Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík

Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík

Ráðherra heimsækir Náttúruminjasafn Íslands á Breiðdalsvík

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér hluta steinasafnsins í geymslu Náttúruminjasafnsins i gamla frystihúsinu.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Breiðdalsvík laugardaginn 9. júlí s.l. og kynnti sér safnkost Náttúruminjasafns Íslands og fyrirætlanir safnsins um sýningahald í gamla frystihúsinu sem og aðkomu safnsins að sýningahaldi í Breiðdalssetri, gamla kaupfélaghúsinu þar sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands hefur nú aðstöðu.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, og Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur safnsins tóku á móti ráðherra og leiddu um geymslur og möguleg sýningarrými í frystihúsinu. Með í för voru fulltrúar eigenda húsnæðisins og bílasýningarinnar í aðalsal hússins, þau Guðbjartur Guðmundsson og Helga Hrönn Melsteð og leiddu þau ráðherra um bílasýninguna. Náin samvinna verður höfð við húseigendur um væntanlegt sýningahald Náttúruminjasafnsins í húsinu.

Safnkostur Náttúruminjasafnsins á Breiðdalsvík samanstendur af hinu stórmerkilega og umfangsmikla steinasafni Björns og Baldurs Björgvinssona frá Höskuldsstaðaseli sem safnið eignaðist á s.l. ári, saman ber frétt hér. Í safnkostinum er að finna mörg sjaldgæf eintök sem hafa mikið fágætisgildi og enn önnur eru undurfagrir skrautsteinar með mikið fagurfræðilegt gildi. Þá tilheyra safnkostinum fimm fægðir graníthnullungar eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er m.a. höfundur Eggjanna í Gleðivík og Fjöruverksins við Sæbraut í Reykjavík. Sigurður hefur sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu höggverksins á Breiðdalsvík.

Björn Björgvinsson tók á móti ráðherra við heimili sitt og fræddi um söfnunarástríðuna og mikilvægi þess að standa vörð um náttúruarf af þessu tagi, að hann fari ekki á flakk, sundrist og glatist, eins og dæmi eru um, heldur haldist heima í héraði og sé aðgengilegur almenningi. Þá var Breiðdalssetur heimsótt og starfsemin kynnt af Hákoni Hanssyni fulltrúa stjórnar Breiðdalsseturs og Maríu Helgu Guðmundsdóttur jarðfræðingi og starfsmanni setursins.

Vel fór á með Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, starfsmönnum Náttúruminjasafnsins og heimamönnnum í heimsókninni. Það er mikill fengur að því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið og þar með ríkið að eignast safnkost af því tagi sem hér um ræðir, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu. Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost sumarið 2023. Þá eru hafnar samningaumleitanir við stjórn Breiðdalsseturs, Fjarðabyggð og Rannsóknasetur Háskóla Íslands um aðkomu Náttúruminjasafnsins að starfseminni í Breiðdalssetri.

Aðstæður kannaðar á efri hæð gamla frystihússins.
Á hlaðinu heima hjá Birni Björgvinssyni. Björn Björgvinsson, Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur og Lilja Alfreðsdóttir.
Breiðdalssetur heimsótt.
Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2022

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2022

Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2022

Sunnudaginn 29. maí var Dagur barnsins og hann var sannarlegur gleðidagur fyrir Náttúruminjasafnið þegar 4. úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fór fram. Náttúruminjasafn Íslands er í hópi styrkhafa þetta árið en safnið fékk veglegan styrk til að vinna að þverfaglegu verkefni sem ber heitið List og lífbreytileiki. Verkefnið verður unnið í samstarfi við BIODICE, samstarfsvettvang um líffræðilega fjölbreytni, fjölbreyttan hóp listafólks og börn og ungmenni víðsvegar um landið.

Við hlökkum til að hefjast handa!

Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Sjóðurinn styrkir að þessu sinni 34 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs tilkynnti um úthlutanir sjóðsins í ár. Á myndinni á má sjá auk þeirra, Oddnýju Harðardóttur, starfandi forseta Alþingis, styrkþega og Drengjakór Reykjavíkur sem flutti tónlistaratriði á athöfninni.

Fjölbreytni svifkrabba í ferskvatni á Íslandi

Fjölbreytni svifkrabba í ferskvatni á Íslandi

Fjölbreytni svifkrabba í ferskvatni á Íslandi

- Styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna -

 

Náttúruminjasafn Íslands fékk á dögunum úthlutaðan styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnið sem hlaut styrk heitir Fjölbreytni svifkrabba í ferskvatni á Íslandi og mun það verða unnið af Þóru Atladóttur en hún stundar meistaranám við Háskólann á Hólum í samstarfi við Náttúruminjasafnið. Verkefnið mun miða að því að búa til fræðsluefni fyrir almenning um svifkrabbadýr í ferskvatni á Íslandi. Umsjónarmaður verkefnisins er Ragnhildur Guðmundsdóttir.

Að þessu sinni bárust sjóðnum 413 umsóknir en 214 verkefni voru styrkt. Nánari upplýsingar um verkefnin sem hlutu styrk í ár má sjá á síðu Rannís

Halafló, Wim van Egmond
Árfætla, Wim van Egmond

Barnamenningarhátíð 2022

Barnamenningarhátíð 2022

Barnamenningarhátíð 2022

Náttúruminjasafn Íslands tók þátt í Barnamenningarhátíð í ár í samstarfi við LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) með verkefninu Hringrás vatnsins á jörðinni en kallað var eftir vatnsdropum – listaverkum tengdum vatni frá upprennandi listamönnum. Nemendur 20 grunn- og leikskóla víðsvegar um landið tóku þátt, sköpuðu listaverk og veltu fyrir sér hringrás vatnsins. Samtals bárust safninu tæplega 1000 vatnsdropar!

Listaverkin sameinuðust í einu stóru listaverki í anddyri sýningarinnar okkar, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni meðan Barnamenningarhátíð stóð yfir, 5.-10. apríl.

 

Hugleiðingar barnanna á Leikskólanum Hálsaskógi voru skrifaðar á dropana þeirra.

Droparnir frá Leikskólanum Fögrubrekku voru litríkir og skemmtilegir.

Droparnir sem börnin á leikskólanum Heiðarborg sköpuðu voru úr textíl og þau skreyttu þá með myndum sem tengjast vatnshringrásinni.

Þriðjudaginn 5. apríl var þátttakendum boðið á opnun sýningarinnar ásamt foreldrum og forráðamönnum, þar sem þau skoðuðu listaverkin og fundu dropana sína. Á opnuninni bauðst börnum að búa til enn fleiri dropa og hengja upp við hlið hinna sem fyrir voru.

Droparnir sem börnin bjuggu til voru fallegir og skemmtilegir. Sumir nemendur höfðu skrifað hugleiðingar um vatnið og óskir fyrir framtíð þess. Þeir voru ýmist flatir eða þrívíðir og efniviðurinn var fjölbreyttur. Flestir voru úr pappír, en við fengum einnig senda dropa úr textíl, leir og jafnvel endurnýttum efnivið.

 

Náttúruminjasafnið þakkar LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) fyrir skemmtilegt samstarf!

Náttúruminjasafnið kallar eftir listaverkum fyrir Barnamenningarhátíð 5.-10. apríl 2022

Náttúruminjasafnið kallar eftir listaverkum fyrir Barnamenningarhátíð 5.-10. apríl 2022

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Barnamenningarhátíð 5.-10. apríl 2022

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í Barnamenningarhátíð í samstarfi við Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN) og kallar eftir teikningum frá upprennandi listamönnum sem munu prýða anddyri sýningarinnar okkar, Vatnið í náttúru Íslands, í Perlunni í einu stóru listaverki.

Nokkrir skólar hafa þegar skráð sig til leiks, en skráningarfrestur til þátttöku er 15. febrúar.

Frekari upplýsingar um þátttöku má sjá í auglýsingunni hér fyrir neðan, einnig er hægt að hafa samband í gegnum netfangið kennsla@nmsi.is