Fyrir skömmu kom út fræðigrein um kransþörunga á Íslandi í tímaritinu Nordic journal of botany. Greinin heitir New finds of charophytes in Iceland with an update on the distribution of the charophyte flora og má nálgast hér. Greint er frá fundi fjögurra nýrra tegunda kransþörunga á Íslandi, auk þess sem birt eru útbreiðslukort fyrir þær átta tegundir kransþörunga sem nú finnast hérlendis.

Kransþörungar (Charophyceae) eru í hópi grænþörunga (Chlorophyta) og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stærstir allra þörunga í ferskvatni og geta sumar tegundir orðið allt að metri að lengd. Kransþörungar draga nafn sitt af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stöngli. Þeir eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður á botninum.

Kransþörungurinn tjarnanál (Nitella opaca) myndar iðulega þykkt teppi langra þörungaþráða á botni stöðuvatna. Myndin er tekin í Stíflisdalsvatni í Kjós, sjá má langnykru (Potamogeton praelongus) í bakgrunni. Mynd: Erlendur Bogason, 2018.

Nýju tegundirnar fjórar fundust í viðamikilli rannsókn á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu, sem jafnframt var fyrsta skipulega rannsóknin af því tagi hér á landi. Rannsóknin var liður í lýsingu og kortlagningu vistgerða landsins á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, en veg og vanda af sýnatöku og úrvinnslu hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs. Gróður var kannaður á árunum 2012–2013 í 72 stöðuvötnum og 16 straumvötnum víðs vegar á landinu.

Kransþörungar hafa fundist á 126 stöðum á Íslandi (Þóra Hrafnsdóttir o.fl. 2019).

Höfundar greinarinnar eru Þóra Hrafnsdóttir og Hilmar J. Malmquist hjá Náttúruminjasafni Íslands, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs, Eva G. Þorvaldsdóttir grasafræðingur og Anders Langangen sem er einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í kransþörungum.

Myndskeiðið hér að neðan er tekið í Stíflisdalsvatni í Kjós og sýnir breiður af kransþörungnum tjarnanál. Myndataka og köfun: Erlendur Bogason, 2018.