Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

 Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

Í nýjustu grein Náttúrufræðingsins er sagt frá mjög athyglisverðum fyrsta fundi sæsnigilsins svartserks (Melanochlamys diomedea) í Atlantshafi. Snigillinn fannst fyrst við strendur Íslands í júní 2020.

 Sagt er frá ferlinu frá því að hann sást fyrst í fjöru við Ísland þar til staðfest tegundagreining fékkst. Þá er greint frá þekktri útbreiðslu og fjallað um mikilvægi þess að fylgst sé vel með nýrri framandi tegund og framvindu hennar.

Greinina má finna hér á vef Náttúrufræðingsins: Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

 

Nordic Biodiversity Framework

Nordic Biodiversity Framework

Nordic Biodiversity Framework

Lokaskýrsla verkefnisins Nordic Biodiversity Framework – Laying the foundation for Nordic synergy regarding the Global Biodiversity Framework var gefin út í byrjun júní 2025. Biodice leiddi verkefnið sem kannaði stöðu og aðferðir Íslands, Danmerkur og Finnlands til að innleiða Kunming-Montréal samkomulagið um líffræðilega fjölbreytni: Global Biodiversity Framework – GBF. Með því að bera saman rannsóknir og stefnur þvert á norrænu ríkin geta þjóðirnar lært hver af annarri.

Greinargerð í kjölfar vinnustofu Biodice um líffræðilega fjölbreytni var gefin út í maí 2025 en þessi vinnustofa, sem haldin var á Íslandi, var sú fyrsta af þremur í Nordic Biodiversity Framework verkefninu. Fulltrúar níu ráðuneyta, tíu ríkisstofnana og átta tengdra aðila tóku þátt. Fram kom að líffræðileg fjölbreytni fær takmarkaða athygli í stjórnsýslunni. Þátttakendur lögðu áherslu á mikilvægi samráðs, samstarfs og samþættingar líffræðilegrar fjölbreytni í stefnumótun, auk þess að þörf sé á að tryggja að loftslags- og skipulagsmál styðji við líffræðilega fjölbreytni. Kallað var m.a. eftir aukinni fræðslu, fjármögnun og stofnun fagráðs um líffræðilega fjölbreytni.

Tvær vinnustofur voru haldnar í viðbót, í Finnlandi og Danmörku, sem leiddu í ljós mismunandi áskoranir. Sameiginlegar áskoranir eru meðal annars samkeppni milli náttúruverndar og atvinnu-/öryggishagsmuna, takmarkaður skilningur á lykilhugtökum og ófullnægjandi stefnur og fjármögnun. Líffræðileg fjölbreytni hefur almennt ekki verið nægilega samþætt í íslensk lög og stefnur. Ekki er vitað hver staðan er varðandi innleiðingu markmiða GBF, en ljóst er að Ísland er langt frá því að ná þeim. Þrátt fyrir þetta eru jákvæð teikn á lofti og vaxandi vitund um málefnið, bæði hjá almenningi og stjórnvöldum.

Náttúrufræðingurinn mættur

Náttúrufræðingurinn mættur

Náttúrufræðingurinn mættur!   

Út er komið 3.– 4. hefti Náttúrufræðingsins, 94. árgangs. Í heftinu er m.a. yfirlitsgreinar um nýtt gosskeið á Reykjanesskaga, og uppeldissvæði laxfiska í Þingvallavatni og tengdum ám, þá er sagt frá  orkunotkun íbúðabygginga á Íslandi, kóral- og svampasvæðum við Ísland og Norrænu eldfjallastöðinni.

Heftið er 78 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Margrét Rósa Jochumsdóttir ( margret@nmsi.is).

Náttúruminjasafn Ís­lands – klárum verk­efnið

Náttúruminjasafn Ís­lands – klárum verk­efnið

Stöndum saman – klárum verkefnið

„Það vantar aðeins herslumuninn til að ljúka við Náttúruhúsið í Nesi og opna þar sýningu í þágu almennings. Nú er lag vegna Alþingiskosninganna 30. nóvember næst komandi. Hvaða stjórnmálaflokkar ætla að gera hér bragarbót á og sýna í verki þann stuðning sem Náttúruminjasafn Íslands þarf á að halda?“

Náttúruminjasafn Ís­lands – klárum verk­efnið

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ritar grein á Vísi um stöðu safnsins, uppbyggingu nýrra höfuðstöðva og mikilvægi þess að þjóðin eignist loks fullbúið höfuðsafn á sviði náttúruvísinda sem sómi er að.

Náttúruhús í Nesi, Framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.

Samstarf náttúrufræðisafna á Norðurlöndunum eflt

Samstarf náttúrufræðisafna á Norðurlöndunum eflt

Samstarf náttúrufræðisafna á Norðurlöndunum eflt

Á allra síðustu árum hefur áhugi almennings á náttúrusýningum aukist til muna, líkt og aðsóknartölur að náttúrufræðisöfnunum á Norðurlöndunum bera með sér. Þá sýna kannanir í Svíþjóð, Íslandi og Bandaríkjunum að almenningur ber einna mest traust til safna á meðal stofnana í samfélögunum. Þessi staða endurspeglar fagleg hlutverk safnanna og samfélaglega ábyrgð – söfnin teljast til grunnstoða vísinda og mennta, eru uppsprettur rannsókna og þekkingar. Við náttúrufræðisöfnunum blasa einnig ýmsar áskoranir og áhyggjur, einkum skortur á viðunandi aðstöðu til geymslu og varðveislu og þörf á frekari fjárstuðningi, sérstaklega vegna vinnu við stafræna gerð safneignar.

Framangreind atriði voru til umræðu á fundi safnstjóra höfuðsafna Norðurlandanna fimm á sviði náttúrufræða í Stokkhólmi í síðustu viku. 

Loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni eru stærstu hnattrænu áskoranir sem mannkyn glímir við í dag. Hér gegna náttúrufræðisöfn veigamiklu hlutverki varðandi rannsóknir, vöktun og miðlun á vísindalegum upplýsingum og þekkingu. Þá búa Norðurlöndin yfir svipuðum vist- og landfræðilegum eiginleikum, þ. á m. stórum óbyggðum landsvæðum, umfangsmiklum hafsvæðum, fjölda náttúruverndarsvæða og, síðast en ekki síst, einstaka líffræðilega fjölbreytni með mikið af einlendum tegundunum sem hvergi finnast annars staðar. Aukið samstarf Norðurlandanna á sviði líffræðilegrar fjölbreytni styrkir tvímælalaust grunninn fyrir vísindalega stefnumörkun og ákvörðunartöku hins opinbera á sviði nýtingar og verndunar náttúrunnar, brýnustu framtíðarmálefnum samfélaganna. 

Mikil gæði felast í safneign náttúrufræðisafnanna, sem búa yfir allt að 400 ára gömlum gögnum og gagnaröðum. Öll söfnin glíma hins vegar við svipaðar grundvallaráskoranir og áhyggjur. Ófullnægjandi geymslu- og varðveisluaðstæður, þröngur fjárhagur og takmörkuð nýliðun háir starfsemi safnanna og takmarkar þar með afnot samfélaganna á safneigninni og þeirri sérfræðiþekkingu sem starfsfólkið býr yfir. Þessi staða bitnar m.a. á stafrænni vinnslu safnmuna sem miðar of hægt áfram. Stafræn gerð safneignar er hins vegar þýðingarmikill þáttur í starfseminni, eykur aðgengi að safnkostinum og afnotum í rannsóknaskyni, hefur í för með sér minni þörf fyrir beinan aðgang og snertingu við muni og felur í sér öruggari og öðruvísi varðveislu en með hefðbundnum hætti. 

Samstarfsvettvangur safnstjóra höfuðsafna Norðurlandanna á sviði náttúrufræða leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að hlúa að starfsemi og umgjörð safnanna þannig að samfélagið fái notið að fullu þeirra gagna og gæða sem söfnin búa yfir og nauðsynleg eru til að takast á við stærstu hnattrænu áskoranir sem mannkyn glímir við í dag – loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni.

Safnstjórar náttúrufræðisafnanna, frá vinstri til hægri: Brit Lisa Skjelkvale (Naturhistorisk Museum, Universitet i Oslo, Noregi), Paula Kankaanpaa (Finnish Museum of Natural History, University of Helsinki, Finnlandi), Lisa Månsson (Naturhistoriska riksmuseet, Svíþjóð), Hilmar J. Malmquist (Náttúruminjasafn Íslands) og Nina Rønsted (Statens Naturhistoriske Museum, Københavns Universitet, Danmörk).

Um fundinn:

Fundurinn var haldinn 23.−24. október 2024 í Stokkhólmi og skipulagður í tengslum við formennsku Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni og 76. þing Norðurlandaráðs sem haldið er í Reykjavík 28.−31. október 2024.

Á fundinum tóku þátt eftirtaldir safnstjórar (frá vinstri til hægri á mynd): Brit Lisa Skjelkvale (Naturhistorisk Museum, Universitet i Oslo, Noregi), Paula Kankaanpaa (Finnish Museum of Natural History, University of Helsinki, Finnlandi), Lisa Månsson (Naturhistoriska riksmuseet, Svíþjóð), Hilmar J. Malmquist (Náttúruminjasafn Íslands) og Nina Rønsted (Statens Naturhistoriske Museum, Københavns Universitet, Danmörk).

Hér er hlekkur á sameiginlega yfirlýsingu safnstjóranna fimm eftir fundinn