að skerpa á þeirri vitundarvakningu sem loks hefur orðið um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni síðustu misseri.

Við hvetjum ykkur öll til að gera ykkur ferð á sýninguna í Perlunni!

 

Fréttir um verkefnið á heimasíðu Grunnskóla Snæfellsbæjar: frétt 1, frétt 2, frétt 3,

Fréttir um verkefnið á heimasíðu Stapaskóla í Reykjanesbæ: frétt 1, frétt 2

Frétt um verkefnið á heimasíðu Fellaskóla í Reykjavík: frétt

Safnaþrennan: Fjársjóðir höfuðsafnanna – samfélag, listir og náttúra

Safnaþrennan: Fjársjóðir höfuðsafnanna – samfélag, listir og náttúra

Safnaþrennan: Fjársjóðir höfuðsafnanna – samfélag, listir og náttúra

Hvernig er hægt að vekja áhuga ungs fólks á samfélagi, listum og náttúru í gegnum söfn? Hvernig má nýta safnheimsóknir til að hvetja nemendur til sjálfstæðra vinnubragða og túlkunar?

 

Safnkennarar höfuðsafnanna þriggja og kennari menningarlæsis í Tækniskólanum tóku höndum saman um að móta námsleið með það að markmiði að efla náttúru- og menningarlæsi. Verkefnið var prufukeyrt undir vinnuheitinu Safnaþrennan í janúar og febrúar 2023 með um 15 nemendum. Markmið áfangans var að efla náttúru- og menningarlæsi, gagnrýna hugsun og sjálfstæði nemenda til þess að nýta höfuðsöfnin sem námsvettvang með skapandi úrvinnslu.

Safnkennarar tóku saman hugtakalista sem tengja geta sýningar safnanna þriggja, til dæmis: Spor, eldvirkni, mynstur, jarðvegur, hið ósýnilega og rætur. Þannig gátu nemendur farið á milli og leitað sér svara við rannsóknarefni sínu út frá sama hugtakinu á öllum söfnunum. Mikið var lagt upp úr nemendasjálfstæði, verkefnið átti að vera persónuleg umfjöllun, tenging við upplifun og skilning.

Að leggja af stað án þess að vita hver niðurstaðan verður, er skapandi hugsun, bæði fyrir nemendur og kennara. Niðurstöður eftir áfangann voru afgerandi en mikill meirihluti nemendanna þótti verkefnavinnan skemmtileg, fjölbreytt og áhugaverð. Flestir ætluðu að heimsækja safn aftur fljótlega.

Afurð þessa samstarfs er ný fræðsluleið höfuðsafnanna þriggja fyrir framhaldsskóla. Kennarar geta fengið frekari upplýsingar og bókað fræðsluleiðina með því að hafa samband við safnkennara á kennsla@nmsi.is

Nemendur í áfanga í menningarlæsi við Tækniskólann kynna verkefni þar sem þeir tengdu saman söfnin þrjú.

Skipuleggjendur verkefnisins að lokinni kynningu á söfnunum í Tækniskólanum: Jóhanna Bergmann, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Helga Aradóttir, Ragnheiður Vignisdóttir og Kolbrún Kolbeinsdóttir

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs

Ingibjörg Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins undirrita samstarfssamning stofnananna.

Í gær rituðu Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, undir formlegan samning stofnananna sem kveður á um ríkt og gjöfult samstarf þeirra á sviði miðlunar og fræðslu.

Samstarfið hefst á nýju ári með sérsýningu um Vatnajökulsþjóðgarð í Dropanum í Perlunni, við hlið sýningar Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands.

Markmið sýningarinnar er að kynna náttúruvernd, þjóðgarðinn og það fjölbreytta starf sem þar fer fram fyrir skólahópum og öðrum gestum sem koma til með að heimsækja sýninguna auk þess sem fjölbreyttir viðburðir munu fléttast inn í dagskrá Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs.