Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík
Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér hluta steinasafnsins í geymslu Náttúruminjasafnsins i gamla frystihúsinu.
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Breiðdalsvík laugardaginn 9. júlí s.l. og kynnti sér safnkost Náttúruminjasafns Íslands og fyrirætlanir safnsins um sýningahald í gamla frystihúsinu sem og aðkomu safnsins að sýningahaldi í Breiðdalssetri, gamla kaupfélaghúsinu þar sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands hefur nú aðstöðu.
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, og Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur safnsins tóku á móti ráðherra og leiddu um geymslur og möguleg sýningarrými í frystihúsinu. Með í för voru fulltrúar eigenda húsnæðisins og bílasýningarinnar í aðalsal hússins, þau Guðbjartur Guðmundsson og Helga Hrönn Melsteð og leiddu þau ráðherra um bílasýninguna. Náin samvinna verður höfð við húseigendur um væntanlegt sýningahald Náttúruminjasafnsins í húsinu.
Safnkostur Náttúruminjasafnsins á Breiðdalsvík samanstendur af hinu stórmerkilega og umfangsmikla steinasafni Björns og Baldurs Björgvinssona frá Höskuldsstaðaseli sem safnið eignaðist á s.l. ári, saman ber frétt hér. Í safnkostinum er að finna mörg sjaldgæf eintök sem hafa mikið fágætisgildi og enn önnur eru undurfagrir skrautsteinar með mikið fagurfræðilegt gildi. Þá tilheyra safnkostinum fimm fægðir graníthnullungar eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er m.a. höfundur Eggjanna í Gleðivík og Fjöruverksins við Sæbraut í Reykjavík. Sigurður hefur sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu höggverksins á Breiðdalsvík.
Björn Björgvinsson tók á móti ráðherra við heimili sitt og fræddi um söfnunarástríðuna og mikilvægi þess að standa vörð um náttúruarf af þessu tagi, að hann fari ekki á flakk, sundrist og glatist, eins og dæmi eru um, heldur haldist heima í héraði og sé aðgengilegur almenningi. Þá var Breiðdalssetur heimsótt og starfsemin kynnt af Hákoni Hanssyni fulltrúa stjórnar Breiðdalsseturs og Maríu Helgu Guðmundsdóttur jarðfræðingi og starfsmanni setursins.
Vel fór á með Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, starfsmönnum Náttúruminjasafnsins og heimamönnnum í heimsókninni. Það er mikill fengur að því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið og þar með ríkið að eignast safnkost af því tagi sem hér um ræðir, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu. Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost sumarið 2023. Þá eru hafnar samningaumleitanir við stjórn Breiðdalsseturs, Fjarðabyggð og Rannsóknasetur Háskóla Íslands um aðkomu Náttúruminjasafnsins að starfseminni í Breiðdalssetri.