Svartþröstur

Svartþröstur

Svartþröstur (Turdus merula)

Sperrtur svartþrastarkarl í gróðrarstöðinni Þöll, Hafnarfirði.

 

Svartþröstur er spörfugl af þrastaætt. Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla. Um 60% af nær tíu þúsund fuglategundum sem þekktar eru á jörðu tilheyra þessum ættbálki. Þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir, flestir eru þó smávaxnir. Með aukinni skógrækt hefur þeim spörfuglum fjölgað sem hafa orpið hér á landi.

Útlit og atferli

Svartþröstur er svipaður gráþresti að stærð, og að lit ekki ósvipaður stara. Þekkist best frá stara á jöfnum, svörtum lit án díla (karlfugl) og lengra stéli, auk hátternis, sem svipar til hegðunar annarra þrasta. Fullorðinn karlfugl er alsvartur, goggur og augnhringir skærgulir. Ungur karlfugl (á fyrsta vetri) er með dökkan gogg sem lýsist þegar líður á veturinn. Kvenfugl er dökkmóbrúnn að ofan, aðeins ljósrákóttari að neðan og með gráa kverk. Goggurinn er dökkur, stundum með gulu ívafi. Fætur og augu eru dökk.

Svartþrastarfrú í gróðrarstöðinni Þöll, Hafnarfirði.

Svartþrastarfrú með gulan gogg í Seljahverfi í Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fullorðinn svartþrastarkarl á Stokkseyri.

Er venjulega fremur felugjarn, nema syngjandi karlfuglar á vorin, sem hreykja sér í trjátoppum, á ljósastaurum og húsmænum. Fuglar í makaleit syngja meira en þeir sem eiga maka og eru eingöngu að auglýsa óðal sitt. Svartþrestir sjást stakir eða í smáhópum.

Frá svartþresti má heyra hvellan, hljómfagran og þunglyndislegan söng, sem og hart og hvellt kallhljóð.

Svartþrastarkarl þenur raddböndin í trjátoppi í Fossvogskirkjugarði.

Lífshættir

Svartþrösturinn etur bæði úr dýra- og jurtaríkinu. Hann leitar að skordýrum, köngulóm og ormum á jörðu niðri, tekur einnig ber í runnum og á trjám. Á veturna sækir hann í garða þar sem epli, aðrir ávextir og feitmeti eru gefin.

Svartþröstur verpur í trjám í görðum og trjálundum, stundum á húsum. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, svipaða eða efnismeiri en skógarþrösturinn. Ungarnir eru ósjálfbjarga, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir eða að verða fleygir. Urptin er 3-5 egg, álegan tekur um tvær vikur og uppvöxtur unga svipaðan tíma.

Varptími svartþrasta er langur og verpa þeir nokkrum sinnum yfir sumarið. Fuglarnir fara að syngja í lok febrúar, oft löngu fyrir birtingu og sérstaklega í dumbungsveðri og hlýindum. Þeir fyrstu verpa í lok mars, þeir verpa oft yfir sumarið og ófleygir ungar hafa fundist alveg fram í september. Íslenskt veðurfar með umhleypingum á útmánuðum, á eftir að síast inní gen fuglanna, þeir telja sig enn vera á suðlægari slóðum eða í mildara loftslagi. Utan varpstöðva sést hann í görðum, við bæi og í fjörum.

Svartþrastarhreiður í Fossvogi, Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartþrastarfrú með unga í hreiðri við Elliðavatn.

Nýfleygur svartþrastarungi í Fossvogskirkjugarði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Svartþröstur var haust- og vetrargestur eins og gráþröstur, fyrsta staðfesta varpið var í Reykjavík árið 1969. Frá árinu 1991 til aldamóta urpu svartþrestir reglulega í Reykjavík, án þess að stofninn næði að vaxa að marki. Vorið 2000 kom mikil ganga, sem var gott ílag í stofninn og eftir það hefur hann vaxið hröðum skrefum. Svartþröstur náði fyrst fótfestu sem varpfugl í grónum hlutum Innnesja og Suðurnesja og þaðan hefur hann breiðst nokkuð hratt út í báðar áttir. Hann verpur nú reglulega í öllum landshlutum, en er rétt að byrja að þreifa fyrir sér á Austur- og Suðausturlandi. Landnám hans minnir nokkuð á varpsögu starans, sem hóf varp á Innnesjum árið 1960 og hefur breiðst út þaðan, mynstrið er svipað. Svarþrösturinn hefur þó verið mun fljótari að nema land heldur en starinn. Stofnstærðin nú er nokkur þúsund pör. Hann er að öllum líkindum staðfugl, þó einhverjir kunni að halda af landi brott á haustin.

Varpheimkynni svartþrasta eru annars í Evrópu, Norður-Afríku og á belti í Asíu austur til Afganistan og Kína. Evrópubúar fluttu hann til Ástralíu, Tasmaníu og Nýja-Sjálands, þar eru nú villtir stofnar.

Svartþrastahjón í alapareyni í Árbæjarhverfi í Ölfusi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartþrastarkarl etur alpareyniber í Árbæjarhverfi í Ölfusi.

Þjóðtrú og sagnir

Þar sem svartþrösturinn er svo nýr landnemi virðist engin þjóðtrú hafa skapast um hann … enn. Þeir sem lásu danska höfundinn Leif Panduro, t.d. Rend mig i traditionerne í menntaskóla, muna kannski hvernig svartþrösturinn eða söngur hans var leiðarstef í sögunni. Jafnframt sungu Bítlarnir um hann. Svartþröstur er þjóðarfugl Svía og þar er hann veðurviti. Fræðiheitið merula vísar til hins einræna háttalags fulgsins.

Kveðskapur

….

Bælir sig að jörð og hlerar niður
í hlykkjótt moldargöngin undir frosnum þekjum
þar sem skriðljós ánamaðksins
iða sem hrævareldar í myrkri
hugans. Dýpra
dylst hið fagurbleika sumaragn

Felur sólgult nefið undir væng
og veit að þessi fölu strá má nota
til að flétta ný hreiður
í nýjabrumi vorsins – ef það sprettur
þá einhverntíma undan bláum nöglum
þessara nístandi frosta

Svartþröstur eftir Hannes Sigfússon.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Hávella

Hávella

Hávella (Clangula hyemalis)

Hávellusteggur í vetrarbúningi við Þorlákshöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Til andfugla (Anseriformes) teljast svanir, gæsir og endur, sem tilheyra öll sömu ættinni, andaætt (Anatidae). Andfuglar eru sérhæfðir að lífi á vatni. Þeir hafa sundfit og goggur margra er flatur með hyrnistönnum, sem auðveldar þeim að sía fæðu úr vatni. Hluti af fæðu buslanda, einnig kafanda og fiskianda, er úr dýraríkinu. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Kollan sér ein um útungun og ungauppeldi, en steggirnir safnast í hópa síðsumars til að fella flugfjaðrir og eru þá ófleygir og í felubúningi. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Hávellukolla í Mývatnssveit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útlit og atferli

Hávella er einn af einkennisfuglum hálendisvatna og tjarna. Hún er fremur lítil kafönd, eina öndin sem hefur ljósan búk á veturna og aldökka vængi. Skiptir oftar um fjaðurham en aðrar endur. Steggurinn er með áberandi langar miðfjaðrir stéls, nema í fjaðrafelli síðsumars. Á sumrin er hann dökkbrúnn um höfuð, háls, bringu og bak, með hvíta bletti á höfuðhliðum og hvítur á síðum. Hann er mun ljósari á veturna og er þá ljós um höfuð, bak og ofanverða bringu, með dökka vangabletti. Ýmis millistig þekkjast en þeim verður ekki lýst hér. Á veturna er kollan með dökkt og ljóst höfuðmynstur, breiðan dökkan hálshring en annars grábrún að ofan og hvít að neðan. Á sumrin er hún dekkri á höfði og bringu og dökkbrún að ofan. Bæði kyn eru með aldökka vængi án spegla.

Goggur steggsins er dökkur við rót og í broddinn, bleikur þar í milli, blágrár á kollu. Fætur beggja kynja eru blágráir með dekkri fitjum og augu brún.

Steggurinn gefur frá sér hávært jóðl, há-á-vella, en kollan lægri hljóð.

Hávellupar í Mývatnssveit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hávellusteggur í Mývatnssveit að lenda. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hávellusteggir elta kollu í Mývatnssveit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Árásargjarn hávellusteggur að vorlagi í Mývatnssveit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hávella kafar í Mývatnssveit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Lífshættir

Hávella er hraðfleyg og vængjatökin sérkennileg. Hún flýgur lágt í óreglulegum hópum, vaggandi til hliðanna, og sýnir til skiptis dökkan og ljósan lit. Hún er afar fimur sundfugl og kafari og lætur brimrót ekki hindra sig. Á pörunartímanum lyftir steggurinn löngu stélfjöðrunum upp úr vatninu og syndir vellandi í hringi kringum kolluna. Þetta atferli stundar hann bæði á vetrarstöðvum á útmánuðum, sem og á varpstöðvunum, en þar eru oft mikil læti og slagsmál milli steggja með tilheyrandi söng. Söngurinn er einkennandi fyrir íslensk fjallavötn á vorin og heyrist jafnframt mikið í Mývatnssveit. Hávellan er félagslynd og fremur spök, en óróleg og sífellt að fljúga upp eða kafa.

Hávella verpur aðallega á hálendinu, en einnig við sjávartjarnir og vötn á láglendi. Hreiðrið er venjulega nærri vatni, vel falið í gróðri og er fóðrað með miklum dúni. Urptin er 6‒9 egg, kollan liggur á í 26 daga og ungarnir verða fleygir á 5‒6 vikum. Þeir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið um leið og þeir eru orðnir þurrir. Steggir fella fjaðrir aðallega á sjó. Hávella dvelur á sjó á veturna, bæði við ströndina og á dýpra vatni þar sem hún lifir á svifi. Hún er eina öndin sem stundar slíkt.

Hávellusteggur sperrir stélið í Mývatnssveit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hávelluhreiður við Veiðivötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hávellukolla með 7 unga í Mývatnssveit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útbreiðsla og stofnstærð

Hávellan kýst helst kalt loftslag. Hún verpur við strendur heimskautalandanna á norðurhveli. Hér er hún að nokkru farfugl. Hún er mun algengari á láglendi norðanlands en sunnan. Á veturna sjást hér bæði íslenskir fuglar og vetrargestir frá norðlægari löndum. Hluti íslenskra fugla hefur vetursetu við Suðvestur-Grænland. Á fartíma og á veturna má sjá stóra hópa á sjó. Stofnstærð hávellu er talin vera 2000‒3000 varppör, um 110.000 á veturna. Hópar fugla sjást hér á vorin og eru þeir taldir vera fargestir á leið austur á bóginn. Hávella er nú bæði á heims- og Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

Hávelluhópur að vetrarlagi á Skagaströnd. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þjóðtrú og sagnir

Hávellan er einn þeirra fugla sem segir nafnið sitt ‒ há-á-vella. Lítið er um hana í íslenskri þjóðtrú, helst að sjómenn telji það fyrir slæmu veðri, ef hún vellir mikið á sjó. Örnefnið Fóelluvötn á Sandskeiði er dregið af gömlu heiti hávellunnar. Á spænsku heitir hún Pato havelda, sem vekur athygli. Þó söngur hávellunnar sé fagur, hafa íslensk skáld ekki ort mikið um hana, en aftur á móti er hún kunn úr grænlenskum kveðskap.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Tildra

Tildra

Tildra (Arenaria interpres)

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra er vaðfugl, en vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þeir eru dýraætur, sem éta alls konar hryggleysingja. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Kvenfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útlit og atferli

Tildran er fremur lítill, sterkbyggður fjörufugl, skrautlegur og kvikur. Í sumarfiðri er tildra rauðbrún að ofan, með svartar rákir á höfði og bringu og hvít að neðan. Höfuðið er hvítt og kollurinn rákóttur. Á veturna er hún öll grárri og litdaufari og það sama gildir um ungfugla, sem virðast hreistraðir á baki. Hvít bak- og vængbelti eru áberandi á flugi. Kynjamunur er sýnilegur á varptíma, karlfuglinn er með ljósari koll, skærlitari á baki og svörtu rákirnar skýrt afmarkaðri en á kvenfugli.

Goggur er svartur, stuttur og oddhvass. Fætur eru gulrauðir og stuttir, augun dökk.

Tildran dregur nafn sitt á mörgum tungumálum af því háttalagi að velta við steinum og þangi í fjörunni í leit að æti. Enska heitið er turnstone og danska heitið stenvender. Hún er félagslynd, en er sjaldan í stærri hópum en frá nokkrum tugum fugla upp í fáein hundruð.

Gefur frá sér hvellt og klingjandi skvaldur, sem minnir á bjölluhljóm.

Ung tildra síðsumars.

Tildra í vetrarfiðri.

Lífshættir

Tildran veltir við steinum og rótar í þangi í fjörunni, þykkur og sterklegur goggurinn hentar vel til slíks. Hún tínir skordýr, t.d. þangflugulirfur, auk þess smá krabbadýr og lindýr eins og kræklinga og sæsnigla. Stundum sækir hún í brauð þar sem fuglum er gefið. Erlendis þekkist að tildrur leggist á hræ.

Tildran heldur sig helst í klettafjörum og á opnum ströndum með miklum þanghrönnum, einnig á leirum. Á vorin sést hún oft inn til landsins, bæði á túnum og við vötn og tjarnir og er þá að tína mý, sem er að klekjast.

Varp tildru hefur aldrei verið staðfest hér á landi. Það vekur nokkra furðu, því hún verpur bæði vestan og austanmegin við okkur og dvelur hér allt árið. Tildrur með varpatferli hafa stundum sést hér á vorin og höfundur þessa pistils sá eitt sinn nýfleyga tildruunga í Kringilsárrana síðsumars. Engin sönnun er þó fyrir varpi enn sem komið er. Hún verpur annars bæði með ströndum fram og á túndrum.

Tildra rótar í þanghrönn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildrur í Eyrarbakkafjöru ybba gogg yfir æti.

Tildra, karlfugl, flýgur upp undan öldunni við Eyrarbakka.

Útbreiðsla og stofnstærð

Tildra er fargestur eða umferðarfarfugl hér á landi. Varpfuglar á Grænlandi og NA-Kanada hafa hér viðdvöl vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva í V-Evrópu suður til V-Afríku. Talið er að þessi stofn telji rúmlega 100.000 fugla, jafnvel hátt í 200.000, en stofninn er í vexti.

Tildrur sjást um allt land, stærstu hóparnir við Faxaflóa og Breiðafjörð, á Vestfjörðum, við Skjálfanda og á Sléttu. Um 1000‒2000 tildrur dvelja allan veturinn í fjörum SV-lands og slæðingur af geldfugli er hér allt sumarið. Varpútbreiðsla tildru er með ströndum allra Norðurlandanna nema Íslands og Færeyja, svo og meðfram Norður-Íshafinu allt í kringum heimskautið.

Tildrur í flóðsetri við Eyrarbakka að vorlagi, ásamt nokkrum öðrum fargestum úr hópi vaðfugla, á leið til varpstöðvanna norðan og vestan við okkur: stakur rauðbrystingur, fjórar sanderlur og tíu lóuþrælar. Lóuþrællinn er reyndar bæði fargestur og íslenskur varpfugl.

Tildra í sumarskrúða.

Þjóðtrú og sagnir

Það er lítið að finna um tildru í íslenskri þjóðtrú, en væntanlega hefur svipuð trú fylgt henni og mörgum öðrum umferðarfuglum og farfuglum, áður en fólk gerði sér grein fyrir eðli farflugsins. Allt í einu skjóta upp kollinum stórir hópar af tildrum, sem hverfa svo jafnaharðan eftir fáeinar vikur. Hvaðan komu fuglarnir og hvað verður um þá? Lögðust þeir í dvala? Dveljast þeir í sjónum og verða að hrúðurkörlum? Slíkt var hald manna áður fyrr um helsingja ‒ að þeir tækju á sig mynd hrúðurkarlstegundarinnar helsingjanefs (Lepas anatifera), milli þess sem þeir sáust hér vor og haust.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru er í dag, laugardaginn 16. september, sérstakur hátíðar- og heiðursdagur tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt. Daginn ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar sem í gegnum tíðina hefur verið óþreytandi við að kynna landsmönnum undur náttúrunnar og mikilvægi náttúruverndar.

Á þessum heiðursdegi, sem jafnframt er örlagaríkur dagur í stjórnmálum landsins ‒ þar sem forseti lýðveldisins hefur fallist á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, er fullt tilefni til að minna á stöðu Náttúruminjasafns Íslands, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum. Því skal haldið til haga að náttúra og stjórnmál eru nátengd og að farsælt og hamingjuríkt mannlíf er undir náttúrunni komið og krefst skynsamlegrar umgengni við hana.

Veður og veðrakerfi eru snar þáttur í náttúru Íslands. Hér má sjá einstaklega fallega loftmynd af lægð við landið þar sem skýin mynda nær fullkomið gullinsnið fyrir tilstilli svigkrafts jarðar, öðru nafni Corioliskraftur. Ljósmynd: Wikipedia.

(more…)

Stormsvala og sjósvala

Stormsvala og sjósvala

Stormsvala (Hydrobates pelagicus) og sjósvala (Oceanodroma leucorrhoa).

Stormsvala í Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Sjósvala í Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Að þessu sinni verður vikið frá þeirri venju að fjalla um eina fuglategund og teknar fyrir tvær. Þær frænkur, stormsvalan og sjósvalan, eru svo líkar um margt og báðar jafn dularfullar og illa þekktar af almenningi, að viðeigandi er að fjalla um þær saman. Þær ganga sameiginlega undir heitinu sæsvölur, en eru alls óskildar svölum eins og landsvölu og bæjasvölu.

Sæsvölur tilheyra ættbálki pípunasa eða stormfugla (Procellariiformes). Innan hans eru fjórar ættir: trosaætt (albatrosar), fýlingaætt (fýll, skrofa o.fl.), sæsvöluætt og kvökuætt (á ensku diving-petrels).

Útlit og atferli

Fuglar hafs og nætur“ eru dökkir, litlir sjófuglar. Varla er hægt að villast á þeim og öðrum sjófuglum, en þær líkjast hvor annarri. Stormsvala er minnsti sjófugl Evrópu, lítið eitt minni en sjósvala. Hún er brúnsvört, á stærð við snjótittling, en vænglengri. Stélið er þverstýft, gumpur er snjóhvítur, vængir dökkir að ofan en ljós rák á undirvæng. Ennið er mjög bratt og er eins og fuglinn sé með kýli framan á höfðinu. Sjósvalan er svipuð stormsvölunni að lit, en þó ögn ljósari. Hún er á stærð við skógarþröst, en með langa vængi, sýlt stél, hvítan gump með gráleitri, misáberandi rák í miðju og gráleitt belti á yfirvæng, en ekki undirvæng eins og stormsvala. Fullorðinn og ungfugl beggja eru eins. Goggur, fætur og augu beggja eru svört.

Stormsvala í Elliðaey.

Sjósvala í Elliðaey.

Á færi eru sæsvölurnar oftast best greindar sundur á fluglaginu. Flug sjósvölu er reikult, hún flögrar líkt og fiðrildi og breytir sífellt um hraða og stefnu. Flug stormsvölu er beinna og jafnara. Báðar eru einstaklega fimar og léttar á flugi. Stormsvala eltir oft skip úti á rúmsjó, en sjósvala sjaldan. Þær eru félagslyndar og verpa oft í stórum og þéttum byggðum. Sæsvölurnar eru einungis á ferli að næturlagi á varpstöðvum, þær sjást helst síðsumars utan þeirra, en þá eru ungfuglar á flakki milli varpstöðvanna við Atlantshaf. Sjósvölu hrekur stundum inn í land í sunnanstórviðrum á haustin, stormsvölu sjaldnar.

Hljóð þeirra frænkna er gjörólíkt. Stormsvalan er þögul utan varpanna. Gefur frá sér malandi kurr í holu, meðan hljóð sjósvölu eru margvísleg á varpstöðvum. Á flugi gefa fuglarnir frá sér hljóð sem minna á sérkennilegan hlátur. Þeir kurra í holum og er kurrið rofið af hærri hljóðum ásamt fyrrgreindum hlátri.

Stormsvala á flugi við Vestmannaeyjar.

Sjósvala á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Sæsvala í fæðuleit flýgur mjög lágt yfir haffleti með lafandi fætur, líkt og hún hlaupi á sjónum. Hún tínir upp átu (smávaxin krabbadýr í svifi sjávar), lýsisagnir, smáan fisk og úrgang frá fiskiskipum. Sjósvalan er meira í ætisleit á næturnar en stormsvalan. Ólíkt flestum fuglum virðast þær hafa óvenju næmt lyktarskyn, eins og aðrir pípunasar, og nota svölurnar það bæði til að finna fæðu og rata í hreiðurholuna að næturlagi.

Báðar eru úthafsfuglar og eyða ævinni á rúmsjó og koma aðeins í land til að verpa. Varpið tekur langan tíma og unginn er lengi í hreiðri. Hér á landi verpur stormsvala í holur og sprungur í klettum og lagskiptum hraunum, svo og undir steinum í urðum. Sjósvala gerir sér hreiður í botni djúprar holu, sem hún grefur í jarðveg. Hún grefur sig oft inn úr lundaholum eða meðfram steinum og klettum, þar sem grassvörðurinn er ekki eins þéttur. Báðar verpa einu eggi og er útungunartíminn um 7 vikur. Ungarnir verða fleygir á 9-10 vikum. Sjósvala byrjar að verpa í maílok, en stormsvala um miðjan júní. Það getur teygst úr varptímanum beggja, sjósvöluungar verða stundum fleygir seint í október og stormsvöluungar alveg fram eftir nóvember, stöku sinnum í desember. Þær verpa seinna utan Eyja, sennilega til að forðast afrán. Sæsvölur eru einkvænisfuglar og geta orðið gamlar, þær elstu hér á landi hafa náð fertugsaldri.

Stormsvala á varpstað í hrauni í Elliðaey.

Stormsvöluungi í Elliðaey.

Ungfuglar beggja flakka á milli varpa í Norður-Atlantshafi og er yfirferðin oft mikil. Stormsvala merkt hér fannst viku síðar í Lofoten í Noregi. Auk þess er samgangur stormsvala við vörp í Færeyjum og Bretlandseyjum og geldfuglar merktir í Portúgal hafa fundist hér. Sjósvala frá Maine í Bandríkjunum hefur fundist í sjósvöluvarpi í Eyjum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Höfuðvígi beggja sæsvalnanna er í Vestmannaeyjum. Stærsta stormsvöluvarpið er í Elliðaey, en hún hefur auk þess fundist í Bjarnarey og Brandi. Hún verpur einnig í Skrúð og Papey og hefur orpið í Ingólfshöfða. Erfitt er að meta varpstofn stormsvölu, en hann er talinn vera 75.000-100.000 pör. Stormsvalan er evrópsk, verpur í Færeyjum og á Bretlandseyjum og með ströndum V-Evrópu suður til Miðjarðarhafs.

Stærstu sjósvölubyggðir heims eru við Nýfundnaland og í Kyrrahafi. Sjósvala er sjaldgæf austanhafs og stærstu byggðir hennar í Evrópu eru í Elliðaey og Álsey í Vestmannaeyjum. Þar verpur hún í flestum eyjum þar sem lundavarp er, en þó varla á Heimaey. Hefur orpið í Ingólfshöfða og grunur er um varp í Skrúð og e.t.v. víðar. Stofninn er talinn vera hátt í 200.000 pör.

Vetrarstöðvar beggja eru í Suður-Atlantshafi.

Sjósvala í Elliðaey.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú er fámál um sæsvölurnar, enda sáust þær varla nema að næturlagi í Vestmannaeyjum og helst af lundaveiðimönnum. Það er ekki nema tæp öld síðan stormsvalan var staðfest verpandi hér. En dularfullir hættir þeirra og draugaleg hljóðin ættu að gefa þjóðtrú byr undir báða vængi, eins og raunin er sums staðar erlendis.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.