Barnamenningarhátíð 2022

Barnamenningarhátíð 2022

Barnamenningarhátíð 2022

Náttúruminjasafn Íslands tók þátt í Barnamenningarhátíð í ár í samstarfi við LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) með verkefninu Hringrás vatnsins á jörðinni en kallað var eftir vatnsdropum – listaverkum tengdum vatni frá upprennandi listamönnum. Nemendur 20 grunn- og leikskóla víðsvegar um landið tóku þátt, sköpuðu listaverk og veltu fyrir sér hringrás vatnsins. Samtals bárust safninu tæplega 1000 vatnsdropar!

Listaverkin sameinuðust í einu stóru listaverki í anddyri sýningarinnar okkar, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni meðan Barnamenningarhátíð stóð yfir, 5.-10. apríl.

 

Hugleiðingar barnanna á Leikskólanum Hálsaskógi voru skrifaðar á dropana þeirra.

Droparnir frá Leikskólanum Fögrubrekku voru litríkir og skemmtilegir.

Droparnir sem börnin á leikskólanum Heiðarborg sköpuðu voru úr textíl og þau skreyttu þá með myndum sem tengjast vatnshringrásinni.

Þriðjudaginn 5. apríl var þátttakendum boðið á opnun sýningarinnar ásamt foreldrum og forráðamönnum, þar sem þau skoðuðu listaverkin og fundu dropana sína. Á opnuninni bauðst börnum að búa til enn fleiri dropa og hengja upp við hlið hinna sem fyrir voru.

Droparnir sem börnin bjuggu til voru fallegir og skemmtilegir. Sumir nemendur höfðu skrifað hugleiðingar um vatnið og óskir fyrir framtíð þess. Þeir voru ýmist flatir eða þrívíðir og efniviðurinn var fjölbreyttur. Flestir voru úr pappír, en við fengum einnig senda dropa úr textíl, leir og jafnvel endurnýttum efnivið.

 

Náttúruminjasafnið þakkar LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) fyrir skemmtilegt samstarf!

Náttúruminjasafnið kallar eftir listaverkum fyrir Barnamenningarhátíð 5.-10. apríl 2022

Náttúruminjasafnið kallar eftir listaverkum fyrir Barnamenningarhátíð 5.-10. apríl 2022

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Barnamenningarhátíð 5.-10. apríl 2022

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í Barnamenningarhátíð í samstarfi við Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN) og kallar eftir teikningum frá upprennandi listamönnum sem munu prýða anddyri sýningarinnar okkar, Vatnið í náttúru Íslands, í Perlunni í einu stóru listaverki.

Nokkrir skólar hafa þegar skráð sig til leiks, en skráningarfrestur til þátttöku er 15. febrúar.

Frekari upplýsingar um þátttöku má sjá í auglýsingunni hér fyrir neðan, einnig er hægt að hafa samband í gegnum netfangið kennsla@nmsi.is

Nýr meistaranemi Náttúruminjasafns Íslands og Háskólans á Hólum

Nýr meistaranemi Náttúruminjasafns Íslands og Háskólans á Hólum

Nýr meistaranemi Náttúruminjasafns Íslands og Háskólans á Hólum

Þóra Atladóttir hóf vinnu við meistaraverkefni sitt sem fjallar um líffræðilegan fjölbreytileika og dýrasvif í ferskvatni á Íslandi nú á haustmánuðum. Fjallar verkefnið einkum um tegundasamfélög og þá ferla sem liggja að baki myndun þessara samfélaga. Verkefnið vinnur hún við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands og eru leiðbeinendur Skúli Skúlason og Ragnhildur Guðmundsdóttir. Þóra kláraði BSc nám í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri síðastliðið vor þar sem hún gerði lokaverkefni um dægurflugur (Ephemeroptera) en hægt er að kynna sér það verkefni á Skemmunni

Þóra Atladóttir, mastersnemi Náttúruminjasafns Íslands og Háskólans á Hólum.

Dýrasvif samanstendur meðal annars af krabbaflóm. Mynd: Wim Van Egmond.

Ráðherra heimsækir Náttúruhúsið í Nesi

Ráðherra heimsækir Náttúruhúsið í Nesi

Ráðherra heimsækir Náttúruhúsið í Nesi

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti á dögunum Náttúruhúsið á Seltjarnarnesi, þar sem framtíðaraðsetur Náttúruminjasafns Íslands verður til húsa, og heilsaði upp á starfsfólk safnsins. Með ráðherra voru í för Rúnar Leifsson sérfræðingur hjá ráðuneytinu, Auður B. Árnadóttir fjármálastjóri og Ásta Sigrún Magnúsdóttir upplýsingafulltrúi.

Forstöðumaður safnsins, Hilmar J. Malmquist, kynnti bygginguna, starfsemi safnsins og þau viðfangsefni sem unnið verður með í sýningahaldi á nýja staðnum, en stefnt er að því að vígja nýju höfuðstöðvarnar á árinu 2023.

Hilmar færði ráðherranum að gjöf vandaða ljósmynd af hvalablaði Jóns Guðmundssonar lærða (1574–1658), en það er blað með teikningum af 19 nafngreindum hvölum og rostungi, og eru sumar teikningar líklega þær elstu sem vitað er um af viðkomandi hvalategund. Ekki er loku fyrir það skotið að beinagrind af stórhveli verði á meðal sýningargripa, en inntak sýningarinnar í Náttúruhúsi í Nesi verður hafið og sú líffræðilega fjölbreytni sem þar er að finna.

Hópurinn samankominn í Náttúruhúsi í Nesi.

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsfólk safnsins fyrir ráðherra.

Hilmar J. Malmquist og Lilja Alfreðsdóttir með innrammaða ljósmynd af hvalablaði Jóns lærða.

110 ár frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar

110 ár frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar

110 ár frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar

Í dag, 8. janúar, eru 110 ár liðin frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings, en hann lést 8. febrúar 1983, 71 árs að aldri. Sigurður var einn kunnasti vísindamaður Íslands og þróaði t.a.m. öskulagafræðina, sem nýtt er til aldursákvarðana bæði eldgosa og minja. Sigurður fylgdist með öllum eldgosum sem urðu á landinu eftir að hann kom heim úr námi 1947, beint í Heklugosið, og varð þjóðþekktur fyrir lýsingar sínar á þeim í útvarpi og sjónvarpi. Sigurður var frumkvöðull í náttúruvernd á Íslandi og vinsælt vísnaskáld. Textar hans eru enn sungnir, svo sem Vorkvöld í Reykjavík og María, María.

Í október gaf Náttúruminjasafn Íslands út ævisögu Sigurðar, Mynd af manni, í tveimur bindum, skráð af Sigrúnu Helgadóttur, kennara, líffræðingi og rithöfundi sem hefur sérhæft sig í náttúruvernd og umhverfismennt. Bókin hefur hlotið gríðargóðar viðtökur og er tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, sem veitt verða á næstu mánuðum. Bókina má nálgast í helstu bókaverslunum landsins og á vefsíðu Pappýrs á pappyr.com.

Í dagbók sína dagana 10. og 11. september 1958 skrifaði Sigurður kvæðið um hana Maríu innan um niðurstöður mælinga á hitastigi, snjódýpt og fleiru.
Gufur stigu upp úr heitu hrauninu í Öskju sumarið 1962 þegar þangað var farið í rannsóknaleiðangur.