Kjói (Stercorarius parasiticus)

Ljós (skjóttur kjói) í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Kjóinn er af kjóaætt og af ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, máfar, þernur, svartfuglar og fleiri fuglar. Þrír nánir ættingjar hans halda sig hér, skúmur (Catharacta skua) er varpfugl, fjallkjói (Stercorarius longicaudus) er umferðarfugl og sjaldgæfur varpfugl og ískjói (Stercorarius pomarinus) er umferðarfugl eða fargestur.

Útlit og atferli

Kjóinn er mun minni en skúmurinn. Langar oddhvassar miðfjaðrir sem skaga 5−10 cm aftur úr stélinu eru einkennandi. Tvö litarafbrigði eru af kjóa, dökkt og ljóst, en ýmis millistig eru þekkt. Dökkur kjói er að mestu móbrúnn, með svartleita kollhettu, vængi og stél. Ystu handflugfjaðrir eru með hvítum stöfum sem mynda hvítar skellur utarlega á væng og eru meira áberandi á undirvæng. Ljós eða skjóttur kjói er ljós á vöngum, hnakka, bringu og kviði, dökk kollhetta áberandi, oft með dökku bringubelti. Vængir og stél eru eins og á dökkum fugli. Dökkir kjóar eru algengari, en ljósir kjóar hlutfallslega algengari norðanlands en sunnan. Ungfuglar eru mismunandi, venjulega brúnflikróttir, með stuttar miðfjaðrir stéls. Goggur er svartur, ljósari við rót og fætur svartir, augun dökk.

Dökkur og ljós kjói í Friðlandinu í Flóa.

Dökkur kjói á flugi yfir Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ljós (skjóttur) kjói. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ljós og dökkur kjói á tjörn í Öræfum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Dökkur kjói í dæmigerðu búsvæði á Brunasandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kjóinn gefur frá sér vælandi nefhljóð sem minnir á ritu. Vængir hans eru langir og hann er rennilegur og flugfimur fugl. Hann ver hreiður sitt og unga af mikilli ákefð.

Lífshættir

Kjóinn eltir uppi aðra fugla, einkum kríu, ritu, lunda og fýl, þreytir þá og neyðir til að sleppa eða æla æti sínu, sem oft er sandsíli og loðna. Er hann þá snöggur að grípa fenginn á lofti.  Lifir einnig á skordýrum, fuglsungum og eggjum.

Hann verpur í margs konar kjörlendi frá fjöru til fjalls, mýrum, móum, hálendisvinjum og jafnvel jökulskerjum. Getur myndað dreifðar byggðir á söndum og aurum jökuláa. Hreiðrið er lítilfjörleg dæld í mosa eða annan gróður. Eggin eru tvö, álegutíminn er um fjórar vikur og unginn verður fleygur á mánuði.

Kjóahreiður í mosaþembu á Brunasandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur kjóaungi í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kjói reynir að stela æti frá kríu yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kjóinn og spóinn

Fjandvinirnir kjói og spói eru hvergi algengari en á grónum söndum með lágum gróðri og mosaþembum, með rekju inná milli, eins og víða er á t.d. Suðurlandi. Þeir eiga í stöðugum erjum á varpstöðvunum. Kjóinn er þekktur eggjaræningi og spóinn ver sitt, en kjóinn á líka til að ráðast á spóann. Einhvern hag hljóta báðir að hafa af því að búa í þessu nábýli.

Spói ræðst á kjóa á Brunasandi.

Fjallkjói

Þessi náfrændi kjóans hefur verið að þreifa fyrir sér með landnám á undanförnum árum. Fjallkjói er árviss fargestur hér á leið til og frá varpstöðvum á norrænum slóðum, á freðmýrabeltinu kringum Norðurskautið og vetrarstöðvum í sunnanverðu Atlantshafi. Næst okkur verpa fjallkjóar á Grænlandi og upp til fjalla í Skandinavíu og lifa aðallega á læmingjum. Fjallkjóar hafa orpið á Norðurlandi frá 2003, þó rökstuddur grunur sé um varp talsvert fyrr. Fjallkjói líkist ljósum kjóa (dökka litarafbrigðið er fátítt), en er minni og nettari, með afar langar miðfjaðrir í stéli. Ískjói er aftur á móti stærri og þreknari en kjói, með langar, undnar stélfjaðrir, ljósa litarabrigðið er mun algengari en það dökka.

Fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Ískjói á flugi við Hafnarberg hjá Þorlákshöfn.

Útbreiðsla og stofnstærð

Kjói finnst um land allt upp í 700 m hæð yfir sjó. Hann er farfugl sem eyðir vetrinum á Suður-Atlantshafi, sunnan miðbaugs. Varpheimkynni hans eru allt umhverfis norðurheimskautið og við Norður-Atlantshaf suður til Skotlands. Íslenski varpstofninn er talinn vera um 11.000 varppör.

Þjóðtrú og sagnir

Kjóinn var talinn spáfugl, þegar hann vældi mikið, boðaði það votviðri og var hann þá kallaður vætukjói. Þungaðar konur áttu ekki að leggja sér egg hans til munns sagði Jón lærði Guðmundsson. Ennfremur átti kjóinn að vera hálfbróðir kríunnar.

Kveðskapur

Ingimar og Emilía,
ekki munu þau héðan flýja
þau eru eins og kjói og kría;
kann ég þau ekki sundur stía.

Eftir Jóhannes úr Kötlum.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.