by Snæbjörn Guðmundson | 1.02.2018 | Fugl mánaðarins
Glókollur (Regulus regulus)

Glókollur í Grímsnesi.
Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla, en um 60% hinna rúmlega 9700 fuglategunda sem þekktar eru í heiminum tilheyra þessum ættbálki. Það eru þó aðeins níu tegundir spörfugla sem verpa hér á Íslandi í einhverjum mæli og fáeinar til viðbótar eru sjaldgæfir eða óreglulegir varpfuglar. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.
Með aukinni skógrækt hefur þeim fuglum fjölgað sem hafa orpið hér. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, svo sem meðal spörfugla og smávaxinna vaðfugla, enda eru stofnar gamalgróinna, smávaxinna íslenskra farfugla stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó.
Útlit og atferli
Glókollurinn er minnsti fugl Evrópu, ekki nema 6 g að þyngd. Hann líkist hinum smávöxnu söngvurum, en er áberandi hnöttóttur, hálsstuttur, ólífugrænn að ofan, grænleitur á síðum, með gula kollrák og svartar rendur hvora sínu megin við hana. Hann er án brúnarákar. Tvö ljós vængbelti og gulir fjaðrajaðrar á svartleitum vængfjöðrum eru einkennandi. Hluti kollrákar á karlfugli er appelsínugul. Ungfuglar eru án kollrákanna, en vængmynstur er áberandi. Vængir stuttir og breiðir.
Goggur og augu svört, fætur brúnleitir með gular tær.
Glókollur er kvikur og sístarfandi, leitar ætis í trjám, stundum á flugi eða hangandi á hvolfi. Kallið er hátt tíst, á hárri tíðni, sem fer gjarnan framhjá fólki sem komið er á miðjan aldur eða eldra. Söngurinn er hávært, endurtekið tveggja atkvæða hljóð, sem endar með dilli.

Glókollur í Hallskoti í Friðlandinu í Flóa.

Glókollskarl ýfir hnakkatoppinn á óðali í Grímsnesi.

Glókollur í Grímsnesi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lífshættir
Undirstöðufæða glókolls er grenilús (sitkalús) og stökkmor, en hann tekur einnig önnur smádýr á trjám, eins og köngulær, aðrar blaðlýs, feta, lirfur, púpur og skordýraegg af laufi og barri. Tekur einnig stökkmor af jörðu niðri. Veiðir aðallega á fæti, en andæfir stundum og grípur skordýr. Hann er því liðtækur meindýraeyðir.
Hreiðrið er kúlulaga með tveimur opum, gert úr mosa og gróðurleifum, hangandi neðan á grenigrein. Það er ekki ósvipað músarrindilshreiðri, en mun veigaminna og losaralegra. Urptin er 6-11 egg, álegan tekur 15-17 daga og eru ungarnir 17-22 daga í hreiðrinu. Verpur allavega tvisvar á sumri.

Glókollshreiður, foreldri með mat handa ungum. Hreiðrið er veigalítil kúla með tveimur opum. Gróðrarstöðin Þöll við Hafnarfjörð. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Glókollur færir ungum mat í hreiður. Gróðrarstöðin Þöll við Hafnarfjörð.

Nýfleygur glókollsungi í Kjarnaskógi við Akureyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og stofnstærð
Glókollur var lengi árviss haustflækingur, en er nýfarinn að verpa og hefur komið ár sinni vel fyrir borð í hinum nýju greniskógum hérlendis. Mikil ganga kom haustið 1995 og hefur hann sennilega hafið varp í kjölfar hennar, þó svo að varpið væri ekki staðfest fyrr en sumarið 1999. Breiddist hann fljótt út um mestallt land nema Vestfirði. Stofninn hefur tvisvar hrunið í kuldaköstum, 2004 og 2014, en náð sér á strik aftur og fljótt náð svipaðri útbreiðslu og fyrir hrun. Stofnstærðin skiptir þúsundum fugla í góðærum, en hrinur niður í fáein hundruð í hallærum. Hann er staðfugl hér, sem virðist lifa ágætlega af veturinn, ef fyrrnefnd hrun eru undanskilin. Er útbreiddur skógarfugl í Evrópu og á blettum í Asíu austur til Japans.

Glókollurinn virðist stundum vera hnöttóttur og hálslaus. Þorbjörn við Grindavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Karlfugl í Hellisskógi við Selfoss.
Þjóðtrú og sagnir
Músarrindillinn hafði lengi þann sess, að vera minnsti fugl landsins. Nú hefur glókollurinn velt honum úr sessi. Hann er meira en helmingi minni en músarrindill, 6 g á móti 15 g.
Engin þjóðtrú fylgir glókolli hér á landi, vegna þess hve nýr hann er í fánunni. Bæði Aristóteles hinn gríski og Pliníus eldri hinn rómverski, rituðu fyrir meira en 2000 árum um þjóðsöguna af keppni fuglanna, hver ætti að verða konungur þeirra og átti sá að hreppa titilinn, sem gæti flogið hæst. Örninn þótti líklegastur, en glókollur faldi sig undir stélfjöðrum hans og þegar örninn var orðinn þreyttur og komst ekki hærra, þá skaust glókollurinn upp fyrir örninn og gerði tilkall til titilsins. Hann heitir enda fuglakóngur á sumum tungumálum, því hann ber kórónu. Þessi saga hefur stundum verið sögð með músarrindilinn í aðalhlutverki.
Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 3.01.2018 | Fugl mánaðarins
Hvítmáfur (Larus hyperboreus)

Hvítmáfur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur). Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúningi uns kynþroska er náð, eru afar flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir.
Útlit og atferli
Hvítmáfur er einkennismáfur margra strandsvæða, sérstaklega á veturna. Hann er stór fugl, svipaður svartbaki á vöxt og stærð. Fullorðinn hvítmáfur er að mestu hvítur, ljósgrár á baki og ofan á vængjum með hvíta vængbrodda. Á veturna er hann brúnflikróttur á höfði. Ungfugl á fyrsta ári er allur jafnt ljósbrúnflikróttur, aðeins brúnni að ofan og án dökks jaðars á stéli. Hann lýsist smám saman, getur á öðru ári verið alhvítur og er að mestu kominn í fullan búning á þriðja ári, en er þó með eitthvað af brúnum flikrum á vængjum og stéli. Það einkennir fullorðinn hvítmáf að hvergi sést dökkur litur í búningi hans, en fullorðinn silfurmáfur hefur hvítt og svart mynstur á vængendum.
Hvítmáfur og silfurmáfar hafa kynblandast á síðari árum og eru ýmis millistig þekkt. Bjartmáfur er eitt millistigið og mjög líkur hvítmáfi. Hvítmáfur er mun stærri, með kraftmeiri gogg, flatara enni og vængir ná ekki eins langt aftur fyrir stél á sitjandi fugli og hjá bjartmáfi. Vængir eru einnig hlutfallslega breiðari á hvítmáfi, semn er um 62-68 cm að lengd, vænghafið er 150-165 cm og meðalþyngd 1,5 kg, karlfuglinn er stærri.

Fullorðinn hvítmáfur í vetrarbúningi og ungur bjartmáfur í Þorlákshöfn. Stærðarmunurinn er sláandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfar á varpstað í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á varpstað í Melrakkaey.

Hvítmáfur í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á varpstað í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á varpstað í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Goggur fullorðins hvítmáfs er fremur stór, gulur að lit og er rauður blettur á naddi framarlega á neðra skolti. Goggur ungfugls er bleikur með svartan brodd. Fætur eru ljósbleikir, dekkri á ungfugli, og augun gul.
Hvítmáfur er stór og þungur og honum svipar til annarra stórra máfa. Hann ristir dýpra á sundi en bjartmáfur. Hann er félagslyndur og er oft í félagsskap annarra máfa.
Gefur frá sér hvellt garg sem svipar til hljóða silfurmáfs.
Lífshættir
Sandsíli og loðna er aðalfæða hvítmáfs, en hann leitar sér einnig ætis í fjörum og tekur þá m.a. krækling, trjónukrabba og krossfisk. Hann flýgur oft í loft upp með skeljar og lætur þær falla á kletta og grjót til að brjóta þær. Hann rænir æti frá æðarfuglum og fer í úrgang frá fiskvinnslustöðvum og fiskiskipum. Einnig eru egg og ungar á matseðlinum. Ástaratlot karlfuglsins á vorin felast m.a. í að æla æti uppí kvenfuglinn og foreldrarnir æla ætinu í uppí ungana í uppvextinum.
Hvítmáfur verpur í stórum byggðum í bröttum hlíðum og klettum við sjó. Hreiðrið er gert úr mosa, sinu og fjöðrum. Urptin er oftast þrjú egg, álegan tekur um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 7 vikum. Á veturna er hann við strendur eða á hafi úti.

Hvítmáfshreiður í Melrakkaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur á 1. vetri í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Ungur hvítmáfur (á 1. vetri) gleypir síld í Grundarfirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hvítmáfur við Svalbarða. Þar er hvítmáfurinn efst í fæðukeðjunni og helsti afræninginn meðal fugla. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Útbreiðsla og stofnstærð
Hvítmáfur er staðfugl. Aðalvarpstöðvarnar hérlendis eru við Breiðafjörð og á Vestfjarðakjálkanum, lítilsháttar annars staðar. Stærsta byggðin er í Mýrarhyrnu við Grundarfjörð. Hvítmáfur og silfurmáfur skipta landinu á milli sín, silfurmáfurinn verpur á N-, A-, S og SV-landi. Hvítmáfur er hánorrænn fugl, varpstöðvar hans eru allt í kringum Norður-Íshafið. Sennilega kemur eitthvað af hvítmáfi hingað til vetursetu frá Svalbarða og Grænlandi en innlendir varpfuglar virðast vera staðfuglar hér. Varpstofninn er um 5000 pör og hefur honum fækkað að undanförnu. Hann er á válista sem fugl í nokkurri hættu (VU).
Þjóðtrú og sagnir
Þjóðtrúin geymir ekki margt um hvítmáfinn sérstaklega, en oft er talað um máfa almennt. Þeir eru oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna.
Kveðskapur
Fuglinn í fjörunni
Fuglinn í fjörunni
hann heitir már.
Silkibleik er húfan hans
og gult undir hár.
Er sá fuglinn ekki smár,
bæði digur og fótahár,
á brjóstum hvítur, á baki grár.
Bröltir hann oft í snörunni,
fuglinn í fjörunni.
…
Forn fuglaþula, sem bæði Theódóra Thoroddsen og Hulda endurortu.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 21.12.2017 | Fréttir
Náttúruminjasafn Íslands óskar samstarfsaðilum og velunnurum safnsins sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Við Skerjafjörð á jólaföstu 2017. Ljósmynd: Finnur J. Malmquist.
Það eru spennandi tímar framundan í starfseminni. Það hillir nú undir með raunverulegum hætti, að Náttúruminjasafn Íslands geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu um miðlun fróðleiks um náttúru Íslands á þann hátt sem sómir höfuðsafni. Hér er vísað bæði til stefnusáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2018.
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er m.a. að finna eftirfarandi setningu um málefni Náttúruminjasafnsins (bls. 13): „Á kjörtímabilinu verður sérstaklega hugað að því að styrkja starfsemi höfuðsafnanna þriggja. Þar á meðal verður Náttúruminjasafn Íslands styrkt til að opna eigin sýningu og gert ráð fyrir framtíðarhönnun fyrir nýtt safn í fjármálaáætlun til fimm ára.“. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 fær Náttúruminjasafnið hvorutveggja sérstaka fjárveitingu að upphæð 290 m.kr. til að standa straum af kostnaði við uppsetningu á sýningu í Perlunni (sjá frétt á heimasíðunni 14. desember s.l.) og hækkun á fjárheimild í almennan grunnrekstur sem nemur um 70%, úr um 42 m.kr. í ár í um 73 m.kr. á ári næstu þrjú árin.
Það er ekki seinna vænna að Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum, fái byr undir báða vængi, hljóti viðeigandi fjárstuðning og eignist viðunandi aðstöðu til fræðslu og kennslu. Baráttan fyrir málefninu teygir sig aftur í aldir – til árdaga Hins íslenska náttúrufræðifélags, sem stofnað var 1889. Á verkefnaskrá félagsins er og hefur verið alla tíð að koma upp sem …„fullkomustu náttúrugripasafni á Íslandi…“..Þetta markmið er að miklu leyti í fullu gildi, hartnær 130 árum eftir stofnun félagsins. Búið er að koma á fót systurstofnuninni, Náttúrufræðistofnun Íslands, sem sinnir grunnrannsóknum á náttúru landsins, en eftir stendur að koma fótunum undir Náttúruminjasafn Íslands sem sinnir fyrst og fremst fræðslu og upplýsingamiðlun um náttúru Íslands með sýningahaldi, útgáfu, fræðastörfum og ýmsum öðrum hætti. Löng og merk forsaga safnsins hefur oft verið rædd og rakin af undirrituðum á vettvangi Náttúruminjasafnsins.
En nú er lag. Sem fyrr segir stefnir í fyrsta skipti síðan Náttúruminjasafnið var sett á laggirnar árið 2007 að safnið fái aðstöðu til eigin sýningarhalds. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Mikilvægi náttúrunnar fyrir farsælan framgang samfélaga kemur sífellt betur í ljós, sem og nauðsyn skynsamlegrar umgengni við náttúrugæðin með þarfir komandi kynslóða að leiðarljósi. Þá ríður á að fræða og upplýsa um undur og furður náttúrunnar, vekja áhuga á henni og auka skilning á gangverki hennar. Það er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands.
Til hamingju íslenska þjóð! Til hamingju allir gestir landsins!
Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.
by Snæbjörn Guðmundson | 14.12.2017 | Fréttir
Vel er stutt við starfsemi Náttúruminjasafns Íslands í frumvarpi til fjárlaga árið 2018. Mestu munar um sérstaka fjárveitinugu að upphæð 290 m.kr. til að standa straum af kostnaði við uppsetningu sýningar á vegum Náttúruminjasafnsins í Perlunni. Einnig er gert ráð fyrir umtalsverðri hækkun á almennum rekstrargrunni safnsins, sem hækkar um 70% milli ára, úr um 42 m.kr. árið 2017 í um 73 m.kr. á ári næstu þrjú árin.
„Þetta er mikið fagnarðarefni og feikilega góð tíðindi, ekki aðeins fyrir menntun og fræðslu í náttúrufræðum, heldur menningarstarfsemi almennt í landinu“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins. „Nú loksins hillir undir að höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum komist almennilega á koppinn. Ef Alþingi samþykkir frumvarpið þýðir það að við getum einhent okkur í fullnaðarhönnun, framleiðslu og uppsetningu á sýningu safnsins í Perlunni. Og ef vel gengur getum við opnað sýningu þar 1. desember á næsta ári, á 100 ára fullveldisafmælinu.“

Vatn leikur lykilhlutverk við mótun landsins. Frá Eyjabökkum, Eyjabakkahraukar. Ljósmynd: Skarphéðinn G. Þórisson.
Hilmar segir að um síðustu mánaðamót hafi safnið kynnt ráðherra og ráðuneytinu tillögu og greinargerð um sýningu í Perlunni sem nefnist „Vatnið í náttúru Íslands“. Tillagan var unnin í samvinnu við fjölmarga sérfræðinga í náttúruvísindum, sýningarhönnun og safna- og kennslufræðum. Ætlunin er að setja sýninguna upp í nýju 350 fermetra rými á 2. hæð í Perlunni, en Perla norðursins ehf. sem leigir Perluna af Reykjavíkurborg, hefur boðið safninu afnot af þessu rými endurgjaldslaust.

Fergin (Equisetum fluviatile) eða tjarnelfting vex í votlendi víða um land. Ljósmynd: Sólrún Harðardóttir.
Eins og nafnið ber með sér verður vatn meginviðfangsefni sýningarinnar – vatn í víðum skilningi, undirstaða alls lífs. Ísland er óvenju vatnsríkt land og vatn telst til helstu einkenna í náttúru landsins. Hér er gnótt grunnvatns, heitt vatn og kalt, fjölbreytt votlendi og urmull áa, fossa og vatna. Eðlisþættir vatnsins, máttur þess og megin við mótun lands og myndun verður viðfangsefni sýningarinnar og lífríkinu í vatninu gerð ítarleg skil, sem og vatn í veðri og vindum, nýting vatnsauðlindarinnar, aðsteðjandi hættur og hvernig bregðast má við vandamálum. Þá verður rík áhersla lögð á lifandi og gagnvirka fræðslu og framsetningu efnis og sérstaklega hugað að yngri skólastigum landsins.
„Baráttan fyrir eigin sýningarrými hefur verið löng og ströng“, segir Hilmar, „og leiðin oft þyrnum stráð. En þetta er stór áfangi og spennandi tímar framundan hjá Náttúruminjasafni Íslands.“
by Snæbjörn Guðmundson | 2.12.2017 | Fugl mánaðarins
Svartþröstur (Turdus merula)

Sperrtur svartþrastarkarl í gróðrarstöðinni Þöll, Hafnarfirði.
Svartþröstur er spörfugl af þrastaætt. Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla. Um 60% af nær tíu þúsund fuglategundum sem þekktar eru á jörðu tilheyra þessum ættbálki. Þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir, flestir eru þó smávaxnir. Með aukinni skógrækt hefur þeim spörfuglum fjölgað sem hafa orpið hér á landi.
Útlit og atferli
Svartþröstur er svipaður gráþresti að stærð, og að lit ekki ósvipaður stara. Þekkist best frá stara á jöfnum, svörtum lit án díla (karlfugl) og lengra stéli, auk hátternis, sem svipar til hegðunar annarra þrasta. Fullorðinn karlfugl er alsvartur, goggur og augnhringir skærgulir. Ungur karlfugl (á fyrsta vetri) er með dökkan gogg sem lýsist þegar líður á veturinn. Kvenfugl er dökkmóbrúnn að ofan, aðeins ljósrákóttari að neðan og með gráa kverk. Goggurinn er dökkur, stundum með gulu ívafi. Fætur og augu eru dökk.

Svartþrastarfrú í gróðrarstöðinni Þöll, Hafnarfirði.

Svartþrastarfrú með gulan gogg í Seljahverfi í Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fullorðinn svartþrastarkarl á Stokkseyri.
Er venjulega fremur felugjarn, nema syngjandi karlfuglar á vorin, sem hreykja sér í trjátoppum, á ljósastaurum og húsmænum. Fuglar í makaleit syngja meira en þeir sem eiga maka og eru eingöngu að auglýsa óðal sitt. Svartþrestir sjást stakir eða í smáhópum.
Frá svartþresti má heyra hvellan, hljómfagran og þunglyndislegan söng, sem og hart og hvellt kallhljóð.

Svartþrastarkarl þenur raddböndin í trjátoppi í Fossvogskirkjugarði.
Lífshættir
Svartþrösturinn etur bæði úr dýra- og jurtaríkinu. Hann leitar að skordýrum, köngulóm og ormum á jörðu niðri, tekur einnig ber í runnum og á trjám. Á veturna sækir hann í garða þar sem epli, aðrir ávextir og feitmeti eru gefin.
Svartþröstur verpur í trjám í görðum og trjálundum, stundum á húsum. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, svipaða eða efnismeiri en skógarþrösturinn. Ungarnir eru ósjálfbjarga, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir eða að verða fleygir. Urptin er 3-5 egg, álegan tekur um tvær vikur og uppvöxtur unga svipaðan tíma.
Varptími svartþrasta er langur og verpa þeir nokkrum sinnum yfir sumarið. Fuglarnir fara að syngja í lok febrúar, oft löngu fyrir birtingu og sérstaklega í dumbungsveðri og hlýindum. Þeir fyrstu verpa í lok mars, þeir verpa oft yfir sumarið og ófleygir ungar hafa fundist alveg fram í september. Íslenskt veðurfar með umhleypingum á útmánuðum, á eftir að síast inní gen fuglanna, þeir telja sig enn vera á suðlægari slóðum eða í mildara loftslagi. Utan varpstöðva sést hann í görðum, við bæi og í fjörum.

Svartþrastarhreiður í Fossvogi, Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartþrastarfrú með unga í hreiðri við Elliðavatn.

Nýfleygur svartþrastarungi í Fossvogskirkjugarði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og stofnstærð
Svartþröstur var haust- og vetrargestur eins og gráþröstur, fyrsta staðfesta varpið var í Reykjavík árið 1969. Frá árinu 1991 til aldamóta urpu svartþrestir reglulega í Reykjavík, án þess að stofninn næði að vaxa að marki. Vorið 2000 kom mikil ganga, sem var gott ílag í stofninn og eftir það hefur hann vaxið hröðum skrefum. Svartþröstur náði fyrst fótfestu sem varpfugl í grónum hlutum Innnesja og Suðurnesja og þaðan hefur hann breiðst nokkuð hratt út í báðar áttir. Hann verpur nú reglulega í öllum landshlutum, en er rétt að byrja að þreifa fyrir sér á Austur- og Suðausturlandi. Landnám hans minnir nokkuð á varpsögu starans, sem hóf varp á Innnesjum árið 1960 og hefur breiðst út þaðan, mynstrið er svipað. Svarþrösturinn hefur þó verið mun fljótari að nema land heldur en starinn. Stofnstærðin nú er nokkur þúsund pör. Hann er að öllum líkindum staðfugl, þó einhverjir kunni að halda af landi brott á haustin.
Varpheimkynni svartþrasta eru annars í Evrópu, Norður-Afríku og á belti í Asíu austur til Afganistan og Kína. Evrópubúar fluttu hann til Ástralíu, Tasmaníu og Nýja-Sjálands, þar eru nú villtir stofnar.

Svartþrastahjón í alapareyni í Árbæjarhverfi í Ölfusi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svartþrastarkarl etur alpareyniber í Árbæjarhverfi í Ölfusi.
Þjóðtrú og sagnir
Þar sem svartþrösturinn er svo nýr landnemi virðist engin þjóðtrú hafa skapast um hann … enn. Þeir sem lásu danska höfundinn Leif Panduro, t.d. Rend mig i traditionerne í menntaskóla, muna kannski hvernig svartþrösturinn eða söngur hans var leiðarstef í sögunni. Jafnframt sungu Bítlarnir um hann. Svartþröstur er þjóðarfugl Svía og þar er hann veðurviti. Fræðiheitið merula vísar til hins einræna háttalags fulgsins.
Kveðskapur
….
Bælir sig að jörð og hlerar niður
í hlykkjótt moldargöngin undir frosnum þekjum
þar sem skriðljós ánamaðksins
iða sem hrævareldar í myrkri
hugans. Dýpra
dylst hið fagurbleika sumaragn
Felur sólgult nefið undir væng
og veit að þessi fölu strá má nota
til að flétta ný hreiður
í nýjabrumi vorsins – ef það sprettur
þá einhverntíma undan bláum nöglum
þessara nístandi frosta
…
Svartþröstur eftir Hannes Sigfússon.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.