List og lífbreytileiki á Barnamenningarhátíð í Reykjavík
Sýningin List og lífbreytileiki stendur til og með 7. maí 2023 í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar.
List og lífbreytileiki
Náttúruminjasafn Íslands tók þátt í Barnamenningarhátíð 2023 með verkefninu List og lífbreytileiki en safnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefninu á síðasta ári. Síðastliðinn vetur hafa verið haldnar fjölbreyttar og skapandi smiðjur listafólks í sjö grunnskólum og einu frístundaheimili víða um land, þar sem markmiðið var að veita nemendum tækifæri til að læra um líffræðilega fjölbreytni og náttúruna á nýstárlegan hátt undir handleiðslu listafólks. Listafólkið fékk fræðslu hjá sérfræðingum Náttúruminjasafnsins og BIODICE um sérstöðu náttúru Íslands og af hverju mikilvægt er að miðla líffræðilegri fjölbreytni í gegnum sköpun. Sérfræðingar safnsins voru til taks meðan á verkefninu stóð sem listafólkið nýtti sér, auk þess sem sum þeirra settu sig í samband við náttúrufræðistofur í nágrenni skólanna.
Listafólkið sem tók þátt voru Björk Þorgrímsdóttir, Heimir Freyr Hlöðversson, Elín Elísabet Einarsdóttir, Rán Flygenring, Sverrir Norland og Friðgeir Jóhann Kristjánsson. Skólarnir sem tóku þátt voru Fellaskóli í Reykjavík, Reykjahlíðarskóli í Mývatnssveit, Eskifjarðarskóli, Grunnskóli Snæfellsbæjar, bæði norðan heiða sem og Lýsudeild, Stapaskóli og Flúðaskóli auk frístundaheimilisins Húnaklúbbsins á Hvammstanga. Nemendur nýttu svo innblásturinn og hugmyndirnar sem komu fram í smiðjunum til að þróa og skapa listaverk fyrir sýninguna. Skemmtilegt var að sjá hversu fjölbreytt verkefnin voru og endurspegluðu þau gjarnan nánasta umhverfi skólanna.
Nemendur í Stapaskóla í Reykjanesbæ unnu m.a. líkan af Geldingadölum og lærðu að vinna með hæðalínur.
Verkefninu lauk svo formlega með málþingi og sýningu á lokaafurð nemendanna. Málþingið var haldið á Teams og komu bæði kennarar og nemendur að því. Yfirskriftin var Hvernig getum við komið betur fram við vistkerfin okkar? Spurningunni var varpað til nemendanna sem lögðu fram ályktun fyrir hönd hvers skóla. Ákveðinn samhljómur var hjá nemendunum öllum en til að mynda kom fram að mikilvægt sé að henda ekki rusli út í náttúruna, heldur flokka og endurvinna. Þá var þeim ofarlega í huga að hugsa vel um dýrin og drepa þau alls ekki að óþörfu auk þess sem við þurfum að passa að rækta plöntur og vernda vistkerfin okkar. Ákveðinn samhljóm mátti greina með ályktun Sameinuðu þjóðanna um verndun líffræðilegrar fjölbreytni með því að friða svæði og menga ekki.
Sýningin á verkum nemendanna er opin öllum, og er hún staðsett í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð í Perlunni. Einnig er hægt að kynna sér verkefni skólanna á Fróðleiksbrunninum. Sýningin í Perlunni er opin fram til 7. maí en hún er einnig hluti af Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni sem BIODICE stendur að og er ætlað að skerpa á þeirri vitundarvakningu sem loks hefur orðið um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni síðustu misseri.
Við hvetjum ykkur öll til að gera ykkur ferð á sýninguna í Perlunni!