Rjúpan

Rjúpan

Ein er upp til fjalla,
yli húsa fjær,
út um hamrahjalla,
hvít með loðnar tær,
brýst í bjargarleysi,
ber því hyggju gljúpa,
á sér ekkert hreysi
útibarin rjúpa.

Fyrsta erindið úr Óhræsinu eftir Jónas Hallgrímsson

Rjupa84a

Rjúpan

Rjúpa (Lagopus muta) er eini hænsnafuglinn sem lifir villtur á Íslandi. Flestir þekkja rjúpuna, hún er hnellin og vængirnir stuttir og breiðir. Hún fellir bolfjaðrir þrisvar á ári, en flugfjaðrir aðeins einu sinni. Á veturna er rjúpan alhvít, en að mestu brún á sumrin. Á haustin er rjúpan grábrún. Kviðurinn og fiðraðir fæturnir eru hvítir árið um kring, sem og flugfjaðrir, en stélfjaðrirnar svartar. Á vorin skrýðast kvenfuglarnir sumarbúningi um það bil mánuði fyrr en karlfuglarnir, karrarnir. Þeir eru hvítir fram í júní, en þá er kvenfuglinn orpinn. Þeir eru mjög áberandi þegar þeir tylla sér þá á háa staði, þenja rauða kambana og verja óðal sitt. Í algleymi tilhugalífsins eru þeir auðveld bráð fyrir fálka, alhvítir og annars hugar í dökku umhverfi. Þeir stunda þá leirböð af kappi og er hvíti liturinn oft orðinn ansi leirugur, áður en þeir skipta alveg yfir í sumarfiðrið. Annað sem einkennir rjúpuna, er að ungar verða fleygir á 10 dögum, löngu áður en þeir ná fullri stærð.

Rjúpan verpur á lyngheiðum, í móum, kjarri, skóglendi og grónum hraunum frá fjöru til fjalls. Hreiðrið er fóðruð skál, vel falin í runnum eða lyngi. Rjúpur halda til fjalla á haustin en þegar jarðbönn hamla beit leita þær niður á láglendi og halda þá til í hlíðum, kjarri og jafnvel í byggð, kvenfuglar og ungfuglar flakka meira, karrarnir halda sig oft í varplöndunum árið um kring. Rjúpan er einn fárra fugla, sem sjást á miðhálendinu á veturna, hinir eru krummi, snjótittlingur og stundum sést fálki elta rjúpu á snævi þöktu hálendinu.Rjúpan er spakur fugl, þar sem hún er óáreitt.
Rjupa50a

Jólamatur fátæklinga

Það er ekki ýkja gamall siður meðal almennings, að borða fugla á jólum hér á landi. Til jólahaldsins var fyrr á öldum oftast slátrað lambi og kjötsúpa höfð á aðfangadagskvöld. Hangiket var einnig víða jólamatur og gjarnan borðað á jóladag, en rjúpur voru fátækramatur og bara borðuð á þeim heimilum sem höfðu ekki efni á að slátra lambi fyrir jólahátíðina. Svipaða sögu er að segja um laufabrauð, sem var einnig fátækramatur. Kornmeti var oft af skornum skammti á Íslandi og því var mesta nýnæmið um jól grautar og brauðmeti og þar með talið laufabrauðið, sem er eitt af sérkennum jólahalds á Íslandi. Svínaketsát er nýlegt, þar sem svínarækt lá niðri um aldir og hófst ekki aftur að ráði fyrr en uppúr 1950. Svipað er að segja um gæsaát, sem er fremur nýleg jólahefð í landinu.

Afhverju er rjúpan með loðnar tær?

Einu sinni boðaði María mey alla fuglana á fund sinn. Þegar þeir komu þangað skipaði hún þeim að vaða bál. Fuglarnir vissu að hún var himna drottning og mikils megandi. Þeir þorðu því ekki annað en hlýða boði hennar og banni og stukku þegar allir út í eldinn og í gegnum hann nema rjúpan. En er þeir komu í gegnum eldinn voru allir fæturnir á þeim fiðurlausir og sviðnir inn að skinni og svo hafa þeir verið síðan allt til þessa dags og hlutu þeir það af því að vaða bálið fyrir Maríu.

En ekki fór betur fyrir rjúpunni sem var sú eina fuglategund sem þrjóskaðist við að vaða eldinn, því María reiddist henni og lagði það á hana að hún skyldi verða allra fugla meinlausust og varnarlausust, en undireins svo ofsótt að hún ætti sér ávallt ótta vonir nema á hvítasunnu, og skyldi fálkinn sem fyrir öndverðu átti að hafa verið bróðir hennar ævinlega ofsækja hana og drepa og lifa af holdi hennar.

En þó lagði María mey rjúpunni þá líkn að hún skyldi mega skipta litum eftir árstímunum og verða alhvít á vetrum, en mógrá á sumrum, svo fálkinn gæti því síður deilt hana frá snjónum á veturna og frá lyngmóunum á sumrum. Þetta hefur ekki úr skorðum skeikað né heldur hitt að fálkinn ofsæki hana, drepi og éti, og kennir hann þess ekki fyrr en hann kemur að hjartanu í rjúpunni að hún er systir hans enda setur þá að honum svo mikla sorg í hvert sinn er hann hefur drepið rjúpu og étið hana til hjartans að hann vælir ámátlega lengi eftir svo nístir í gegnum merg og bein. (Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar – Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands).

Rjupa39aJóhann Óli Hilmarsson lagði til myndir og texta.

 

Samstarfssamningur við Líffræðistofu Háskóla Íslands

Náttúruminjasafn Íslands og Líffræðistofa Háskóla Íslands hafa gert með sér samning um rannsóknasamstarf á fornlíffræði rostunga við Ísland. Samningurinn var undirritaður í Loftskeytastöðinni föstudaginn 23. janúar síðastliðinn.

2015-01-23 16.27.56

Samkomulag Líffræðistofu Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands handsalað föstudaginn 23. janúar 2015. Prófessor Ólafur S. Andrésson stofustjóri (t.h.) og Hilmar J. Malmquist safnstjóri (t.v.).

Meginmarkmið rannsóknarinnar, sem felur m.a. í sér aldursgreiningu beina, svipfarsgreiningu þeirra og erfðagreiningu, er að varpa ljósi á fornlíffræði rostunga hér við land, útskýra aldur þeirra, jarðsögulega stöðu, líffræði og hugsanleg tengsl við rostungsstofna annar staðar í norðanverðu Atlantshafi. Gagnasafnið sem liggur til grundvallar rannsókninni nær til beinaleifa um 50 rostunga sem fundist hafa hér við land á undaförnum 100 árum eða svo.

Kveikjan að rannsóknarverkefninu er beinafundur rostunga í fjöru í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Þrjár hauskúpur rostunga með skögultönnum fundust með skömmu millibili árið 2008 í fjörunni í landi Barðastaða, Staðarsveit, Snæfellsnesi. Slíkur fundur er mjög óvenjulegur og kann að benda til þess að rostungar hafi haft látur á þessum slóðum fyrr á tímum og/eða að skipstapi hafi átt sér þar stað. Náttúruminjasafnið fékk að gjöf eina hauskúpuna sem fannst 2008 eins og lesa má um á visir.is.

Að verkefninu koma einkum dr. Arnar Pálsson dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og prófessor Snæbjörn Pálsson við sömu deild. Þá tengjast verkefninu dr. Hreggviður Norðdahl jarðfræðingur og dr. Árný Sveinbjörnsdóttir jarðefnafræðingur, bæði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, og dr. Bjarni F. Einarsson forleifafræðingur við Fornstofuna.

Um samkomulag Náttúruminjasafnsins og Líffræðistofunnar má lesa hér:

Samkomulag um rannsóknir á rostungum. 23.01.2015

Nýtt náttúrufræðisafn í Danmörku – 12 milljarða króna jólagjöf úr einkasjóðum

Årets julegave: 550 mio. kr. fra private fonde sikrer nyt naturhistorisk museum“ þannig hljóðar fyrirsögnin í nýlegri fréttatilkynningu á heimasíðu Náttúrufræðisafns Danmerkur, Statens Naturhistoriske Museum (tengill hér). Stjórnvöld í Danmörku hafa um hríð haft á stefnuskrá sinni að setja aukið fé í þetta höfuðsafn sitt á sviði náttúrufræða og styrkja sérstaklega stoðir þess varðandi sýningahald og miðlun fróðleiks og upplýsinga um náttúru. Með rausnarlegum framlögum nokkurra danskra sjóða í einkageiranum, m.a. frá Villumsjóðnum og Novo Nordisk, að upphæð 550 m. DKR., sem svarar til um 12 milljarða ÍSKR., hefur framkvæmd verkefnisins verið tryggð. Alls er áætlað að verkefnið muni kosta um 20 milljarða kr., um 950 m. DKR., og er stefnt að opnun fullbúins safns árið 2020.

indgang_nyt_naturhistorisk_museum_snm

Inngangurinn að nýju Náttúrufræðisafni Danmerkur á mótum Øster Voldgade og Sølvgade skammt frá Jónshúsi.

Nýja safnið er myndað með samruna þriggja safna sem eru Grasafræðisafnið (Botanisk Museum), Jarðfræðisafnið (Geologisk Museum) og Dýrafræðisafnið (Zoologisk Museum) og verður það staðsett á lóð Grasagarðsins (Botanisk Have) meðfram Gothersgade, Øster Farimagsgade, Sølvgade og Øster Voldgade. Þetta svæði er Íslendingum að góðu kunnugt en Jónshús er skammt frá við Sølvgade.

Einn stærsti sýningasalurinn og meginþema í sýninghaldinu verður tileinkað hvölum, en í fórum Dýrafræðisafnsins í Kaupmannahöfn er meðal annars að finna beinagrindur fágætra hvalategunda frá Íslandi. Hvalasýningin verður í stórri glerhvelfingu í húsnæðinu gegnt Ríkislistasafninu (Statens Museum for Kunst) á mótum Øster Voldgade og Sølvgade og er hugmyndin að vegfarendur geti séð hvalina frá götu jafnt að degi sem nóttu.

Dönum er óskað er til hamingju með þennan myndugleik á sviði menningar og fræðslu. Það er jafnframt óskandi að íslenskum stjórnvöldum auðnist að feta í fótspor Dana og geri vel við sitt höfuðsafn á sviði náttúrufræða, Náttúruminjasafn Íslands, þannig að sómi sé af.

 

Málstofa um söfn og háskólastarf

Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands boðar til málstofu um þýðingu safna fyrir háskólastarf á Íslandi þann 5. desember 2014 milli klukkan 15 og 17. Málstofan fer fram í Þjóðminjasafni Íslands.

Söfn og háskólar

Hvaða þýðingu hafa söfn fyrir háskóla landsins við upphaf 21. aldar að mati sex safnstjóra? Um þetta munu fjalla í pallborðsumræðum sex safnstjórar, þau Hafþór Ingvason Listasafni Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir í Hafnarborg, Bjarni Guðmundsson Landbúnaðarsafni Íslands, Unnur Birna Karlsdóttir Minjasafni Austurlands, Hilmar J. Malmquist Náttúruminjasafni Íslands og Anna Lísa Rúnarsdóttir Þjóðminjasafni Íslands.

Megin spurningar sem leitað verður svara við í málstofunni eru meðal annars; með hvaða hætti hafa söfn og háskólastofnanir átt í samstarfi á undanförnum árum og áratugum, hvaða áskoranir standa söfn frammi fyrir í vaxandi háskólastarfi á sviðum þeirra, hvaða þýðingu hefur samvinna þeirra við háskóla fyrir íslenskt samfélag og með hvaða hætti sjá þeir samstarfið þróast á næstu árum.

Málstofan er öllum opin og eru nemendur og kennarar háskólanna í landinu hvattir sérstaklega til að mæta.