Náttúruminjasafnið hefur gengið til liðs við nýjan samstarfsaðila á sviði náttúrusögu og gert samkomulag við Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og rithöfund um stuðning safnsins við rannsókn Viðars á náttúruskyni og náttúruskilningi 17.aldar manna. Vinnuheiti verkefnisins er Að kunna jörð og berg að opna og aftur að lykja. Jón Guðmundsson lærði og náttúrur náttúrunnar á 17. öld.

27v_28r_JS 401 XI a-e 4to

Úr handriti Jóns lærða Guðmundssonar Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur (27v_28r_JS 401 XI a-e 4to.). Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Viðar Hreinsson

Stefnt er að ritun 400–500 blaðsíðna bókar og verður hún fræðilega traust, nýstárleg og við hæfi almennings, eins og fyrri verk Viðars eru til vitnis um. Í bókinni birtist náttúruskyn 17. aldar í gegnum hugarheim hins sjálfmenntaða fræðimanns, skálds og málara Jóns Guðmundssonar lærða (1574–1658) en hann skrifaði fyrstu lýsingu á náttúru Íslands sem til er á íslensku. Ævi Jóns myndar söguþráð en grunntónn verksins verður samband hans og samtíðar við náttúruna í víðu hugmyndafræði-legu samhengi.

Viðar hefur unnið að verkinu frá árinu 2011 en stefnt er að útgáfu haustið 2016. Ráðgert er að þýða verkið á Norðurlandamálin og þýsku á næstu árum.

Mikill fengur er að þessu samstarfi fyrir Náttúruminjasafnið. Eitt og annað hefur verið ritað um náttúrusögu frá árdögum náttúrufræðinnar á Íslandi en hér að líkindum í fyrsta skipti tekist á við efnið með skipulegum hætti þar sem náttúrusýn landsmanna fyrr á öldum er rannsökuð á heildstæðan hátt og í víðu samhengi með samanburði milli landa.

Í verkefninu er víða leitað fanga, í fjölbreyttum verkum Jóns og ótal samtímaheimildum, innlendum og erlendum. Könnuð verða gögn í handrita- og skjalasöfnum annarra Norðurlanda, þ. á m. í Danmörku þar sem Jón lærði hitti prófessor Ole Worm (1588–1654) við Hafnarháskóla. Ole Worm var einn mikilvirkasti fræðimaður Evrópu á 17. öld á sviði læknis-, fjöl- og náttúrufræða, auk þess sem hann rannsakaði rúnir og önnur forn fræði. Ole var ástríðufullur safnari og sankaði að sér býsnin öll af alls kyns munum – listmunum frumbyggja, steingervingum, uppstoppuðum dýrum og ýmsu öðru. Hann kom sér upp stóru safni, Musei Wormiani Historia, eins konar undra- eða náttúrufurðusafni (e. cabinet of curiosities). Safn Ole Worm er jafnan talið fyrsta eiginlega safn Danmerkur í skilningi safnfræða. Hugmynd Ole með náttúrufurðusafninu var m.a. að það skyldi nýtast til kennslu og upplýsingar ekkert síður en til að svala sjónrænum kenndum, sem er mjög í anda nútíma safnfræða.

Musei_Wormiani_Historia

Úr safni Ole Worm, Musei Wormiani Historia.

Helstu styrktaraðilar verkefnsins til þessa eru Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups, Launasjóður fræðiritahöfunda, Hagþenkir, Rannsóknasjóður Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar og Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna. Framlag Náttúruminjasafns Íslands til verksins felst í vinnu-aðstöðu í Loftskeytastöðinni og annarri liðveislu sem snýr að fjármögnun við ritun og útgáfu bókarinnar.

Kafli úr riti Jóns lærða Guðmundssonar Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur:

„Í vorum gömlu Íslands landnámsbókum skrifast margt um aðskiljanlegar náttúrur landsins, einnin um þá heiðnu vísu formenn, sem hingað komu frá Hálogalands, Finnmerkur og Gandvíkur endimörkum, þann tíð sem Ísland var í byggingu og nokkrir komu síðar. Þar í bland voru nokkrir sem lært höfðu Dofra konstir (sá búið hafði í Dofrafjöllum í Noregi). Þeir kunnu jörð og berg að opna og aftur að lykja, þar úr og inn að ganga, so sem að voru þeir Bárður í Jökli, Hámundur í Hámundarhelli, Bergþór í Bláfelli, Ármann í Ármannsfelli, og Skeggávaldi sem fann Áradali, og gjörðist guð yfir, því so biður þar fólkið: Skeggávaldi skygg þú yfir land þitt, so ekki verði Áradalir fundnir. Slíkir gamlir formenn útvöldu sér í soddan leynifylgsnum, hellum eður fellum að búa, so þeir væri helldur frí fyrir öllu ráni, öfund og ásóknum landsins innbyggjara, því annars hefðu þeir ekki kunnað frið að hafa með sína náttúrusteina, nægt silfurs og annars málms í jörðu vitandi, með þeim góðu áfengu vínberjum og ölkeldum, sem bernskir menn hafa fundið bæði að fornu og nýju, og ei verður með sönnu neitað.“

JS_401_XI_4to,_0032r_-_64

Úr handriti Jóns lærða Guðmundssonar Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur (JS_401_XI_4to,_0032r_-_64). Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Ítarlega lýsingu á verkefni Viðars Hreinssonar má finna hér Verkefnislýsing maí 2015