Músarrindill (Troglodytes troglodytes)

Músarrindill syngur hástöfum í gróðurhúsi í útjaðri Reykjavíkur.

Músarrindill er af ættbálki spörfugla, langstærsta ættbálki fugla, en honum tilheyra um 60% af tæplega 10.000 fuglategundum jarðar. Hér á landi eru þó ekki nema 12-13 spörfuglategundir sem verpa að staðaldri af um 80 reglulegum varpfuglum. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Útlit og atferli

Músarrindill er einn af einkennisfuglum birkiskóganna. Hann er auðþekktur á smæð, hnöttóttu vaxtarlagi, uppsperrtu stéli og þróttmiklum söng sem heyrist allt árið. Hann er rauðbrúnn að ofan en mógrár að neðan með dökkar rákir á vængjum, síðum og undirgumpi og hvíta díla á aðfelldum væng. Hann hefur ljósa brúnarák. Goggur er brúnn, grannur og stuttur, fætur brúnbleikir, augu brún.

Músarrindill flýgur hratt og beint með höfuðið teygt fram og heyrist þytur þegar hann blakar vængjunum ótt og títt. Hann flýgur sjaldan og ekki langt í einu. Þegar hann situr, sveiflar hann uppsperrtu stélinu stöðugt til og frá. Hann er síkvikur en felugjarn og leitar sér ætis, mest skordýra, í þéttum gróðri og grónum urðum. Er venjulega einfari eða í litlum hópum.

Í söng endurtekur hann sífellt fáeina langa og háa tóna og endar í hvellu dillandi hljóði.

Lífshættir

Músarrindillinn lifir á skordýrum, mest bjöllum, lirfum, tvívængjum og fetum og köngulóm, sem hann tínir í lágu þykkni, undir runnum og kjarri, í skurðum og lækjum og á öðrum rökum, dimmum stöðum.  Á vetrum er hann oft í fjörum, þar sem þangflugur og marflær eru aðalfæðan.

Músarrindill verpur dreift í kjarrlendi, skóglendi, grónum hraunum og urðum á láglendi, jafnvel í manngerðum varpkössum í sumarbústaðalöndum. Hreiðrið er kúlulaga og karlfuglinn vefur það úr sinu og rofalýjum undir bökkum, í trjám eða hraunsprungum. Urptin er 6-8 egg og liggur kvenfuglinn á í 16 daga. Ungarnir eru 14-19 daga í hreiðrinu, áður en þeir verða fleygir. Verpur oft tvisvar á sumri. Karlfuglinn tekur ekki þátt í álegunni og getur því haft fleiri en einn kvenfugl í takinu í einu. Á veturna heldur músarrindill sig við opna læki, skurði og í fjörum og stundum í úti- eða gróðurhúsum. Dæmi eru um að fuglar hafi reynt varp um hávetur í upplýstum gróðurhúsum.

Músarrindill við hreiður á Hofi í Öræfum.

Músarrindill ber æti í unga í hreiðri í Grímsnesi.

Músarrindill syngur hástöfum á varpstað í Gunnólfsvík í Finnafirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Íslenski músarrindillinn er staðfugl. Hann er sérstök einlend undirtegund (Troglodytes troglodytes islandicus), stærri og dekkri en frændur hans í Evrópu. Fleiri íslenskar undirtegundir hafa verið skilgreindar, en sennilega kemst músarrindillinn næst því að verða fyrsta einlenda tegundin hér á landi. Varpheimkynni hans eru annars á breiðu belti á norðurhveli jarðar.

Þjóðtrú og sagnir

Músarrindillinn er mikill þjóðsagnafugl. Sagan um keppni fuglanna, hver gæti flogið hæst, hefur bæði verið heimfærð uppá glókoll og músarrindil. Þessi rúmlega 2000 ára gamla saga, um hver ætti að verða konungur fuglanna, snýst um það að sá átti að hreppa titilinn sem hæst gæti flogið. Örninn þótti líklegastur, en músarrindill faldi sig undir stélfjöðrum hans og þegar örninn var orðinn þreyttur og komst ekki hærra, þá skaust rindillinn uppfyrir örninn og gerði tilkall til titilsins. Fyrir þetta uppátæki fékk hann bágt fyrir og þurfti að fara leynt æ síðan.

Músarrindillinn er með stutta og breiða vængi, eins og þessi í Nesjum, A-Skaftafellssýslu.

Í hreiðri músarindils ku vera galdrasteinn í ýmsum litum. Beri menn hann á sér verða þeir ósýnilegir. Taki maður hjarta úr músarrindli, þurrkar það og bindur í klæði og ber í hendi sér, má vita hugsanir annarra. Þvoi maður sér úr volgu blóði músarrindils batnar nætursjónin til muna. Þegar músabróðir kemur til bæja og smýgur inn í hús, veit það á harðviðri.

Vegna laumulegs háttalags og tregðu til að fljúga hefur músarrindillinn verið talinn skyldur músum og fékk af því nafnið músabróðir. Líkt og mýs þá áttu músarrindlar að vera sólgnir í hangikjöt og óðu jafnvel reyk í skorsteinum til að komast í girnileg sauðalæri. Með krossmarki á skorsteinum mátti þó stöðva þá, enda töldu sumir hann óheillafugl.

Músarrindillinn skipaði lengi þann sess, að vera minnsti fugl landsins. Nú hefur glókollurinn velt honum úr sessi, hann er meira en helmingi minni en músarrindill, 6 g á móti 15 g.

Músarrindill í birkiskógi á Þingvöllum að haustlagi.

Kveðskapur

Músarrindill
Þegar aðrir fara og flýja,

finna veröld bjarta og hlýja,
kyrr í sínum heimahögum
harður músarrindill býr.
Hann er öllum öðrum smærri,
eltir þó ei hina stærri,
Undan myrkri og ísalögum
aldrei hann úr dalnum flýr.

Hinir fara og heiminn kanna,
hylla dýrðir stórveldanna,
fyrir páfa og soldán syngja
sólarljóð frá heimskautsbaug,
öðlast frægð af flugi og ljóðum,
frama sig með heldri þjóðum,
lifa vel og efla og yngja
anda sinn í tímans laug.

Víst er gott þar syðra að sitja,
sönglist háa kórar flytja,
þar má njóta náms hjá snjöllum
næturgölum suðurheims.
Is og fannir þar ei þreyta,
þar er sífelld hitaveita.
Ljóma þar i litum öllum
leikhústjöld hins viða geims.

Rindill situr heima hægur,
hirðir ekki að verða frægur.
Hræðum þeim, sem eflir eru,
yrkir hann sin kotungsljóð.
Sé þar litla list að heyra,
láta þau samt vel i eyra.
Ríkust er í raun og veru
röddin hans á bernskuslóð.

Aðrir bera fötin fegri,
frakkastélin merkilegri.
Hann er gráum kufli klæddur,
kvartar ekki um rýran skammt.
Þótt við hret og hörku byggi,
hann er alla stund sá tryggi.
Illa búinn, illa fæddur
unir hann i dalnum samt.

Suður flugu sumargestir,
svo sem lóur, erlur, þrestir.
Þeirra vegna að vetrarlagi
væri byggðin auð og tóm.
Músarrindill ver og varðar
vonir sinnar fósturjarðar,
leggur yfir lund og bæi
lífstrú sína og gleðihljóm.

Eftir Guðmund Inga Kristjánsson (1907-2002).

Músarrindill á fjörusteinum á Akranesi.

Músarrindill
Þú ert engum öðrum háður,
oft og lengi varstu smáður,
samt er enginn eins og þú.
Hríðarbyl og harðan vetur
hefur enginn staðist betur.
Undir steini áttu bú.

Litli fugl með stutta stélið,
stóðstu af þér vetrarélið
inn til dala, út við sjó.
Flúðir aldrei Íslands strendur
út á grænni vonarlendur,
andans kraftur aldrei dó.

Enda veiztu innst í hjarta,
aftur sérðu daga bjarta
skrýða grundir grænum lit.
Vorsins hlýju vindar kalla,
vekja músarrindla alla,
þeirra bíður starf og strit.

Sumir hljótt í holu smjúga,
hátt um loftin aðrir fljúga
enda meira á þeim ber.
Marglitar á mörgum fjaðrir,
mórauðir á litinn aðrir
og heldur lægra hreykja sér.

Mega flestir þrautir þola,
þýðir ekki neitt að vola,
aftur vorar, vinurinn.
Vorrar þjóðar vonarkyndill
vertu – litli músarrindill,
frjálsi, kviki fuglinn minn.

Eftir Guðbjart Össurarson (1954).

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.