by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 18.05.2016 | Fréttir

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí að frumkvæði Alþjóðaráðs safna (International Council of Museums, ICOM). Þemað í ár er „Söfn og menningarlandslag“ („Museums and Cultural Landscapes“) og eru söfn um víða veröld hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga menningarlegu, sögulegu og náttúrulegu landslagi utan þeirra.
Í tilefni dagsins stendur Íslandsdeild ICOM fyrir hádegisviðburði í fyrirlestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu. Formaður Íslandsdeildar ICOM, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir flytur ávarp, listgreinakennararinir Ásdís Spanó og Hugrún Þorsteinsdóttir fjalla um fræðsluefni um útilistaverk í Reykjavík og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir kynnir tilnefningar til Íslensku Safnaverðlaunanna 2016. Dagskrána má kynna sér hér.
Náttúruminjasafnið í Safnahúsi

Geirfuglinn verður þungamiðja á nýrri sérsýningu í Safnahúsinu í samvinnu Náttúruminjasafnsins og Ólafar Nordal, myndlistarmanns.
Náttúruminjasafn Íslands fagnar alþjóðlega safnadeginum og vill rifja upp það sem hæst bar á vegum safnsins á liðnu ári. Þar ber fyrst að nefna þátttöku safnsins í sýningunni „Sjónarhorn“ í Safnahúsinu við Hverfisgötu, sem er fyrsta sýningin sem safnið tekur þátt í frá stofnun 2007. Sýningin á geirfuglinum sem fyrsta „kjörgrip“ sýningarinnar stóð í eitt ár og vakti mikla athygli. Í ljósi þess hefur nú verið ákveðið að Náttúruminjasafnið standi fyrir nýrri sérsýningu á geirfuglinum í Safnahúsinu. Þar verður hann settur á stall sem sá ómetanlegi gripur sem hann er, fjallað verður um fækkun tegunda af manna völdum og mun Ólöf Nordal myndlistarmaður vinna og sýna ný verk tengd útrýmingu geirfuglsins. Sýningin verður opnuð 16. júní n.k. á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags.
Skrifstofur safnsins festar í sessi
Á árinu hefur aðstaða safnsins í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu, Brynjólfsgötu 5, verið fest í sessi. Þar eru skrifstofur safnsins og ritstjóri Náttúrufræðingsins auk ágætrar fundaraðstöðu. Í Loftskeytastöðinni starfa nú ýmsir sérfræðingar á eigin vegum og í samvinnu við Náttúrminjasafnið og má þar nefna Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og rithöfund, Sigrúnu Helgadóttur, líffræðing og rithöfund, Skúla Skúlason, prófessor, Stefán Óla Steingrímsson líffræðing og starfsmenn Rorum ehf., Þorleif Eiríksson og Sigmund Einarsson.
Samvinna um væntanlegt sýningarhald í Perlunni
Loks er þess að geta að á árinu gerði Náttúruminjasafnið samning við Perluvini ehf. um samvinnu um væntanlegt sýningarhald Perlu norðursins í Perlunni. Reykjavíkurborg hefur samið við Perlu norðursins um uppsetningu náttúrusýningar þar og er frekari aðkoma og stuðningur Náttúruminjasafnsins við sýninguna í undirbúningi.
Sömu fjárveitingar og 2007
Þrátt fyrir allt sem að framan er talið verður að viðurkennast að staða höfuðsafnsins hefi ekki verið jafn bág í hartnær tíu ára sögu safnsins hvað varðar fjárheimildir og annan stuðning frá ríkisvaldinu. Árlegt rekstrarfé frá upphafi starfseminnar árið 2007 hefur að jafnaði numið um 25 m.kr. – á verðlagi hvers árs, en á sama tíma hafa vísitölur hækkað um 45–52%! Aukið rekstrarfé hefur ekki fengist.
Steypireyðurin
Takmarkaðar fjárheimildir Náttúruminjasafnsins hafa m.a. í för með sér að safnið getur ekki sinnt lögboðnum og umsömdum verkefnum. Eitt skýrasta og alvarlegasta dæmið um þetta varðar steypireyðina sem rak á land við Ásbúðir á Skaga í ágúst 2010 og flutt var síðastliðið haust norður í Hvalasafnið á Húsavík en hefði átt að verða þungamiðja í fyrirhugaðri sýningu Náttúruminjasafnsins í Perlunni í Öskjuhlíð.
Náttúruminjasafnið var sniðgengið þegar kom að uppsetningu beinagrindarinnar og umsjón með gerð varðveislusamnings um gripinn. Var það þvert á yfirlýsingar mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 3. nóvember 2014. Forstöðumaður Náttúruminjasafnsins hefur því séð sig knúinn til að drepa niður penna og fjalla sérstaklega um það mál, m.a. í ljósi umfjöllunar í ársriti Náttúrufræðistofnunar fyrir árið 2015 en Náttúruminjasafn Íslands hefur frá upphafi haft beina aðkomu að málefninu, jafnt faglega sem fjárhagslega.
Pistill forstöðumanns 18. maí 2016.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 7.04.2016 | Fréttir

Geirfuglinn – eign íslensku þjóðarinnar – verður kjörgripur sýningarinnar Sjónarhorns í Safnahúsinu til 17. apríl n.k.

Geirfugl á gömlu póstkorti. Talið er að síðustu geirfuglarnir hafi verið drepnir á Íslandi 1844.
Sunnudaginn 10. apríl klukkan 14 mun Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Í leiðsögninni verður áhersla lögð á hinn sjónræna þátt náttúru í menningu landsins og hugmyndir að baki sýningargerðinni ræddar. Þá verður staldrað við og geirfuglinn skoðaður en 17. apríl er síðasti sýningardagur fuglsins í Safnahúsinu en hann er fyrsti kjörgripur sýningarinnar.
Sýningin sem nefnist Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim – er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir!
Hér má sjá efni um sýninguna í Safnahúsinu á vef Náttúruminjasafnsins.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 2.04.2016 | Fréttir

Lóan er komin að kveða burt snjóinn …
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Apríl er mánuður vorboðanna, farfuglanna, sem koma langan veg til að sinna kalli náttúrunnar í hinu bjarta, norræna sumri, sumir halda meira að segja áfram enn lengra með stuttri viðkomu hér á landi.
Lóan á sérstakan sess í hugum þjóðarinnar sem vorboði og hinn angurværi söngur hennar er ett af einkennishljóðum íslenska sumarins.
Lóan er fugl mánaðarins að þessu sinni.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 1.04.2016 | Fréttir
Hinn 1. apríl 2016 birtist eftirfarandi ekkifrétt á vef Náttúruminjasafnsins:
Í dag kl. 15 koma fulltrúar Þingvallaþjóðgarðs færandi hendi til Náttúruminjasafnsins. Þeir munu þá afhenda safninu brot úr norðurljósum sem féllu til jarðar í þjóðgarðinum. Brotið er það eina sem vitað er um á landinu og ljóst að hér er stórmerkilegur fundur á ferð, náttúrugripur sem kallar á að strax verði reist nýtt hús yfir Náttúruminjasafnið enda munu ferðamenn og landsmenn sjálfir væntanlega flykkjast til að skoða gripinn.

Landverðir fanga brotið úr norðurljósunum á Hakinu á Þingvöllum.
Áhugasamir eru velkomnir að vera viðstaddir afhendinguna kl. 15 í dag á bílastæðinu aftan við skrifstofur safnsins að Brynjólfsgötu 5. Athugið að Suðurgatan er lokuð fyrir umferð við Brynjólfsgötu og gott að aka aftan við Háskólabíó.
Meira um fundinn: Heimasíða Þjóðgarðsins á Þingvöllum.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 14.03.2016 | Fréttir
Fjallað er um Náttúruminjasafn Íslands í leiðara Fréttablaðsins í dag undir fyrirsögninni: Geirfuglasafn. Þar segir m.a. að staða safnsins hafi árum saman verið „óásættanlega með öllu og í raun okkur öllum sem þjóð til háborinnar skammar. Náttúruminjasafn gæti í reynd verið okkur ómetanlegt við menntun og fræðslu um náttúruna sem er okkur svo mikilvæg og svo kær á tyllidögum…“ Í leiðaranum er m.a. vísað til viðtals sem Fréttablaðið birti 11. mars s.l. við Hilmar J. Malmquist, forstöðumann safnsins.
Tilefni þessarar umfjöllunar Fréttablaðsins er m.a. fyrirhuguð náttúrusýning í Perlunni, en Hilmar segir að safnið sé í stórundarlegri stöðu nú þegar náttúrusýning einkaaðila í Perlunni er fyrirséð. Eins og frá stofnun þess sé safnið án eigin húsnæðis til sýningarhalds, og nú séu einkaaðilar að fara að rækja lögbundnar skyldur höfuðsafns þjóðarinnar. “Náttúruminjasafnið kemur vissulega óbeint að þessari vinnu með faglegri ráðgjöf, en samningur liggur fyrir um slíkt við Perluvini.” Hvað það þýðir í framhaldinu, telur Hilmar ekki ljóst.

“Það eru gríðarleg vonbrigði að ríkisvaldið skuli ekki styðja einhverja aðkomu safnsins að þessu verkefni á þessum tímapunkti”, segir Hilmar enn fremur, en það sé svo sem í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu samfélagslegrar þjónustu. „Alla vega hefur ráðherra hafnað þeirri leið að ríkið annist þetta, en líka að safnið komi að verkefninu með öðrum. Ráðherra verður að gefa upp hvert hann er að stefna með þetta safn. Ég hef óskað eftir fundum með honum um málefnið en hefur lítið orðið ágengt,“ segir Hilmar.