Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs

Ingibjörg Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins undirrita samstarfssamning stofnananna.

Í gær rituðu Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, undir formlegan samning stofnananna sem kveður á um ríkt og gjöfult samstarf þeirra á sviði miðlunar og fræðslu.

Samstarfið hefst á nýju ári með sérsýningu um Vatnajökulsþjóðgarð í Dropanum í Perlunni, við hlið sýningar Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands.

Markmið sýningarinnar er að kynna náttúruvernd, þjóðgarðinn og það fjölbreytta starf sem þar fer fram fyrir skólahópum og öðrum gestum sem koma til með að heimsækja sýninguna auk þess sem fjölbreyttir viðburðir munu fléttast inn í dagskrá Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs.

Nýtt samkomulag um samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands

Nýtt samkomulag um samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands

Nýtt samkomulag um samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands

Miðvikudaginn 22. október undirrituðu Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands samkomulag um áframhaldandi samstarf stofnananna tveggja á sviði rannsókna og miðlunar. Samkomulagið byggir á eldri samningi sem stofnanirnar gerðu með sér árið 2012 með fáeinum breytingum. Í lögum um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 kemur fram að þessar náskyldu stofnanir skuli hafa með sér náið samstarfs sem grundvallist á sérstöku samkomulagi milli þeirra.

Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða sem sinnir rannsóknum á fræðasviði sínu og er miðstöð miðlunar á upplýsingum og þekkingu um náttúru Íslands, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Náttúrufræðistofnun Íslands, sem fram að stofnun Náttúruminjasafnsins árið 2007 gegndi að hluta til svipuðu miðlunarhlutverki og Náttúruminjasafnið sinnir í dag, starfar á sviði náttúruvísinda og náttúruverndar og hefur það að meginhlutverki að hafa heildaryfirsýn yfir náttúru landsins með því að stunda vöktun og grunnrannsóknir. Stofnunin varðveitir jafnframt niðurstöður, eintök og muni í fræðilegum söfnum er veita sem best yfirlit um náttúru landsins.

Nýja samkomulagið felur í sér náið samstarf stofnananna um málefni sem varða m.a. líffræðilega fjölbreytni, jarðfræði, flokkunarfræði og miðlun. Stofnanirnar munu einnig vinna náið og á gagnkvæman hátt með gagnasöfn sín og safnkost, jafnt vegna sýninga og annarrar starfsemi. Auk þessa er að finna ákvæði um samnýtingu á aðstöðu hjá Náttúrufræðistofnun til varðveislu og rannsókna á náttúrugripum og munum sem aflað er vegna miðlunar og rannsókna á vegum Náttúruminjasafnsins. Jafnframt að finna ákvæði um samstarf stofnananna um gerð fræðsluefnis fyrir almenning og aðstoð Náttúrufræðistofnunar við öflun náttúrugripa sem lögum samkvæmt ekki verða fengnir með öðrum hætti. Þá mun Náttúruminjasafnið taka yfir umsjón með útlánum á munum úr safnkosti Náttúrufræðistofnunar sem ætlaðir eru til sýningar hjá þriðja aðila.

Til að tryggja samstarf stofnananna og fylgja eftir nýja samkomulaginu verður settur á fót fjögurra manna samráðshópur, skipaður tveimur fulltrúum frá hvorri stofnun. Endurskoða skal samkomulagið á minnst þriggja ári fresti.

„Þetta er einkar gott samkomulag milli systurstofnananna og mjög ánægjuleg stund.“ sagði Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins við undirskriftina og bætti við … „Samkomulagið felur í sér margvísleg samlegðaráhrif og hagræðingu í starfsemi beggja stofnananna, sem er vel og styrkir málstaðinn sem báðar stofnanirnar standa fyrir – aukin þekking í náttúrufræðum og betri skilningur á mikilvægi sjálfbærni í allri umgengni við náttúruna.“

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminajsafns Íslands og Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands skrifa undir samstarfssamning.
Anna Sveinsdóttir sviðsstjóri vísindasafna og miðlunar, Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttir sérfræðingur og safnkennari Náttúruminjasafnsins og Þóra Björg Andrésdóttir sérfræðingur Náttúruminjasafnsins.

Vísindavaka 2022 í Laugardalshöll

Vísindavaka 2022 í Laugardalshöll

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Vísindavöku

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Vísindavöku í ár.

Vísindavaka Rannís 2022 verður haldin í Laugardalshöllinni þann 1. október frá kl 13:00-18:00. Á Vísindavöku kynnir vísindafólk frá stofnunum, háskólum og fyrirtækjum rannsóknarverkefni sín á skemmtilegan og lifandi hátt á sýningarsvæði í Laugardalshöllinni.

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Vísindavöku og umfjöllunarefni safnsins er líffræðileg fjölbreytni. Við munum kafa ofan í náttúruna og kynna okkur hugtök eins og líffræðilega fjölbreytni, vistkerfi, tegundir og stofna, í skapandi listasmiðju. Auk þess kynnum við framtíðarhöfuðstöðvar safnsins, á Seltjarnarnesi og segjum frá verkefninu „List og lífbreytileiki“ sem hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands í ár.

Markmiðið með Vísindavöku er að færa vísindin nær almenningi, gefa fólki kost á að hitta og ræða við okkar fremsta vísindafólk og vekja athygli á mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Nánari upplýsingar um dagskrá Vísindavöku má finna hér

Verið öll velkomin, það verður margt að skoða og aðgangur er ókeypis!

Náttúruhús í Nesi, framtíðarhöfðuðstöðvar Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi.
Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík

Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík

Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér hluta steinasafnsins í geymslu Náttúruminjasafnsins i gamla frystihúsinu.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Breiðdalsvík laugardaginn 9. júlí s.l. og kynnti sér safnkost Náttúruminjasafns Íslands og fyrirætlanir safnsins um sýningahald í gamla frystihúsinu sem og aðkomu safnsins að sýningahaldi í Breiðdalssetri, gamla kaupfélaghúsinu þar sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands hefur nú aðstöðu.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, og Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur safnsins tóku á móti ráðherra og leiddu um geymslur og möguleg sýningarrými í frystihúsinu. Með í för voru fulltrúar eigenda húsnæðisins og bílasýningarinnar í aðalsal hússins, þau Guðbjartur Guðmundsson og Helga Hrönn Melsteð og leiddu þau ráðherra um bílasýninguna. Náin samvinna verður höfð við húseigendur um væntanlegt sýningahald Náttúruminjasafnsins í húsinu.

Safnkostur Náttúruminjasafnsins á Breiðdalsvík samanstendur af hinu stórmerkilega og umfangsmikla steinasafni Björns og Baldurs Björgvinssona frá Höskuldsstaðaseli sem safnið eignaðist á s.l. ári, saman ber frétt hér. Í safnkostinum er að finna mörg sjaldgæf eintök sem hafa mikið fágætisgildi og enn önnur eru undurfagrir skrautsteinar með mikið fagurfræðilegt gildi. Þá tilheyra safnkostinum fimm fægðir graníthnullungar eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er m.a. höfundur Eggjanna í Gleðivík og Fjöruverksins við Sæbraut í Reykjavík. Sigurður hefur sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu höggverksins á Breiðdalsvík.

Björn Björgvinsson tók á móti ráðherra við heimili sitt og fræddi um söfnunarástríðuna og mikilvægi þess að standa vörð um náttúruarf af þessu tagi, að hann fari ekki á flakk, sundrist og glatist, eins og dæmi eru um, heldur haldist heima í héraði og sé aðgengilegur almenningi. Þá var Breiðdalssetur heimsótt og starfsemin kynnt af Hákoni Hanssyni fulltrúa stjórnar Breiðdalsseturs og Maríu Helgu Guðmundsdóttur jarðfræðingi og starfsmanni setursins.

Vel fór á með Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, starfsmönnum Náttúruminjasafnsins og heimamönnnum í heimsókninni. Það er mikill fengur að því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið og þar með ríkið að eignast safnkost af því tagi sem hér um ræðir, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu. Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost sumarið 2023. Þá eru hafnar samningaumleitanir við stjórn Breiðdalsseturs, Fjarðabyggð og Rannsóknasetur Háskóla Íslands um aðkomu Náttúruminjasafnsins að starfseminni í Breiðdalssetri.

Aðstæður kannaðar á efri hæð gamla frystihússins.
Á hlaðinu heima hjá Birni Björgvinssyni. Björn Björgvinsson, Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur og Lilja Alfreðsdóttir.
Breiðdalssetur heimsótt.
Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2022

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2022

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2022

Sunnudaginn 29. maí var Dagur barnsins og hann var sannarlegur gleðidagur fyrir Náttúruminjasafnið þegar 4. úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fór fram. Náttúruminjasafn Íslands er í hópi styrkhafa þetta árið en safnið fékk veglegan styrk til að vinna að þverfaglegu verkefni sem ber heitið List og lífbreytileiki. Verkefnið verður unnið í samstarfi við BIODICE, samstarfsvettvang um líffræðilega fjölbreytni, fjölbreyttan hóp listafólks og börn og ungmenni víðsvegar um landið.

Við hlökkum til að hefjast handa!

Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Sjóðurinn styrkir að þessu sinni 34 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs tilkynnti um úthlutanir sjóðsins í ár. Á myndinni á má sjá auk þeirra, Oddnýju Harðardóttur, starfandi forseta Alþingis, styrkþega og Drengjakór Reykjavíkur sem flutti tónlistaratriði á athöfninni.