Nýjar þörungategundir á Íslandi

Nýjar þörungategundir á Íslandi

Fyrir skömmu kom út fræðigrein um kransþörunga á Íslandi í tímaritinu Nordic journal of botany. Greinin heitir New finds of charophytes in Iceland with an update on the distribution of the charophyte flora og má nálgast hér. Greint er frá fundi fjögurra nýrra tegunda kransþörunga á Íslandi, auk þess sem birt eru útbreiðslukort fyrir þær átta tegundir kransþörunga sem nú finnast hérlendis.

Kransþörungar (Charophyceae) eru í hópi grænþörunga (Chlorophyta) og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stærstir allra þörunga í ferskvatni og geta sumar tegundir orðið allt að metri að lengd. Kransþörungar draga nafn sitt af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stöngli. Þeir eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður á botninum.

Kransþörungurinn tjarnanál (Nitella opaca) myndar iðulega þykkt teppi langra þörungaþráða á botni stöðuvatna. Myndin er tekin í Stíflisdalsvatni í Kjós, sjá má langnykru (Potamogeton praelongus) í bakgrunni. Mynd: Erlendur Bogason, 2018.

Nýju tegundirnar fjórar fundust í viðamikilli rannsókn á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu, sem jafnframt var fyrsta skipulega rannsóknin af því tagi hér á landi. Rannsóknin var liður í lýsingu og kortlagningu vistgerða landsins á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, en veg og vanda af sýnatöku og úrvinnslu hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs. Gróður var kannaður á árunum 2012–2013 í 72 stöðuvötnum og 16 straumvötnum víðs vegar á landinu.

Kransþörungar hafa fundist á 126 stöðum á Íslandi (Þóra Hrafnsdóttir o.fl. 2019).

Höfundar greinarinnar eru Þóra Hrafnsdóttir og Hilmar J. Malmquist hjá Náttúruminjasafni Íslands, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs, Eva G. Þorvaldsdóttir grasafræðingur og Anders Langangen sem er einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í kransþörungum.

Myndskeiðið hér að neðan er tekið í Stíflisdalsvatni í Kjós og sýnir breiður af kransþörungnum tjarnanál. Myndataka og köfun: Erlendur Bogason, 2018.

Spennandi þriðjudagar í júlí

Spennandi þriðjudagar í júlí

Alla þriðjudaga í júlí mun Náttúruminjasafnið standa fyrir viðburðum á sýningu safnsins, Vatnið í Náttúru Íslands í Perlunni. Viðburðirnir standa frá kl. 14 – 16 og er aðgangur ókeypis.

Engir tveir viðburðir verða eins og eru viðfangsefnin bæði úti og inni.

Tilvalið fyrir fjölskyldur til að fræðast og tengjast náttúrunni á óvenjulegan og skemmtilegan hátt.

Dagskráin í júlí er eftirfarandi:

2. júlí – Hvað býr í vatninu?

9. júlí – Ratleikur

16. júlí – Vaxa steinar úr vatni?

23. júlí – Hvað býr í vatninu?

30. júlí – Nærðu áttum?

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

 

Ný sýn á þróun lífs

Ný sýn á þróun lífs

Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur á Náttúruminjasafni Íslands birti nýlega yfirlitsgrein ásamt samstarfsfélögum sínum í tímaritinu Biological Reviews þar sem fjallað er um nýja sýn á þróun lífvera. Greinin ber heitið A way forward with eco evo devo: an extended theory of resource polymorphism with postglacial fishes as model systems og má lesa hér.

Skúli Skúlason o.fl. 2019

Í ágripi greinarinnar kemur fram að meginmarkmið líffræðilegrar þróunarfræði er að skilja og skýra hvernig fjölbreytileiki lífvera (líffræðileg fjölbreytni, e. biodiversity) verður til og hvernig lífverur breytast í tímans rás. Þó þekking á þessu hafi aukist mikið á undanförnum árum er mörgum spurningum enn ósvarað um orsakir breytileika í svipfari lífvera, hvernig hann verður til og á hvaða hátt hann mótast af náttúrulegu vali.

Höfundar hvetja til þess að takast á við viðfangsefnið með því að skoða í samhengi vist-, þróunar- og þroskunarfræðilega þætti (kallað á ensku eco, evo, devo). Þannig er tekið mið af því annars vegar að hið vistfræðilega umhverfi (eco) mótar þroskun svipgerða (devo), samhliða því að leggja grunn að náttúrlegu vali þeirra (eco – evo); og hins vegar að lífverur geta haft mótandi áhrif á umhverfið sem þær þroskast og þróast í (eco – evo og eco – devo feedbacks). Gagnsemi eco – evo – devo nálgunarinnar kemur vel fram þegar hún er tengd við kenningu um þróun fjölbrigðni innan tegunda (e. theory of resource polymorphism) og er þróun ólíkra afbrigða hjá mörgum tegundum ferskvatnsfiska á norðurslóðum, t.d. bleikjuafbrigða í Þingvallavatni, sérstaklega áhugaverð í þessu sambandi. Rannsóknir sýna að þróun þessara afbrigða er hröð og stafar af: 1) fjölbreyttu umhverfi sem veldur rjúfandi vali (þar sem aðskilin afbrigði myndast) innan stofna og tegunda; 2) þroskunarferlum sem eru næmir fyrir áhrifum umhverfis- og erfðaþátta; og 3) eco–evo og eco–devo áhrifum fiskanna á umhverfi sitt sem geta mótað hvernig náttúrlegu vali, sem og sveigjanleika svipgerða, er háttað. Sagt er frá viðeigandi dæmum þessu til stuðning, sett fram líkan um tilurð fjölbrigðni sem samþættir eco – evo – devo nálgun, og bent á mikilvægar rannsóknarspurningar og tilgátur sem þarfnast skoðunar.

Hvert er mikilvægi straumvatna fyrir lífríkið, fiska og menn? Árnar eru lífæðar landsins

Hvert er mikilvægi straumvatna fyrir lífríkið, fiska og menn? Árnar eru lífæðar landsins

Þriðjudaginn 4. júní nk. mun Kurt Fausch prófessor emeritus við Department of Fish, Wildlife, and Conservation Biology, Colorado State University halda fyrirlestur með titlinum:

What is essential about rivers for fish, and humans? Lessons on connectivity and connections from four decades.

Kurt er heimsþekktur vísindamaður sem hefur helgað líf sitt rannsóknum og miðlun þekkingar um vistfræði vatnakerfa, með sérstakri áherslu á ár og fiskana í þeim, þ.m.t. laxfiska. Hann er baráttumaður fyrir skynsamlegri umgengni og nýtingu straumvatna og bendir á að árnar eru lífæð mannkyns sem ber að varðveita og umgangast af virðingu. Hann er m.a. höfundur bókarinnar For the Love of Rivers: A Scientist’s Journey, sem kom út 2015.

Hérlendis er mikil umræða um umgengni og verndun vatna og áa og fiskistofna, sem m.a. tengist loftslagsbreytingum, virkjanamálum og fiskeldi. Fyrirlestur Kurts er kærkomið innlegg í þessa umræðu og til þess fallið að auka skilning okkar á mikilvægi rennandi vatns í lífkeðju landsins.

Fyrirlesturinn verður í sal 130 í Öskju Háskóla Íslands, og hefst kl. 12.30

Sjá nánar/ENGLISH

Heimsókn Kurt til Íslands er á vegum Háskólans á Hólum, Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands

Allir velkomnir!

Hátíð hafsins hjá Náttúruminjasafninu um helgina

Hátíð hafsins verður haldin nú um helgina 1.-2. júní og fjölmagir áhugaverðir viðburðir í boði um allt land fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafnið tekur þátt í hátíðarhöldunum og býður upp á tvo viðburði. Á hafnardeginum, laugardaginn 1. júní kl. 13, flytur Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins erindi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, sem hann kallar „Af íslandssléttbökum í Kaupmannahöfn: íslenskur náttúruarfur eða danskur menningararfur.“ Á sjómannadeginum sunnudaginn 2. júní, býður Náttúruminjasafnið krökkum og fjölskyldufólki í Perluna til að kynnast forvitnilegum sjávardýrum – lifandi steinbítum, brimbútum, kross- og sogfiskum, Safnkennarar verða til taks og fræða krakkana um dýrin milli kl. 13 og 16. Ókeypis aðgangur verður að þessu tilefni inn á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, á 2 hæð í Perlunnai milli kl. 13 og 16.

 

Nánar um íslandssléttbakaerindið

Hilmar mun segja frá verkefni sem Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðisafn Danmerkur (Statens Naturhistoriske Museum, Zoologisk Museum) vinna að og fjallar um rannsókn á beinagrindum tveggja sléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddust við Ísland 1891 og 1904 og eru varðveittar í Kaupmannahöfn. Sléttbakar, öðru nafni Íslandssléttbakar voru eitt sinn algengir í norðanverðu Atlantshafi en eru nú í mikilli útrýmingarhættu. Greint verður frá náttúrusögu tegundarinnar, heimildavinnu um hvalina tvo í Kaupmannahöfn, vikið að merku og nýuppgötvuðu framlagi Jóns lærða Guðmundssonar í tengslum við hvalina og sagt frá nýlokinni háskerpu þrívíddarskönnun á annarri beinagrindinni. Þá verður vikið að vinnu Náttúruminjasafnsins við að sannfæra Dani um að afhenda Íslendingum til langs tíma aðra beinagrindina, enda um náttúruarf að ræða sem tilheyrir Íslandi.

Íslandssléttbakur kominn á land á hvalstöð Victorsfélagsins á Höfðaodda (Framnesi) í Dýrafirði. Myndin er tekin 1891, sama ár og annar sléttbakurinn sem er í Kaupmannahöfn var veiddur. Ljósmynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Höfuðsöfnin þrjú – Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands – boða til árlegs vorfundar mánudaginn 29. apríl n.k. Fundurinn verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu undir yfirskriftinni: Að mennta börn í söfnum – barnamenning.

Vorfundurinn hefst kl. 9 með ávarpi f.h. mennta- og menningarmálaráðherra og erindi dr. Christian Gether, safnstjóra Arken í Danmörku, sem nefnist: ARKEN, a Part of Society´s Enlighetenment Project towards its Citizens. Ideas and Practices. 

Síðan verður fjallað um verkefni á sviði barnamenningar hjá höfuðsöfnunum og rannsóknir og þekkingarsköpun í safnastarfi. Eftir hádegið verða sýningar og höfuðsöfn heimsótt. Við lok dagskrár kl. 16:30 heldur Safnaráð úthlutunarboð í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg.

Vissirðu að vatn getur líka flogið?

Vatnskötturinn er vinsælt myndefni. Ljósm. IRI.

Sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er sniðin að börnum. Vatnskötturinn tekur á móti börnunum og leiðir þau um sýninguna, en vatnsköttur er þeirri náttúru gæddur að geta flogið á einu lífsstigi sínu, þegar hann er orðinn að fjallaklukku!

Sigrún Þórarinsdóttir, safnakennari við Náttúruminjasafnið segir frá sýningu Náttúruminjasafnsins á vorfundinum kl. 10:55. Erindi hennar nefnist: Vissirðu að vatn getur líka flogið? Börnin og vatnið í náttúru Íslands. Heimsókn með leiðsögn og kynningu á sýningunni verður svo kl. 14:30. Óskað er eftir að fólk skrái sig í heimsóknina.

Dagskrá vorfundar 2019

Skráning fer fram hér  og stendur til og með 23. apríl.