Þjóðtrú, sagnir… og óværa
Víðast hvar í Evrópu er starinn talinn boða gleði og hamingju. Hér er því á annan veg farið, hann er víða illa þokkaður og stafar það af nábýli hans við manninn. Þegar starinn nam land á Innnesjum um 1960, gerði hann sér gjarnan hreiður í loftræstiopum og álíka stöðum. Það varð til þess að óværan í hreiðrinu, flóin, átti greiða leið inní híbýli manna. Þó að mestu hafi verið komið í veg fyrir þetta, loðir það enn við starann, að hann sé „grálúsugur“. Sníkjudýr það sem stundum leggst á folk, er hænsafló, Ceratophyllus gallinae, sem m.a. lifir á staranum. Flær og önnur óværa er á öllum fuglum og er staranum oft kennt um, þó flærnar séu komnar af þröstum, maríuerlum eða öðrum fuglum, sem lifa í nábýli við fólk. Dúnfló úr æðarhreiðrum plagar gjarnan dúntekjufólk. Best er að loka öllum opum, sem starinn kemst innum, þegar ungar eru farnir eða áður en hann verpur, því starinn er alfriðaður og ólöglegt að hrófla við hreiðri hans. Setja má upp varpkassa í tré, á hús fjarri gluggum eða á skúra og útihús, fáir fuglar eru jafn lifandi og skemmtilegir og starinn. Ef fólk fær flóabit, er um að gera að klóra sér ekki, það má setja krem á bitin og þau eru horfin eftir 3-4 daga. Menn hafa ekki mært starann í ljóðum og bundnu máli hér á landi, allavega ekki enn sem komið er. Svo við leitum til gömlu herraþjóðarinnar og ástkærrar, ilhýrrar dönskunnar eftir kvæði um staran.
Stæren
Hann kommer med Stæren, han dvæler med den
i Danmark – med Stæren han gaar.
Hvor tit forynger, naar Stæren synger,
dit Hjerte sig endnu en Vaar?
Úr kvæðinu Stæren eftir Johannes V. Jensen, útg. 1915.