by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 14.03.2016 | Fréttir
Fjallað er um Náttúruminjasafn Íslands í leiðara Fréttablaðsins í dag undir fyrirsögninni: Geirfuglasafn. Þar segir m.a. að staða safnsins hafi árum saman verið „óásættanlega með öllu og í raun okkur öllum sem þjóð til háborinnar skammar. Náttúruminjasafn gæti í reynd verið okkur ómetanlegt við menntun og fræðslu um náttúruna sem er okkur svo mikilvæg og svo kær á tyllidögum…“ Í leiðaranum er m.a. vísað til viðtals sem Fréttablaðið birti 11. mars s.l. við Hilmar J. Malmquist, forstöðumann safnsins.
Tilefni þessarar umfjöllunar Fréttablaðsins er m.a. fyrirhuguð náttúrusýning í Perlunni, en Hilmar segir að safnið sé í stórundarlegri stöðu nú þegar náttúrusýning einkaaðila í Perlunni er fyrirséð. Eins og frá stofnun þess sé safnið án eigin húsnæðis til sýningarhalds, og nú séu einkaaðilar að fara að rækja lögbundnar skyldur höfuðsafns þjóðarinnar. “Náttúruminjasafnið kemur vissulega óbeint að þessari vinnu með faglegri ráðgjöf, en samningur liggur fyrir um slíkt við Perluvini.” Hvað það þýðir í framhaldinu, telur Hilmar ekki ljóst.

“Það eru gríðarleg vonbrigði að ríkisvaldið skuli ekki styðja einhverja aðkomu safnsins að þessu verkefni á þessum tímapunkti”, segir Hilmar enn fremur, en það sé svo sem í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu samfélagslegrar þjónustu. „Alla vega hefur ráðherra hafnað þeirri leið að ríkið annist þetta, en líka að safnið komi að verkefninu með öðrum. Ráðherra verður að gefa upp hvert hann er að stefna með þetta safn. Ég hef óskað eftir fundum með honum um málefnið en hefur lítið orðið ágengt,“ segir Hilmar.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 11.03.2016 | Fréttir

Rauðviðarhnyðjan er talin 8–10 milljón ára gömul.
Náttúruminjasafni Íslands hefur borist myndarleg gjöf – steingerður trjáhnullungur, um 200 kg þungur, 60 cm hár og nær tveir metrar að ummáli. Gefandinn er Bryndís Þorsteinsdóttir, öldungur á tíræðisaldri, búsett í Reykjavík. Steingervingurinn er með stærri steingerðum trjáleifum sem fundist hafa á Íslandi og bendir flest til að hann sé úr Loðmundarfirði eða Borgarfirði eystra. Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé 8–10 milljón ára gamall.

Hnullungurinn var um árabil stofustáss á heimili Bryndísar Þorsteinsdóttur og manns hennar Helga H. Árnasonar. Myndin er tekin rétt fyrir 1988 eða 1989.
Það voru börn Bryndísar, Guðrún Helgadóttir jarðfræðingur og Þorsteinn Helgason arkitekt, sem höfðu milligöngu um gjöfina. Steingervinginn eignuðust Bryndís og maður hennar heitinn, Helgi H. Árnason verkfræðingur, árið 1984, þegar systir Helga, Hólmfríður Árnadóttir tannsmiður, færði þeim hann að gjöf. Hólmfríður mun aftur hafa eignast steinninn úr hendi vinar sem talið er að hún hafi kynnst í strætó, leið nr. 5. Nafn vinarins og gefandans er ekki þekkt en sú saga fylgir að hnullungurinn hafi komið frá Austfjörðum, jafnvel að gefandinn hafi með einhverjum hætti tengst Náttúrugripasafninu á Neskaupsstað.
Þeir sem þekkja til uppruna steingervingsins eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Náttúruminjasafnið.

Leifur Á. Símonarson, steingervingafræðingur og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður NMSÍ skoða steininn góða.
Steingervingurinn er með þeim stærri af þessari gerð á Íslandi. Nokkuð víst er að um rótarhnyðju er að ræða. Ekki er vitað með vissu um fundarstað en að mati sérfróðra sem skoðað hafa steingervinginn, þeirra Leifs Á. Símonarsonar prófessors í steingervingafræðum og Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings, bendir flest til að hann sé frá svæðinu kringum Loðmundarfjörð/Borgarfjörð eystra, eins og fleiri steingervingar álíka að stærð, lit og annarri gerð.
Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé á bilinu 8–10 milljón ára gamall.

Rauðviðartré í Kaliforníu.
Mjög erfitt er að greina hið steingerða tré til tegundar, en sennilega er um að ræða tegund af ættkvísl rauðviðar (lat. Sequoia), stórvaxinna furutrjáa sem uxu hér á landi fyrir milljónum ára þegar loftslag var mun hlýrra.
Mikill fengur að þessari gjöf og er Bryndísi og aðstandendum hennar færðar bestu þakkir fyrir.
Steingervingurinn er varðveittur í skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafnsins, gömlu Loftskeytastöðinni á Brynjólfsgötu 5, en safnið og systurstofnunin, Náttúrufræðistofnun Íslands, hafa hvorki yfir að ráða sýningarrými né viðunandi geymslustað fyrir grip af þessu tagi.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 1.03.2016 | Fréttir

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Fugl mánaðarins er sílamáfur, Larus fuscus, en hann er venjulega fyrstur farfugla til landsins. Hann brást ekki þetta árið og var mættur suður í Helguvík 25. febrúar s.l. Á næstu vikum má búast við að hann fari að sækja í brauð á Tjörninni eins og hans er siður.
Sílamáfurinn fór að verpa á Íslandi uppúr 1920 og finnst nú um allt land. Honum fer fjölgandi og oft á kostnað svartbaks, Larus marinus.
Sílamáfurinn er alger farfugl og dvelur við strendur Pýreneaskaga og NV-Afríku á veturna. Stofnstærðin er talin 20-35 þúsund fuglar.
Sjá meira um þennan hrjúfa vorboða hér.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 23.02.2016 | Fréttir
Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags verður haldinn í Þjóðminjasafni Íslands n.k. laugardagi 27. febrúar 2016 kl. 14.00.

Ljósm. Jóhann Þórsson.
Fundurinn hefst á erindi Sveins Runólfssonar, landgræðslustjóra, sem nefnist:
Þjóðargjöfin 1974–1979 – Greiddum við skuld okkar við landið?
Að loknu erindi Sveins, um kl. 14:45, hefjast venjuleg aðalfundarstörf:
1. Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári
2. Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
3. Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga
4. Önnur mál.
Gert er ráð fyrir að fundi ljúki upp úr kl. 16.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 11.02.2016 | Fréttir

Hvannstóð á Reykjahlíðarheiði. Leirhnjúkur og Krafla í baksýn til vinstri. Svarta hraunið er frá Kröflueldum, gráa hraunið með mosa er frá Mývatnseldum. Ljósm. Kristján Jónasson.
Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands efna í samvinnu við Náttúruverndarsjóð Pálma Jónssonar til ráðstefnu í Hörpu 26.-27. febrúar næstkomandi. Efni ráðstefnunnar er miðhálendið og stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands. Þar munu innlendir og erlendir sérfræðingar, sem þekkja til náttúrufars og útivistar á hálendinu halda fyrirlestra, auk þess sem fjallað verður um reynsluna af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
Ráðstefnan hefst kl. 13:15 á föstudag og stendur til kl. 17:10 og á laugardag kl. 10:30-14:45. Frú Vigdís Finnbogadóttir setur ráðstefnuna. Ráðstefnustjóri er Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar fróða.
Meðal fyrirlesara á laugardagsmorgni (kl. 10:35) er Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og nefnist erindi hans Verndun náttúrugæða hálendisins: mikilvægi þekkingar og fræðslu.
Tveir erlendir fræðimenn flytja erindi: Dr. Christopher Hamilton er bandarískur eldfjallafræðingur og sérfróður um eldvirkni á reikistjörnum sólkerfisins. Margar hliðstæður eru á milli jarðfræði Íslands og Mars og hefur landið, og þá sérstaklega miðhálendið, verið vinsæll áfangastaður fyrir þá sem rannsaka rauðu reikistjörnuna. Dr. Hamilton mun segja ráðstefnugestum frá rannsóknum sínum.
Joel Erkkonen ráðgjafi hjá finnsku stofnuninni Parks & Wildlife Finland fjallar um efnahagslega og heilusfarslega ábata af þjóðgörðum í Finnlandi. Hann hefur rannsakað samfélagsleg og efnahagsleg áhrif þjóðgarða þar í landi. Þær rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á að fyrir hverja evru sem lögð er í rekstur þjóðgarða skila 10 evrur sér tilbaka til samfélagsins.
Ókeypis er á ráðstefnuna og hún opin öllum. Skráning fer fram í gegnum steinar@natturuvernd.is Stofnaður hefur verið viðburður á Facebook þar sem nálgast má frekari upplýsingar um ráðstefnuna en dagskrána má nálgast hér.