Steindepill16vSPÖR

Þá ertu hérna
eyðimarkafari.
Þér ber ég kveðju.

En vel er mér ljóst
að aldrei
þarfnast þú okkar
sem eigum þó allt
undir farnaði þínum og gleði.

Þér ber ég kveðju . .
hún er frá kvöldroðastúlku.

Steindepill, steindepill
á þessari stundu
þolir bringa mín engan söng
nema þinn.

Stefán Hörður Grímsson

Steindepill19at

Útlit og atferli

Steindepillinn (Oenanthe oenanthe) er litli frændi þrastanna. Þessi kviki spörfugl, sem er algengur í grýttu og lítt grónu landi, er ívið stærri og þreknari en þúfutittlingur. Karlfugl í sumarbúningi er blágrár á kolli, afturhálsi og baki, vængir svartir. Svört gríma er um augu og brúnarák hvít. Hann er ljósbrúnn á framhálsi, gulari á bringu og kviði. Síðsumars fer hann að líkast kvenfugli æ meir. Kvenfugl er dauflitari en karlfugl, mógrá á baki og að mestu án litamynsturs á höfði. Ungfugl og kvenfugl að vetri eru ljósari að ofan. Steindepill er ávallt með einkennandi stélmynstur, gumpur og stél eru hvít en svartur stélsendi og stutt, svört stélrák mynda öfugt „T“ aftast á stélinu. Goggurinn er grannur og svartur, fætur svartir, augu dökkbrún.

Steindepill25a

Steindepillinn er kvikur og eirðarlaus, flýgur lágt og tyllir sér oft með rykkjum og hneigingum og sveiflar vængjum og stéli. Er venjulega einfari eða í smáum hópum.

Lífshættir

Steindepill hleypur og skoppar eftir skordýrum og áttfætlum í opnu landi, stekkur jafnframt eftir flugum.  Á fartíma taka þeir þangflugur og fleira í fjörum, sækja eitthvað í ber og fræ.

Steindepill verpur í grýttu landi, urðum, hlöðnum veggjum, mólendi, hraunum o.þ.h., mest á láglendi. Hreiðrið er ofin karfa, staðsett í holu eða sprungu milli steina. Verpur stundum tvisvar á sumri. Utan varptíma er hann gjarnan í fjörum, ræktuðu landi og mýrum. Hann er mest áberandi síðsumars, eftir varptímann. Þá geta ungir steindeplar sést á ólíklegum stöðum, eins og húsagörðum og svalahandriðum.

Steindepill 14

Heimkynni og far

Steindepillinn er útbreiddur varpfugl á norðurhveli jarðar, sérstaklega í Evrópu og Asíu, en einnig í Alaska, NA-verðu Kanada og Grænlandi. Steindeplar sem verpa á Grænlandi koma hér við vor og haust. Íslenskir steindeplar hafa vetursetu í V-Afríku, sunnan Sahara. Engir merktir fuglar hafa þó endurheimst þar, svo við vitum ekki nákvæmlega hvar vetrarstöðvarnar eru. Það er talið víst, að steindepill sé sá íslenski spörfugl, sem ásamt maríuerlu flýgur fugla lengst í farflugi.

Steindepill24a

Þjóðtrú og sagnir

Steindepils er að nokkru getið í íslenskri þjóðtrú. Hann gat valdið júgurmeini í ám og kúm, ef þær stigu á hreiður hans. Jafnframt áttu fingur barna að stirðna eða kreppast, ef þau snertu hreiður hans. Þetta er reyndar hæpið, því hann velur hreiðrinu oftast stað á óaðgengilegum stöðum. Skýringin á farflugi steindepils var sú, að hann lægi í dvala frá krossmessu á hausti (14. september) til krossmessu á vori (3. maí). Steinklappa er heiti sem er tilvísun í hljóð fuglsins.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.