Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag, 16. september, tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt.

Hér má sjá hryggjarliði dýranna í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur í Kaupamannahöfn. Ljósm.: HJM

Fátt hefur mótað íslenska þjóð og menningu í jafn miklum mæli og náttúran. Lífsviðurværi þjóðarinnar er að verulegu leyti undir ríkulegum gjöfum náttúrunnar komið. Fáar þjóðir reiða sig í sama mæli á beina nýtingu auðæfa náttúrunnar – einkum veiðar á villtum fiskistofnum, virkjun vatnsafls og jarðvarma, sauðfjárbeit á afréttum og náttúrutengda ferðaþjónustu. Skynsamleg nýting  náttúruauðlinda hlýtur að grundvallast á langtímasýn, þekkingu og skilningi á náttúrunni, ella er hætt við að illa fari. Menntun og fræðsla eru hér lykilatriði og einn þátturinn snýr að náttúrusögu landsins.

Í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur (Zoologisk Museum) í Kaupmannahöfn leynast tvær beinagrindur íslandssléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddir voru við Ísland 1891 og 1904. Íslandssléttbakurinn var algengur í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður en vegna veiða gekk hratt á stofninn og strax á 18. öld var tegundin orðin fágæt. Íslandssléttbakarnir tveir í Kaupmannahöfn eru líklega meðal síðustu dýra af þessari tegund sem voru veidd. Þrátt fyrir friðun tegundarinnar um og upp úr 1930 eru sléttbakar í útrýmingarhættu í dag og telur stofninn aðeins um 500 dýr hið mesta. Þeir hafast ekki lengur við hér við land en eitt og eitt dýr flækist hingað örsjaldan, líklega frá austurströnd Ameríku þar sem þeir eru flestir. Framtíðarhorfur sléttbakanna eru því miður fremur dökkar, aðallega vegna affalla í kjölfar ásiglinga, ánetjunar og breytinga í sjávarlífríkinu vegna hlýnunar.

Danskir samstarfsmenn Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér rifbein hvalsins. Ljósm.: HJM

Íslandssléttbakarnir í Kaupmannahöfn eru mikið fágæti. Afar fá söfn eiga heil eintök af beinagrind tegundarinnar og hér á landi er ekki til neitt eintak. Það er miður því íslandssléttbakar eru sannarlega hluti af íslenskum náttúru- og menningararfi. Íslandssléttbakar, sem um tíma gegndu fræðiheitinu Balaena islandica, höfðust við hér við land og voru veiddir einkum af Böskum framan af öldum og síðar Norðmönnum. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) var einna fyrstur manna í Evrópu til að gera náttúru sléttbakanna skil í máli og myndum og nýlegar rannsóknir á fornleifum benda til að sléttbakar hafi verið veiddir og unnir í meira mæli við Ísland en áður hefur verið talið.

Mikill akkur væri í því að fá hingað heim aðra beinagrind íslandssléttbaksins sem hvílt hefur í kjallarageymslu í Kaupmannahöfn í rúm 100 ár. Náttúruminjasafn Íslands hefur bent á að tilkall Íslendinga til þessara merku náttúruminja er sterkt. Langtímalán á gripnum og varðveisla hans á Íslandi gegnir margvíslegum tilgangi, vísindalegum, kennslufræðilegum og menningarsögulegum. Nútímatækni býður auðveldlega upp á að varðveita gripinn og vernda hann samtímis því að hafa hann til sýnis og aðgengilegan fyrir almenning. Kjöraðstæður eru fyrir hendi til þessa verkefnis hér á landi. Beinin heim!

 

Hilmar J. Malmquist

Höfundur er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands