Lóuþræll (Calidris alpina)

Lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.  Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Þessu er þó öfugt farið hjá sundhönum (óðinshanar og þórshanar hér á landi). Sjáist hjón saman má oft aðgreina kynin.

Útlit og atferli

Lóuþrællinn er smávaxinn vaðfugl, einkennisfugl í mýrum og hálfdeigjum. Á sumrin er hann gulbrúnn og svartflikróttur að ofan en ljósari að neðan með stóran, svartan blett eða svuntu neðarlega á bringunni og aftur á kvið. Á flugi má sjá mjó hvít vængbelti. Gumpur er hvítur með dökkri rák í miðju og stél grátt, einnig með svartri miðrák. Á veturna missir hann svörtu svuntuna. Ungfugl er svuntulaus, með áberandi rákótta bringu. Goggurinn er fremur langur, svartleitur og örlítið niðursveigður. Fæturnir eru einnig svartir og augun dökk.

Lóuþræll í Friðlandinu í Flóa.

Syngjandi lóuþræll við Heiðarhöfn á Langanesi.

Lóuþræll sýnir vald sitt í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrællinn flýgur hratt. Í hópum á flugi bregður til skiptis fyrir ljósum kviðnum og brúnu bakinu. Hann stendur fremur hokinn. Er félagslyndur utan varpstöðva. Sést oft í fylgd með lóum á vorin og dregur af því nafn sitt, ásamt því að bera svipaðan fjaðurham og lóan. Þaðan fær hann nafn sitt. Hann gefur frá sér langdregið vell á varpstöðvum og stutt og hvellt, bírrandi nefhljóð.

Lífshættir

Lóuþrællinn er dýraæta, tekur skordýr, m.a. mýrlirfur, smá skeldýr, snigla og burstaorma. Leitar ætis í hópum utan varpstöðva, oftast í fjörum.

Verpur í margs konar mýrlendi, forblautu jafnt sem hálfdeigu, en einnig í þurrara graslendi og móum og þéttasta varpið er talið vera á Suðurlandsundirlendinu. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu, venjulega vel falið. Eggin eru fjögur, útungun tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á öðrum þremur. Utan varptíma er hann oft í stórum hópum á leirum og söndum með öðrum vaðfuglum, en sést einnig í votlendi inn til landsins.

FlóaLóuþrælshreiður í Friðlandinu í Flóa.

Lítið er lunga í lóuþrælsunga … Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóuþræll með unga barmar sér og reynir að afvegaleiða ljósmyndarann. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Lóuþræll er farfugl. Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru aðallega í Vestur-Afríku, en hluti þeirra dvelur á vestanverðum Pýreneaskaga á veturna. Grænlenskir lóuþrælar fara hér um vor og haust, sumir þeirra eru ljósari en þeir íslensku. Örfáir fuglar sjást stundum í fjörum á Suðvesturlandi á veturna. Lóuþræll verpur allt í kringum Norður-Íshafið og suður til Englands og Póllands.

Ungur lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrælar í vetrarbúningi á Eyrarbakka.

Hópur af lóuþrælum í Andakíl.Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú, sagnir og kvæði

Lítið er um lóuþrælinn í þjóðtrúnni, það helsta tengist sambandi hans við lóuna, eins og nafnið bendir til. Hann á meðal annars að aðstoða hana í makavali.

Kveðskapur

Nafnlaus vísa

Gamli vinur, Gísli sæll,
gott er frá að heyra,
í lofti kvakar lóuþræll
ljúft við kalið eyra.

Eftir Högna Egilsson.

Lóuljóð

Við kveðum um lóunnar ljóðin
en látum þær syngja óðinn
þó mishátt sé gengið og gróðinn
er gatan í sömu átt.
Kvöldhúmið stígur hljóðan dans
hörpuna blærinn slær
þær ferðast í líki freistarans
þó feti nær vaknar þú litli lóuþræll
og leitar í hverjum mó
en tilvera þín er tjörn í lágum skó
þær gefa þér allt sem þær eiga
oftast nær fleira en þær mega.
Já lóan er fim þessi fleyga
þó flugið sé stundum lágt.

Eftir Guðmund Árna Valgeirsson.

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug
með fegurstan sönginn og bestan.
Í Kinninni er farið að taka í taug
tittlingasöngur að vestan.

Eftir Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum.

Kristján frá Djúpalæl svararði:

Barst til okkar angurvæl austan úr ríki klaka.
Ofurlítinn lóuþræl langaði til að kvaka.

.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson.