Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru er í dag, laugardaginn 16. september, sérstakur hátíðar- og heiðursdagur tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt. Daginn ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar sem í gegnum tíðina hefur verið óþreytandi við að kynna landsmönnum undur náttúrunnar og mikilvægi náttúruverndar.

Á þessum heiðursdegi, sem jafnframt er örlagaríkur dagur í stjórnmálum landsins ‒ þar sem forseti lýðveldisins hefur fallist á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, er fullt tilefni til að minna á stöðu Náttúruminjasafns Íslands, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum. Því skal haldið til haga að náttúra og stjórnmál eru nátengd og að farsælt og hamingjuríkt mannlíf er undir náttúrunni komið og krefst skynsamlegrar umgengni við hana.

Veður og veðrakerfi eru snar þáttur í náttúru Íslands. Hér má sjá einstaklega fallega loftmynd af lægð við landið þar sem skýin mynda nær fullkomið gullinsnið fyrir tilstilli svigkrafts jarðar, öðru nafni Corioliskraftur. Ljósmynd: Wikipedia.

(more…)

Stormsvala og sjósvala

Stormsvala og sjósvala

Stormsvala (Hydrobates pelagicus) og sjósvala (Oceanodroma leucorrhoa).

Stormsvala í Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Sjósvala í Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Að þessu sinni verður vikið frá þeirri venju að fjalla um eina fuglategund og teknar fyrir tvær. Þær frænkur, stormsvalan og sjósvalan, eru svo líkar um margt og báðar jafn dularfullar og illa þekktar af almenningi, að viðeigandi er að fjalla um þær saman. Þær ganga sameiginlega undir heitinu sæsvölur, en eru alls óskildar svölum eins og landsvölu og bæjasvölu.

Sæsvölur tilheyra ættbálki pípunasa eða stormfugla (Procellariiformes). Innan hans eru fjórar ættir: trosaætt (albatrosar), fýlingaætt (fýll, skrofa o.fl.), sæsvöluætt og kvökuætt (á ensku diving-petrels).

Útlit og atferli

Fuglar hafs og nætur“ eru dökkir, litlir sjófuglar. Varla er hægt að villast á þeim og öðrum sjófuglum, en þær líkjast hvor annarri. Stormsvala er minnsti sjófugl Evrópu, lítið eitt minni en sjósvala. Hún er brúnsvört, á stærð við snjótittling, en vænglengri. Stélið er þverstýft, gumpur er snjóhvítur, vængir dökkir að ofan en ljós rák á undirvæng. Ennið er mjög bratt og er eins og fuglinn sé með kýli framan á höfðinu. Sjósvalan er svipuð stormsvölunni að lit, en þó ögn ljósari. Hún er á stærð við skógarþröst, en með langa vængi, sýlt stél, hvítan gump með gráleitri, misáberandi rák í miðju og gráleitt belti á yfirvæng, en ekki undirvæng eins og stormsvala. Fullorðinn og ungfugl beggja eru eins. Goggur, fætur og augu beggja eru svört.

Stormsvala í Elliðaey.

Sjósvala í Elliðaey.

Á færi eru sæsvölurnar oftast best greindar sundur á fluglaginu. Flug sjósvölu er reikult, hún flögrar líkt og fiðrildi og breytir sífellt um hraða og stefnu. Flug stormsvölu er beinna og jafnara. Báðar eru einstaklega fimar og léttar á flugi. Stormsvala eltir oft skip úti á rúmsjó, en sjósvala sjaldan. Þær eru félagslyndar og verpa oft í stórum og þéttum byggðum. Sæsvölurnar eru einungis á ferli að næturlagi á varpstöðvum, þær sjást helst síðsumars utan þeirra, en þá eru ungfuglar á flakki milli varpstöðvanna við Atlantshaf. Sjósvölu hrekur stundum inn í land í sunnanstórviðrum á haustin, stormsvölu sjaldnar.

Hljóð þeirra frænkna er gjörólíkt. Stormsvalan er þögul utan varpanna. Gefur frá sér malandi kurr í holu, meðan hljóð sjósvölu eru margvísleg á varpstöðvum. Á flugi gefa fuglarnir frá sér hljóð sem minna á sérkennilegan hlátur. Þeir kurra í holum og er kurrið rofið af hærri hljóðum ásamt fyrrgreindum hlátri.

Stormsvala á flugi við Vestmannaeyjar.

Sjósvala á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Sæsvala í fæðuleit flýgur mjög lágt yfir haffleti með lafandi fætur, líkt og hún hlaupi á sjónum. Hún tínir upp átu (smávaxin krabbadýr í svifi sjávar), lýsisagnir, smáan fisk og úrgang frá fiskiskipum. Sjósvalan er meira í ætisleit á næturnar en stormsvalan. Ólíkt flestum fuglum virðast þær hafa óvenju næmt lyktarskyn, eins og aðrir pípunasar, og nota svölurnar það bæði til að finna fæðu og rata í hreiðurholuna að næturlagi.

Báðar eru úthafsfuglar og eyða ævinni á rúmsjó og koma aðeins í land til að verpa. Varpið tekur langan tíma og unginn er lengi í hreiðri. Hér á landi verpur stormsvala í holur og sprungur í klettum og lagskiptum hraunum, svo og undir steinum í urðum. Sjósvala gerir sér hreiður í botni djúprar holu, sem hún grefur í jarðveg. Hún grefur sig oft inn úr lundaholum eða meðfram steinum og klettum, þar sem grassvörðurinn er ekki eins þéttur. Báðar verpa einu eggi og er útungunartíminn um 7 vikur. Ungarnir verða fleygir á 9-10 vikum. Sjósvala byrjar að verpa í maílok, en stormsvala um miðjan júní. Það getur teygst úr varptímanum beggja, sjósvöluungar verða stundum fleygir seint í október og stormsvöluungar alveg fram eftir nóvember, stöku sinnum í desember. Þær verpa seinna utan Eyja, sennilega til að forðast afrán. Sæsvölur eru einkvænisfuglar og geta orðið gamlar, þær elstu hér á landi hafa náð fertugsaldri.

Stormsvala á varpstað í hrauni í Elliðaey.

Stormsvöluungi í Elliðaey.

Ungfuglar beggja flakka á milli varpa í Norður-Atlantshafi og er yfirferðin oft mikil. Stormsvala merkt hér fannst viku síðar í Lofoten í Noregi. Auk þess er samgangur stormsvala við vörp í Færeyjum og Bretlandseyjum og geldfuglar merktir í Portúgal hafa fundist hér. Sjósvala frá Maine í Bandríkjunum hefur fundist í sjósvöluvarpi í Eyjum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Höfuðvígi beggja sæsvalnanna er í Vestmannaeyjum. Stærsta stormsvöluvarpið er í Elliðaey, en hún hefur auk þess fundist í Bjarnarey og Brandi. Hún verpur einnig í Skrúð og Papey og hefur orpið í Ingólfshöfða. Erfitt er að meta varpstofn stormsvölu, en hann er talinn vera 75.000-100.000 pör. Stormsvalan er evrópsk, verpur í Færeyjum og á Bretlandseyjum og með ströndum V-Evrópu suður til Miðjarðarhafs.

Stærstu sjósvölubyggðir heims eru við Nýfundnaland og í Kyrrahafi. Sjósvala er sjaldgæf austanhafs og stærstu byggðir hennar í Evrópu eru í Elliðaey og Álsey í Vestmannaeyjum. Þar verpur hún í flestum eyjum þar sem lundavarp er, en þó varla á Heimaey. Hefur orpið í Ingólfshöfða og grunur er um varp í Skrúð og e.t.v. víðar. Stofninn er talinn vera hátt í 200.000 pör.

Vetrarstöðvar beggja eru í Suður-Atlantshafi.

Sjósvala í Elliðaey.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú er fámál um sæsvölurnar, enda sáust þær varla nema að næturlagi í Vestmannaeyjum og helst af lundaveiðimönnum. Það er ekki nema tæp öld síðan stormsvalan var staðfest verpandi hér. En dularfullir hættir þeirra og draugaleg hljóðin ættu að gefa þjóðtrú byr undir báða vængi, eins og raunin er sums staðar erlendis.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

Svartbakur

Svartbakur

Svartbakur (Larus marinus)

Fullorðinn svartbakur í Melrakkaey, Grundarfirði.

Svartbakur eða veiðibjalla er af máfaætt og ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, kjóar, þernur, svartfuglar o.fl. Hér á landi verpa að staðaldri sjö máfategundir og ein að auki er algengur vetrargestur.

Útlit og atferli

Svartbakur er stærstur máfa og líkist sílamáfi í útliti, en þeir voru hér áður kallaðir stóri og litli svartbakur. Fullorðinn fugl er svartur á baki og yfirvængjum en annars hvítur. Vængbroddar eru svartir með hvítum doppum, samlitir yfirvængnum. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er heldur stærri. Á veturna er hann með ljósbrúna díla á höfði. Ungfugl er ljósgráleitur um höfuð, bringu og kvið en annars dökkflikróttur, með dökka vængbrodda og breitt dökkt stélband. Búningaskipti ungfugla eru svipuð og hjá silfurmáfi og sílamáfi. Á öðrum og þriðja vetri lýsast ljósu hlutarnir og bak og yfirvængir dökkna. Fullorðnir fuglar verða best greindir frá sílamáfi á stærð, dekkra baki, samlitum vængbroddum og bleikum fótum. Vængir eru hlutfallslega styttri og breiðari, fætur styttri og goggur sterklegri en á sílamáfi. Ungfuglar eru mun ljósari á höfði og að neðan, þeir eru mun stærri en ungir silfurmáfar og sílamáfar sem þeir líkjast annars mest.

Svartbakshjón í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartbakur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartbakur nærri Brokey á Breiðafirði.

Svartbakur á 2. vetri í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Goggur er sterklegur, gulur með rauðum bletti fremst á neðra skolti. Augu eru gulleit með rauðum augnhring. Á ungfugli er goggurinn dökkur, sem og augun. Fæturnir eru ljósbleikir á fullorðnum fugli, dekkri á ungfugli.

Svartbakur gefur frá sér djúpt og snöggt hlakk og er djúpraddaðastur máfa.

Lífshættir

Þessi stóri fugl er ávallt tignarlegur að sjá. Hann flýgur með hægum, kraftmiklum vængjatökum. Hann er félagslyndur og oft með öðrum máfum.

Svartabakur er svo gott sem alæta, þó sandsíli og loðna sé aðalfæðan. Tekur krabba, krossfiska og aðra hryggleysingja. Fer einnig í hræ, fiskúrgang, á ruslahauga og etur egg og unga fugla.

Hann verpur í margs konar kjörlendi við sjó, t.d. á söndum, eyjum og skerjum, sem og í mýrum, á fjallskollum og inn til landsins á eyjum í vötnum og á áreyrum. Einnig í hálendisvinjum eða jafnvel á jökulskerjum. Verpur í byggðum, stundum með öðrum máfum, eða jafnvel stök pör út af fyrir sig. Hreiðrið er allmikil dyngja, gerð úr sprekum, þangi, grasi og lyngi, oft á þúfu eða annarri mishæð. Eggin eru 2‒3 og álegutíminn um fjórar vikur. Ungarnir eru bráðgerir, þeir verða fleygir á 7‒8 vikum.

Svartbakur heldur sig á grunnsævi eða við strendur á vetrum og sést stundum langt inni í landi.

Svartbakshjón í Ingólfshöfða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartbakshreiður í skarfakálsbreiðu í Mánáreyjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartbakshjón með unga á Snæfellsnesi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Svartbakar eru útbreiddir um land allt, en hefur fækkað áberandi mikið á síðustu áratugum og mörg vörp hafa dregist saman eða horfið. Helstu varpsvæðin eru við sunnanverðan Breiðafjörð og á Mýrum. Vetrarvísitölur sýna samfellda fækkun síðan 1960 og hefur hún verið um 90% á Suðvesturlandi. Stofninn er nú talinn 6000‒8000 pör. Eitthvað af ungfugli hefur vetursetu í Færeyjum og á Bretlandseyjum. Heimkynni eru beggja vegna N-Atlantshafs, í Evrópu og suður til Frakklands.

Þjóðtrú og sagnir

Sagt er að svartbakurinn hafi helvíska rödd, en himneskan anda … öfugt við álftina, sem er með himneska rödd, en helvískan anda. Svartbakur á að vernda seli og gefa þeim ávalt merki eða vekja þá með sérstökum hljóðum, þegar skotmaður nálgast. Ef hátt lætur í svartbaki, boðar það góða veiði. Ef hann sest hópum saman í fjarðarbotna, þá þótti það öruggt merki um að síld væri gengin í fjörðinn. Svartbakur og aðrir máfar eru reyndar oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna.

Svífandi svartbakar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fullorðinn svartbakur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kveðskapur

Vakir már að veiði
hlakkar hræglaður
slítur hvítan fisk
bjargar eigin barni.

Úr Morgunbæn í Hvalfirði eftir Halldóru B. Björnsson.

Út um strendur og stalla
hakkar stór veiðibjalla.
heyrið ómana alla
fyrir flóa og fjörð.

Úr Út um mela og móa eftir Ragnar Jóhannesson.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Jaðrakan

Jaðrakan

Jaðrakan (Limosa limosa)

Jaðrakan með vind í fiðrinu í Friðlandinu í Flóa.

 

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum.

Útlit og atferli

Jaðrakan er einn af einkennisfuglum láglendismýra. Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri, kvenfugl er litdaufari og stærri en karlfugl. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri. Á flugi sjást áberandi hvít vængbelti, hvítur gumpur og stél með svörtum afturjaðri.

Jaðrakan á varpstað á Stokkseyri.

Ungur jaðrakan í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan lætur í sér heyra í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Goggur er langur og beinn, gulrauður í rótina með dökkan brodd. Fætur eru langir, svartleitir og skaga langt aftur fyrir stélið á flugi. Augu eru brún og augnhringur ljós.

Fluglag er ákveðið með hröðum vængjatökum. Fuglinn er hávær og órólegur á varpstöðvum. Hann er félagslyndur utan varptíma.

Jaðrakanapar á góðri stund á Djúpavogi. Litar- stærðarmunur kynjanna sést vel. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hreiður jaðrakans. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Potar með goggnum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, samlokum, sniglum, lirfum og öðrum hryggleysingjum. Tekur einnig fæðu úr jurtaríkinu, svo sem fræ og ber.

Er eindreginn votlendisfugl, verpur í og við margs konar votlendi á láglendi, t.d. flæðiengi, flóa og hallamýrar, og jafnvel í lyngmóum og kjarrlendi, en aldrei langt frá vatni. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu og venjulega vel falið. Eggin eru oftast fjögur. Útungunartíminn er 24 dagar og verða ungarnir fleygir á um fimm vikum. Þeir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Báðir foreldrarnir ala önn fyrir ungunum. Utan varptíma heldur jaðrakan sig mest í votlendi, á túnum og leirum.

Háfættur jaðrakan leitar ætis í Andakílsá (fyrir umhverfisslys Orku náttúrunnar). Vísindamenn fygljast með ferðum fuglanna m.a. með því að auðkenna þá með litmerkjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakanar á leiru að vorlagi í Álftafirði, Djúpavosghreppi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Jaðrakanar berjast um æti í fjörunni í Borgarfirði eystra. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorhret á Stokkseyri. Undir þannig kringumstæðum kemur sér vel að hafa langan gogg. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Fyrir 1920 var jaðrakan bundinn við Suðurlandsundirlendið en hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og verpur nú á láglendi um mestallt land. Íslenskir jaðrakanar hafa vetrardvöl á Bretlandseyjum og með ströndum Vestur-Evrópu, frá Þýsklandi suður til Portúgals og Marokkó, flestir á Írlandi. Íslenski jaðrakaninn (undirtegundin L. l. islandica) er á norður- og vesturmörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar. Þessi undirtegund finnst aðallega hér á landi, en einnig lítils háttar í Færeyjum, á Hjaltlandi og í Noregi. Annars verpur jaðrakan dreift um Vestur- og Mið-Evrópu, aðallega í Hollandi og austur um Rússland.

Nýkomnir jaðrakanar á Eyrarbakka seðja hungrið eftir farflugið. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þreyttir jarðrakanar eftir langflug hvílast við Dyrhólaós. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hópur jaðrakana síðsumars við Austari-Héraðsvötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan í vetrarbúningi á Stokkseyri. Þeir sjást sjaldan í þessum skrúða hér á landi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Jaðrakan gefur frá sér hrjúft kvak og hvellt nefhljóð á varptíma, einkum á flugi, annars er hann þögull. Þessi hljóð hafa orðið tilefni sagna og þjóðtrúar. Menn þóttust jafnvel greina orð úr hljóðum fuglsins og er til um það ágæt saga. Þannig var að maður kom að á og var á báðum áttum hvort hann ætti að freista þess að vaða yfir eða ekki. Þá kom þar að jaðrakan og sagði: „Vaddúdí, vaddúdí“, sem maðurinn og gerði en blotnaði. Þá heyrðist frá jaðrakaninum: „Vaddu vodu? Vaddu vodu?“ Maðurinn, sem nú var orðinn reiður yfir að hafa látið ginna sig útí, steytti hnefann móti fuglinum og svaraði: „Já, ég varð votur.“ Þá flaug jaðrakaninn burt og heyrðist manninum fuglinn segja í kveðjuskyni: „Vidduþi, vidduþi“ og fór hann að því ráði og tók að vinda föt sín. – Heiti fuglsins er ráðgáta, en ein tilgátan er að þá sé komið úr gelísku.

Kveðskapur

Að Skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll.
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl.

Eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Náttúruminjasafnið með aðstöðu í Perlunni

Mjög merk tímamót urðu í gær í starfsemi Náttúruminjasafnsins þegar undirritað var samkomulag milli Perlu norðursins ehf. og Náttúruminjasafnsins um þátttöku safnsins í sýningahaldi í Perlunni. Samkomulagið undirrituðu Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Perlu norðursins og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands að viðstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra, stjórn Perlu norðursins og fleiri góðum gestum.

Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Perlu norðursins og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrita samkomulag um þátttöku safnsins í sýningahaldi í Perlunni. Viðstaddir eru Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra (t.v.) og Finnbogi Jónsson stjórnarformaður Perlu norðursins. Ljósmynd: mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Samkvæmt samkomulaginu fær Náttúruminjasafnið endurgjaldslaust til eigin umráða um 380 fermetra rými á milligólfi á nýrri 2. hæð í aðalrými Perlunnar. Perla norðursins mun jafnframt standa straum af öðrum rekstrarkostnaði vegna sýningar Náttúruminjasafnsins, þ.m.t. vegna hita og rafmagns og starfsmanna sem vinna við sýninguna. Náttúruminjasafnið mun aftur á móti greiða stofnkostnað við hönnun, framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar sem og árlegt viðhald hennar.

Þetta er í fyrsta skipti síðan Náttúruminjasafnið var sett á laggirnar árið 2007 að það stefnir í með raunhæfum hætti að safnið fái aðstöðu til eigin sýningahalds. Það eru mjög merk tímamót fyrir höfuðsafnið.

En björninn er ekki að fullu unninn. Fyrsti verkáfangi samkvæmt samkomulaginu felst í frumhönnunarvinnu á vegum Náttúruminjasafnsins þar sem efnistök og innihald sýningarinnar verða ákveðin og gerðar verk-, tíma- og kostnaðaráætlanir um framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar. Þessum verkáfanga skal vera lokið um miðjan október n.k. Í kjölfarið kemur til kasta Alþingis sem þarf að samþykkja fjármögnun á stofnkostnaði sýningarinnar. Samþykki Alþingi verkefnið hefst annar áfangi sem felst í fínhönnun sýningarinnar, textagerð, framleiðslu og kaup á sýningamunum og tækjabúnaði og uppsetningu sýningarinnar. Gangi allt eftir er stefnt að opnun sýningarinnar 1. maí 2018 á sama tíma og Perla norðurins mun opna sýningaráfanga númer tvö á sínum vegum.

Verkefnisstjóri hönnunarvinnu Náttúruminjasafnsins í fyrsta áfanga er Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningahönnuður. Þórunn er í verkefnisstjórn sýningarinnar og stýrir hönnunarteymi Náttúruminjasafnsins sem er skipað valinkunnum hönnuðum og fólki með reynslu á sviði náttúrusýninga. Auk Þórunnar eru í verkefnisstjórninni Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Skúli Skúlason prófessor, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur og ritstjóri verkefnisins.

Nánar má lesa um undirritun samkomlagsins hér í fréttatilkynningu Perlu norðursins og Náttúruminjasafnsins.

Umfjöllun Morgunblaðsins um undiritun samkomulagsins.

Umfjöllun RÚV-sjónvarps um undirritun samkomulagsins.